Skip to main content

Njálumót og Fjallasýn í Þórbergssetri

Föstudaginn 28. maí næstkomandi verður reynt á ný að boða til Njálumóts í Þórbergssetri. Einnig verður formleg opnun á nýrri sýningu, Fjallasýn, sem er samstarfsverkefni Skriðuklausturs og Þórbergssetur. Sýningin er málverkasýning þar sem sýndar eru myndir af þremur fjöllum, Snæfelli, Herðubreið og Öræfajökli. Einnig er leitað til skálda og náttúrufræðinga og varpað ljósi á breytta sýn til fjallanna í gegnum aldanna rás.
Á Njáluþingi  ætla þeir Njáluaðdáendurnir, Bjarni E. Sigurðsson frá Suðurlandi og Fjölnir Torfason frá Hala að leiða saman hesta sína og fjalla um Njálu svo og tengingar Skaftfellinga við Njálu. Nýlunda er að Bjarni E. Sigurðsson, sem er Skaftfellingur að ætt og uppruna, hefur í farteskinu myndir listakonunnar Þórhildar

Jónsdóttur, en hún hefur teiknað myndir af helstu sögupersónum Njálu. Þar birtast okkur í fyrsta skipti myndir sem eiga að sýna persónuleika og ímynd þessarra þekktu persóna í sögu og bókmenntum íslensku þjóðarinnar og er það án efa mjög forvitnilegt. Bjarni hefur verið með erindi um Njálu víða að undanförnu og hafa myndirnar vakið umræður og eftirtekt.
Njálumót er liður í því að gera hlut fornbókmennta stærri í heimi okkar nútímamanna svo og í menningarferðaþjónustu á Íslandi. Þegar ferðamenn  koma í Þórbergssetur er oft fjallað um hversu bókmenntaarfurinn var sterkur í  þjóðarvitund Íslendinga. Gömlu bækurnar eins og Njála, árituð af fjórum bændum Suðursveitar árið 1904( útgefin 1894) og er til sýnis í Þórbergssetri,  bera vitni um það. Menntun þjóðarinnar á þessum tíma byggði að miklum hluta á þessum merka bókmenntaarfi. Fornbókmenntir voru sá máttarstólpi sem alþýðumenningin byggði á, alþýða fólks þekkti þessar sögur og sögupersónur og var hálærð í íslenskum fornsögum svo að helst má líkja því við þekkingu virtustu háskólaprófessora í dag. Það er því ekki úr vegi að taka upp á ný  Njáluumræður á Hala  og halda umræðunum af baðstofuloftinu áfram,  þar sem ,, Njáll var vitur en samt heimskur að láta brenna sig inni, Skarphéðinn fimur og mikill kappi en ósvífinn, Kári stórkostlega snjall, Hallgerður óþokki, Gunnar óskiljanlega heimskur að snúa aftur, Flosi svalur en góður í raun," svo vitnað sé lauslega í Suðursveitarbækur Þórbergs .
Allir eru velkomnir á Njálumót hvaðanæva af landinu, hægt er að fá gistingu og allan viðurgjörning í Suðursveit. Formleg dagskrá er aðeins á föstudagskvöldið en heimamenn á Hala eru tilbúnir að leiðsegja fólki um safnið og umhverfið yfir helgina. Það er því tilvalið að taka sér góða fríhelgi til dvalar í Suðursveit þessa daga.
Fornsögumót á að verða árlegur viðburður i Þórbergssetri á næstu árum.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 27
Gestir þennan mánuð: ... 8899
Gestir á þessu ári: ... 16939