Skip to main content

Lifandi menningarsetur með fjölbreytta starfsemi

steinabaliMarkmið með stofnun Þórbergsseturs eru skilgreind í skipulagsskrá frá árinu 2003. Þau eru eftirfarandi:

Tilgangur Þórbergsseturs er meðal annars að:

 1. Efla rannsóknir og umfjöllun um ævi, störf og ritverk Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala í Suðursveit.
 2. Efla fræðastörf er tengjast söfnun, varðveislu og skráningu menningarminja í Suðursveit og síðar Austur Skaftafellssýslu.
 3. Miðla þekkingu á fjölbreyttan hátt og standa fyrir fræðslu til ferðamanna og almennings um Þórberg Þórðarson, sögu og mannlíf í Austur Skaftafellssýslu

Í samningi við Sveitarfélagið Hornafjörð fékk Þórbergssetur einnig skilgreint ákveðið hlutverk innan sveitarfélagsins með hliðsjón af samningi Sveitarfélags Hornafjarðar innan Menningarráðs Austurlands þar sem sérsvið Hornafjarðar eru bókmenntir.

Hlutverk Þórbergsseturs er samkvæmt þeim samningi:

 1. Að sinna og hafa frumkvæði að þróunarstarfi, fræðslu og þekkingaruppbyggingu á sviði bókmennta sem nýtast skal Austurlandi öllu.
 2. Annast fræðslu af ýmsum toga og standa fyrir fyrirlestrum, námskeiðum og ráðstefnum um Þórberg og bókmenntir.
 3. Leitast við að efla samstarf við leik-, grunn- og framhaldsskóla í þróunarstarfinu.
 4. Efla samstarf milli annarra sambærilegra setra á landsvísu s.s Gljúfrasteins og Gunnarsstofnunar.
 5. Að gera veg Þórbergs sem mestan í íslenskum bókmenntum og nýta það í kynningar fyrir svæðið í heild, meðal námsmanna, fræðimanna og ferðamanna.
 6. Undirbúa sérstaka Þórbergsleika á unglingalandsmóti UMFÍ 2007 í samvinnu við viðkomandi aðila og í tengslum við aðrar hátíðir í Sveitarfélaginu.

Stjórn Þórbergssetur hefur út frá þessum markmiðum skilgreint stöðu og hlutverk Þórbergsseturs til næstu ára og hafist handa við uppbyggingu öflugs og lifandi menningarstarfs. Þar er gengið út frá eftirfarandi forsendum:

Þórbergssetur er rithöfunda- og menningarsetur á Hala í Suðursveit, reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund.

Með starfsemi þess er lögð áhersla á eftirfarandi:

 • Efla rannsóknir og umfjöllun um ævi Þórbergs Þórðarsonar, störf og ritverk og stuðla að útgáfu og þýðingum á verkum hans á erlend tungumál.
 • Leggja áherslu á að kynna gestum erlendum sem innlendum merkasta menningararf íslensku þjóðarinnar, bókmenntir og sagnalist .
 • Draga fram sérstöðu í nánasta umhverfi og stuðla að varðveislu og söfnun gagna en um leið gera sögu Suðursveitar sýnilega svo og gamlar búsetuminjar, örnefni og þjóðsögur .
 • Leggja áherslu á að vinna með staðbundið efni er tengist bændasamfélaginu, alþýðumenningu og horfnum menningarheimi en einnig nýsköpun og eflingu lista og menningarlífs til framtíðar.
 • Stuðla að atvinnuþróun á Suðausturlandi m.a. með því að beita sér fyrir umfjöllun um menningar- fræðslu- og sögutengda ferðaþjónustu og beita sér fyrir nýjungum á því sviði á öllu Íslandi
 • Taka þátt í samstarfi og menningartengslum við aðrar menningar- og fræðastofnanir á Íslandi en einnig á alþjóðavettvangi eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni.
 • Hvetja til fjölbreyttrar fræðastarfsemi er lýtur að       hvers konar rannsóknum og fræðslu um menningu, umhverfi, sögu, og bókmenntir.

Þórbergssetur hyggst ná þessum markmiðum sínum með fjölbreyttu starfi er miðar að móttöku ferðamanna, skólahópa og fræðimanna, með viðburðum á sviði lista og menningar, með málþingum og fræðslufundum um ýmis ólík málefni, með sýningum og útgáfu á sögutengdu efni til sýnis í Þórbergssetri, með gönguferðum með leiðsögn um nánasta umhverfi, með hvatningu og aðkomu að rannsóknartengdum verkefni á sviði sögu, náttúrufræði og bókmennta, með því að stuðla að þýðingum og útgáfu á erlendum tungumálum og rannsóknarverkefnum í tengslum við verk Þórbergs Þórðarsonar sem tengst geta hinum fjölmörgu áhugasviðum hans.

Það felst mikil auðlegð í menningu sveitasamfélaga á Íslandi. Á tímum hraðfara breytinga á atvinnuháttum og samfélagsgerð þarf að halda vöku sinni og gæta þess að glata ekki tengingum við sögu og líf þess fólks er lifði af landinu í 1100 ár. Sérstaða Þórbergsseturs byggir ekki hvað síst á því að flytja fróðleik um umhverfi og mannlíf frá liðinni tíð til komandi kynslóða með aðstoð nútímatækni svo sem tölvuskráningar, myndasýninga, ættfræðigrunns og heimasíðu.

Þórbergssetur hefur fengið veglegt hlutverk innan menningarsamnings Menningarráðs Austurlands þar sem því ber samkvæmt sérstökum samningi við Sveitarfélagið Hornafjörð að sinna sérverkefnum er tengjast bókmenntum fyrir allt Austurland auk fleiri verkefna( sjá hér að ofan) Einnig hafa Þórbergssetur og Gljúfrasteinn gert með sér sérstakan samstarfssamning sem snýr að samstarfi og sameiginlegum verkefnum á menningarsviðinu svo og sameiginlegri kynningu og markaðssetningu á rithöfundasetrunum. Þórbergssetur er í nánu samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Háskólasetrið á Hornafirði og Þórbergssetur hyggur á samstarf á bókmenntasviði við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri. Einnig hefur Þórbergssetur komið á tengingum við Kirkjubæjarstofu. Þórbergssetur er með formlegan samstarfssamning við fjölmargar mennta- og menningarstofnanir sem komu að stofnun Þórbergsseturs og hafa lagt setrinu lið í gagnaöflun og uppbyggingu .

Þórbergssetur verður opið allt árið. Miðað er við að tveir fastir starfsmenn verðir ráðnir við stofnunina til að sinna yfirstjórn og þeim fjölmörgu verkefnum sem tengjast hlutverki setursins. Yfir sumartímann verða ráðnir fleiri starfsmenn til að sinna móttöku ferðamanna. Veitingaaðstaðan í Þórbergssetri er leigð út til rekstraraðila og fær Þórbergssetur 10% af brúttótekjum veitingasölu sem leigugjald.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549