Skip to main content

Ráðstefna í Háskóla Íslands og málþing í Þórbergssetri

Þann 12. mars næstkomandi eru liðin 120 ár frá fæðingu Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala í Suðursveit. Háskóli Íslands, Þórbergssetur og Háskólasetrið á Hornafirði standa fyrir málþingum  í  tilefni þessara tímamóta.  Helgina 8. - 9. mars verður málþing og samkoma á vegum Háskóla Íslands þar sem fjöldi fyrirlesara og listamanna koma fram. Miðvikudaginn 12. mars verður síðan dagskrá í Þórbergssetri frá klukkan 10 um morguninn  og fram eftir degi. Mikill fjöldi fyrirlesara tekur þátt í afmælisþingunum á báðum stöðum. Þar má nefna m.a. Viðar Hreinsson bókmenntafræðing sem ætlar að fjalla um Suðursveitarbækur Þórbergs.  Bækurnar Bréf til Láru og  Steinarnir tala,-  hin fyrsta í ritröðinni um Suðursveit, -  verða gefnar út að nýju með formála eftir Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðing Á þingunum verður fjallað um hin ýmsu verk Meistara Þórbergs svo sem Ævisögu Árna Þórarinssonar, Sálminn um blómið og ritgerðir Þórbergs.  Án efa kemur fram ný sýn á þessi sígildu verk höfundarins og verður forvitnilegt að kynnast nýjum viðhorfum til verka skáldsins.

Í bland við fræðilega umfjöllun verður flutt skemmtiefni og  farið í stuttar gönguferðir.  Í Reykjavík verður gengið í fylgd Péturs Gunnarssonar á milli gömlu húsanna í miðbænum og vesturbænum þar sem Þórbergur bjó. Á Hala verða bæjarrústir Steins afa skoðaðar,  en einnig  verður gengið upp að Steinum, minnisvarðanum um þá bræðurna frá Hala. Þar verður staldrað við á miðju sögusviðinu og lesið  upp úr bókinni Steinarnir tala. Vonir standa til að hægt verði að fá landsfræga leikara til að lesa upp úr verkum skáldsins og skemmta málþingsgestum.

Háskóli Íslands hyggst síðan gefa út í sérstöku riti alla þá fyrirlestra sem fluttir verða á afmælisþingunum. Dagskrá afmælisþinganna verður auglýst betur þegar nær dregur. Hægt er að sækja hluta dagskrárinnar, það er fólk getur komið og farið og sótt þá fyrirlestra sem hver og einn vill hvort sem er í Reykjavík eða á Þórbergssetri.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 377
Gestir þennan mánuð: ... 7800
Gestir á þessu ári: ... 85862