Skip to main content

Halldór Guðmundsson segir:

Hví skyldu menn amast við bókinni?
Einsog nær allir sem síðar verða rithöfundar byrjar Þórbergur Þórðarson snemma að skrifa; allt frá bernsku ásækir hann ólinnandi “skrifsýki” einsog hann kallaði það sjálfur. Frá því hann var um tvítugt eru til eftir hann kynstrin öll af efni – bréf, kvæði, dagbækur og greinar sem sumar komu í handskrifuðum blöðum Ungmennafélaganna. Því eitt var að skrifa og annað að gefa út: Fyrst um sinn birtist mjög lítið af skrifum hans á prenti.

Helgi M. Sigurðsson tók á árunum 1986 og 1987 saman skemmtilegt úrval úr áður óbirtu efni Þórbergs, sem að stórum hluta er varðveitt á handritadeild Landsbókasafns-Háskólabókasafns, og gaf út í bókunum Ljóri sálar minnar og Mitt rómantíska æði. Í síðarnefndu bókinni er að finna stuttan pistil undir heitinu “Hví skyldu menn amast við bókinni?” sem Þórbergur skrifaði árið 1922 í tilefni af útkomu bókarinnar Hvítir hrafnar. Það var þriðja bók Þórbergs, því þá hafði hann aðeins sent frá sér ljóðakverin Hálfir skósólar og Spaks manns spjarir. Þau voru endurprentuð í Hvítum hröfnum ásamt mörgum nýjum kvæðum. Á þessum árum var ekki nærri eins algengt að ungt fólk gæfi út efni sitt á bók, bókamarkaður var lítill og frumstæður og einatt þurftu höfundar að safna áskrifendum til að eiga fyrir prentkostnaði. Pistillinn er eins konar málsvörn bókaútgáfu og hefst á þessum orðum:

,,Þú segir, að ungir menn eigi að yrkja, en ekki gefa út eftir sig. Ég segi við íþróttafrömuðina: Þið eigið að iðka íþróttir, en ekki að slíta ykkur út á opinberu íþróttaati. Þeir svara mér og segja: Opinbert at er til þess gert að uppörva æskulýðinn til íþróttaiðkana. Ef aldrei væru höfð opinber öt, myndi íþróttalífið í landinu kulna út von bráðar. Sama lögmáli hlýða andlegar íþróttar. Máttugasta hvataafl ungra manna er frægðarþorstinn, þráin eftir opinberri viðurkenningu. Frægðarmiðill þeirra eru bækur. Rithöfundsefni þráir að sjá hugsanir sínar á prenti, og það er honum hvöt til bóklegrar iðju. Síðar kemst hann að vísu að raun um, að þetta var alt eftirsókn eftir vindi og þá fer hann að vinna verksins vegna."

Þegar líður á pistilinn sækir Þórbergur í sig veðrið í vörn sinni fyrir bókinni og verður þá sjálfum sér líkur. Hefur niðurlagið lengi verið í uppáhaldi hjá mér – kannski af því ég sýslaði sjálfur svo lengi við bókaútgáfu:

,,Og hví skyldu vér amast við bókinni? Hún neyðir þig ekki til að lesa sig. Hún lætur persónu þína afskiftalausa. Hún liggur þarna einmana í horninu í bóksölubúðinni eins og þrítug piparjómfrú. En sá voði vogir yfir þér alla ævi þína, að rithöfundur setjist inn til þín og þylji yfir þér heila syrpu af óprentuðum ljóðum. Bækur eru saklausir hlutir, en rithöfundur eru ægilegar verur."

(Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549