Skip to main content

Menningarstyrkir til Þórbergssetur

Menningarráð Austurlands úthlutaði styrkjum til menningarverkefna á Austurlandi miðvikudaginn 6. febrúar. Þórbergssetur fékk úthlutað veglegum styrkjum til menningarverkefna í samstarfi við aðra aðila. Verkefnið Söguslóð á Suðausturlandi - Papaslóð á Íslandi sem er samstarfsverkefni fjölmargra aðila á Suðausturlandi allt frá Djúpavogi að Skeiðarársandi, fékk hæsta styrkinn 1 milljón króna. Þórbergssetur hefur tekið að sér að framfylgja verkefninu ásamt Menningarmiðstöð Hornafjarðar og  ferðamálafulltrúa Djúpavogs.

Verkefnið  Sagnalist, samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Gunnarsstofnunar fékk líka veglegan styrk. Þar er fyrirhugað að hefja starf með eldri borgurum á Austurlandi, kynna starfsemi stofnananna og verk þeirra Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar með tilliti til ritunar sjálfsævisagna. Efna á síðan til söguritunar meðal eldri borgara á Austurlandi um ákveðið efni. Verkefnið verður kynnt síðar með auglýsingum um allt Austurland og með heimsóknum til félaga eldri borgara.

Að lokum fékk Þórbergssetur styrk til að halda tónleika í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsvöku 29. júlí. Kirkjan á Kálfafellsstað er ein af fjórum kirkjum landsins sem helguð var Ólafi helga og í kirkjunni var frá því um 1700 allt til 7. janúar 1886 merkilegt líkneski af Ólafi helga sem fengið var í kirkjuna til að hrinda álögum völvu einnar, systur Ólafs helga, en hún hraktist frá staðnum í frumkristni. Hún lagði þau skelfilegu álög á staðinn að þar skyldi engum presti vera vært nema í 20 ár og  hafa þau álög lifað í  munnmælum allt til vorra daga. Það verður skemmtileg nýbreytni að efna til þessa viðburðar á miðri ferðamannavertíðinni,  kirkjan á Kálfafellsstað er mjög gott tónleikahús og stutt frá Kálfafellstað er leiði völvunnar, enn vel sýnilegt, - og til vitnis um hina gömlu munnmælasögu. Líkneski Ólafs helga er til sýnis meðal kirkjumuna á Þjóðminjasafni Íslands.
Til þessarra tveggja verkefna fékk Þórbergssetur úthlutað 750.000 krónum

Það fjármagn sem veitt hefur verið til menningaviðburða í gegnum menningarráðin hefur sannarleg verið mikil hvatning til nýsköpunar og framsækins menningarstarfs á landsbyggðinni. Þess sjást vel merki á Austurlandi. Þórbergssetur hefur ævinlega fengið góðar undirtektir við styrkumsóknum sínum og  Menningarráð Austurlands er eitt af þeim aflgjöfum sem gerðu uppbyggingu Þórbergsseturs mögulega. Fyrir það ber að þakka. Stjórn Þórbergsseturs og forstöðumaður senda kærar kveðjur til stjórnar Menningarráðs Austurlands og óskar þeim til hamingju með öflugt og óeigingjarnt starf að menningarmálum á Austurlandi.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 277
Gestir þennan mánuð: ... 8814
Gestir á þessu ári: ... 16854