Skip to main content

Myndlist og matur í Þórbergssetri

20110606Næstkomandi laugardag verður opnunarhátíð á myndlistasýningunni Landi. Gígja Baldursdóttir myndlistarmaður sýnir þar verk sín og verður sýningin  í Þórbergssetri í allt sumar. Gígja er Skaftfellingur að uppruna en faðir hennar er Baldur Geirsson frá Reyðará í Lóni og móðir hennar Hólmfríður Aradóttir frá Borg á Mýrum.
Um sýninguna segirt Gígja m.a: ,,Verkin á sýningunni er öll sprottin  upp af náttúrunni hér í Austur-Skaftafellsýslu.  Þau hafa bæði kviknað út frá hinu agnarsmáa eins og litbrigðum í læk eða galdri i grassverði, en einnig frá hinu mikla og stórfenglega, eins og hillingum á svörtum sandi eða fjölbreyttum hvítum litaskala í jökli.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem landið í ríki Vatnajökuls er viðfangsefni mitt.  Ég var mörg sumur í sveit á Mýrum og við störf á Höfn og á hverju ári...  liggur leið mín hingað. Í gegnum árin hefur þetta landsvæði verið viðfangsefni mitt en útfærslan verið margbreytileg. Seinni árin hefur þó vinnan þróast í huglæg abstrakt verk. Sýningin er tileinkuð öllu mínu fólki, ættmennum og forfeðrum sem hafa alist upp við þetta stórbrotna landslag og bera merki þess."

Á laugardaginn verður einnig kynnt hönnun Listaháskóla Íslands á réttum sem verða á boðstólum í Þórbergssetri í sumar. Verkefnið er samstarfsverkefni Listaháskólans og Bændasamtaka Íslands undir heitinu  Stefnumót hönnuða og bænda.  Um er að ræða rétti sem gerðir eru m.a, úr hráefni frá Hala, en hafa einnig tengingar við verk Þórbergs . Meðal annars eru þar sérstakir Þórbergssnúðar sem skapa einstaka tilfinningu líkt og að vera með ,,himnaríki í kviðnum"  eins og Þórbergur segir  og einnig  frumlegar rúllutertur skornar niður með sérstöku tæki sem mælir nákvæmlega þykkt hverrar sneiðar. Að njóta þessarra nýju veitinga er því sérstök upplifun og góð viðbót við að skoða skemmtilegar og fjölbreyttar sýningar Í Þórbergssetri.


                  Þórbergssetur og sýningarnar þar verða opnar í allt sumar alla daga frá klukkan 9 - 21 .

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 33
Gestir þennan mánuð: ... 4553
Gestir á þessu ári: ... 22576