Skip to main content

,,Boðið heim" í Þórbergssetur og á Hala. Málþing ,,Að yrkja óreiðu"

thor0264Endilega skreppið í sveitina, bókmenntir, ferðaþjónusta,veitingar beint frá býli.

Næstkomandi sunnudag 9. júní verður opin dagskrá í Þórbergssetri tengd bókmenntum, menningarferðaþjónustu og verkefni á vegum Ferðaþjónustu bænda undir heitinu ,,Bændur bjóða heim.”

Dagskráin hefst klukkan 14:00 með málþingi í Þórbergssetri. Þrír starfsmenn Þórbergsseturs og Gistiheimilins á Hala flytja erindi. Það eru þau Berglind Ýr Sveinbjörnsdóttir og Kristján Hannesson sem bæði eru með mastersgráðu í bókmenntafræði og Martina Ceolin frá Ítalíu en hún er master í germönskum fornfræðum og tungumálum( Germanic Philology ) og er að hefja doktorsnám við Háskóla Íslands næsta haust í íslenskum miðaldarfræðum (Medieval Icelandic studies) jafnframt því að læra íslensku. Það verður forvitnilegt að heyra hvað þau hafa fram að færa og hvernig þau tengja dvöl og starf á Hala við nám sitt og áhugasvið. 

Dagskráin er afar áhugaverð og ber heitið,,Að yrkja óreiðu" og er eftirfarandi:

 

Translating Generic Hybrids: the Case of Áns saga Bogsveigis; Martina Ceolin

Innan endimarka sálarinnar: Að skapa persónuleika í bókmenntum; Kristján Hannesson

Skáldveruleikinn: Um lífsspekulasjónir Þórbergs Þórðarsonar; Berglind Ýr Sveinbjörnsdóttir

 

Kaffiveitingar verða á borðum og síðan er gestum boðið í skoðunarferð í Þórbergssetur, um gistiheimilin á Hala og að fylgjast með endurbyggingu gamla íbúðarhússins á Breiðabólsstað. Nú er verið að gera upp þetta gamla hús og breyta því í tvær íbúðir, sem í byrjun verða leigðar út til ferðamanna. Elsti hluti hússins var byggður árið 1934, yfirsmiður var Lúðvík Magnússon frá Lækjarhúsum og viðbygging frá árinu 1954, var teiknuð af Þorsteini Þorsteinssyni frá Reynivöllum, en heimamenn munu að mestu leyti hafa séð um byggingu þeirrar álmu. Yfirsmiður nú er Halldór Guðmundsson frá Lækjarhúsum. Húsið á sér mikla sögu, en Svíinn Hans Ahlmann lýsir því í bók sinni,Ríki Vatnajökuls og segir á svo eftirminnilegan hátt, að ,, honum hafi fundist hann vera kominn að mörkum hins byggilega heims” þegar hann kom á bæjarhlaðið á Breiðabólsstað og sá þennan gráa steinkumbalda standa þarna einan í auðninni, enginn trjágróður til að skýla og ekki einu sinni gata heim að bænum, enda húsið þá nýbyggt.

Allir eru velkomnir á Hala til að njóta bókmennta, svala forvitni og anda að sér sumarloftinu í ,,Sveit sólar”, Suðursveitinni í byrjun ferðamannatímans.

Aðgangur ókeypis.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817