Skip to main content

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs 11. mars 2018

thorbHin árlega bókmenntahátíð Þórbergsseturs verður haldinn sunnudaginn 11. mars næstkomandi og þá minnst 130 ára afmælis Þórbergs Þórðarsonar, en hann var fæddur 12. mars 1888. Spennandi dagskrá þar sem steinarnir sem tala verða umfjöllun fræðimanna og rithöfunda og Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni og lesa upp úr verkum Þórbergs. Vonandi tekst að koma að einhverju tónlistaratriði á milli þátta.

Daginn eftir, 12. mars á afmælisdegi Þórbergs fer stóra upplestrarkeppnin fram í Þórbergssetri og fer vel á því. Það verður því mikið um að vera á menningarsviðinu þessa daga, en einnig er mikill fjöldi ferðamanna alls staðar að úr heiminum gestkomandi þessar vikurnar. Þórbergssetur er sannarlega alþjóðleg miðstöð þar sem mætast margir ólíkir menningarheimar og fer vel á því, þar sem Þórbergur var mikill alþjóðasinni á sama tíma og Hali í Suðursveit var viðmið hans og umfjöllunarefni alla tíð.

Dagskrá bókmenntahátíðar er eftirfarandi:
13:30 Setning, 130 ára ártíð Þórbergs Þórðarsonar
13:40 Fæðing Þórbergs; upplestur;  Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona
14:00 ,,Steinarnir tala," loksins: Þórbergur á mannöld ; Gísli Pálsson mannfræðingur
14:30 Upplestur, Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona
14:40 Um ofurnæma steina, lífræna hugarheima, stórgallaðar skáldsögur ; Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur
15:25 Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur
15:40 Prestar í Austur-Skaftafellssýslu fjalla um leiðir til viðreisnar landinu árið 1771;  Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, sagnfræðingur
16:00 Ragnheiður Steindórsdóttir upplestur
16:10 Kaffiveitingar og spjall

 Tilvalið er að taka sér góðan sunnudagsrúnt í sveit sóla og njóta einstakrar dagskrár.
Allir velkomnir

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 118
Gestir þennan mánuð: ... 8655
Gestir á þessu ári: ... 16695