Skip to main content

Starfsskýrsla 2009

 Árið 2009 var viðburðarríkt í Þórbergssetri. Fjöldi ferðamanna sóttu Þórbergssetur heim og öflug menningarstarfsemi var allt árið. Hæst bar að Þórbergssetur fékk viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember fyrir starfsemi sína.
Helstu viðburðir og verkefni voru eftirfarandi:

 

 • Í byrjun árs dvöldu Soffía Auður Birgisdóttir og Þóra Ingólfsdóttir í fræðaíbúð á Hala. Soffía var að undirbúa fyrirlestur sinn um Þórberg sem hún flutti í Reykjarvíkurakademíunni miðvikudaginn 14. janúar. Fyrirlestur hennar bar nafnið ,,Hugsum öðruvísi með Þórbergi. Um bókmenntagervi, veruleika og sannleika."
 • Þorbjörg fór á Eskifjörð að taka á móti styrkjum frá Menningarráði Austurlands í janúar 2009
 • Þorbjörg vann við að endurbæta Þórbergsvefinn, vista hann upp á nýtt og sá um að gera sérstakan kynningarvef fyrir Þórbergssetur í samstarfi við vefhönnuð
 • Þorbjörg vann að fjölmörgum styrkumsóknum fyrir Söguslóðaverkefni og Þórbergssetur, afrakstur góður m.a. styrkur frá Atvinnu og rannsóknarsjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar,500.000 í  söguslóð og 250.000 Þórbergssetur, styrkur frá Ferðamálastofu 250.000 í söguslóðarverkefni og Menningarráði Austurlands 500.000 í Söguslóðarverkefni og 500.000 til tónleikahalds og verkefna í Þórbergssetri. Mikil verkefnavinna var því í gangi í framhaldi af þessum styrkveitingum
 • Unnið við undirbúning Sögusýningar nótt sem dag frá janúar til opnunar í júní. Fjölnir Torfason sá um hugmyndavinnu og textagerð og Þorbjörg Arnórsdóttir um skipulagningu og samskipti við verkefnahópinn, hönnuði og framleiðendur svo og fjármál ( sjá greinagerð um Söguslóð)
 • Unnið við undirbúning fermingarsýningar undir nafninu Sagnalist í samstarfi við Skriðuklaustur.
 • Hópur nema í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands dvaldi á Hala og hélt hér málþing  ásamt kennurum í febrúar
 • Þorbjörg Arnórsdóttir frá Þórbergssetri og Soffía Auður Birgisdóttir frá Háskólasetri voru með námskeið um verk Þórbergs í Pakkhúsinu á Höfn alls 5 skipti
 •           10. feb.            Farið yfir ævi- og ritferil Þórbergs.
 •           24. feb.            Bréf til Láru, pistlar og ritgerðir Þórbergs.
 •           10. mars          Íslenskur aðall og Ofvitinn.
 •           24. mars          Sálmurinn um blómið.
 •           7. apríl            Suðursveitarbækurnar
 • Á afmælisdegi Þórbergs 12. mars voru Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason með kynningu á Þórbergssetri og söguslóðarverkefninu í Obbusveit ( Þjórsárveri í Gnúpverjahreppi) og tóku þátt í málþingi þar
 • Halldóra Gunnarsdóttir dvaldi í viku í fræðaíbúð í mars og vann að rannsóknarverkefni um ástina. Hún flutti síðan erindi á málþingi í haust með heitinu ,, „Að elska er að yrkja fegursta ljóð í víðri veröld." Þórbergur og ástin
 • Þorbjörg var með kynningar á Söguslóðarverkefni í Þórbergssetri og Nýheimum á Höfn
 • Helgina 28. og 29. mars var árlegt bridgemót og hrossakjötsveisla í Þórbergssetri um 50 manns mættu á staðinn
 • Um páskana var opið í Þórbergssetri, góð aðsókn var, bæði Íslendingar og útlendingar
 • Hópur þýðenda 36 manns, þýðendur íslenskra bókmennta á erlend tungumála dvaldi á Hala og hélt hluta af þýðendaþingi hér í lok apríl
 • Þorbjörg og Fjölnir fóru í 5 daga kynningarferð til Skotlands í lok apríl að kynnast uppbyggingu þjóðgarða og kanna samspil þjóðgarða, atvinnulífs og menningar.
 • Helgina 16. og 17. maí voru opnaðar  tvær nýjar sýningar í Þórbergssetri. Sýningin Sagnalist  er  samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Skriðuklausturs styrkt af Menningarráði Austurlands sýningin fjallaði um fermingar áður fyrr, frásagnir, myndir og munir.
 • Einnig var opnuð málverkasýning/ sölusýning í Þórbergssetri laugardaginn 16. maí.  Það var Alda Ármanna frá Barðsnesi við Norðfjörð sem  sýndi verk sín í Þórbergssetri.  Sýningin bar heitið Kona í forgrunni, vegferð í lífi og list.
 • Forstöðumenn Blindrabókasafna á Norðurlöndum dvöldu á Hala yfir nótt í maí, skoðuðu sýningar og áttu kvöldstund saman auk þess sem þeir ferðuðust um umhverfið
 • Helgina 21. og 22. maí var haldið málþing um Einar Braga í Þórbergssetri. Þingið var vel sótt.
 • Opnun Söguslóðar á Suðausturlandi 6. og 7. júní. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli undir forystu Þórbergsseturs. Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði og út á Skeiðarársand. Einnig voru settar upp tvær nýjar sögusýningar í Löngubúð og á Þórbergssetri sem fjalla um mannaferðir og fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa, landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
 • 2009 1Þórbergssetur stóð fyrir tónleikum í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsmessu 29. júlí ásamt sóknarpresti Séra Einari G . Jónssyni og voru þeir vel sóttir. Að þessu sinni voru það þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson sem voru með frábæra ljóðatónleika. Um 80 manns sóttu tónleikana en þeir voru styrktir af Menningarráði Austurlands. Í lok dagskrár var farið í heimsókn að völvuleiði í landi Kálfafellsstaðar og gömul saga um Völvuna á Kálfafellsstað og mátt hennar rifjuð upp.
 • Áætlað er að um 7000 manns hafi sótt sýningar í Þórbergssetri árið 2009 og amk. 20.000 komið í húsið.
 • Forstöðumaður var með móttöku, kynningu og leiðsögn fyrir fjölmarga hópa og leiðsögumaður var ráðinn í 4 vikur til að sinna leiðsögn á sýningar
 • Haustþing Þórbergsseturs var að þessu sinni haldið laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. október. Á þinginu var blandað saman fræðslu, skemmtun og útiveru og komið víða við, þingið var auglýst undir nafninu Jöklar og saga, stjörnur og rómantík
 • Búið er að ráða þýðanda Jay Darcy  prófessor í enskum bókmenntum til að þýða  bókina Steinarnir tala á ensku og gera samning upp á að greiða fyrir það 750.000. Þýðing á Íslenskum aðli á þýsku er lokið og vonandi kemur sú bók út fyrir næsta sumar.
 • 2009 2Þórbergssetur tók þátt í safnahelgi á Suðurlandi fyrstu helgi nóvembermánaðar.
 • Þórbergssetur fékk viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember fyrir starfsemi sína.


Fjölmörg verkefni eru í gangi til hliðar við starf Þórbergsseturs m.a. í samstarfi við Háskólasetrið á Hornafirði, Háskóla Íslands og fleiri samstarfsaðila

 

 • Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur er að skrá bréfasafn Þórbergs í Þjóðarbókhlöðu og greiðir Þórbergssetur laun í einn mánuð við það verkefni.
 • Á næsta ári verður gefin út bók með öllum erindum frá Þórbergssmiðju Háskóla Íslands í mars 2008 ásamt greinum nokkurra fleiri fræðimanna um verk Þórbergs. Umsjón Bergljót Kristjánsdóttir
 • Kristján Eiríksson íslenskufræðingur vinnur nú að þýðingum á skrifum Þórbergs á esperantó og hyggst gefa út á næsta ári. Þar eru verk sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings áður.
 • Pétur Gunnarson rithöfundur gaf út  bókina Þ.Þ Í fátæktarlandi  fyrir jólin 2007. Seinna bindi þeirrar bókar kemur út á þessu ári.
 • Hafnar eru þýðingar á verkum Þórbergs Þórðarsonar á þýsku m.a. fyrir tilstilli Halldórs Guðmundssonar bókmenntafræðings. Þýska bókaforlagið Fisher hyggst gefa út þrjár bækur eftir Þórberg Þórðarson fyrir stóru bókamessuna í Þýskalandi 2011 þar sem Ísland skipar sérstakan heiðurssess. Enginn vafi leikur á að þær þýðingar eru afar mikilvægar  fyrir starfsemi Þórbergsseturs og auka án efa áhuga þýskra ferðalanga á að heimsækja Þórbergssetur og Skaftafellssýslu og kynna sér sögu okkar og menningu.
 • Steinarnir tala hefur verið þýdd á tékknesku. Þýðandi þeirrar bókar, Helena Kadeckova kom í heimsókn í Þórbergssetur í haust og segir að bókin njóti mikilla vinsælda hjá Íslandsvinum í Tékkaslóvakíu og hefur verið endurútgefin þar. Þegar hafa komið tékkneskir gestir í Þórbergssetur sem hafa leitað setrið uppi eftir lestur bókarinnar..
 • Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur vinnur nú að doktorsritgerð um verk Þórbergs Þórðarsonar og er áætlað að það verk komi út á næsta ári. Í rannsókn sinni skoðar Soffía Auður verk Þórbergs í samhengi við íslenska sjálfsævisagnahefð og beinir sjónum sérstaklega að nýstárlegri frásagnaraðferð Þórbergs og þeim áhrifum sem hann hefur haft á íslenskar samtímabókmenntir.
 • Soffía Auður Birgisdóttir sótti námskeið í Englandi þar sem fjallað var um bókmenntir og náttúru . Á næsta ári mun birtast grein eftir hana í bókinni Conversations with Landscapes þar sem hún fallar um sérstakt sambands manns og náttúru eins og því er lýst í Suðursveitarbókum Þórbergs.. Einnig hefur Soffía flutt fyrirlestra um Þórberg Þórðarson og verk hans hér á Íslandi m.a. á Skriðuklaustri og víðar
 • Forlagið hefur hafið endurúgáfu á verkum Þórbergs Þórðarsonar í kiljuformi en mörg þeirra hafa verið ófáanleg . Þegar hafa verið gefnar út bækurnar Steinarnir tala og Bréf til Láru.
 • Fjölmargir erlendir ferðamenn sem heimsækja Þórbergssetur hrífast af þeim textum sem eru á gluggunum í veitingastaðnum og á sýningunni og spyrja hvort ekki sé hægt að kaupa verk skáldsins á ensku eða þýsku. Þau þýðingarverkefni sem komin eru af stað eru því afar mikilvæg og halda þarf  áfram að vinna ötullega að því að verk Þórbergs verði gefin út á næstu mánuðum og árum jafnt á íslensku sem á erlendum tungumálum.
 • Mikill og síaukinn áhugi er á verkum Þórbergs meðal íslensku- og bókmenntanema við Háskóla Ísland. Dr. Bergljót Kristjánsdóttir stóð fyrir námskeiði um verk Þórbergs á  árinu 2006  þar sem margir fyrirlesarar kynntu verk Þórbergs frá ýmsum hliðum og sóttu fjölmargir stúdentar námskeiðið. Þá hafa nokkrir nemendur valið að taka verk Þórbergs fyrir í lokaritgerðum sínum; Atli Antonsson lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði í vor og lokaritgerð hans, sem hlaut ágætiseinkunn og var unnin undir leiðsögn Dr. Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, heitir „Combray og Suðursveit. Samanburður á tilraunum Marcels Proust og Þórbergs Þórðarsonar til að endurskapa æskuslóðirnar.“ Tveir nemendur í íslensku vinna nú að BA-ritgerðum um verk Þórbergs undir leiðsögn Soffíu Auðar Birgisdóttur. Þá unnu þær Jóhanna Guðríður Ólafsson og Lilja Kjartansdóttir síðastliðið vor B.-Ed.-verkefni við Kennaraháskóla Íslands sem nefnist „Kennarinn Þórbergur Þórðarson.“Einnig skrifaði  Arngrímur Vidalín Stefánsson BA nemi B A ritgerð sína um Þórberg og rómantíkina undir heitinu ,,Að elska er að yrkja fegursta ljóð í víðri veröld”
 • Á árinu 2010 er fyrirhugað að gefa út bók með enskum og þýskum textum Þórbergs á gönguleiðum sem eru umhverfis Þórbergssetur. Bókin verður í vandaðri útgáfu og einnig seld sem minjagripur til ferðamanna og notuð sem kynningarefni fyrir bókamessu í Frankfurt árið 2011. Þegar hefur fengist samþykki fyrir útgáfu þessarar bókar og 500.000 kr. styrkur til verksins frá Menningarráði Austurlands og Atvinnu og þróunarsjóði Hornafjarðar
 • Líkur eru á að ekki séu öll verkefni talin upp hér sem tengjast Þórbergi og eru í gangi innan fræðasamfélagsins. Geta má þess að læknir hefur haft samband við Þórbergssetur og óskað eftir að fá að fjalla sérstaklega um ,,Sjúkdómshræðslu Þórbergs”
 • 2009 3Af þessu má sjá að sérstaða Þórbergsseturs sem ferðamannastaðar tengdum menningu og bókmenntum skapar nýja vídd í ferðaþjónustu í Skaftafellssýslum og ef til vill á Íslandi öllu. Þar er þess freistað að byggja á staðbundnum menningararfi, þekkingu heimamanna á náttúru og umhverfi, en einnig kappkostað að vekja til lífsins fornan menningararf og sagnahefð sem byggir á einstakri færni og framsetningu á íslenskri tungu og verkum eins merkasta rithöfundar íslensku þjóðarinnar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549