Skip to main content

Að loknu sumri 2012

Árið 2012 hefur verið viðburðarríkt ár í Þórbergssetri eins og oft áður. Gestakomur voru tíðar og aukin aðsókn að safninu  enda ekki eldgos eða önnur náttúruvá sem hafði áhrif á umferð ferðamanna eins og næstu tvö ár á undan. Ekki hefur tekist að koma tölu á þá gesti sem koma í Þórbergssetur eða hversu margar gestakomur eru, en áætlað er að það muni vera a.m.k. um 22.000 gestakomur á ári. Umferð yfir vetrartímann hefur aukist, þar munar mestu um erlenda ferðamenn sem heimsækja Skaftafellssýslur, gista og njóta veitinga á Hala, en fræðast um leið um umhverfi og náttúru, Þórberg Þórðarson og verk hans. Ljósmyndarar dvelja oft í 4 – 5 daga og reyna að fanga litbrigði náttúrunnar á nóttu sem degi og fagna mest norðurljósum og stjörnubjörtum nóttum.  Starfsemi ársins 2012  einkennist því af móttöku erlendra ferðamanna  í auknu mæli, bæði einstaklinga og hópa og fræðslu til þeirra. Þannig haslar Þórbergssetur sér völl sem ferðamannastaður sem leggur áherslu á fræðandi ferðaþjónustu og persónulega þjónustu með menningarlegu ívafi  auk þess sem borið er á borð fyrir gesti matur og veitingar frá Hala eða úr heimahéraði.

Árið 2012 er einnig mesta framkvæmdaárið í sögu Þórbergsseturs síðan það var opnað árið 2006 og erum við nú  betur í stakk búin til að mæta þörfum erlendra ferðamanna en áður. Starfsárið hófst með gestakomum um áramót, þar sem m.a þýskir gestir létu í ljós ánægju með útgáfu Íslensks aðals á þýsku. Fjölmargir hópar komu í dvöl á Hala og heimsókn í Þórbergssetur í febrúar og mars þ.á.m. íslenskur hópur í menningarferð, ljósmyndarar svo og almennir ferðamenn.

Þann 25. mars var menningardagskrá í Þórbergssetri, þar sem Sigurður Pálsson skáld las upp úr Bernskubók sinni. Opnaðar voru tvær nýjar sýningar þennan dag, sýning á frumútgáfum af verkum Þórbergs Þórðarsonar, gjöf frá Skinney, Þinganes og sýning á styttunum hans Sobeggi afa, gjöf frá Helgu Jónu Ásbjarnardóttur. Einnig var sett upp sýning af munum frá Hala í  sérstaka sýningarskápa. Sögusýning um landnám og fornminjar á Steinadal er ennþá uppi svo og myndasýning um gönguferð í Innri – Veðurárdal. Hin árlega hrossakjötsveisla og bridgemót var á sínum stað í aprílmánuði og var fjölmennasta hátíðin frá upphafi.

Fjölmargir hópar komu í Þórbergssetur að skoða safnið og njóta leiðsagnar, Skaftfellingakórinn kom í heimsókn og söng fyrir bridgespilarana og þann dag 22. apríl komu amk. 120 manns í heimsókn í Þórbergssetur og svo var um marga fleiri daga þegar komið var fram á sumar. Ungar stúlkur í Gradualekór Langholtskirkju komu í heimsókn og sungu en  kórstjórinn Jón Stefánsson hafði esið fyrir meðlimi kórsins úr Suðursveitarbókum Þórbergs og kynnt þeim verk hans fyrir heimsóknina. Í maí gistu margir gönguhópar á Hala og nutu þjónustu og skoðuðu safnið. Leiðsögumannaskóli Íslands kom í Þórbergssetur í sinni árlegu námsferð um landið, Leikskóli Hornafjarðar kom með litlu gestina sína í  heimsókn og orlofskonur og eldri borgarar víðs vegar af landinu komu og dvöldu í styttri eða lengri tíma. Gestir af alþjóðlegri ráðstefnu Háskólasetursins á Höfn hlýddu á erindi Soffíu Auðar Birgisdóttur um Þórberg Þórðarson þann 16. maí í Þórbergssetri og svo má lengi telja.

Skipt var um öll textaspjöldin á aðalsýningunni um Þórberg Þórðarson og nú eru komnir enskir textar inn á öll ljósaskiltin, auk þess sem ferðamenn geta fengið  þýska og franska texta í harðspjaldabókum í hendurnar inn á sýningunni. Þrír bókmenntafræðingar voru starfandi í Þórbergssetri og á Hala í sumar og tóku m.a. á móti  fjórtán  frönskum hópum 40 – 45 manns í hvert skipti og kynntu þeim Þórberg og lásu á frönsku úr verkum hans auk þess að sinna almennri leiðsögn.

Í júnímánuði var opnuð sýningin ,,Óþrotlegur auður” , ljósmyndasýning,  þar sem textar úr verkum Þórbergs Þórðarsonar  tóna við stórkostlegar náttúrumyndir tveggja ljósmyndara, Tony Prowers og Þorvarðar Árnasonar. Sýningin verðu uppi allt þetta ár og næsta vetur og vekur sýningin verðskuldaða athygli ljósmyndara og annarra gesta.

Bókin Steinarnir tala.. The Stones speak” var gefin út í enskri þýðingu og með skýringum háskólaprófessorsins  Dr.Julian Meldon D’Arcy. Þar með er þeim merka áfanga í sögu Þórbergsseturs náð að hafa til sölu tvær af bókum höfundarins á erlendum tungumálum, Íslenskan aðal á þýsku og Steinarnir tala á ensku. Julian D’Arcy á sérstakar þakkir skilið fyrir þrotlausa og óeigingjarna vinnu við þýðingu bókarinnar og stuðning og aðstoð við að fá hana útgefna. Bækurnar seljast vel og hafa fengið góðar viðtökur.

Hinir árlegu tónleikar á Ólafsvöku í Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir 29. júlí. Að þessu sinni spiluðu og sungu þeir Magnús Eiriksson og Pálmi Gunnarsson og fjöldi fólks hlýddi á þá félaga, rifjuð var upp sagan um völvuna á Kálfafellsstað og  tónleikagestir heimsóttu leiðið hennar undir Hellaklettum.

Undirritaður var nýr samstarfsamningur við mennta- og menningarráðuneytið 29. ágúst  2012 og mætti Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á staðinn með fríðu föruneyti.  Þetta var mikill gleðidagur í sögu Þórbergsseturs, ráðherra talaði um að samningur þessi væri í raun viðurkenning á að Þórbergssetur er nú eitt af þremur rithöfundasetrum Íslands, og að búið er að festa það í sessi með samfelldum rekstrarframlögum allt frá árinu 2010. Sól skein í heiði, og þessi fallegi síðsumardagur sannaði með óyggjandi hætti að góðir hlutir gerast í góðu veðri eins og Þórbergur segir á einum stað.

Á haustdögum komu sextán hádegishópar í Þórbergssetur í hádegismat, aðallega Asíubúar, þá helst Japanir og Thailendingar. Mæta varð þessum hópum á miðri leið og leyfa menningu þeirra að njóta sín hvað varðaði siðvenjur og skipulagningu, engu að síður kynntust þeir anda staðarins og íslenskri gestrisni, sveitinni og matnum, þó að tjáskipti einkenndust meira af brosi og látbragði en heimspekilegri orðræðu í anda Þórbergs.

 Þórbergssetur tók þátt í safnahelgi á Suðurlandi 2 – 4 nóvember en vegna norðan storms og stórveðurs féll sú dagskrá sjálfkrafa niður.

Haustþing Þórbergsseturs féll niður vegna anna við móttöku erlendra ferðamanna, fyrirhugað var að fjalla um eyðibýli  og forn býli í Suðursveit, en það efni bíður kynningar síðar. Þegar þetta er skrifað 3. desember 2012 er ennþá mjög gestkvæmt í Þórbergssetri og á Hala. nóvembermánuður sló öll met í gestakomum erlendra ferðamanna og mikið er bókað yfir jól og áramót. Það er ánægjuleg þróun að ferðamenn eru nú einnig að sækja Ísland heim á veturna, birtan í desember og janúar er eftirsóknarverð fyrir ljósmyndara, ,,einstök í öllu heiminum”, segja þeir, - og norðurljósadans á himni vekur hástemmda hrifningu. Í bland við þetta eru ferðamennirnir vitaskuld að leita eftir fræðslu og samskiptum við fólkið í landinu. Þá er sannarlega göfugt hlutverk að geta kynnt fyrir þjóðum heims sögu okkar og menningu og  þau listaverk sem við eigum dýrust sem þjóð, þ.e. bókmenntir vorar allt frá fyrstu tíð til okkar daga.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549