Skip to main content

Silja Aðalsteinsdóttir segir:

Ég var ekki svo lánsöm að fá að heyra Sálminn um blómið í æsku enda var ég orðin tíu ára þegar bókin kom fyrst út. Það var heldur ekki Sálmurinn sem mest var um hönd hafður á æskuheimili mínu heldur ævisaga séra Árna Þórarinssonar sem faðir minn elskaði næstum því eins heitt og Sjálfstætt fólk og gat þulið upp úr utan bókar. En bækur Þórbergs voru allar til á heimilinu og þegar ég eignaðist börn sjálf var ég fljót að komast að því að í Sálminum leyndist mikill fróðleikur og skemmtun fyrir unga einstaklinga. Einkum unni eldri dóttir mín Sobeggi afa, Eggu la, Mömmugöggu og Sálminum góða um blómið og fékk aldrei nóg af sögunum af þeim. Það er ómetanleg lífspeki í þessari bók sem börn taka opnum huga vegna stílsins og frásagnarháttarins sem auðvitað er einstæður í heiminum.

Sálmurinn um blómið - 6.kafli

Hún stóð oft uppi á doddi frammi við eldhúsgluggann hjá Mömmugöggu og horfði út í heiminn. Það var gaman. Stundum stóð hún lengi á doddinum, öll niðursokkin í að horfa og skoða og athuga. Heimurinn var svo nýr og stór og furðulegur, og allt, sem þar gerðist, var óskiljanlegt, og þá er svo spennandi að lifa í heiminum .

Hinu megin við götuna var stórt hús, sem var í laginu eins og þrjú hús. Það var skrýtið. Fyrir framan það var voðalega stór stafur, sem náði næstum upp í loftið, miklu stærri en stafurinn hans Sobbeggi afa. Stundum hékk tuska á stafnum, og hún hreyfðist til og frá, og samt var enginn maður að koma við hana. Þetta var óskiljanlegt og fyndið. Litla manneskjan skók sig á doddinum og skellihló og benti út í gluggann og hrópaði „Mammagagga ! Tusta keke á sóra saf! ”

Mammagagga skildi þetta, því að hún var svo vel að sér í ensku og dönsku. En Sobbeggi afi skildi ekkert og spurði Mömmugöggu: „Hvað er hún nú að segja?”

„Skilurðu ekki þetta?" þeytti Mammagagga út úr sér hálfvond.

„Nei, ég skil það ekki ", sagði Sobbeggi afi hastur.

„Hún er að segja að tuskan á stóra stafnum fljúgi eins og fluga.”

Sobbeggi afi skrapp nú í stóru bókina sína, sem hann hafði skrifað málið hennar í. Jú, þar fann hann keke, sama sem fluga .

Þetta stóra hús, sem var í laginu eins og þrjú hús, var Eppimannaheimilið. Þar bjó gamla fólkið, sem enginn vildi hafa heima hjá sér. Þar var tuskan alltaf dregin upp í miðjan stafinn, þegar einhver gamla manneskjan fór til hans Gvuðs, af því að þá var fólkið á jörðinni í svo leiðinlegu skapi . Það vill aldrei láta menn fara til hans Gvuðs.

Á Eppimannaheimilinu var hann Jón afi. Það var alvöru afi. Þar var líka hann Jón hinn. Hann var mikill vinur Jóns afa. Stundum sá Egga la Jón afa á gang i úti í Eppimannagarðinum. Það var óskaplega fyndið að sjá hann á þessum stað úr glugga uppi á fjórðu hæð. Og litla manneskjan skók sig alla á doddinum og potaði bendifingrinum út í gluggarúðuna og hrópaði þennan skringilega viðburð til Mömmugöggu: „ Mammagagga! Afi naa ! Afi naa !” Og Mammagagga varð að fara út í gluggann og horfa með henni á afa á þessum einkennilega stað.

Það gat líka komið fyrir, að hún sæi stelpu, sem hún þekkti , hinumegin á gangstéttinni, og stelpan var svo hlægilega lítil, en Egga la svo virðulega stór. Þá hló hún mikið. Stelpan hafði kannski einhverntíma verið vond við litlu manneskjuna. Þá hljóðaði hún fokreið á doddinum: „Mammagagga sjonda séppa ganga naa! ” Og Mammagagga varð að horfa á vondu stelpuna út um gluggann.

Ekkert, sem maður sá í þessum nýstárlega og óskiljanlega heimi, var þó jafn heillandi og dödö. Dödöarnir hlupu og stukku allan daginn eftir Hringbrautinni fyrir neðan gluggann. Og það var eins og þeir væru að kalla persónulega upp til litlu manneskjunnar: dödödödödödö! Og þegar einhverjir stórir eða agalega fallegir dödöar hlupu framhjá, þá klappaði hún lófunum á rúðuna og gaf Mömmugöggu skýrslu: „Mammagagga ! Dödö naa ! Dödö naa Mammagagga! "

Hún stóð oft lengi á doddinum og horfði niður á götuna og var að reyna að skilja leyndar dóma dödöanna. Fyrst voru þetta einhverjar dularfullar ófreskjur, sem gátu drepið börn. En nú voru þeir að verða vinir allra barna, sem dásamlega gaman var að hanga aftan í og ferðast í um heiminn.

Egga la þekkti aðeins einn dödö, og þegar hún sá hann koma hlaupandi heim að húsinu, ætlaði hún alveg að sleppa sér af hrifningu, dintaði sér á doddinum, barði lófanum í rúðuna og hrópaði: „Mammagagga Asapabba dödö naa a-a-a ! "

Einu sinni var hún að leggja af stað til Þingvalla í dödö. Hún vildi kveðja Mömmugöggu og Sobbeggi afa, áður en hún færi í þessa langferð. Hún kom hlaupandi upp í eldhús til þeirra . En Asi var rétt að fara. Hún hafði engan tíma til að standa neitt við, skauzt aðeins inn í eldhúsið og sagði: „Egga la naa dödö unda ess ! " og var samstundis horfin út.

Sobbeggi afi stóð og góndi. En Mammagagga sagði: „Þetta skildi ég allt.

„Hvað sagði hún þá? ” spyr Sobbeggi afi.

„Hún sagði: Litla Helga hérna er að fara út í bíl. Bless ! "

Þá varð Sobbeggi afi dolfallinn af málaklókindum Mömmugöggu.

Sobbeggi afi hlakkaði mikið til, þegar Egga la kæmi heim frá Þingvöllum. Þá mundi hún segja honum fréttir af ferðalaginu og þessum fræga sögustað íslenzku þjóðarinnar . Hún brá sér upp í eldhúsið þegar hún kom, og Sobbeggi afi byrjaði strax að spyrja hana frétta.

„Hver átti dödöinn, sem þú fórst í til Þingvalla?” spurði Sobbeggi afi .

„Hann Asi pabbi, ”svaraði litla manneskjan.

„Var ekki Jóka mamma líka í dödö?” spurði Mammagagga.

„Am Sjókamamma í dödö, ”svaraði litla manneskjan.

„Hvað geturðu sagt okkur fleira í fréttum ?” spurði Sobbeggi afi .

„A bupp,„ svaraði litla manneskjan.

„A-a? Er allt búið?” spurði Sobbeggi afi .

„Am a bupp,” svaraði litla manneskjan.

Þá varð Sobbeggi afi fyrir sárum vonbrigðum.

Egga la kallaði pabba sinn allt af Asa pabba eða Asa og mömmu sína Sjóku mömmu eða bara Sjóku, þegar hún var uppi hjá Sobbeggi afa og Mömmugöggu, en heima hjá sér kallaði hún þau alltaf pabba og mömmu . Á þessu varð henni aldrei nokkurntíma fótaskortur á tungunni. Það undraðist Sobbeggi afi stórkostlega um svo litla manneskju, því að honum hætti stundum við að mismæla sig, þó að hann væri stór og ætti mikið af mælingaverkfærum. Mammagagga og Sobbeggi af  töluðu stundum sín á milli um það, þegar litla manneskjan heyrði ekki til , hvers vegna hún kallaði foreldra sína alltaf svona nöfnum, þegar hún væri uppi á fjórðu hæð til hægri.

Mammagagga var hagsýn kona og sagði: „ Ætli hún geri það ekki til þess að afla sér meiri vinsælda hérna , svo að hún fái ríflegri skammta af umbasyst og kappabuddum og möi ? ”

Sobbeggi afi var lífsspekingur, sem varla þekkti tíeyring frá fimmeyringi, og hann svaraði Mömmugöggu: ,,Segðu ekki þetta ! Litla manneskjan er ennþá svo svipuð honum Gvuði, að henni gæti ekki komið til hugar að hugsa svona. Svona hugsar bara fullorðna fólkið, sem er búið að reka hann Gvuð út úr sér til þess að geta haft sig svolítið á fram í lífsbaráttunni. Ég held hún geri þetta af því, að henni finnst það fyndið hjá sér. Hún vill skemmta Sobbeggi afa og Mömmugöggu . Hún ætlar líklega að verða spaugmaður eins og hún Sjóka og sumir frændur hennar. "

Ekki varð nú Mammagagga sannfærðum, að þetta væri rétt hjá lífsspekingnum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir Cand.mag.
Ritsjóri Tímarits Máls og Menningar.

September 2004

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549