Skip to main content

Þórbergur í fátæktarlandinu

Bókin ÞÞ Í fátæktarlandi er fyrra bindið af tveimur sem Pétur Gunnarsson hyggst senda frá sér um Þórberg Þórðarson og hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Þeir sem bjuggust við ítarlegri og fræðilegri úttekt á ævi Þórbergs verða kannski fyrir vonbrigðum með bókina því slík er ekki aðferð Péturs heldur nálgast hann viðfangsefni sitt með aðferðum skáldsins og kannski má kalla verk hans „skáldfræðirit". Það er hins vegar engin ástæða til að mæla bók Péturs út frá fyrirfram gefnum mælikvörðum því hér er fyrst og fremst um afar vel skrifaða og skemmtilega bók að ræða. Eins og undirtitillinn, Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar, gefur til kynna beinir Pétur sjónarhorninu einkum að því hvernig Þórbergur komst til manns eða öllu heldur hvernig hann mótaðist sem rithöfundur á fyrstu áratugum 20. aldar. Frásögnin hefst 1906 þegar Þórbergur er á 19. árinu og hefur yfirgefið Suðursveitina og er að reyna að fóta sig í Reykjavík, fyrst sem verkamaður bundinn vistarbandi og síðar sem heldur vonlaus skólanemi en upprennandi ritsnillingur. Þessum árum hefur Þórbergur sjálfur lýst ógleymanlega í Íslenskum aðli og Ofvitanum og byggir Pétur að sjálfsögðu mikið á þeim verkum en auk þess nýtir hann sér bréf, dagbækur og fleiri heimildir sem sumar hafa birst áður en aðrar ekki.
Eins og kunnugir vita er varasamt að treysta eigin æviskrifum Þórbergs ef markmiðið er að mæla þau á algildan „sannleikskvarða" því Þórbergur færir sannleikann „í æðra veldi", eins og hann sjálfur komst að orði, eða „leitar skáldskaparins í sannleikanum" eins og Halldór Guðmundsson orðar það í Skáldalífi. Veldi skáldskaparins er í verkum Þórbergs æðra veldi sannleikans, þ.e.a.s. þess smámunasama staðreyndasannleika á hvers klafa fræðimenn telja sig bundna - ólíkt skáldum. Pétur Gunnarsson virðist leika sér að þessum mörkum. Sem dæmi má nefna að hann fer rangt með aldur Þórbergs í upphafi bókar, segir hann vera „á átjánda árinu" þegar hann yfirgefur Suðursveit en ruglingur með fæðingarár Þórbergs hefur verið viðloðandi alla umfjöllun um hann og er það ennþá skráð 1889 í langsgrunni íslenskra bókasafna þótt óyggjandi hafi verið sýnt fram á að 1888 (eins og skráð er í kirkjubækur) er rétt fæðingarár. Þórbergur varð 18 ára 12. mars 1906. Hann er því á 19. ári í maí sama ár þegar hann yfirgefur heimasveitina. Annað og öllu frægara dæmi er sagan af „framhjágöngunni" í Íslenskum aðli, sem er eitt besta dæmið um hvernig „staðreyndasannleikurinn" þarf að lúta í lægra haldi fyrir kröfu skáldskaparins í skrifum Þórbergs. Á bls. 42 lýsir Pétur framhjágöngunni og minnist hvergi á að Þórbergur hafi í raun hitt „elskuna" en ekki gengið fram hjá, eins og ljóst er af dagbókum hans. En þetta er stílbragð hjá Pétri - að leyfa mýtunni að lifa um sinn - því nokkru síðar, á bls. 106-7. er aftur vikið að þessu ferðalagi og nú rýnt í dagbækur sem segja aðra sögu en þá fyrri. Og Pétur skrifar: „Er verið að grínast með okkur?"

Pétur Gunnarsson er sjálfur skáld og að sjálfsögðu ráða lögmál skáldskaparins hjá honum engu síður en hjá Þórbergi. Og Pétri tekst með aðferð sinni að gera það sem ég tel að sé á fárra fræðimanna valdi: Að skrifa þannig um Þórberg, félaga hans og kærustur að persónurnar birtast ljóslifandi fyrir augum lesandans og auka við þann skilning sem smám saman er að verða til á Þórbergi Þórðarsyni sem lengst af hefur verið herfilega misskilinn sem alvörulaus trúður íslenskra bókmennta. Ég bíð framhaldsins spennt.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 106
Gestir þennan mánuð: ... 4023
Gestir á þessu ári: ... 22046