Skip to main content

Ingibjörg Zophoníasdóttir segir:

Í þessum kafla finnst mér að Þórbergur lýsi sér mjög vel. Til þess að geta náð þeirri persónu sem hann var að vinna með í hvert skipti varð hann að fara í það hlutverk, sbr. ævisögu Árna Þórarinssonar þar sem hann lifði sig inn í persónu Árna.

Sama gerist í þessu tilviki með Sálminn um blómið og lillu Heggu. Þannig má segja að hann upplifi sig í litlu stúlkunni og þessi kafli lýsir persónu hans einnig mjög vel.

Allt í einu hvíslar mildileg rödd í hægra eyrað hans og Sobbeggi afi heyrði, að það var röddin hans Gvuðs: „Gerðu eins og litla manneskjan, þegar hún var lítil sér !“ Það var eins og eitthvað opnaðist í höfðinu á Sobbeggi afa. Hann gretti sig sinni ljótustu grettu, beit saman tönnunum og sagði: „Asninni ég ! Að hafa aldrei dottið þetta í hug í öllum þessum þrenginum ! Alltaf er Gvuð einfaldastur og geníalastur.“
Sobbeggi afi vatt sér úr jakkanum og vestinu og ytri buxunum, henti þeim í hrúgu á gólfið í unnskiptingastofunni og varð allur lítill sér og fór að skríða um gólfið á fjórum fótum og babla við sjálfan sig og slefa út í munnvikin. Hann tosaði sér með skelfilegum erfiðismunum á hnjám og höndum inn í fallegu stofuna, skreið þar frá einum doddinum til annars, reisti sig á hnén upp við þá og lamdi svolítið með lófunum á doddaseturnar og þruglaði eitthvað. Svo skreið hann að karlaskápnum og sat lengi fyrir framan hann og skoðaði karlamyndirnar og potaði sleikjufingrinum sínum upp að þeim og sagði: „A-a a-a úa pú-a.“
Þaðan lagði hann á stað skríðandi til gylltu bókanna í bókaskápnum vestanmegin dyranna í fallegu stofunni.Mammagagga er ákaflega næm og mikil fjarvizkumanneskja. Nú fann hún víst á sér fram í eldhúsið, að það mundi ekki allt með felldu í fallegu stofunni. Allt í einu opnaði hún hurðina, þegar Sobbeggi afi er kominn rúmlega hálfa leið að gylltu bókunum, og segir: „Hvað eiga þessi djöfuls asnalæti að þýða? En að þú skulir ekki skammast þín að láta eins og óviti. Þær verða fallegar á hnjánum nærbuxurnar eftir þetta. “
En Sobbeggi afi var orðinn ákaflega lítill sér og gat engu svarað Mömmugöggu nema „bobo“ og benti sleikjufingrinum sínum á gylltu bækurnar og settist á rassinn sinn.
Sálmurinn um blómið
 (Ingibjörg Zophoníasdóttir)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 5
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549