Skip to main content

Starfsskýrsla Þórbergsseturs 2008

maninnStarfsárið 2008 er annað heila starfsár Þórbergsseturs. Árið var viðburðaríkt og fjöldi gesta, íslenskra sem erlendra heimsóttu setrið og nutu þjónustu þar.

Áætlað er að gestakomur hafi verið allt að 20.000, um 15.000 manns komið í húsið og 5500 sóttu sýningar. Mikil aukning er í heimsóknum erlendra ferðamanna og vel má finna að Þórbergssetur er í raun séríslenskt og sérstaða þess mikil. Hæst ber að Þórbergssetur fékk þá miklu viðurkenningu að vera handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar SAF fyrir árið 2008.

  • Vinnuvika í Reykjavík í janúar þar sem undirbúin voru verkefni ársins. Unnið var við efnisöflun fyrir nýjar sýningar og samstarfsaðilar heimsóttir. Tekin ljósrit af handritum Þórbergs til sýnis á Þórbergssýningu, safnað saman og valið efni af upptökum af sögum Steinþórs á Hala í Árnasafni, safnað ljósmyndum úr Suðursveit af fjalllendi og ýmis fræðastörf undirbúin með efnisöflun.
  • Unnið var við skráningar á bókasafni, gjöfum og munum í eigu Þórbergsseturs
  • Þórbergssmiðja í Háskóla Íslands var haldin dagana 8. og 9 mars í tilefni af 120 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar. Þar var fjölbreytt dagskrá og fyrirlestrar. Bergljót Kristjánsdóttir stjórnarmaður Þórbergsseturs og hugvísindadeild Háskóla Íslands stóðu fyrir Þórbergssmiðju með aðkomu fjölmargra aðila. Þórbergssetur var með tvo fyrirlestra á dagskránni og tók þátt í undirbúningi hennar. Fyrirhugað er að gefa fyrirlestrana út í sérstöku riti á árinu 2009
  • Afmælisþing í tilefni af 120 ára afmæli Þórbergs var haldið í Þórbergssetri 12. mars í samvinnu við Háskólasetrið á Hornafirði. Þingið var nokkurs konar framhald af Þórbergssmiðju haldið á heimaslóð. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona las upp úr verkum Þórbergs og fluttir voru fræðilegir fyrirlestrar sem einnig verða gefnir út í útgáfu Háskólans
  • Fræðimenn dvöldu í íbúð á Hala við fræðastörf tvisvar árinu. Er það þær Soffía Auður Birgisdóttir og Þóra Ingólfsdóttir sem báðar hafa verið að vinna að verkefnum á bókmenntasviði, tengdum Þórbergi. Soffía Auður vinnur við að skrifa doktorsritgerð um verk Þórbergs og á hún að koma út í bók árið 2009.
  • Ferðalag um lendur Vatnajökulsþjóðgarð, dagskrá frá Kirkjubæjarklaustri var þrisvar sinnum á árinu í febrúar, apríl og lok nóvember. Um er að ræða einstaka myndasýningu af svæðinu norðan Vatnajökuls og lesið var úr bókmenntum tengdum myndefni, Kári Kristjánsson landvörður setti dagskrána saman og er eigandi þessa einstaka myndasafns.
  • Árleg bridgehátíð og hrossakjötsveisla í minningu Torfa Steinþórssonar á Hala var í mars. Þessi hátíð verður fastur viðburður árlega.
  • Kennaranemar frá Kennaraháskóla Íslands komu í heimsókn í sérstaka dagskrá í Þórbergssetri. Soffía Auður Birgisdóttir flutti fyrirlestur um Þórberg Þórðarson og farið var í gönguferð þar sem tilvitnanir í verk Þórbergs vörðuðu leiðina.
  • Ný sýning var sett upp og varpað á vegg. Sýningin var unnin af starfsmönnum Þórbergsseturs. Þar er um að ræða ferð bænda á Breiðabólsstaðarbæjum í máli og myndum í Veðurárdal árið 1985 til að leita eftir kindum sem ekki höfðu skilað sér af fjalli haustið áður. Sýningin er fyrsti hluti af verkefni sem vinna á að á næstu árum undir heitinu Leyndardómar Suðursveitar. Sýningin vakti mikla athygli jafnt innlendra áhugamanna um fjallaferðir sem og erlendra ferðamanna sem áttu þess kost að sjá þarna einstakar myndir af landslagi í nálægð jökla og fræðast um lífsbaráttu fólksins í landinu
  • Þórbergssetur var í forystu verkefnahóps um Söguslóð á Suðausturlandi og vann við undirbúning sýninga um Papa í Þórbergssetri og í Löngubúð á Djúpavogi. Opna á söguslóðina formlega í júní 2009. ( sjá sérstök greinagerð)
  • Unnið var að undirbúningi sýningar um fornleifafund undir Vindási á Steinadal í Papbýli hinu forna, sem getið er um á fyrstu síðum í Landnámabók. Fyrirhugað er að teikna upp tilgátuþorp byggt á sjáanlegum rústum á svæðinu. Farið var með fræðimenn á staðinn fyrst með teiknara Ingólf Björgvinsson sem tekur að sér að teikna upp tilgátuþorpið, einnig með hópi fornleifafræðinga undir forystu Bjarna Einarssonar. Á haustdögum var rústasvæðið allt mælt upp og grunnmynd teiknuð í réttum hlutföllum
  • Þórbergssetur var í samstarfi við Skriðuklaustur um verkefnið Sagnalist. Þar var óskað eftir frásögnum frá eldra fólki um minningar þess tengdar fermingu og fermingardegi. Starfsmenn Þórbergssetur heimsóttu félög eldri borgara á Reyðarfirði, Eskifirði og Höfn í Hornafirði með sérstakri dagskrá þar sem kynnt var starfsemi Þórbergsseturs og verkefnið. Vinna á áfram með efni sem hefur safnast, setja upp sýningar og fl.
  • Þórbergssetur stóð fyrir tónleikum í Kálfafellsstaðarkirkju og menningardagskrá á Ólafsmessu 29. júlí í samstarfi við sóknarprest og sóknarnefnd. Rifjuð var upp gömul saga um Völvuleiði, það heimsótt og saga staðarins og kirkjunnar gerð sýnilegri, en kirkjan er helguð Ólafi helga Noregskonungi. Kaffiveitingar voru í Þórbergssetri í lok dagskrá. Björn Bjarnason dóms og kirkjumálaráðherra var einn af gestum hátíðarinnar og Rut Ingólfsdóttir og Richard Simm spiluðu á tónleikunum í Kálfafellsstaðarkirkju
  • Sérstök dagskrá var í Þórbergssetri fyrir þrjá hópa, tvo hópa eldri borgara og einn vinnustaðahóp, sem sóttu setrið heim í júnímánuði. Þar var um að ræða fyrirlestra, gönguferðir og ýmis konar fræðslu og skemmtun sem við átti hverju sinni.
  • Gönguhópur sem dvaldi í Suðursveit í júlí fékk sérstakar móttökur í Þórbergssetri með stuttri fræðslu um sögu og umhverfi
  • Gönguhópur fékk sérstaka leiðsögn í einn dag um miðjan júlí í gönguferð í Hvannadal um Nautastíg. Leiðsögumaður frá Þórbergssetri var með leiðsögn fyrir gönguhóp á vegum Ferðamálafélags A-Skaft í gönguferð að Klukkugili í september.
  • Nokkrir ( 10 - 11 ) hópar eldri borgara og vinnustaðahópar komu í heimsókn í sumar og haust og fengu sérstakar móttökur og kynningar á setrinu og nutu veitinga.
  • Grunnskólanemendur frá Hornafirði komu í heimsókn í Þórbergssetur í maí í sérstaka dagskrá, ratleik og gönguferð.
  • Nemendur FAS komu í námsferð í nóvember og fengu kynningu á setrinu og sérstaka leiðsögn á sýningu
  • Sérstök leiðsögn var um sýningar í Þórbergssetri í sumar og starfsfólk lagði sig fram við að veita upplýsingar um starfsemi Þórbergsseturs og Þórberg og dreifa upplýsingum um sýningarnar. Einnig var sveitin, umhverfið og mannlífið umfjöllunarefni í viðræðum við gesti. Sauðfé í færikvíum utan setursins vakti mikla athygli yngstu gestanna, en einnig erlendra ferðamanna.
  • Málþing um Einar Braga rithöfund var undirbúið í október í samvinnu við Háskólasetrið á Hornafirði. Þinginu var frestaði í samráði við aðstandendur Einasr Braga og vegna óvissu- og umbrotatíma í þjóðfélaginu. Þingið verður haldið í apríl 2009.
  • Aðstandendur Þórbergsseturs fóru í kynnisferðir og námsferðir til útlanda á haustdögum. Ferðast var um Danmörku, suður Jótlandsheiðar og einnig til Glasgow í Skotlandi. Fjölmörg söfn og menningarstofnanir voru heimsóttar og safnað þekkingu og hugmyndum að frekari þróun á starfsemi Þórbergsseturs. Einnig var farið í vikunámsferð með Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu til eyjarinnar Manar í Írlandshafi þar sem í gangi var samfelld dagskrá tengd uppbyggingu sögutengdrar ferðaþjónustu og fjölmargir áhugavekjandi staðir skoðaðir.
  • Í nóvember var sérstök móttaka með stuttri dagskrá í Þórbergssetri fyrir 90 manna hóp frá Matís og 80 manna hóp Sinfoníuhljómsveitar Íslands.
  • Í nóvember var sérstök móttaka með dagskrá fyrir lítinn hóp sem dvaldi á Hala yfir eina helgi og ferðaðist um Suðursveit
  • Í nóvember sóttu aðstandendur Þórbergsseturs afmælisþing SAF þar sem Þórbergssetri voru veitt nýsköpunarverðlaun SAF fyrir árið 2008
  • Fyrsta sunnudag í aðventu var dagskrá í Þórbergssetri undir nafninu Þjóðtrú og alþýðumenning. Kynntar voru nýútkomnar bækur og skaftfellsk alþýðuskáld voru kynnt.

Þórbergssetur er opið allt árið. Frá því í byrjun mars og til loka september var Þórbergssetur opið flesta daga frá kl 9 – 21, einnig um helgar og á hátíðum. Undantekning á því var ef forstöðumaður þurfti að sinna verkefnum og fundum á vegum Þórbergsseturs annars staðar en á heimaslóð. Yfir háveturinn var Þórbergssetur opið alla daga sem forstöðumaður var að vinna í Þórbergssetri. Tekið var á móti öllum heimsóknum sem voru bókaðar með fyrirvara yfir vetrarmánuðina.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 145
Gestir þennan mánuð: ... 6226
Gestir á þessu ári: ... 24249