Skip to main content

Um Þórberg Þórðarson

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar:

Þórbergur Þórðarson er samkvæmt kirkjubókum fæddur 12. mars 1888, en sagan segir að foreldra hans hafi hins vegar minnt að fæðingarár hans væri 1889 og sjálfur hélt hann sig við það ártal. Það má kallast kaldhæðni örlaganna að fæðingarárið skuli ekki vera á hreinu í tilviki Þórbergs því eins og menn vita var hann nákvæmismaður á ýmislegt, ekki síst tölulegar staðreyndir og mælingar. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er þó rétta fæðingarárið það sem skráð er í kirkjubækur, 1888. (Sjá greinar eftir Þorsteinn Gylfason og Einar Braga í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti, 1989.)


Þórbergur er fæddur á Hala í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu sem í þann tíma var eitt afskekktasta byggðarlag á Íslandi. Þarna voru þrír bæir, kallaðir Breiðabólstaðarbæirnir, en þeir hétu Breiðabólstaður, Gerði og Hali. Ábúendur á bæjunum þremur tilheyrðu flestir sömu fjölskyldunni, enda var samgangur og hjálpsemi mikil á milli bæja. Og þarna var mikið af börnum sem léku sér saman, eins og Þórbergur hefur lýst svo eftirminnilega í Rökkuróperunni.

Hann lýsir bernskuslóðunum einnig á eftirminnilegan hátt í ritgerðinni ,,Lifandi kristindómur og ég". Þar segir meðal annars:

En Skaftafellssýsla hafði öldum saman verið mjög einangruð frá hugmyndaviðskiptum umheimsins. Að vestan er hún skorin frá Suðurlands-láglendinu af mörgum höfuðsöndum. Yfir sandana velta kolmórauð vatnsföll, er tálma mjög umferðum. Að austan er sýslan skilin frá meginlandinu af hárri og langri heiði. Á sjávarsíðuna eru brimsandar og hafnleysur. Fram undir síðustu aldamót kom ekki nein önnur fleyta til Skaftafellssýslu en kaupskip frá Danmörku einu sinni til tvisvar á ári. Að baki byggðarinnar er risavaxinn fjallgarður og víðar jökulbreiður.
Skaftfellingar lifðu því og hrærðust í gömlum hugmyndaheimi alla leið fram undir síðustu aldamót. En þá tóku ýmsar nýjar hugmyndir að seytla út yfir sýsluna. Ekki höfðu þær þó fest verulegar rætur í Suðursveit í minni tíð austur þar. Reynsluvísindi síðustu aldar höfðu þá ekki kennt sveitungum mínum þessar gullvægu spurningar: hvernig? hvers vegna? Þeir höfðu þá ekki komið auga á þau einföldu sannindi, að eitthvað hlyti að vera bogið við trúarhugmyndir, sem brutu í beinan bág við þekkingu allra alda. (,,Lifandi kristindómur og ég." Bréf til Láru,1987, bls. 213-214.)

Foreldrar Þórbergs voru Þórður Steinsson og Anna Benediktsdóttir. Þau bjuggu á Hala ásamt foreldrum Önnu þeim Benedikt Þorleifssyni (frá Hólum í Hornafirði) og Guðnýju Einarsdóttur (frá Brunnum í Suðursveit) og þar bjó líka Auðbjörg systir Önnu. Auk Þórbergs áttu þau Þórður og Anna synina Steinþór (f. 1892) og Benedikt (f. 1896) en eina dóttur, Guðnýju (f. 1890) höfðu þau misst fimm mánaða gamla. Þórbergur segir í Steinarnir tala að fyrsta minning hans sé af því þegar hann sat í baðstofunni á Hala og horfði á ofurlitla líkkistu systur sinnar.
Þrátt fyrir þá landfræðilegu og hugmyndafræðilegu einangrun sem Þórbergur talar um í tilvitnuninni hér að ofan þá segir hann að foreldrar sínir hafi verið skynsamt fólk og vel gefið.

En heimskt var fólk þetta ekki. Foreldrar mínir voru til dæmis mjög vel skynsamir. Faðir minn var einhver fróðleiksfúsasti maður, er ég hefi þekkt. Á unga aldri hafði hann stofnað dálítið bókasafn þar í sveit með nokkrum nágrönnum sínum. Og sjálfur átti hann þar að auki töluvert að góðum bókum. Hann var sílesandi, þegar honum slapp verk úr hendi, og lagði hann mesta rækt við fornsögurnar. Hann var og hagur á tré. Einkum smíðaði hann skjólur og manntöfl, enda tefldi hann töluvert á sínum yngri árum. Hann var sambland af þröngsýnum íhaldsmanni og vanstilltum byltingarsegg, annars vegar gæddur rómantískum tilfinningum, hins vegar áskapað efagjarnt íhugunareðli. (,,Lifandi kristindómur og ég." Bréf til Láru, 1987, bls. 214.)

Og um móður sína segir Þórbergur:

Móðir mín var prýðilega greind kona. Hún las frábærlega vel og hneigðist meira að nútíðarbókmenntum en faðir minn. Hún var einkar frjálslynd í skoðunum, víðsýn í hugsunarhætti, hafði mjúka skapsmuni, var mjög umburðarlynd, kurteis í tali og óvenjulega sýnt um að koma fyrir sig orði. Hún las mikið lækningabók Jónasens og var mjög nærfærin í læknisdómum. Hún bar og ágætt skyn á garðrækt og átti nokkra ritlinga um þau efni. Hún var snillingur í kvenlegum hannyrðum. Í æsku hafði hún komizt töluvert niður í dönsku. En í þann tíð var það álíka fátíð íþrótt í Suðursveit eins og ef frúrnar í höfuðstaðnum settust við að læra gríska tungu. (,,Lifandi kristindómur og ég." Bréf til Láru, 1987, bls. 214.)

Þórbergur hefur lýst æskuárum sínum í Suðursveitarbókunum svonefndu, en það eru bækurnar Steinarnir tala (1956), Um lönd og lýði (1857), Rökkuróperan (1958) og svokölluð Fjórða bók (1974) sem hann lauk aldrei við. Auk þess hefur Þórbergur lýst æsku sinni í ritgerðinni ,,Lifandi kristindómur og ég" sem hann samdi og flutti haustið 1926 sem svar við hörðum dómi Sigurbjarnar Ásvalds Gíslasonar um Bréf til Láru, þar sem Sigurbjörn réðst gegn þeirri mynd af kristni og kristinni kirkju sem honum fannst þar koma fram. Ritgerð Þórbergs er prentuð með Bréfi til Láru í útgáfu Máls og menningar frá 1987, ásamt fleiri ritsmíðum hans sem allar eru skrifaðar sem svar við gagnrýni á Bréf til Láru.
Þá er til ein merk heimild til viðbótar um lífið á í Suðursveit á æskuárum Þórbergs en það er bókin Nú nú. Bókin sem aldrei var skrifuð sem hefur að geyma minningar Steinþórs Þórðarsonar bróður Þórbergs. Steinþór hafði ekki síðri frásagnargáfu en Þórbergur enda er bókin skrifuð orðrétt upp eftir segulböndum sem höfðu að geyma frásagnir Steinþórs sem útvarpað var veturinn 1969-70 og segir sagan að hann hafi ætíð talað blaðlaust. Steinþór segir m.a. þetta um bróður sinn: ,,... þó að Þórbergur hafi ekki farið með mikil fararefni úr Suðursveit, þá fór hann samt með það, sem hann hefur mulið úr og mun lengst mylja úr, og það er sá andlegi arfur, sem hann fór með frá liðnum feðrum og mæðrum sínum." (SÞ, Nú nú..., 1970, bls. 137.)
Þórbergur lýsir því í Steinarnir tala að hann hafi verið afar heilsulaus sem barn (sjá t.d. bls. 29-32). Af frásögn hans má ef til vill álykta að hann hafi fæðst með gat á hjartahólfi sem hafi síðan gróið þegar hann varð eldri. Hvað sem því líður þá leiddi þessi krankleiki Þórbergs til þess að hann þótti lítt liðtækur til sveitaverka og samband hans við föður sinn var af þessum sökum stundum heldur brösótt í æsku. Það varð snemma ljóst að hugur Þórbergs sneri ekki að sveitaverkum og að hann myndi ekki taka við búinu af föður sínum. Það kom í hlut næstelsta bróðurins, Steinþórs. Það var því ekki annað fyrir Þórberg að gera en að hleypa heimdraganum og það gerði hann á útmánuðum 1906, 18 ára gamall, en þá hélt hann til Reykjavíkur. Þetta var í fyrsta skipti sem Þórbergur kom vestur fyrir Skeiðarársand og líklega hefur hann kviðið nokkuð fyrir burtförinni því sagan segir að hann hafi drukkið sig fullan í sjóreknu koníaki kvöldið áður en hann fór að heiman. En árið 1906 var einmitt strandár, eins og það kallaðist í Suðursveit, og mikið hafði borist á land af eðalkoníaki. (Sjá Steinþór Þórðarson, Nú Nú..., 1970, bls. 28.)
Á þessum árum voru lög um vistarbönd hjúa enn í gildi og Þórbergur gerði vistarsamning við mann að nafni Runólfur Guðmundsson sem bjó á Vitastíg 9. Í vistarsamningum fólst að Runólfur sá Þórbergi fyrir fæði, húsnæði og vasapeningum en hafði í staðinn rétt til að ráðstafa honum í þá vinnu sem honum sýndist og halda eftir kaupinu hans. Runólfur réð Þórberg á skútuna Seagull, 86 tonna skip, tvísiglt. Á þeirri skútu var hann tvær vertíðir en síðan í tvö ár á Kútter Hafsteini. Þórbergur var lengst af kokkur á sínum sjómennskuferli og hefur hann lýst þeirri þrælavist á skemmtilegan hátt í upphafi öðrum kafla Bréfs til Láru, í upphafi Ofvitans og víðar og síðast en ekki síst í samtalsbók þeirra Matthíasar Johannessen Í kompaníi við allífið. (Sjá t.d. bls. 7 í Ofvitanum.)
Haustið 1909 settist Þórbergur síðan í Kennaraskólann og segir af veru hans þar í Ofvitanum. Frásögnin af því hversu háar hugmyndir Þórbergur gerði sér um menntastofnanir landsins og því síðan hversu þær hinar sömu stofnanir brugðust í öllu væntingum hans eru ógleymanlegar og líklega meðal hörðustu gagnrýni sem skrifuð hefur verið á íslenskt skólakerfi fyrr og síðar.
Þórbergur lauk þessum fyrsta vetri í Kennaraskólanum en skráði sig síðan í gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík og stundaði þar nám utan skóla. Hann setti stefnuna á Heimspekideild hins nýstofnaða Háskóla Íslands (stofnaður 1911) og ætlaði sér því að taka gagnfræðapróf og síðan stúdentspróf. Ekkert varð þó úr þessum áformum hans og kom þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi má nefna óbeit hans á hefðbundnu skólanámi og í öðru lagi fátækt. Hann hafði hreinlega ekki efni á að kaupa sér kennslubækur og ritföng, hvað þá tilsögn. Í stað hins hefðbundna náms tók hann upp sjálfsnám sem hann stundaði af krafti á Landsbókasafninu sem þá var nýrisið. Vorið 1913 reyndi hann við gagnfræðaprófið en þar gekk allt á afturfótunum og hann féll á prófinu (sjá m.a. Helgi M. Sigurðsson, Frumleg hreinskilni. Þórbergur Þórðarson og mannlífið á mölinni í upphafi aldar,1992). Hann gaf þá áform um gagnfræða- og stúdentspróf upp á bátinn og fór um haustið beina leið í heimspekideild Háskólans. Þetta var hægt, þ.e.a.s. allir höfðu leyfi til þess að hlýða á fyrirlestra í háskólanum, en til þess að fá að ljúka þaðan prófum þurfti hins vegar fyrrnefndar prófgráður, eins og síðar átti eftir að koma Þórbergi í koll.
Þetta tímabil í lífi Þórbergs, þ.e. árin1909-1913, er líklega það sem flestir kannast við af lýsingum hans í Íslenzkum aðli og Ofvitanum. Síðasti kafli Ofvitans nefnist ,,Rigningarsumarið mikla" og hefst hann þar sem ,,hinum þungu prófraunum [hans] er lokið" (333) og hann fær loforð um vinnu við húsamálun hjá Ástu málara þá um sumarið. Þá bregður svo við að það tekur að rigna og það rignir dögum saman og á meðan rignir er ekki hægt að mála utanhúss, en til þess var hann ráðinn. Þórbergur er févana, stundum getur hann kríað sér út pening fyrir einu mjólkurglasi og snúð, aðra daga sveltur hann heilu hungri. Þórbergur lýsir því eins og honum er einum lagið hvernig máttur hans og geðheilsa fara þverrandi eftir því sem dagarnir líða og að lokum er svo komið að hann sér enga ástæðu til þess að fara með fötum og í þrjá daga mókir hann matarlaus í rúminu. Þá gerist það atvik sem hann segist ,,ekki geta skilið enn þann dag í dag", eins og segir í bókinni:

Þá eru barin nokkur létt og hæversk, en þó einarðleg högg á hurðina. Ég kippist við. Þetta var óþægilegt. Það var eins og rekinn væri í mig hnífur gegnum hina löngu, djúpu þögn.
Kom inn! segi ég samt og færi herðarnar upp á verlausan og skítugan koddagarminn.
Í því opnast hurðin og í dyrunum stendur allt í einu ungur maður, hár vexti, grannholda með skollitt hár mikið, dökkleitt alskegg, dökkleitar augabrúnir fagurlega hvelfdar, dökkgrá augu, snarleg og góðleg, fullt og höfðinglegt enni, nettar og aristokratiskar hendur. Svipurinn var hreinn, göfugmannlegur og ákveðinn, kannski ívið raunalegur, með keim af fyrirlitningu á því, sem ekki væri vert að hafa í hávegum. Þetta andlit var svo ólíkt öllum öðrum ávöxtum jarðarinnar, sem ég þá hafði séð, að mér flaug ósjálfrátt í hug málverk af Jesú Kristi. (Ofvitinn, bls. 347.)

Hér er að sjálfsögðu kominn Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi sem hefur Þórberg með sér heim, gefur honum að borða og ráða þau mæðgin, Erlendur og Una, hann í vinnu við að mála húsið sitt, að utan og innan, gegn fæði á meðan og þrjá mánuði eftir að málingarvinnunni lýkur. Reyndar fór það svo að hann varð þarna kostgangari næstu sex árin. Þetta atvik bjargaði lífi Þórbergs, um það er hann ekki sjálfur í neinum vafa og hann segir að auki:

En auk þess veit ég ekki betur en ég eigi það Unuhúsi að þakka, hvaða stefnu þessi sundurknosaði andi tók í lífinu, með öðrum orðum: hvað hann varð, hvað hann er og hvað hann verður. (Ofvitinn, bls. 354.)

Þegar Þórbergur hóf nám við heimspekideild haustið 1913 var fjöldi nemanda þar afar lítill enda hafði deildin takmörkuð fjárráð og kennslan þar bæði stopul og af skornum skammti. Markmið deildarinnar var að kenna bókmenntir, málfræði, sögu, heimspeki og erlend tungumál en deildin var í raun ófær um að útskrifa nokkurn mann með meistaragráðu lengi vel, enda gerði hún það ekki fyrr en árið 1922. Meðan Þórbergur stundaði þar nám voru skráðir nemendur oft ekki nema tveir til þrír eða jafnvel enginn, en hins vegar var talsvert um að fróðleiksfúsir leikmenn sæktu fyrirlestra (sjá Helgi M. Sigurðsson, 1992, bls. 37).
Þórbergur er þegar þarna er komið farinn að gera sér vonir um að geta í framtíðinni stundað ritstörf samhliða kennslu sér til viðurværis. Hann stundar nám við Háskólann á árunum 1913-1919 og vakti athygli kennara fyrir áhuga sinn og elju, en það fór engu að síður svo að lokum að hann fékk ekki að taka lokapróf. Hann hefði þá orðið fyrsti nemandi til að brautskrást úr deildinni. (Sjá Helgi M. Sigurðsson, 1992, bls. 41.)
Á námsárum sínum, eða allt frá 1909 þegar hann slítur vistabandinu hjá Runólfi Guðmundssyni, er Þórbergur upp á sjálfan sig kominn með að sjá sér farborða og þetta eru ár mikillar fátæktar, eins og hann hefur sjálfur best lýst í Ofvitanum og einnig má lesa um í dagbókum hans og ýmsum óbirtum handritum. Í Bréfi til Láru lýsir hann þessu reyndar á hnitmiðaðan hátt þegar hann segir: ,,Ég kom öreigi á skútu og fór þaðan beiningamaður." Eftir skútuvistina leigði Þórbergur sér herbergi í Bergshúsi að Skólavörðustíg 10 og þar bjó hann næstu fjögur árin þar til honum var sagt upp vegna vandræða hans með að standa skil á leigunni. Eftir það bjó hann víða, stutt á hverjum stað. Fyrst bjó hann um stund í húsi Þorsteins Erlingssonar skálds, en hann kynntist skáldinu ekkert, reyndi að forðast að hitta það svo hann yrði ekki rukkaður um leiguna. Þarna bjó hann þegar Erlendur kom og bjargaði honum frá hungurdauðanum.
Um haustið 1913 fékk hann leigða ofurlitla herbergiskompu að Norðurstíg 7. Meðfram skólavistinni stundaði hann stopul störf meðal annars í Ísafoldarprentsmiðju, en erfitt var að fá vinnu á þessum tíma vegna almenns atvinnuleysis. Haustið 1914 hrakar heilsu hans mjög og þá bregður hann á það ráð að byrja að stunda Müllers-æfingar sem voru sambland af léttum líkamsæfingum og köldum sjóböðum. Margir urðu vitni að því þegar Þórbergur stundaði þessar æfingar nakinn úti í Örfirisey eða suður í Skerjafirði. Heilsa hans skánandi nokkuð af þessu en verulega bót fannst honum hann ekki fá fyrr en hann byrjaði einnig að stunda yoga fjórum árum síðar. Þennan vetur 1914-15 fékk Þórbergur til umráða stærra herbergi á Norðurstígnum, en vegna heimstyrjaldarinnar fyrri var verð á kolum geysihátt og þurfti hann oftast að hírast skjálfandi í ísköldu herberginu. Þórbergur missti síðan þetta herbergi í ársbyrjun 1916 vegna vangoldinnar leigu, þá bjó hann um stund á Laugaveginum og síðan flutti hann sig á Barónstíg vorið 1916.
Á háskólaárunum fékkst Þórbergur nokkuð við að yrkja. Hann hafði mikinn áhuga á ljóðlist og kunni hundruð kvæða utanbókar að sögn á þessum tíma. Meðal þeirra sem hann mat mest í hópi skálda voru þeir Jónas Hallgrímsson og Grímur Thomsen. En af samtíðarskáldum dýrkaði hann Einar Benediktsson, þar til árið 1914 að algjör sinnaskipti urðu hjá honum í garð Einars. Yrkingar Þórbergs voru þó sannarlega ekki í hefðbundnum anda, heldur var yfirleitt um að ræða skopstælingar á ríkjandi kveðskaparhefð sem honum þótti lítið til koma, vera klisjukennd og væmin. Metnaður Þórbergs hefur líklega ekki staðið til þess að gerast ljóðskáld. Engu að síður eru fyrstu bækur hans ljóðabækur: Hálfir skósólar komu út 1915, Spaks manns spjarir 1917 (báðar undir dulnefninu Styrr Stofuglamm) og Hvítir hrafnar komu út 1922. Þar var um að ræða endurútgáfu á fyrri bókunum auk nokkurra nýrra ljóða. Í drögum að sjálfsævisögu sem Þórbergur skrifaði seint á fjórða áratugnum og til er í handriti á handritadeild Landbókasafns-Háskólabókasafns lýsir Þórbergur í einum kafla tilurð þessara fyrstu bóka sinna og hefur kaflinn verið birtur í Tímariti Máls og menningar (2/1991 bls. 27-29).
Helgi M. Sigurðsson, sem hefur líklega manna mest rannsakað handrit Þórbergs á handritadeildinni (þau taka yfir sex hillumetra og er mjög margt af því efni óbirt), segir í bók sinni Frumleg hreinskilni eftirfarandi:

Segja má að frá 1910 til 1920 hafi ritfærni hans færst úr algerum viðvaningsbrag, þar sem hann var rétt sendibréfsfær, yfir í jafngildi þess besta sem kom frá öðrum íslenskum pennum. En það gerðist ekki áreynslulaust, heldur með látlausum skrifum. Stórum hluta hvers sólarhrings varði hann við skrifborðið, ekki síst fyrri hluta nætur. Honum duldist heldur ekki árangurinn og kom mörgum kunningjum sínum fyrir sjónir sem mjög sannfærður maður um eigið ágæti. Samt sem áður flýtti hann sér hægt við að koma greinum á prent. Sú fyrsta birtist ekki fyrr en árið 1919, þegar hann var orðinn þrítugur. Til þess tíma virðist honum ekki hafa fundist knýjandi þörf á því að almenningur læsi þær. (Helgi M. Sigurðsson, 1992, bls. 53)

Fyrsta greinin sem Helgi nefnir hér kallaðist ,,Ljós úr austri" og birtist í tímaritinu Eimreiðinni 1919. Áður höfðu þí birst svokallaðir ,,Palladómar" eftir Þórberg í Skinfaxa tímariti Ungmennafélags Reykjavíkur sem hann var félagi í um tíma. Einnig má nefna að Þórbergur hélt lengst af dagbækur og var ötull bréfritari þannig að allt hefur þetta smám saman mótað þann snjalla penna sem mönnum þótti sem að stykki fullskapaður fram í Bréfi til Láru árið 1924.
Eins og menn þekkja af Íslenzkum aðli og Ofvitanum þá varð haustið 1911 á vegi Þórbergs stúlka sem hann féll fyrir, kallaði ,,elskuna sína" og setti í guðatölu þó að hann aðhæfist fátt til að ná ástum hennar. Fullvíst þykir að hér sé um að ræða stúlku að nafni Arndís Jónsdóttir sem leigði herbergi í Bergshúsi þar sem Þórbergur bjó á árunum 1909-1913. Arndís þessi var sem sagt fyrirmyndin að "elskunni" hans Þórbergs en hún var hins vegar sjálf alls ekki sátt við þá mynd sem Þórbergur dró upp af sambandi þeirra í bókunum tveimur og kannaðist ekki við að á milli þeirra hafi nokkuð verið, meira en gerist og gengur um fólk sem leigir í sama húsi.
Árið 1918 kynntist Þórbergur hins vegar stúlku sem segja má að hafi verið huldukona í lífi hans allt til ársins 1983 þegar bréf hans til hennar voru gefin út í bókinni Bréf til Sólu. Hún hét Sólrún Jónsdóttir og var dóttir Guðbjargar Einarsdóttur sem var einstæð móðir þriggja barna, bjó í Reykjavík og framfleytti sér og börnum sínum með þvottum og öðrum tilfallandi störfum. Guðbjörg var aðventisti og henni var það kappsmál að gifta dóttur sína manni sem gæti séð henni sómansamlega farborða og því lagðist hún þvert gegn samdrætti þeirra Þórbergs, hafði reyndar fundið mannsefni handa dóttur sinni þegar þarna var komið, en hann hét Steinþór Pálsson, var meðlimur í aðventistasöfnuðinum og var sjómaður. Þótt Sóla bæri engar tilfinningar í garð Steinþórs lét hún móður sína telja sig á að heitbindast honum, en það kom hins vegar ekki í veg fyrir að hún tæki upp ástarsamband við Þórberg. Engu að síður fóru mál á þann veg að Sóla giftist Steinþóri í ársbyrjun 1919 og eignaðist með honum son sama ár. Hjónaband þeirra var þó gæfulaust. Þórbergur fylgist með Sólu og árið 1922 tóku þau aftur upp ástarsamband. Sagan segir að Steinþór hafi vitað af sambandinu en látið það afskiptalaust, enda hafi hann lengst af verið á sjó. Guðbjörg var hins vegar æf yfir endurnýjuðum kynnum og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að stía þeim Þórbergi og Sólu í sundur. Hún hafði þó ekki árangur sem erfiði og í byrjun sumars 1923 varð Sóla ófrísk af Þórbergs völdum. Til er þessi vísa sem talið er að hann hafi ort að því tilefni:

Í flokki virða fremstur er
fríður og tign sem haukur.
Á veiðar eins og valur fer,
en verpir eins og gaukur.

Þórbergi og Sólu fæddist dóttir 29. febrúar 1924. Hún var skírð Guðbjörg í höfuðið á ömmu sinni og kennd við Steinþór, löglegan ektamaka móðurinnar. Steinþór lézt hins vegar á sóttarsæng þremur vikum síðar. Þá var rutt úr vegi hindruninni fyrir því að þau Sóla og Þórbergur ættust, en af því varð aldrei og ástæðan fyrir því að ekkert varð úr giftingu þeirra verður líklega aldrei kunn. Þórbergur hélt þó sambandi við Sólu og dóttur sína allt til ársins 1932 þegar hann gekk í hjónaband með Margréti Jónsdóttur. (Sjá um þetta mál formála Indriða G. Þorsteinssonar að Bréfi til Sólu.)
Í lífi Þórbergs gerðist það annað merkilegt þetta ár, 1924, að Bréf til Láru kom út og setti allt á annan endann í bókmenntalífi þjóðarinnar. Fyrir bókina hlaut hann landsfrægð og brottrekstur úr farsælu kennarastarfi úr Iðnskólanum og Verzlunarskólanum, en hann hafði sinnt kennslu frá því að hann hætti í háskólanum 1919.
Þórbergi var vel ljóst sjálfum hvers konar nýjung Bréf til Láru var í íslenskum bókmenntum, það má m.a. sjá að þessum orðum hans úr handriti á Landsbókasafni:

[...] það er nýjung. Bréf til Láru, Íslenskur aðall og að nokkru leyti Pistilinn skrifaði... eru eina nýjung, sem komið hefur fram í íslenskum bókmenntum síðastliðin 100 ár. (Skrifað seint á fjórða áratugnum.)

Frá því að Bréf til Láru kom út 1924 og allt fram til 1938 ársins sem Íslenzkur aðall kom út er í raun hægt að tala um nokkurs konar hlé á ritferli Þórbergs. Á þessu tímabili skrifar hann nokkrar ritgerðir, flestar tilkomnar sem svör við árásum á Bréf til Láru og 1935 kemur Rauða hættan, bók sem hann skrifaði eftir ferðalag til Sovétríkjanna. Annars koma á þessum árum aðallega út kennslubækur í esperanto svo og greinar sem Þórbergur samdi fyrst á esperanto og þýddi síðan yfir á íslensku. Þá má einnig minnast á Gráskinnu, safn þjóðsagna í fjórum bindum sem Þórbergur gaf út með Sigurði Nordal. "Bókmenntalegri þögn" Þórbergs lýkur hins vegar eftirminnilega með útkomu Íslenzks aðals árið 1938. Í því verki og í Ofvitanum sem kom út í tveimur bindum 1940 og 1941 hefur Þórbergur fundið sér farveg sem áður var svo til óþekktur í íslenskum bókmenntum: Skáldævisöguna.

,,Endurfæðingarnar"

Þórbergur Þórðarson skipti sjálfur ævi sinni niður í tímabil sem afmörkuðust af því sem hann kallaði ,,endurfæðingar". Í riti Stefáns Einarssonar, Þórbergur Þórðarson fræðimaður - spámaður - skáld fimmtugur (1939) er að finna skrá yfir endurfæðingarnar - Endurfæðingakróníkuna - sem Þórbergur sendi Stefáni þegar hann bað hann um upplýsingar um ævi sína. Þar tiltekur hann sex endurfæðingar og þrjú atvik sem geta ekki talist endurfæðingar:

1906:
Fæ allt í einu, sitjandi á rauðmáluðu kofforti í suðausturherberginu í húsinu nr. 9 við Vitastíg, náttúru til kvenna. Missi stærðfærði- mælinga-, teikni-, smíða-, og uppfyndinga-gáfu og fer að yrkja. Fyrsta kvæðið innblásinn skammarbragur til Sigurðar, sonar Guðmundar áttærings, er átti fyrir seinni konu Laugu syndlausu. Næsta kvæði hjartnæm eftirmæli eftir barn Jónasar Eyvindssonar; voru prentuð. Skáldalaun: Ljótt umtal nokkrum árum síðar.

1913:
Hver taug í líkama mínum verður heltekin af íslenzkum fræðum. Allar aðrar víðáttur alheimsins hverfa. Horfi á Björn M. Ólsen í fjögur ár eins og hundtík á húsbónda sinn.

1914:
Losast á einni nóttu, liggjandi á hörðum bedda í aumri þakkompu á Norðurstíg 7, undan þeim póetiska svindlara, Einari Benediktssyni. Engill einfaldleikans stígur niður í mig. Púki fútúrismans ber að dyrum. (Til þess að geta opnað hurðina, eftir að ég var háttaður, varð ég að taka upp beddann). Yrki þessa nótt tvítuga drápu.

1917:
Hlunkast í októbermánuði, um kl. 6 að kvöldi, þá staddur á Laugaveginum rétt fyrir ofan Bergstaðastræti, með vígahnattarhraða niður í ómælishöf guðspeki, yógaheimspeki og spiritisma, svo að allt annað gleymist. Fæ nýja útsýn yfir gervalla tilveruna. Kýli á andlegum æfingum. Beini mínu blikki til meistara í Tibet. Finn alheimsorkuna fossa gegnum hverja taug. Gerist heilagur maður.

(1921:
Fæ 23. nóv. Voðalegt pólitískt sjokk, sem þó ekki gat orðið endurfæðing).

(1923:
Verð útsetinn, þar sem krossast Austurstræti og Aðalstræti, fyrir ótuktaráráttu til ritstarfa, en var þó ekki endurfæðing. Stekk heim, hátta og byrja Bréf til Láru).

1925:
Endurfæðist hægt og kurteislega með hálftíma lestri á dag inn í Esperanto. Þessi endurfæðing hófst í maímánuði á rakarastofu Sigurðar Ólafssonar, meðan ég var að lesa auglýsingaspjald, sem hékk á veggnum og á voru letruð þessi gómsætu orð: ,,Saftin er gerð úr sykri og berjum eins og bezta útlend saft", sem nú hefur reynzt vera lygi. Í júlímánuði 1926 er þessi endurfæðing búin að ganga svo frá mér, að ég fyrirlít allt annað en Esperanto og esperantobókmenntir í næstu 6 ár. Las Esperanto 10 til 20 klukkutíma á sólarhring. Varð að lesa á kamrinum, hvað þá heldur þar, sem betri var lyktin.

(1931:
Öðlast fullkomlega réttan skilning á lífinu, en einkennir sig þó ekki sem endurfæðing. Mun síðar lýsa þessu í bók. Þýðir reyndar ekkert að flagga því framan í almenning, því hann skilur það ekki).

1933:
Endurfæðist skýrt og skorinort til ritstarfa. Þessi endurfæðing byrjaði í raun og veru á Óðinsgötunni einn sunnudag í aprílmánuði 1932, en svo virtist ekkert ætla að verða úr henni, unz hún reif sig í gegn um mig með skakandi ofsa í nóvembermánuði 1933.

Þórbergur minnist víðar á endurfæðingar sínar og ekki ber því sem hann segir alltaf saman við þessa Endurfæðingakróníku. Í bréfi frá 1926 segir hann meðal annars að fyrsta endurfæðingin hafi snortið sig á Skólavörðustíg 10 í október 1911, og þar segir hann einnig frá endurfæðingu á útmánuðum 1926 og telur hana hina fjórðu í röðinni. En þótt hér sé nákvæmninni ekki fyrir að fara þá er engu að síður hægt að draga nokkrar ályktanir af lýsingum hans á endurfæðingunum um hvaða þætti hann telur áhrifamesta í lífi sínu: ástina (eða ,,náttúru til kvenna"), íslenzk fræði, guðspeki, yoga og spiritisma, esperanto og ritstörfin. Kemur þetta allt heim og saman við æviferil hans og þau störf sem hann iðkaði um ævina og þau rit sem eftir hann liggja.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 162
Gestir þennan mánuð: ... 1387
Gestir á þessu ári: ... 26388