Í tímaritinu Dvöl birtist, árið 1938, þessi frásögn Steinþórs Þórðarsonar (Fyrsta kaupstaðarferðin mín). Frásögnin segir frá því þegar fermingarbarnið er sent í sína fyrstu ferð til Hafnar árið 1905. Steinþór stígur yfir í heim hinna fullorðnu og ferðin markar í huga hans þáttaskil.
Gos í Öræfajökli
Nú þegar Öræfajökull hefur hrist sig í tvö ár er ekki úr vegi að kynna sér sögu jökulsins, en þá einkum eldgosasöguna. Það vakti athygli mína þegar ég las Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hversu staðhæfingasamir þeir eru um tvö atriði sem lúta að eldgosum í Öræfajökli. Þessi tvö atriði ef sönn reynast munu gjörbreyta þekkingu okkar og skilningi á eldstöðinn Öræfajökli og hugsanlega öðrum eldstöðvum honum tengdar.
Ferðabók Eggerts og Bjarna er skipt niður í 914 kafla, en í kafla 782 er fjallað um Öræfajökul, hér segir ,,Öræfajökull er eldjökull sem spúð hefur eldi og vatni. Hann skiptist í tvo hluta, sem báðir hafa gosið. Annar þeirra er Sandfellsjökull. Undir honum stendur prestsetrið og kirkjustaðurinn Sandfell. Austari hlutinn heitir Knappafellsjökull. Kallast hann svo af tveimur kringlóttum jökulþúfum austast á honum, sem líkjast helst kringlóttum hnöppum. Öræfajökull er einn af hæstu jöklum landsins og þeim öllum brattari, því að hann líkt og hangir fram yfir byggðina. Hann er hvítur og bjartur tilsýndar, en er annars eldfjall, sem oft hefir gosið með með miklum eld- og vatnagangi. Næst lýsa þeir tveimur síðustu gosum í jöklinum sem þeir telja þau kunnustu og jafnframt stærst. Þetta eru gosin 1362 og 1727.“