Merkur viðburður tengdur skrifum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar

DoktorSoffiaFimmtudaginn 12. maí fór fram doktorsvörn við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá varði Soffía Auður Birgisdóttir ritgerð sína Ég skapa – þess vegna er ég. Sjálfsmyndir, sköpun og fagurfræði í skrifum Þórbergs Þórðarsonar.

Andmælendur voru dr. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og dr. Jürg Glauser, prófessor við Háskólann í Zürich. Dr. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, varaforseti íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu.  Sent var út beint  frá vörninni yfir í fyrirlestrasal Nýheima, á Höfn í Hornafirði, þar sem fjöldi Hornfirðinga gat fylgst með vörninni.

Um efni ritgerðarinnar

Þórbergur Þórðarson var einn helsti rithöfundur á Íslandi á tuttugustu öld og skrif hans spanna víðfeðmt svið bókmennta. Í ritgerð sinni nálgast Soffía Auður skrif Þórbergs frá ólíkum hliðum en áhersla hennar beinist að þeim ritverkum hans sem flestir nú á dögum telja til fagurbókmennta þótt sú hafi ekki endilega verið raunin þegar þau komu fyrst fyrir augu lesenda. Sérstaklega kannar hún þau mörk sjálfsævisögu og skáldskapar sem Þórbergur lék sér iðulega á. Kannað er hvernig Þórbergur færir eigin reynslu í búning skáldskapar, sem einnig má kalla fagurfræði höfundarins.

Rannsóknartilgáta ritgerðarinnar er sú að með skrifum sínum hafi Þórbergur kynnt til sögunnar nýja tegund bókmennta á Íslandi, bókmenntagrein sem sterk rök eru fyrir að kenna við skáldævisögu, og hafi þannig haft mikil áhrif á íslenskar bókmenntir, ekki síst frásagnarbókmenntir síðastliðinna tuttugu ára. Rýnt er í hinar fjölbreyttu sjálfsmyndir Þórbergs og kynnt til sögunnar hugtakið fjölmyndasafn en fjölmynd er hugtak frá Þórbergi Þórðarsyni komið. Sjálfslýsingar Þórbergs sæta miklum tíðindum þegar skrif hans eru tengd við sögu íslenskra bókmennta og sérstaklega er hugað að þeirri nýstárlegu mynd af karlmanni sem blasir við í skrifum Þórbergs.

Í ritgerðinni er leitast við að tengja skrif Þórbergs við æviskrifafræði enda á Þórbergur í áhugaverðum samræðum við þetta fræðasvið og hefur margt til málanna að leggja þótt sú umræða fari fram löngu eftir hans dag. Í lokakafla ritgerðarinnar eru skrif Þórbergs tengd við samtímabókmenntir og sýnt fram á hvernig íslenskir rithöfundar sem skrifa skáldævisögur tengja sig gjarnan við Þórberg á einn eða annan hátt.

Um doktor Soffíu Auði Birgisdóttur

Soffía Auður Birgisdóttir er fædd 25. september 1959 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði og Cand.mag. prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Þá lagði hún stund á framhaldsnám í almennri bókmenntafræði við University of South Carolina í Bandaríkjunum um þriggja ára skeið. Soffía Auður hefur kennt um árabil við Háskóla Íslands en undanfarin ár hefur hún starfað sem sérfræðingur við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn. Soffía Auður er fjögurra barna móðir og gift Þorvarði Árnasyni náttúrufræðingi.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 143
Gestir þennan mánuð: ... 7896
Gestir á þessu ári: ... 18637

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst