Skip to main content

Að loknu ári 2015

Starfsskýrsla Þórbergssetur fyrir árið 2015

Að loknu ári 2015 kemur berlega í ljós hversu margbreytileg starfsemi fer fram innan Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Aukinn ferðamannastraumur, aukin veitingasala og minjagripasala gefur nú þær aukatekjur sem skipta mestu máli og tryggja í raun fjárhagslegan rekstur Þórbergsseturs, sem viðbót við framlag ríkisins ár hvert. Þórbergssetur fær 10% af brúttórekstri veitinga- bóka – og minjagripasölunnar í sinn hlut. Árið 2015 var mikil aukning erlendra ferðamanna og umfang og sala veitinga og minjagripa jókst verulega frá fyrra ári eða um allt að 60%. Aðsókn Íslendinga hefur dregist saman hlutfallslega en æ fleiri erlendir ferðamenn koma í heimsókn á Hala, njóta þar heimafenginna veitinga , skoða sig um á sýningum og njóta einstaks umhverfis. Jafnframt þessu hefur Þórbergssetri tekist að halda uppi öflugri menningarstarfsemi og árlegir viðburðir hafa fest sig enn betur í sessi.

Vetrarferðamennska er komin til að vera og eykst ár frá ári. Á teljara við inngang Þórbergssetur má sjá gestakomur á árinu 2015 sem að eru alls 160.069 gestakomur. Fjölmennasti sumarmánuður er júlí með 20830 gestakomur og fjölmennasti vetrarmánuður mars með 14868 gestakomur. Það eru aðeins tveir mánuðir á árinum með undir 10.000 gestakomur í Þórbergssetri, - janúarmánuður 2015 og desember er með tæplega 10.000 gestakomur. Sjá má á þessu hversu jöfn aðsókn er nú allt árið.

Framlag ríkisins til rekstur Þórbergsseturs var annað árið í röð 9.8 milljónir og er sá fasti grundvöllur sem gerir rekstur þess mögulegan og er undirstaða þeirrar menningarstarfsemi sem þar fer fram. Tekjur af aðgangseyri lækka enda hefur stjórn Þorbergsseturs lagt til að frítt verði inn á safnið yfir vetrartímann og einnig fá gestir frá gistiheimilinu á Hala frítt á safnið, en á móti kemur sífellt hækkandi leigutekjur af þjónustu við þá. Í umsögnum á þjónustusíðum fær Þórbergssetur góðar umsagnir og er greinilega óvænt og skemmtileg viðbót við dvöl þeirra á svæðinu. Þeir kynnast betur sögu héraðsins og skynja sterkt þann sess sem bókmenntir eiga í menningu og andlegu lífi Íslendinga, allt frá upphafi Íslandsbyggðar.

Samningur Þórbergsseturs við mennta- og menningarmálaráðuneyti rann út í lok árs 2015. Hann var endurnýjaður með undirskrift í mennta- og menningarmálaráðuneyti 29. október 2015 og gildir til loka árs 2018. Samningurinn hljóðar upp á 10 milljóna króna rekstrarframlag af fjárlögum hvers árs. Hafist var handa við að koma upp hljóðleiðsögn fyrir gesti Þórbergsseturs á árinu en ekki tókst að ljúka því verkefni m.a. vegna þess að tekjur komu inn seinni hluta árs og fjárhagsgrundvöllur fyrir verkefninu ekki ljós fyrr en í lok ársins þegar ljóst var að tekjuafgangur var nægur til að ljúka verkefninu.

Helstu viðburðir og verkefni á árinu 2015 eru eftirfarandi:

  • Í janúarmánuði voru 7705 gestakomur í Þórbergssetri á móti 4896 gestakomum árið áður. Alls dvöldu sex mismunandi hópar ljósmyndara á Hala og nutu veitinga og þjónustu í Þórbergssetri, auk nokkurra hádegishópa.
  • Febrúar var annasamur, alls dvöldu um 15 hópar ljósmyndara á Hala í 2 – 3 daga og nutu veitinga og þjónustu. Gestakomur voru 12097 alls og hádegishópum fjölgaði.
  • Í febrúar áttu Þorbjörg og Fjölnir á Hala fund með Ragnheiði Þórarinsdóttur í ráðuneyti mennta- og menningarmála. Farið var yfir starfsemi Þórbergsseturs og herslu áherslur framundan og rætt um undirbúning að nýjum samningi við ráðuneytið sem ljúka þurfti á árinu. Pétur Gunnarsson stjórnarmaður sat einnig fundinn
  • Í febrúar áttu Þorbjörg og Fjölnir einnig fund með fyrirtækinu Locatify og lögðu drög að samningi um gerð hljóðleiðsagnar við sýningar í Þórbergssetri.
  • Marsmánuður var einnig mjög annasamur alls voru gestakomur 14.868 og áfram héldu ljósmyndahópar og erlendir ferðamenn að dvelja á Hala. Mjög margir komu í Þórbergssetur í tengslum við íshellaferðir en brottför er frá Þórbergssetri í 2 – 3 ferðir á dag frá fyrirtækinu Glacier Adventure.
  • Bókmenntahátíð Þórbergsseturs í tilefni af afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar 12. mars var haldin 22. mars. Gestir hátíðarinnar voru Ófeigur Sigurðsson rithöfundur sem las úr bókinni Öræfi og Þórunn Erla Valdimarsdóttir sagnfræðingur sem las úr sjálfsævisögu sem hún var með í ritun og kom svo út núna fyrir jólin, Stúlka með höfuð. Þórunn Erla dvelur gjarnan á Sléttaleiti við að ljúka handritum bóka sinna og er þannig nábúi okkar á Þórbergssetri. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur flutti erindi um landslagslýsingar í Suðursveitarbókum Þórbergs og systir Þórunnar, Lilja Valdimarsdóttir spilaði á horn og þær systur sungu og fluttu meðal annars frumfluttan kveðskap. Bókmenntahátíðin var vel sótt að vanda.
  • Þann 2. apríl voru skemmtilegir tónleikar í Þórbergssetri. Þýski þjóðlagahópurinn Die Marbacher flutti baráttusöngva, skemmtilegur hljóðfæraleikur með gítar, flautu og harmonikku ásamt afar spennandi trommu eða slagverkshljóðfæri. Textarnir voru baráttutextar fyrir betri heimi gegn stríðum og spillingu og fyrir baráttu fyrir umhverfisvernd og voru þýddir og lesnir á íslensku áður en þau sungu . Tónleikarnir voru á sama tíma og haldið var upp á 100 ára afmæli Torfa Steinþórssonar á Hala og urðu eins og hluti þeirrar dagskrá sem sannarlega var í anda Torfa afa á Hala.
  • Í byrjun apríl var þáttur á N4, viðtal sem tekið var í Þórbergssetri, ágæt kynning á setrinu og myndir af sýningunni. Hópur Kínverja var í heimsókn og sannarlega tímanna tákn hvernig veröldin og heimsmynd Suðursveitunga hefur gerbreyst með auknum samgöngum og aukinni ferðatíðni heimsálfa á milli.
  • Hin árlega bridgehátíð og hrossakjötsveisla var síðan 11- 12 apríl. Fjölmenni var að vanda og spilað á 12 borðum. Mótið er haldið til minningar um Torfa Steinþórsson og var að þessu sinni sérstakt afmælismót í tilefni að 100 ára ártið hans.
  • Gestakomur í apríl urðu 10341, aðallega einstaklingar þar sem ekki eru lengur norðurljós eða íshellar sem aðalaðdráttarafl ferðamanna inn á svæðið. Fjórir hópar ljósmyndara dvöldu þó í 3 – 4 daga og allmargir hópar voru í hádegismat í Þórbergssetri. Í lok apríl tóku Þorbjörg og Fjölnir sér vikufrí til að safna kröftum fyrir sumarið
  • Það voraði seint árið 2015 og sumarið var kalt. Mynd frá 1. maí sýnir alhvíta jörð og gróður var mánuði seinna á ferðinni en fyrri ár. Áfram hélt þó aukning ferðamanna og gestakomur voru 12.076 á móti 9213 árið áður. Nemendur Leiðsöguskóla Íslands komu í heimsókn í Þórbergssetur, gistu á Hala og Þórbergssetur sá um sérstaka dagskrá fyrir þau og kynningu á staðnum. M.A stúdentar héldu upp upp á 40 ára stúdentsafmæli í Þórbergssetri með sérstakri menningardagskrá samkvæmt auglýsingu, gönguhópur dvaldi í tvær nætur og fjórir ljósmyndahópar komu að fanga birtu vornæturinnar við Jökulsárlón. Allmargir hópar voru í hádegismat og fóru á safnið.
  • Í júnímánuði voru alls 62 hádegishópar í Þórbergssetri sem fengu hádegismat og fóru margir einnig á safnið. Alls voru 16989 gestakomur í Þórbergssetur í júnímánuði. Auk þess voru fjölmargir hópar í gistingu, kvöldmat og formlegri móttöku þar sem forstöðumaður tók á móti þeim og sagði þeim frá staðnum, bauð á safnið og sagði frá Þórbergi og verkum hans. Má þar nefna áttræðisafmælisveislu sem haldin var hér með móttöku, gönguferð eftir merktri gönguleið inn í Kvennaskála og fræðsluerindi Soffía Auðar Birgisdóttur, ásamt leiðsögn um safnið og upplestri úr verkum skáldsins.
  • Í júní var sett upp ljósmyndasýning í Þórbergssetri. Ljósmyndarinn Iurie Belegurschi setti upp og gaf á sýninguna 28 ljósmyndir, mikil listaverk sem prýða nú veggi Þórbergssetur í veitingasal og Eystri sal. Iurie kemur nú með 10 – 15 hópa ár hvert til dvalar á Hala, ævinlega í þrjá daga í senn. Hann hefur alltaf fyrirlestra um ljósmyndun í hvert sinn í eystri sal Þórbergsseturs og á árinu var keyptur nýr myndvarpi og sýningartjald, þannig að aðstaða þar er orðin mjög góð.
  • Í júnímánuði bárust gjafir til Þórbergsseturs. Gefandi var Pálína Sigurbergsdóttir ættuð frá Rauðabergi á Mýrum. Um er að ræða tvö málverk annað af Lómagnúp og hitt frá Djúpivogi, málarar óþekktir. Pálína og eiginmaður hennar komu með gjöfina færandi hendi og þáðu veitingar og gistingu á Hala.
  • Hinir árlegu tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir 29. júlí kl 20:00. Byrjað var á helgistund en síðan hófust tónleikarnir og voru einstaklega skemmtilegir. Bjartmar Guðlaugsson skáld og tónlistarmaður var gestur kvöldsins. Hann rifjaði upp tengingu sína við Suðursveitina og sagði sögur af sjálfum sér sem hann fléttaði saman við tónlistarflutninginn. Einstakur listamaður þar á ferð, skáld og tónlistarmaður sem hefur nú alfarið helgað líf sitt listinni. Viðburðurinn endað með gönguferð og heimsókn að völvuleiðinu við Hellakletta.
  • Í júlímánuði voru flestar gestakomur á árinu í einum mánuði alls 20835, alls 80 hádegishópar í mat og móttöku og samfelld umferð af fólki alla daga. Ljóst er að vart var hægt að gera annað en sinna gestum og gangandi þessa daga yfir sumarið, en ánægjulegt hversu margir nýttu sér að fara inn á sýningar og kynna sér staðinn.
  • Ágúst var heldur rólegri aðeins 30 hópar í mat og sérstaka móttöku en gestakomur 19644. Ekki tókst að ljúka hljóðleiðsögn vegna mikilla anna og beðið eftir öruggari fjárhagslegri stöðu. Vinna hófst þó við textagerð, að gera textana á íslensku og var Sigrún Birna Birnisdóttir ráðin til aðstoðar við verkið. Kom hún einu sinni í heimsókn, stöðvar voru ákveðnar og sett niður áætlun fyrir grafíkvinnu. Öðru frestað þar til eftir áramót
  • September var annasamur 41 hópur í hádegismat og móttöku og 13906 gestakomur. Og áfram hélt umferðin í október 29 hópar í mat og móttöku, 10996 gestakomur og japanska sjónvarpið kom í heimsókn og tók upp viðtal og tók myndir af safninu.
  • Ljóðahátíð ungra skálda hélt lokadagskrá sína í Þórbergssetri 20. September. Það voru þau Þórdís Gísladóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Lubbi klettaskáld og Stefán Bogi Sveinsson sem lásu úr ljóðabókum sínum. Því miður mættu fáir en erlendir ferðamenn sem voru staddir í setrinu, fengu að heyra ljóð lesin á íslenskri tungu
  • Málþing var haldið í Þórbergssetri 25. október undir heitinu ,,Að hlusta á nið aldanna” Dagskrá var eftirfarandi:

AÐ hlusta á nið aldanna
Sunnudaginn 25. október kl 11:00

11:00 Setning
11:10 Bjarni F: Einarsson fornleifafræðingur; „Álagablettir, völvuleiði, haugar, dysjar og kuml í A-Skaftafellssýslu“.
12:10 Hádegisverður
13:00 Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur; Útræði í Hornafirði frá öndverðu; staða rannsókna
13:50 Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur; Áð í Skriðuklaustri; Ferðir vermanna til og frá
Borgarhöfn í Suðursveit
14:40 Helgi Björnsson jöklafræðingur; Breiðamerkurjökull og jöklafræði
15:20 Sögur um Kambtún rifjaðar upp; upplestur
15:30 Kaffiveitingar
16:00 Ferð í Kambtún ef veður leyfir.

Þingið var ágætlega sótt eða um 30 manns og voru erindi mjög svo áhugaverð.

  • Þann 29 október áttu Þorbjörg og Fjölnir fund í mennta- og menningarmálaráðuneyti og undirrituðu nýjan rekstrarsamning við ráðuneytið til næstu 3ja ára. Frá árinu 2016 – 2018 að báðum meðtöldum. Í samningum eru ný ákvæði um samstarf við Rithöfundasamband Ísland um leigu á fræðaíbúð á Sléttaleiti og Heimspekideild Háskóla Íslands um frekara samstarf um fræðistarf sem tengist verkum Þórbergs Þórðarsonar. Leitast verður við að efna til lifandi umræðu um höfundinn og skoða verk hans í stöðugt nýju ljósi breyttra tíma.
  • Það kom á óvart hversu nóvember reyndist annasamur og sannast þar hversu vetrarferðamennskan er í raun að festa sig í sessi. Í nóvember voru gestakomur 10622 eða lítið færri en í október og í desember 9975 en þá var lokað 3 daga yfir jólin og nær öll umferð féll niður í 3 daga vegna veðurs og lokaðra vega. Hádegishópum fækkaði en þeir sem komu voru mest af asísku þjóðerni, Japanir , Kínverjar og fólk frá Singapore og Thailandi. Þorbjörg og Fjölnir tóku sér frí í nóvembermánuði.
  • Ýmis tæki voru endurnýjuð í Þórbergssetri, keypt var sýningartjald, skjávarpar og stór skjár til að setja inn á aðalsýningu.
  • Í lok ársins 2015 kom út bókin,,Ég skapa, þess vegna er ég“ höfundaverk Soffíu Auðar Birgisdóttur bókmenntafræðings og undanfari doktorsvarnar hennar við Háskóla Íslands. Bókin er fræðileg umfjöllun um verk Þórbergs Þórðarsonar, einstök í sinni röð og hefur víða skírskotun og samanburð við merk bókmenntaverk innlend jafnt sem erlend. Að baki verksins er geysimikil rannsóknarvinna sem varpar ljósi á hversu víðlesinn og menntaður Þórbergur var, - einnig í heimsbókmenntum. Einnig vekja athygli tengingar Soffíu við aðrar fræðgreinar svo sem sálarfræði og kenningar hennar um flökkusjálf og afbyggingu karlmennskunnar í verkum Þórbergs. Þá má nefna umfjöllunina um ljóðskáldið Þórberg og hvernig hann með sjálfsævilegum skrifum sínum skapaði greinilega meðvitað nýtt bókmenntagervi í íslenskum bókmenntum, skáldævisöguna.

Það má segja að á hverju ári síðan Þórbergssetur opnaði árið 2006 hafa komið út einhverjar bækur er tengjast Þórbergssetri, þýðingar eða umfjöllun um Þórberg og verk hans. Það er mikill fengur fyrir Þórbergssetur að fá þessi verk í hendur. Það eflir mjög starfið og vekur nýja hugsun og líf í kringum Þórberg Þórðarson, litla strákinn sem fæddist á Hala fyrir nær 128 árum og er enn svo lifandi á meðal vor í verkum og hugsun. Það eitt verður að teljast mesta afrek hans sem rithöfundar og sýnir betur en nokkuð annað hvernig listamenn orðsins geta haft áhrif langt fram yfir gröf og dauða. Framsýni hans var með ólíkindum, orð hans,, Ég er eins og rithöfundar verða á næstu öld“ hafa sannarlega ræst.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 208
Gestir þennan mánuð: ... 9080
Gestir á þessu ári: ... 17120