Skip to main content

Saga og list í Þórbergssetri

Helgina 16. og 17. maí verða opnaðar formlega tvær nýjar sýningar í Þórbergssetri . Sýningin Sagnalist   er  samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Skriðuklausturs styrkt af Menningarráði Austurlands. Markmið verkefnisins er að kynna rithöfundana Gunnar Gunnarsson og Þórberg Þórðarson, en einnig að safna frásögum eða  minningarbrotum frá liðinni tíð, þar sem óskað var eftir að fólk skráði niður minningar frá fermingu sinni eða fermingarári sem tengdust þá samfélags- og þjóðháttarlýsingum frá þeim tíma er viðkomandi fermdist. Margar skemmtilegar frásögur hafa borist og sjá má sýnishorn af nokkrum þeirra á sýningunni. Auk þess eru nokkrir sýningarmunir úr eigu einstaklinga, aðallega úr Skaftafellssýslum. Skemmtilegar fermingarmyndir frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar birtast á skjá.

Gaman er fyrir eldra fólk að rifja upp liðna tíð, en einnig að segja frá og sýna börnum og unglingum aðstæður fermingarbarna fyrir 50 – 70 árum síðan.
Einnig verður opnuð málverkasýning/ sölusýning í Þórbergssetri laugardaginn 16. maí.  Það er Alda Ármanna frá Barðsnesi við Norðfjörð sem  sýnir verk sín í Þórbergssetri á þessu vori.  Sýningin ber heitið Kona í forgrunni, vegferð í lífi og list. Alda á ættir sínar að rekja að Kálfafelli í Suðursveit, en móðir hennar var Sigríður Þórðardóttir frá Kálfafelli systir Ingunnar Þórðardóttur, eiginkonu Benedikts Þórðarsonar frá Hala, bróður Þórbergs Þórðarsonar. Alda tengir sýninguna uppruna sínum úr Suðursveit. Í sýningarskrá stendur ,, Sögur móður minnar úr Suðursveit sveipuðu fólkið og lífshætti þess ljóma og vakti mér löngun að kynnast þessu fólki og þessari sveit.” Sjálf ólst Alda upp á Barðsnesi við Norðfjörð í hópi 9 systkina. Barðsnes var útvegsjörð sem fór í eyði um miðja síðustu öld.
Kaffihlaðborð er í Þórbergssetri frá kl 14:00 – 17:00 sunnudaginn 17. maí.
Sýningarnar verða opnar til 6. júní en hluti af sýningu Öldu verður í veitingasal Þórbergsseturs í sumar.

Skaftfellingar ættu ekki að láta fram hjá sér fara þessar skemmtilegu en ólíku sýningar sem tvinna saman sögur og list og eiga uppruna sinn í merkri alþýðumenningu sveitasamfélaga  á Íslandi.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 42
Gestir þennan mánuð: ... 5591
Gestir á þessu ári: ... 23615