Skip to main content

Kolbrá Höskuldsdóttir segir:

Mig minnir að það hafi verið sumarið 1998, er ég var við vinnu á Jökulsárlóni sem staðarleiðsögumaður, að ég fékk mæta gesti í heimsókn, bróður minn og fjölskyldu. Þar sem náttstaður minn var á Halatorfunni komu þau tjaldinu sínu fyrir í grænum hvammi austan við Gerði þar sem þau ætluðu sér að gista.

Eftir blóðbergskryddað lambalæri á grilli og notalegar samræður náði mágkona mín um Sálminn um blómið hjá Tollu (Húsfreyjunni á Gerði) en það þótti sjálfsagt og nánast tilhlýðilegt að kalla til félagskapar Þórbergs á þessari stundu og í því umhverfi sem við vorum stödd í. Hún var strax ákveðin hvað skyldi lesa og umvafin ilmi af gróðri og sumri, með fjöllin háu allt í kring las hún magnaðri röddu hina ljúfsáru ástarsögu Þórbergs af rauðklædda piltkálfinum og síglöðu stúlkulambinu sem eitt sinn áttu sitt ástarrómans hér á Halatorfunni. Þaðan kemur mín tilvitnun:

„Kálfurinn og lambið máttu aldrei hvort af öðru sjá. Þau borðuðu græna vítamínsgrasið sitt saman og hvíldu sig saman og sofnuðu sér saman. Þau tóku sér göngutúra saman og komu saman heim á bæjarstéttina til að biðja um umbasystið sitt. Ef kálfurinn skrapp snöggvast eitthvað burtu, þá fór lambið að leita að honum og kalla á hann. Eins gerði kálfurinn oft, en ekki alltaf, ef lambið brá sér frá. Þegar kalt var úti, lágu þau fast hvort upp við annað. Þá hafði kálfurinn hita af lambinu og lambið hafði hita af kálfinum. Það var opinbert leyndarmál á Hala, að þau væru trúlofuð, þó að þau hefðu ekki sett upp neina trúlofunarhringa. Og þau voru farin að sofa saman á næturnar. Það líkaði nú fólkinu á Hala ekki vel, að þau skyldu vera farin að sofa mikið saman, áður en þau giftu sig. Það væri hætt við, að þau yrðu fljótlega leið hvort á öðru. En Sobbeggi afi sagði, að þetta væri orðið algengt í Reykjavík. Og hann sagði líka, að það væri auðséð, að ástin milli kálfsins og lambsins væri svo andleg, að hún gæti aldrei dáið. Sobbeggi afi hafði aldrei séð eins fagurt trúlofunarlíf.“

Sálmurinn um blómið s.395

(Kolbrá Höskuldsdóttir, starfsmaður Þórbergsseturs.

Hali 10.nóvember. 2004)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549