Skip to main content

Að loknu ári 2017

 

Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2017

Árið 2017 er liðið í aldanna skaut. Á margan hátt var árið gjöfult, veðurfar gott, - og mannlífið á Hala einkenndist af miklum straumi ferðamanna alls staðar að úr heiminum. Sjá má í gistiskýrslum á Hala að markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu nær nú orðið í auknum mæli til alls heimsins, Asíubúum og Bandaríkjamönnum fjölgar mjög, en einnig kemur fólk frá Suður Ameríku, frá Afríku, og frá ýmsum fjarlægum löndum, sem ekki hafa áður verið merkt inn á skýrslurnar. Gestakomur á teljara við aðaldyr Þórbergssetur voru þó færri eða 187.620 árið 2017 á móti 191.681 á árinu 2016. Munar þar mestu að færri gestir komu á háönn yfir sumartímann og mátti vel greina það í rólegri dögum en áður. Engu að síður var árið gott ferðaár og mikið um að vera í Þórbergssetri alla daga. Mikil aukning var í janúar en þó mest í marsmánuði og ræðst það af góðu veðurfari sem hefur óneitanlega mikil áhrif á ferðamannastraum yfir veturinn. Fleiri erlendir ferðamenn nýta sér nú aðgang að sýningu Þórbergsseturs eftir að hljóðleiðsögn með 9 tungumálum er til staðar og mælist það sérstaklega vel fyrir.

Menningarstarfsem Þórbergsseturs var hefðbundin og margir merkir viðburðir til að minnast nú í lok ársins. Bókmenntahátíð í marsmánuði var fjölsótt, svo og bridgehátíð, málþing að hausti og tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju með heimsókn að Völvuleiði alltaf ógleymanlegir atburðir á hverju ári. Helstu verkefnin hafa þó verið að tengjast nútímanum með nýrri tækni, hljóðleiðsögn og fræðslumynd og gera sig þannig sýnileg á veraldarvefnum, - að fylgja eftir nýjustu tækni í miðlun menningararfs með betri kynningu fyrir erlenda ferðamenn. Lokið hefur verið við að gefa út app með textum hljóðleiðsagnar á 9 tungumálum, íslensku, ensku, þýsku, frönsku, spænsku, sænsku, kínversku, japönsku og esperantó. Gestir geta nú hlaðið því niður í símana sína og hlustað á fræðslu um Hala í Suðursveit og Þórberg Þórðarson rithöfund hvar sem er í heiminum, - jafnvel á eigin tungumáli.

Segja má því að jafnframt móttöku fjölda ferðamanna hafi tekist að halda uppi öflugu menningarstarfi, - en einnigað sinna ýmsum áhugaverðum verkefnum er styðja við þekkingu og rannsóknir á merkum fornminjum og tengjast eldri sögnum og munnmælum úr Suðursveit. Má þar nefna að Fjölnir Torfason vakti athygli á merkingum Þorsteins Guðmundssonar frá Reynivöllum um hop Breiðamerkurjökuls á síðustu öld, steinn með ártölum greiptum í lambamerkjaplötu og vörður er sýna jaðar jökulsins frá árunum 1936 – 1954. Nákvæmar skráningar eru til í svokallaðri jöklabók. Þar komu einnig við sögu Skarphéðinn Gíslason á Vagnsstöðum og fleiri ,,vísindamenn alþýðunnar“ og væri það verðugt verkefni að lesa saman merk gögn sem til eru m.a. samfelldar veðurlýsingar og náttúrurannsóknir í dagbókum þeirra. Til stendur að heiðra verk þessara merku ,,vísindamanna“ sem unnu að skráningu náttúrufars og breytinga með merktri gönguleið á svæðinu. Verkefnið er unnið í samstarfi við starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúrustofu Suðausturlands. Einnig var farið um svæðið við Hálsatind í Suðursveit, og teknar myndir úr dróna, til að leita að götum vermanna frá klaustrinu á Skriðu sem komu til sjóróðra í Suðursveit á 16. öld og öruggar heimildir hafa fundist um. Það verkefni er að frumkvæði forstöðumanns Skriðuklausturs og í samstarfi við þá stofnun. Þessar heimildir tóna við gamlar sagnir um dvöl vermanna í Suðursveit og fornminjar sem þekktar eru af verbúðum þeirra við Kamptún í Borgarhöfn.

Gönguleið ömmu var opnuð með pompi og prakt á 94 ára afmæli Ingibjargar Zophoníasardóttur þann 23. ágúst síðast liðinn. Amma Ingibjörg gekk í farabroddi afkomenda sinna þegar gönguleiðin var opnuð, en búið er að stika gönguleiðina, setja upp bekki og gefa út bækling. Verkefninu verður framhaldið á næsta ári og bætt við merkingum og þýðingum á fleiri tungumál. Það er Berglind Steinþórsdóttir ferðamálafræðingur sem hefur haft forgöngu um verkefnið en Þórbergssetur styrkt það fjárhagslega.

Fræðaíbúðin á Sléttaleiti var til leigu fyrir fræðimenn á vegum setursins frá 1. september – 1. Júní. Íbúðin hefur verið vel nýtt, ljósmyndarar og fræðimenn hafa dvalið þar á vegum Þórbergsseturs og unnið að verkefnum sem tengjast Suðursveit.

Lokið var við gerð heimildarmyndar um Þórbergssetur, sem er á heimasíðu setursins og er það mikill fengur fyrir framtíðina að eiga nú þessa heimildamynd um Þórberg Þórðarson og Þórbergssetur á erlendu tungumáli. Nú þegar hafa skapast tengingar við erlenda fræðimenn vegna áhuga þeirra á efni myndarinnar. Í vinnslu er önnur lengri kvikmynd um mannlíf í Suðursveit, smalamennsku og breyttar aðstæður vegna aukinnar umferðar ferðamanna.

Galcier Adventures er afþreyingarfyrirtæki sem er í nánu samstarfi við Þórbergssetur. Starfsemi þess fellur vel að markmiðum Þórbergsseturs að fara með ferðamenn í skipulagðar ferðir með leiðsögn heimamanna, þar sem þekking staðkunnugra nýtist við leiðsögn og fræðslu og haldið er áfram að segja sögur af lífsbaráttu fólksins í sambýli við náttúruöflin. Brottfarir eru frá Þórbergssetri 3 – 4 sinnum á dag og eykur sú starfsemi líka umsvif á staðnum.

Velunnarar Þórbergsseturs eru fjölmargir og á hverju ári berast gjafir til setursins. Hjónin Kolbrún S Ingólfsdóttir og Ágúst Einarsson komu á haustdögum með merka gjöf frá Kolbrúnu til handa öllum íbúum Austur Skaftafellssýslu, en til varðveislu í Þórbergssetri. Um er að ræða frumútgáfu af Ferðabók Eggerts og Bjarna sem gefin var út á dönsku í Kaupmannahöfn 1772. Bókin var gefin út m.a. fyrir tilstuðlan Jóns Eiríkssonar konferrensráðs frá Skálafelli í Suðursveit. Kolbrún var fædd á Höfn, dóttir Guðlaugar Huldu Guðlaugsdóttur fósturdóttur Jóns Ívarssonar kaupfélagsstjóra og Guðríðar Jónsdóttur konu hans og kallar hún þau fósturafa og ömmu. Kolbrún var í sveit á Skálafelli í Suðursveit hjá þeim hjónum Ragnari Sigfússyni og Þorbjörgu Jónsdóttur í tvö sumur, Það var því einkar skemmtilegt að Þorbjörg á Skálafelli var viðstödd afhendingu bókarinnar í Þórbergssetri.

Þórbergur er enn á sveimi í íslensku samfélagi. Leiksýning Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og Sveins Ólafs Gunnarssonar sem sýnd var í Tjarnarbíói í febrúar ber þess greinilega vott, svo og ýmis greinaskrif er snerta verk Þórbergs. Má þar nefna grein Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur í Hugrás vefriti hugvísindasviðs Háskóla Íslands, ritdóma um bók Soffíu Auðar Birgisdóttur um Þórberg ,, Ég skapa, þess vegna er ég“ og svo umfjöllun og greinar Soffíu um Þórberg á ráðstefnum og í blaðagreinum. Allt þetta styður mjög við þá starfsemi sem fram fer innan Þórbergssetur og gefur fræðilegar og sögulegar tengingar á verkum Þórbergs við nútímann og það sem efst er á baugi hverju sinni.

Fjárhagslega stendur Þórbergssetur vel, en grundvöllurinn fyrir rekstri þess eru þær 10 milljónir sem koma af fjárlögum hvers árs og er viðurkenning fyrir því menningarstarfi sem fer fram. Markmið Þórbergsseturs er að vera öðruvísi safn þar sem fjöldi ferðamanna nýtur fræðslu um merkan rithöfund svo og sögu og náttúru svæðisins, - þannig markar Þórbergssetur sér sérstöðu meðal safna á Íslandi. Þórbergssetur er fyrst og fremst menningarsetur í sveit sem starfar með menningarferðaþjónustu að leiðarljósi. Húsnæði Þórbergsseturs þarfnast nú verulegs viðhalds og bæta þyrfti margt svo sem eldhúsaðstöðu og byggja fleiri salerni fyrir ferðamenn auk eðlilegs viðhalds. Hins vegar er erfitt að finna leiðir til fjármögnunar en húsnæðið er í eigu sjálfseignastofnunar sem ekki má skulda. Það gæti því verið viturlegt að safna í sjóð ágóða frá þeim árum þar sem vel gengur og taka síðan skrefin til frekari uppbyggingar þegar færi gefst.

Helstu viðburðir og verkefni á árinu 2017 voru efirfarandi:         

  • Í janúar 2017 komu hvorki meira né minna en 39 hádegishópar eða sérhópar í mat í Þórbergssetri og 11 ljósmyndahópar sem dvöldu 1 – 3 daga í senn. Janúar var því langstærsti janúarferðamánuður frá upphafi með 13.923 gestakomur. Gestir sem koma yfir vetrartímann fá frían aðgang á sýningar í Þórbergssetri og æ fleiri nýta sér hljóðleiðsögn og fræðslu um staðinn.. Michael Kienitz bandarískur ljósmyndari dvaldi á Sléttaleiti yfir jól og áramót og fram í janúar. Hann var að vinna að heimildarmynd um Þórbergssetur sem hann lauk við síðar árinu og er nú inn á Þórbergsvefnum.
  • Ferðamannastraumurinn hélt áfram í febrúar. Þá komu í Þórbergssetur 14.913 gestir, reyndar ívið færri en árið á undan. Alls voru 69 sérhópar í mat í febrúar og fjölmargir ljósmyndahópar þannig að fullbókað var nær alla daga. Þrátt fyrir alþjóðlegan hóp gesta er alltaf boðið upp á íslenskan mat, Halableikju og Halalamb og kjötsúpu og kartöflumenning okkar Halamanna í hávegum höfð. Þannig reynir Þórbergssetur að halda í þjóðlegt menningarframboð bæði hvað varðar líkamlega og andlega næringu til handa ferðafólki. Í febrúarmánuð var frumsýnt í Tjarnarbíói leikverkið Þórbergur í leikgerð Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og Sveins Ólafs Gunnarssonar. Leiksýningin stóð fram á vor í Tjarnarbíó. Þar kom örlagasaga Þórbergs í ástarmálum skýrt fram, en einnig ýmislegar heimspekilegar vangaveltur úr verkum hans, sem eiga sannarlega erindi inn í nútíma veruleika. Eftir frumsýningu vorum við frá Þórbergssetri gestir í miklu hófi í Tjarnarbíói og einnig lögðum við leiksýningunni lið m.a. með því að að taka á móti leikhópnum heima á Hala og örva skynjun á umhverfi og náttúru í Suðursveitinni hans Þórbergs.
  • Marsmánuður var viðburðaríkur með 47 sérhópum í hádegismat, ótal ljósmyndahópum í gistingu og alger metmánuður hvað varðar fjölda gesta í einum vetrarmánuði frá upphafi eða alls 19.249 gestakomur, - lítið færri en í júlí og ágúst. Sauðfjárbændur úr Vestur Skaftafellssýslu komu í eftirminnilega heimsókn, en annars voru erlendir ferðamenn í yfirgnæfandi meirihluta. Veður var með eindæmum gott í marsmánuði og mjög margir komu í Þórbergssetur í tengslum við íshellaferðir í febrúar og mars en brottför er frá Þórbergssetri í 2 – 3 ferðir á dag frá fyrirtækinu Glacier Adventures.
  • Hin árlega Bókmenntahátíð Þórbergsseturs var 19. mars. Að þessu sinni komu þau feðginin Þorleifur Hauksson og Álfdís Þorleifsdóttir ættuð frá Hólum í Hornafirði með áhugaverða fyrirlestra um verk Þórbergs, Ofvitann, Íslenskan aðal, Viðfjarðarskottu og Sálminn um blómið.

     Dagskráin var eftirfarandi.

14:05 Rauðhærði stjörnuskoðarinn á loftinu. Um fyrstu skáldverk Þórbergs Þórðarsonar og viðtökur þeirra; Þorleifur Hauksson íslensku og bókmenntafræðingur ReykjavíkurAkademíunnar

14:40  Listplatið að geta orðið að engu en er samt til – um þjóðsögur, skáldsögur og sannar sögur;  Álfdís Þorleifsdóttir meistaranemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands

15:15  Kvísker- minningabrot í máli og myndum; Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur

15:45 Brotagull, kynning á  Brotagulli, kvæðakverinu hennar ömmu, Helgu Sigurðardóttur frá Hofsnesi; Jónina og Sigrún Sigurgeirsdætur flytja ljóð og söngva.

16:00 Kaffiveitingar

16:20 Hljómsveitin Guggurnar frá Höfn í Hornafirði flytur nokkur lög með kaffinu

Hátíðin var mjög vel sótt og hápunktur hennar var þegar Þorleifur Hauksson hermdi eftir meistara Þórbergi og söng með miklum tilbrigðum lag hans og ljóð ,,Í Möðrudal á Fjöllum“ Enn sannast það hversu verk Þórbergs geta endalaust kallað á nýjar nálganir og hve sérstaða Þórbergs var mikil með yfirburðarfærni í stíl og þekkingu á íslensku máli.

  • Fyrstu helgina í mars var skemmtileg heimsókn í Þórbergssetur þegar afkomendur Ingibjargar og Torfa á Hala í kvenlegg komu í heimsókn í Þórbergssetur, Gengið var um hlaðið á Hala, en síðan sest að kaffidrykkju og skrafað. Að lokum var hlustað á raul Steinunnar ömmu á Hala þar sem hún söng gömlu passíusálmalögin sem Steinunn amma hennar ( f 1823) kenndi henni þegar hún var barn.
  • Að vanda var rólegra yfirbragð í Þórbergssetri í aprílmánuði eða aðeins 10.679 gestakomur og var þar með rólegasti mánuður ársins. Það komu aðeins 12 hádegishópar í mat og ljósmyndarar taka sér frí þegar ekki er lengur hægt að fara í íshellaferðir eða sjá norðurljós á himni. Hrossakjötsveisla og bridgekeppni er því aðalhátíð aprílmánaðar og var að þessu sinni haldin á afmælisdegi Torfa Steinþórssonar á Hala 1. – 2. apríl. Það voru um 40 spilarar víðs vegar að af landinu sem mættu til leiks og um 60 manns sóttu hrossakjötsveisluna. Vinningshafar voru Halldór Gunnarsson og Krisján Mikkelsen með 59,2% nýtingu á spilum.
  • Í maímánuði komu 13.920 gestir í Þórbergssetur og 29 hópar í hádegismat. Nemendur Leiðsöguskóla Íslands komu í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur, gistu á Hala og Þórbergssetur sá um sérstaka dagskrá fyrir þá og kynningu á staðnum. Einnig komu nemendur í leiðsagnarnámi hjá Símenntun Háskólans á Akureyri í sambærilega heimsókn. Locatify komu á staðinn og hafin var vinna við að setja hljóðleiðsögn í Þórbergssetri inn á sérstakt app og var nú hægt að hlaða leiðsögninni niður í síma alls staðar í heiminum. Eykur það enn kynningu á Þórbergi og Þórbergssetri um víða veröld.

Korpúlfar félag eldriborgara kom í safnaheimsókn í lok maí og kökuhópar frá Iceland Travel komu í sérstaka móttöku í Þórbergssetri og fóru um sýningarnar.

  • Í júnímánuði var mikið að gera, margir hópar í gistingu og hádegishópar eða hópar í mat voru alls 96 talsins og gestakomur 18.742. Áfram voru 50 manna kaffihópar frá Iceland Travel einu sinni í viku í síðdegiskaffi með randalínum og kleinum. Hóparnir komu frá því um miðjan maí og fram í september, fengu þeir sérstakar móttökur með kynningu á Þórbergi og verkum hans og fóru á sýninguna.
  • Eins og áður voru júlí og ágúst annasömustu mánuðir ársins og hvern dag var samfelld umferð um Þórbergssetur 700 – 900 gestakomur á dag. Fjölmargir hádegishópar voru í hádegsimat, gestakomur í júlí alls 21093 og 64 hádegishópar og í ágúst voru 20283 gestakomur og 66 hádegishópar. Michael Kienitz ljósmyndari lauk við fræðslumynd um Þórbergssetur og var hún sett inn á vefinn og á heimasíðu Þórbrgsseturs. Tónleikar voru í samstarfi við Kálfafellsstaðarkirkju 29. ágúst á Ólafsmessu. Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður og kona hans Ásta Kristrún Ragnarsdóttir voru gestir kvöldsins og voru tónleikarnir mjög vel sóttir. Alls voru um 25 manns sem heimsóttu völvuleiðið undir Hellaklettum og hlustuðu á söguna af völvunni fornu sem á þar legstað. Sigrún Valgeirsdóttir er að gera stuttmynd um sögu völvunnar markaða af upplifun Sigrúnar sem heillaðist svo mjög af að koma að leiðinu ár hvert og hugsa til álaga þeirra er valvan lagði á prestsetrið á Kálfafellsstað í frumkristni á Íslandi.
  • Septembemánuður á Hala einkenndist af haustverkum, smalamennsku og ,,sláturgerð nútímans“, sem er að úrbeina Halalamb, gera kæfu og bjúgu og undirbúa þjóðlega eldamennsku næsta árs. Alls voru gestakomur í Þórbergssetur 16.438 og 46 aukahópar í mat í september. Kanadísk hjón Fritz Mueller og Teresa Earle dvöldu í fræðaíbúð í Sléttaleiti í 3 vikur í september ásamt tveimur dætrum sínum. Hann er ljósmyndari en hún er rithöfundur og þau hafa áhuga á að gera kvikmynd um lífsbaráttu fólksins og sambúðina við sauðkindur í Suðursveit. Fritz er þegar búinn að taka upp mikið af efni, en bíður eftir að fá frekari styrk í verkefnið. Það verður forvitnilegt að sjá hvað verður en Fritz hefur gert sambærilega mynd í norður Noregi sem fjallar um sambýli manns og sjávar og lífsbaráttu við þær aðstæður í frumstæðum byggðum norður Noregs.
  • Haustmánuðir voru annasamir, gestakomur í október 14,624 og 33 hádegishópar og í nóvember 11606 og 28 hádegishópar. Ljósmyndahópar byrjuðu að koma aftir um leið og dimma tók á kvöldin og alls dvöldu í september október og nóvember 34 ljósmyndahópar í 2 – 4 nætur í hvert sinni. Merkja mátti þó samdrátt og fækkun, hóparnir voru minni en áður og heldur rólegra yfir. Í september lokaðist þjóðvegur 1 austan Hala í vikutíma vegna brotins brúarstólpa í brúnni á Steinavötnum því mikla mannvirki er vígt var árið 1964. Hafði það mikil áhrif í Þórbergssetri, og var mikið að gera þessa daga við að leiðbeina ferðalöngum, fæða þá og tala við fréttamenn með misjöfnum árangri. Þar á meðal var Suðursveitin hans Þórbergs kölluð Staðarsveit og Arnór á Hala titlaður Hjörleifsson í fréttatíma Stöðvar 2, - og fannst okkur Þórbergsunnendum nóg um.
  • Málþing eða haustþing Þórbergssetur var haldið laugardaginn 21 október. Var það með fjölmennari haustþingum síðari ára enda verið að fjalla um VEÐRIÐ.

Dagskrá málþingsins var eftirfarandi:

11:00 Setning
11:10 Hugleiðingar um veðrið í Austur Skaftafellssýslu í fortíð og framtíð; Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur
11:50 Af veðrinu ræðst stemmningin; Um veðurlýsingar í bókmenntum : Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur

12:30 Hádegismatur og stutt göngferð upp að minnisvarða
13:20 Veðrið og Þórbergur; Sigurður Þór Guðjónsson
14:00 Flækjur og óreiða; Í fótspor Þórbergs Þórðarsonar; Dr Katrín Anna Lund prófessor

14:40 Smá hlé
14:50 Sögur og ljóð langafa, Eymundar Jónssonar frá Dilksnesi; Þorbjörg Arnórsdóttir
15:20 Úr dagbókum Steinþórs Þórðarsonar og Torfa Steinþórssonar á Hala, Halldóra Jónsdóttir Menningarmiðstöð Hornafjarðar

16:00 Kaffiveitingar og umræður
16:30 Málþingi lýkur

  • Í október var móttaka fyrir hönd íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar þegar afhent var bókargjöf til varðveislu í Þórbergssetri. Það voru þau hjónin Kolbrún S Ingólfsdóttir og Ágúst Einarsson sem komu færandi hendi með merka gjöf frá Kolbrúnu til handa öllum íbúum Austur Skaftafellssýslu. Um er að ræða frumútgáfu af Ferðabók Eggerts og Bjarna sem gefin var út á dönsku í Kaupmannahöfn 1772. Þetta var skemmtileg stund með góðu fólki, nokkrum Suðursveitungum og forsvarsmönnum sveitarfélagsin auk þeirra hjóna.
  • Rólegt var framan af desember, en mikið að gera yfir jól og áramót. Gestakomur í desember voru 12.150 og 31 hádegishópur. Michael Kienitz ljósmyndari settist að á Sléttaleiti líkt og áður í mánaðartíma yfir jól og áramót og var að taka myndir og fanga vetrardýrðina í hinni ægifögru náttúru í Suðursveit

Öll jólin var fallegt vetrarveður og Breiðabólsstaðarlón var ísi lagt. Nýja árið heilsaði með logagylltri sólarupprás í suðri, og geislar sólarinnar dönsuðu og glitruðu á spegilgljándi ísnum. Sólin sem er ,,helgasta handarverki Guðs, ein persóna Guðdómsins“ svo vitnað sé beint í Þórberg rann rólega eftir braut sinni rétt ofan sjóndeildarhrings. Íbúar á Halabæjunum ungir sem aldnir fögnuðu nýju ári með því að fara í leiðangur út á fjöru, sumir á skautum, aðrir sitjandi á sleða og brunuðu um ísinn, - en flestir á nýmóðins jöklabroddum sem nóg er til af á Halabæjum eftir að jöklaferðir urðu að daglegum viðburðum,- enda hæfðu þeir flestum í hópnum ef miðað er við aldur og fyrri störf. Heldur hefði Þórbergi þótt það auðvirðilegur ferðamáti miða við æsifengnar lýsingar hans af skautaferðum unga fólksins á Breiðabólstaðarbæjunum frá fyrri tíð, - jafnvel í tungljósi á kvöldin. En allir skemmtu sér hið besta og þessi fallegi dagur vakti bjartsýni og gleði í hugskotinu, gaf vonir um gæfuríkt ár framundan, og fréttir um hræringar í Öræfajökli og yfirvofandi náttúruvá viku til hliðar fyrir birtu og glæstum vonum um gjöfult nýtt ár.

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 164
Gestir þennan mánuð: ... 8701
Gestir á þessu ári: ... 16741