Skip to main content

Sýslumaðurinn í Hoffelli og Þórbergur

Fjölnir Torfason skrifar:

,,Á ofanverðri 18. öld var sýslumaður í Skaftafellssýslu, er Jón hét Helgason. Hann bjó í Hoffelli í Nesjum og var ættaður og uppalinn í Eyjafirði. Hann átti konu, er Sigríður hét Magnúsdóttir, ættuð úr Fljótsdal. Jón sýslumaður var sagður hafa verið skapbráður, harður og óhlífinn í viðskiptum, enda sérvitur í ýmsum greinum. Hann naut því ekki alþýðuhylli, svo sem sögur greina.”

Þannig hefst frásögn Guðmundar Jónssonar Hoffells í bók hans Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir, af forföður sínum, sýslumanninum í Hoffelli. Þórbergur Þórðarson segir hins vegar um hann í bók sinni, Um lönd og lýði:

,,Ef ráða má í innræti Jóns Helgasonar af þeim gögnum, sem geymst hafa um hann, rituðum og munnlegum, þá sýnist hann hafa verið mikill fyrir sér, skapbráður, einþykkur, harður og óhlífinn í viðskiptum, máski fégjarn, ráðríkur og stundum óréttlátur og að sumu leyti sérvitur.

En þarna er Jóni sýslumanni ekki öllum lýst. Hann átti til mannsparta, sem voru úr öðrum toga spunnir. Í Sýslumannaævum segir: ,,Þó tjáist hann hafa verið góðmannlegur ásýndum.“ Hann reynir að rétta hlut almúgans í Austur-Skaftafellssýslu gegn kaupmanninum á Djúpavogi, í staðinn fyrir að koma sér vel við hann og njóta hlunninda hjá honum, sem þá mun hafa verið alltítt um menn, sem nokkuð áttu undir sér. Þar beið sýslumaður að vísu lægra hlut sakir ónógra sannana, enda við ramman reip að draga, þar sem sá, er sanna skyldi á ósæmilega framkomu og svikin mál og vog, var fulltrúi einokunarverzlunar konungsvaldsins.”

Jón átti svo að segja í látlausum málaerjum alla sína embættistíð, og oft virðist hann hafa átt upptökin að þeim. Hann er hvað eftir annað dæmdur í sektir, en lét sem hann heyrði ekki slíkar rellur og hélt sitt strik eins og ekkert hefði í skorizt og datt ekki í hug að borga sektirnar, nema þá sjaldan að hann komst með engu móti undan því. Lítilsvirðing hans á valdhöfunum sýnist hafa verið alger.

         En þegar til sögunnar koma glæpamál, þar sem við liggur líf manna eða Brimarhólmsþrælkun, þá er sem Jón verði annar maður og á undan sínum tíma í mildi. Slíkum afbrotum reynir hann að hleypa fram hjá sér, eins og hann viti ekki af þeim.”[1]

Af skrifum Þórbergs um fólkið í Nesjunum má greina nokkuð stolt höfundar af þeirri vitneskju að hann sé afkomandi sýslumannsins í Hoffelli, þannig segir Þórbergur í Fjórðu bók:

,,Í næstu kaupstaðarferð eftir konfirmasjónina léði faðir minn mig smala að Dilksnesi í Nesjum. Þar bjó þá Björn, sonur Jóns bónda og söðlasmiðs í Hoffelli. Kona hans var Lovísa Eymundsdóttir, smiðs og fyrrum bónda í Dilksnesi. Björn og Lovísa voru skyld mér. Þau voru bæði komin af Eiríki Benediktssyni, bónda í Hoffelli, og Jóni sýslumanni Helgasyni eins og ég.[2]

Síðar í sömu bók þegar Þórbergur er að ljúka við frásögn af ferð sinni með Guðmundi J. Hoffells austur á Djúpavog segir svo frá:

,,Þó að Guðmundur væri komin af Jóni sýslumanni Helgasyni eins og ég, þá var hann alltaf stilltur og prúður og talaði aldrei til mín einu orði öðru hærra alla leiðina.“[3])

En hver var hann í raun og veru þessi Jón Helgason sýslumaður í Hoffelli, er eitthvað vitað um þennan mann, annað en það sem lesa má úr dómsmálum sem hann var viðriðinn? Jú, það kom mér nokkuð á óvart hversu mikið má finna í skjalasöfnum af gögnum um hann, hér má nefna sérstök áhugamál hans eins og utanríkismál, náttúruverndarmál, sjávarútvegsmál, samgöngumál, landbúnaðarmál og heilbrigðismál svo ekki sé talað um efnahagsmál og löngun hans til að bæta hag þjóðarinnar í utanríkisviðskiptum.

Jón Helgason var fæddur að Svertingsstöðum í Eyjafirði 1731, lærði í Hólaskóla, tók stúdentspróf þaðan 1754 og varð djákni á Grenjaðarstað 1755. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 23. desember 1756 og las lögfræði, sem var frekar fátítt um Íslendinga á þessum tíma. Jón lauk námi sem Cand. Juris 12 febrúar 1759 með 2. einkunn. Hinn 27. febrúar sama ár var Jóni veitt Austur-Skaftafellssýsla og sat hann sem sýslumaður þar, fyrsta árið í Einholti, en síðan í Hoffelli. Eftir fjörutíu ára þjónustu sem sýslumaður okkar Austur-Skaftfellinga var Jón dæmdur frá embætti 24. júlí 1799, en hann lést í Hoffelli 17. september 1809, hafði lengi verið blindur og karlægur, sagður 84 ára og varð um sína daga ,, allra Nesjakarla elstur.”

( Sigurður Ragnarsson, óútgefið handrit bls 1176)

Hvernig var ástand mála í landinu þegar Jón sýslumaður Helgason kemur að Hoffelli 1760, hvernig skyldu aðstæður fólks hafa verið og hvernig var lífsafkoman? Jú, mesti broddurinn var farinn af ísöldinni þó enn kæmu hafísár og harðindi, þjóðin hafði lært að búa við yfirgang útsendara konungs og fann sífellt ný ráð til sætta sig við þetta skelfingarástand, en það versta var eftir, fjárkláðinn og móðuharðindin.

Þegar Jón Helgason var við nám í Kaupmannahöfn var þar einnig ungur piltur, ættaður úr Suðursveit, Jón Eiríksson frá Skálafelli. Með þeim nöfnum tókst góð vinátta er entist meðan báðir lifðu, þeir voru báðir bráðgerir, hugmyndaríkir, framtakssamir og fylgnir sér með afbrigðum, ekki er útilokað að Jón Eiríksson hafi hvatt nafna sinn Helgason til að sækja um Austur-Skaftafellssýslu, ef til vill miklað fyrir honum ,,gæði“ héraðsins.

Þeir nafnar lögðu á ráðin um ýmislegt sem bætt gæti afkomu fólks og gert því lífið léttara, Jón sýslumaður sendi inn til stjórnarráðsins hugmyndir og tillögur að verkefnum eða úrbótum, en Jón Eiríksson sem kominn var í stjórnarráðið í Kaupmannahöfn fylgdi hugmyndunum eftir og studdi þær með ráðum og dáð.

Jón sýslumaður lét fljótt til sín taka í ýmsum málum, hann er talinn hafa hvatt til aukins hreinlætis og beitti sér fyrir því að kaupmaðurinn á Djúpavogi hefði sápu til sölu í verslun sinni.  Þeir nafnar voru miklir áhugamenn um bætta búskaparhætti og eru taldir vera helstu hugmyndasmiðir að tillögum, sem konungur samþykkti 1776, um garðhleðslur til að verja túnin fyrir ágangi búfjár og sléttun og betri ræktun túna. Af garðhleðslum komu eftir það, nokkuð árvisst, umtalsverðar tekjur til bænda í Austur-Skaftafellssýslu meðan Jón Helgason fór með sýsluvöldin.

1777 tókst að knýja fram umtalsverða hækkun á afurðum landsmanna án þess að erlendar vörur hækkuðu í verði.

Á árunum 1778-1779 var ráðist í það verkefni að safna furukönglum í Molde í Noregi, senda átti köngla þessa til Íslands og nota þá til að koma upp viðarskógum hér á landi, en því miður misfórust könglar þessir á ferðalaginu og komu aldrei hingað til lands.

Til gamans og skýringar langar mig að segja litla sögu um þetta atriði. Afi minn Steinþór Þórðarson á Hala var eitt sinn spurður að því hvað hefði verið erfiðast í búskapnum í hans búskapartíð. Afi svaraði að bragði: „Það var eldiviðarleysið, það var óskaplegt, ef til vill ekki svo tilfinnanlegt hér á þessum bæjum [Breiðabólsstaðarbæjunum] því nokkur birkiskógur var í Staðarfjalli á þeim tíma, en fyrir þá sem ekki höfðu aðgang að skógi þá var eldiviðarleysið óskaplegt vandamál og menn notuðu öll ráð til að verða sér úti um eldivið.“ Sagði afi síðan frá því hvernig hann hefði orðið sér til skammar þegar hann gerði grín að sveitunga sínum í fjörustöðu í Bjarnahraunssandi, maðurinn var að safna smásprekum, hafði fundið rúmlega það sem hann gat sett í lófa sér. Afi gerði góðlátlegt grín að manninum, sem svaraði þá með grátstafinn í kverkunum: „Það vita ekki allir hvað eldiviðarleysi er.“

Svo bagalegur var timbur- og eldiviðarskorturinn að það gat orðið mikið mál í vondum árum að safna nothæfu timbri í líkkistu.

Jón sýslumaður Helgason hvatti til rannsókna á fiskistofnum hér við land, mælti með betri umgengni um þessa auðlind og hvatti mjög til þess að útlendingum væru bannaðar veiðar á Íslandsmiðum.

Hann telur í skýrslu frá 1777 að það vanti í landið vagna til landflutninga og smáskip til sjóflutninga, þá sé hægt að draga úr hrossamergðinni, sem bíti upp engjar og traðki landið.

1781 fékk Jón sýslumaður sérleyfi frá Rentukammerinu til handa Austur-Skaftfellingum, að þeir mættu brugga vín sitt heima, áður höfðu sýslubúar mátt búa við það að kaupa vatnsblandaðan spíra af kaupmanninum á Djúpavogi. Þorleifur Jónsson alþingismaður og bóndi í Hólum í Hornafirði, beinn afkomandi Jóns sýslumanns í Hoffelli, segir í ævisögu sinni að spírinn hafi verið vatnsblandaður þannig að hann hafi haft nálægt 8% styrkleika, en oft verið meira vatnsblandaður og þá talinn ódrekkandi, en samt seldur á sama verði.

Eitt þeirra mála, sem þeir nafnar Jón Helgason og Eiríksson hafa að öllum líkindum haft afskipti af og kynni að orka tvímælis í dag, var að hvetja til innflutnings á fræi af Heimulunjóla á árunum 1779-1780. Jurt þessi var af vísindamönnum 18. aldar talin afar hentug til manneldis á Íslandi, Grænlandi og í Norður-Noregi, en er í dag talin hið versta illgresi víða um land.

Haustið 1779 varð mikið mannfall hérlendis vegna harðinda, einkum vestanlands. Árið 1880 urðu Snæfellsnes og Breiðafjörður illa úti í harðindum og mannfelli, 1781 urðu sömu byggðarlög fyrir barðinu á harðærinu og til viðbótar Suðurland og sérstaklega Vestmannaeyjar. Síðari hluta sumars 1881 batnaði tíðarfar til muna og náðu menn nokkrum heyjum um haustið, en 1782 var eitt hið skelfilegasta sem sögur fara af, hafísinn talinn hafa náð 15 mílur suður fyrir landið og allt um kring, með tilheyrandi harðindum og mannfelli.

Í júní 1783 hefst gos í Lakagígum á Síðumannaafrétt, þetta gos í Lakagígum/það er trúlega eitt hættulegasta og eitraðasta gos hér á landi á seinni öldum, fólk, einkum karlmenn dóu úr eitruninni, en fjöldi fólks dó af harðindum þeim sem á eftir fylgdu. Hornafjörður fór ekki varhluta af þessum harðindum, mannfall var mikið og neyðin var stór. Harðindi og kuldi var næstu ár á eftir, Móðuharðindi, en 1785-86 gekk Stórabóla yfir landið og féll þá mikill fjöldi fólks í Hornafirði, einkum yngra fólk og börn.

Það var allt með ró og spekt í kringum sýslumanninn í Hoffelli þessi árin, en 29. mars 1787 missti hann góðvin sinn Jón Eiríksson. Konferensráðið þoldi ekki það mótlæti sem gengið hafði yfir þjóð hans, hugmyndir þess efnis að flytja ætti alla Íslendinga til Jótlandsheiða hugnuðust honum ekki, hann sá engin úrræði og varpaði sér fram af Löngubrú í Kaupmannahöfn. Þar misstu Íslendingar dyggan stuðningsmann og Hornfirðingar góðan vin og frænda.

En darraðardansinn í Suðursveit var að hefjast og örlög Jóns sýslumanns í Hoffelli voru ráðin, eldra fólk í sveitinni vissi að eitthvað skelfilegt var í vændum, það höfðu verið framin helgispjöll í Bæjargilinu á Reynivöllum og það myndi draga dilk á eftir sér. Aðaldansarar í þeim dansi voru, Rannveig á Felli, Björn ríki á Reynivöllum og svo Jón sýslumaður sjálfur.

Rannveig á Felli var Jónsdóttir, fædd í Nesjunum, bjó um tíma í Flatey á Mýrum, en fluttist þaðan að Steinum í Suðursveit og bjó þar í nokkur ár. Rannveig missti mann sinn, Jón Jónsson hét hann, úr bólunni 1786; þau höfðu eignast eina dóttur, Valgerði. Síðar var það dregið í efa að Jón væri réttur faðir Valgerðar. Ýmis gögn hafa komið fram sem styðja þessa kenningu, en hitt þótti fólki einkennilegt að Rannveig, svo frjósöm kona sem hún síðar reyndist, gæti búið með þessum fyrsta manni sínum í ellefu ár án þess að verða þunguð aftur.     Fullyrt hefur verið að þessi fyrsti maður Rannveigar hafi verið keyptur til að gangast við Valgerði og kvænast Rannveigu. Sá sem vera átti raunverulegur faðir Valgerðar hafi á þessum tíma 1775, átt mikið undir sér og haft efni á að kaupa sér frelsara til að bjarga sér.

Rannveig giftist aftur 1787 og eignaðist 2 börn með öðrum manni sínum, Eyjólfi Jónssyni, en hann dó 1790. Næsta ár á eftir eignast Rannveig barn og nefnir faðir þess Svein Sveinsson giftan mann á Gerði en Sveinn þessi hafði verið skipaður tilsjónarmaður Rannveigar eftir að hún missti annan mann sinn. Rannveig giftist enn 1794, Þorsteini Jónssyni og eignaðist með honum barn það sama ár; þótti fólki það nokkuð bráð barneign. Þorsteinn dó 1795 og enn er Rannveig frjáls kona um stund. 1797 eignast Rannveig enn eitt barnið og svo aftur 1798, nefnir hún Svein á Gerði föður þessara barna, nú er ljóst að í slíkt óefni er komið að ekkert verður við ráðið, bæði skötuhjúin áttu yfir höfði sér dauðadóm, eða í besta falli ævilanga Brimarhólmsvist.

Rannveig fluttist frá Steinum að Felli í Suðursveit 1788 og með henni Valgerður elsta barn hennar. Valgerður ratar í það barnung 1792 eða 1793 að verða ófrísk eftir strákskömmina hann Jón á Reynivöllum, son Björns ríka. Það barn var Steinunn móðir Gamla-Steins á Breiðabólsstað, afa Þórbergs.

Á Reynivöllum verða þau tíðindi 1796 að Sigríður dóttir Björns ríka eignast barn og kennir það Guðmundi bróður sínum, aftur eignast Sigríður barn 1797 og eignar það öðrum bróður sínum, Þorvarði.

Eins og sjá má af þessari upptalningu var þetta mikill darraðardans og ekki að undra að mönnum féllust hendur yfir þeim ósköpum sem á gengu. Jón sýslumaður í Hoffelli lét mál þessi lítt til sín taka og þarfnast það nánari skýringar. Honum var ljóst sem öðrum, eins og fram kom í dómsskjölum síðar, að Sigríður á Reynivöllum var fjölfötluð, því til viðbótar var hún nær dauða en lífi af holdsveiki og fullljóst að hún sem einstaklingur hafði ekki neina stjórn á þeirri atburðarás sem hér átti sér stað.

Um mál Rannveigar á Felli fór á svipaðan hátt, sýslumaður skipti sér lítið af því máli, og þá fer að vakna grunur. Var sýslumaðurinn í Hoffelli vanhæfur afskiptum af málum Rannveigar, var hann eða einhver honum nákominn faðir elstu, dóttir hennar, Valgerðar? Var þar komin skýringin á afskiptaleysi hans í þessu máli? Málaferli þessi urðu síðan til þess að Jón Helgason missti embætti sitt sem sýslumaður Skaftfellinga        

Hvað um það, tíminn líður og hann læknar öll sár að lokum, en 12. mars 1888 fæddist á Hala í Suðursveit drengur sem hlaut nafnið Þórbergur, sonur hjónanna Þórðar Steinssonar og Önnu Benediktsdóttur, og takið vel eftir, Þórbergur Þórðarson var afkomandi þessa þríeykis sem steig darraðardansinn í Suðursveit 90 árum áður. Þórbergur var að jöfnu, afkomandi Rannveigar á Felli, afkomandi Björns ríka á Reynivöllum og afkomandi Jóns Helgasonar sýslumanns í Hoffelli. Þórbergur varð síðar meistari íslenskrar orðsnilldar og í meðferð ritaðs máls.

Steinþór bróðir hans fæddist að Hala, 10. júní 1892, Steinþór varð síðar snillingur í meðferð talaðs máls og framsetningu í sagnalist/munnlegri frásagnarlist(?).

Benedikt bróðir þeirra fæddist á Hala, 20. júlí 1894, Benedikt varð síðar listamaður í rökræðum og varð aldrei orðavant í þeirri list.

Það var ekki að sjá á þeim bræðrum frá Hala að það sætu í þeim neinar harðsperrur frá darraðardansinum mikla, þeir voru stoltir af uppruna sínum og hreyknir af forfeðrunum. Þó held ég að ekki sé ofmælt að Þórbergur hafi verið stoltastur af tengslum sínum við Jón sýslumann Helgason í Hoffelli.

   

Heimildaskrá:

Guðmundur Jónsson Hoffell; Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir ; Þorsteinn M Jónsson MCMXLVI

Sigurður Ragnarsson; Óútgefið handrit, Ættarskrár Austur Skaftfellinga í tölvutæku formi.

Steinþór Þorðarson ; Nú nú. Bókin sem aldrei var skrifuð Bókaútgáfa GuðjónsÓ 1970

Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit; Mál og menning 1975

                                     Hafnarstúdentar

 


[1] Þórbergur Þórðarson: Um lönd og lýði, Reykjavík: Helgafell 1957, s. 224-5.

[2]Þórbergur Þórðarson: „Fjórða bók“, Í Suðursveit, Reykjavík: Mál og menning 1975, s. 416.

[3] Sama rit, s. 426.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549