Skip to main content

Erindi Halldóru Thoroddsen

Bókmenntahátíð á Þórbergssetri:

HT130316Mín skrif hafa oftast fjallað á einhvern hátt um samhengi og þessi bók sem ég ætla að lesa úr er engin undantekning þó að hún gefi sig út fyrir að vera ástarsaga sem hún er. Við höfum vanið okkur á það verklag að skoða fyrirbærin einangruð og slitin úr samhengi, úr samhengi sem ætti að taka til manns, siðferðis og umhverfis.  Kerfi okkar  tekur aðeins til mjög þröngs þáttar í þessari jöfnu. Svo gripið sé niður í nærsamfélag okkar, er sjúklingur skoðaður sem efni en hvorki sálar- né félagsvera, vestræn borgaryfirvöld hafa undanfarna áratugi skipulagt borgir í kringum bíl sem þarf að komast hratt og örugglega milli vinnustaðar og heimilis með stoppi í molli við hraðbrautina og hafa í leiðinni stuðlað að sóun og mengun og líka að einangrun og hreyfingarleysi borgaranna. Þannig mætti lengi lengi telja.  
Vinnan er farin að snúast að miklu leyti um eigin vöxt óháð þörfum okkar og við þurfum að henda upp undir helming framleiðslunar svo að hið heilaga hjól atvinnulífsins fái að snúast, sjálfu sér til dýrðar. Okkur er að takast til fullnustu að smækka mannlífið niður í innantóma neysluhugmynd. Hér í þessum heimshluta miðar allt að því að koma okkur í fíkilsástand, svo að við sláum ekki slöku við.
Á meðan allir á vinnualdri sinna hjólinu frá morgni til kvölds, setjum við börn og gamalmenni í einangrun með jafnöldrum svo eðlilegt samhengi rofnar.  Gamalt fólk man fyrri tíma, ber hann um í líkama sínum, gjörðum og orðum. Ellin geymir minni ættbálksins og ætti  að sinna samfellunni því annars verður samtíminn minnislaus og blessuð börnin hefðu gott af meira samneyti við fólk sem komið er af máltökuskeiði. Hver kynslóð hefur þá nútímalegu tilfinningu að hún sé splunkuný.  Hér hafi hún aldrei verið áður. ,,Allt er nú sem orðið nýtt” sagði skáldið.
Tíminn er göldrótt fyrirbæri og breiðir látlaust yfir hið liðna, svo að það sama virðist alltaf nýtt.  Það er miskunarlaus taktur lífsins sem lemst núna á skjáinn okkar kvöld eftir kvöld. Nýjar kynslóðir halda áfram, áfram í fylgd nýja foringjans. Þau traðka nýgræðing, ungan eins og þau, útbreiddan dúk, töfrum ofinn galdradúk. Enginn virðist sjá að dúkurinn er nýgróinn yfir gleymt og grafið stríð. Kjúka brýst kannski uppúr sverðinum… og veifar.
Hvaða merkimiða ætti að setja á þá pólitísku stefnu að allt okkar skipulag og hver gjörð skuli taka til manns, menningar og efnisheims. Eða sálar, siðferðis og efnis?
Gamalt fólk og börn passa ekki inn í hagvaxtarmódelið. En það er svo margt sem passar ekki inn í þetta módel sem ræður skipulagi okkar. Ástin á í vök að verjast. Til dæmis getum við unnið ferskvatn úr sjó. Sjórinn er ofmettaður ferskvatni vegna bráðnun jökla. Það er mjög dýrt að framleiða fersvatn úr sjó. Svo dýrt að enginn óvitlaus fjárfestir vill leggja fé í slíkt, því arðgreiðslur yrðu óásættanlegar. En fjórðungur mannkyns býr við vatnsskort, og mun flosna upp af landi sínu í æ meira mæli vegna hlýnunar jarðar. Og hvert flýr fólkið? Þangað sem það getur fengið vatn að drekka. Hvað ætli milljónir fólks á vergangi kosti ef út í það er farið? Er það sniðugt verklag sem er óhæft til að taka á vanda ef hann rúmast ekki innan hagvaxtar-módelsins sem við vinnum eftir? Snýr blindu auga að orsök og afleiðingu. Segjum svo að stjórn einhverrrar hlutafélagssamsteypu eygi vandamálið og ákveði að bjarga þyrstum, þá er hún umsvifalaust kosin burt, því markmið stjórnarinnar er að sinna arði hluthafa. Það má segja að í slíku alþjóðlegu auðræði sé hvergi hægt að setja fingur á völdin. Það er enginn umræðugrundvöllur við þetta vald. Við störfum ekki með þarfir mannkyns í huga heldur snúningshraða hjóls sem snýst í tómarúmi. Við það erum við múlbundin.
Verður ekki gaman þegar læknar og sálfræðingar fara að skipta sér til dæmis af borgarskipulagi. Gefa út resept sem stuðlar að samveru í almenningsrými og þjónustu í nærumhverfi.  Heimta kannski vinnulag sem rúmar meiri snertingu á milli kynslóða. Eða  þegar hagfræðingar fara að taka mannleg örlög vítt um heim inn í útreikninga sína og þegar stórfyrirtækin verða vistvæn og ráða kannski aðeins mannúðlega verktaka sem borga fólki laun. Þegar maður, siðferði og umhverfi komast inn í ársuppgjörin.  Stærsta verkefni nútímamannsins er að líma veröldina saman.  
Ykkur finnst þetta kannski undarleg byrjun á upplestri úr bók sem fjallar um ástir gamalmenna. En það er ekki hægt að tala um eitt án þess að tala um allt. Verklag okkar hefur stíflað brautir á milli manna og samfélagið er fullt af einmana fólki. Undir merkjum ærandi samskipta er leitast við að stía manninum í sundur koma í veg fyrir samhjálp og samstöðu. Hann Palli er einn í heiminum sem aldrei fyrr. Við skipan mála er oft sem við höfum það að markmiði að velja ávallt það sem leiðinlegra reynist. Blinduð af sýn, þar til afskræmingin blasir við. Of sein til að höndla fegurðina sem gægist upp úr hverri glufu.
     Var þetta ekki fögur draumsýn sem blasti við okkur í árdaga? Hver maður í sínu húsi í svefnbæ, tveir bílar í innkeyrlunni, nokkur þæg börn. Pabbi kom þreyttur heim af hraðbrautinni, mamma lék á heimilistækin, keyrði börn í tómstundir, keypti hluti og henti þegar nýir komu á markað. Hún sprakk reyndar úr leiðindum og heimtaði þátttökurétt. Lífsform okkar hér á fyrsta farrými krefst mikilla hráefna og stríða út um allan heim til að afla þeirra. Til að fóðra þennan óhagkvæma lísmáta verður að næla sér í hráefni með ofbeldi. Græðgin í hráefnin útheimtir grimm og víðfeðm stríð og til þess að stórveldi eða stórfyrirtæki geti rekið sín stríð þarf að rækta upp ofbeldisdýrkun.
Því fer fjarri að hér sé einhver Paradísarheimt til umræðu, mannréttindabaráttan hefur borið ávöxt og lénsherrar miðalda heimtuðu næstum því sama magn vinnustunda af leiguliðum sínum og bankarnir nútildags af meðal-skuldara. Nei verum bjartsýn. Við ráðum yfir tækni til að snúa af ógæfubraut og höfum til dæmis búið okkur til sameiginlega alheimsvitund í eternum og gætum farið að tala saman, jafnvel án þátttöku hluthafa og stríðsherra sem oft er einn og hinn sami.
Kannski er sú ævagamla hugmynd að hægt sé að skipta okkur í hug og líkama upphaf ógæfu okkar. Sú tvíhyggja tók sér snemma bólstað í hugum okkar til að skera á naflastrenginn sem er fastur við mömmu jörð, skera okkur úr samhenginu. Nýlega hafa vísindin afsannað þá meinloku með ótal sönnunum. Hver skynjun líkama okkar breytir huganum og sem betur fer er sú þekking strax farin að lita margar háskólagreinar. En húðin er heldur ekki ysta lag hugar, nei við búum í siðmenningu sem við erum hluti af, svo búum við í náttúru, á jörð og í heimi. Heimurinn er ysta lag hugar. Við erum hjarðdýr úr jarðarleir og sjálfsmyndina lesum við úr augum náunga okkar. Við gætum hvergi annars staðar en á jörðinni dregið andann og nýtt skynfæri okkar.
Þessi bók er ástarsaga og vissulega fjallar hún um fólk sem verður ástfangið. En ástin er víðfeðmt hugtak sem nær ekki bara til rómantískrar ástar, heldur líka til gjafa okkar hver til annarra. Það er ekki hægt að taka einn hluta út úr mannlegri heild án samhengis við allt lífið sem hefur okkur á valdi sér, það er ekki hægt að slíta ástina úr lífssamhenginu. Um allt þetta er gamla konan í sögunni að hugsa á sinn hátt, um samhengið. Sagan fjallar um ástina sem er á vergangi í okkar niðurhólfaða samtíma.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5113
Gestir á þessu ári: ... 23136