Skip to main content

Nýárskveðja 2018

nyarskvedja2018

 Gleðilegt nýár frá Þórbergssetri !


Það berast nýárskveðjur frá Hala í Suðursveit til allra velunnara Þórbergsseturs.    Nýja árið heilsaði með logagylltri sólarupprás í suðri, og geislar sólarinnar dönsuðu og glitruðu á spegilgljándi ísnum. Sólin sem er   ,,helgasta handarverki Guðs, ein persóna Guðdómsins“ svo vitnað sé beint í Þórberg rann rólega eftir braut sinni rétt ofan sjóndeildarhrings. 

Íbúar á Halabæjunum ungir sem aldnir fögnuðu nýju ári með því að fara í leiðangur út á fjöru, sumir á skautum, aðrir sitjandi á sleða og brunuðu um ísinn, -  en flestir á nýmóðins jöklabroddum sem nóg er til af á Halabæjum eftir að jöklaferðir urðu að daglegum viðburðum,- enda hæfðu þeir flestum í hópnum ef miðað er við aldur og fyrri störf. 

Heldur hefði Þórbergi þótt það auðvirðilegur ferðamáti miða við æsifengnar lýsingar hans af skautaferðum unga fólksins á Breiðabólstaðarbæjunum frá fyrri tíð, -  jafnvel í  tungljósi á kvöldin.  En allir skemmtu sér hið besta og þessi fallegi dagur vakti bjartsýni og gleði í hugskotinu, gaf vonir um gæfuríkt ár framundan, og fréttir um hræringar í Öræfajökli og yfirvofandi náttúruvá viku til hliðar fyrir birtu og glæstum vonum um  gjöfult nýtt  ár.

Aðstandendur Þórbergsseturs þakka af alhug fyrir stuðning og velvild í gegnum árin og senda vinarkveðjur til allra þeirra sem hafa hjálpað til að gera hag Þórbergssetur sem mestan síðasta áratug.

 

aramot2018 2Nýtt ár

Morgunn

Sólroðinn merlar á mjöllinni

Ég tipla á tánum og  fanga gleðina

 

En árin telja

Yndisstundirnar, fögnuðurinn og vonin

dansa saman

 

Ég fagna lífinu

Silfurperlur daganna  glitra á nöktum hálsi

Hver veit, hver veit ?

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8873
Gestir á þessu ári: ... 16913