Skip to main content

Gos í Öræfajökli

ÖræfajökullNú þegar Öræfajökull hefur hrist sig í tvö ár er ekki úr vegi að kynna sér sögu jökulsins, en þá einkum eldgosasöguna. Það vakti athygli mína þegar ég las Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hversu staðhæfingasamir þeir eru um tvö atriði sem lúta að eldgosum í Öræfajökli. Þessi tvö atriði ef sönn reynast munu gjörbreyta þekkingu okkar og skilningi á eldstöðinn Öræfajökli og hugsanlega öðrum eldstöðvum honum tengdar.

Ferðabók Eggerts og Bjarna er skipt niður í 914 kafla, en í kafla 782 er fjallað um Öræfajökul, hér segir ,,Öræfajökull er eldjökull sem spúð hefur eldi og vatni. Hann skiptist í tvo hluta, sem báðir hafa gosið. Annar þeirra er Sandfellsjökull. Undir honum stendur prestsetrið og kirkjustaðurinn Sandfell. Austari hlutinn heitir Knappafellsjökull. Kallast hann svo af tveimur kringlóttum jökulþúfum austast á honum, sem líkjast helst kringlóttum hnöppum. Öræfajökull er einn af hæstu jöklum landsins og þeim öllum brattari, því að hann líkt og hangir fram yfir byggðina. Hann er hvítur og bjartur tilsýndar, en er annars eldfjall, sem oft hefir gosið með með miklum eld- og vatnagangi. Næst lýsa þeir tveimur síðustu gosum í jöklinum sem þeir telja þau kunnustu og jafnframt stærst. Þetta eru gosin 1362 og 1727.“

Í kafla 780 segir frá Skeiðarárjökli, þar segir meðal annars. Um páskana 1725 kom feikimikið eld- og vatnsgos úr Skeiðarárjökli nyrðra, með geysilegum dunum og dynkjum, sömuleiðis um hvítasunnuleytið 1727, og var þá samtímis eldur uppi í Öræfajökli. Jafnframt segja þeir að Skeiðarársandur hafi verið ófær allt sumarið 1727 vegna vatnsflóða sem spýttust yfir veginn þegar minnst varði.

Voru ekki einhverjir að tala um jarðskjálfta í Öræfum nokkru fyrir gosið í ágúst 1727 og það sérstaklega tekið fram að þeim skjálftum fylgdi ekkert meira. Er líklegt að þeir jarðskjálftar hafi verið undanfari eldgossins í Öræfajökli um hvítasunnuna 1727.

Hali Jokull 800Snúum okkur nú að annari heimild og ef til vill annari eldstöð sem liklegt er að tengist Öræfajökli. Í bók sinni Undur Íslands segir Gísli Odsson biskup í Skálholti frá miklu eldgosi og flóðum sem urðu á þessum slóðum árið 1629. Í bók Gísla sem gefin var út 1638 segir eftirfarandi um þessa atburði.

Ár 1629.  ,,Svo segir Brandur Pétursson Mýrdælingur, að í austurfjöllum við Grímsvötn hafi brotist upp eldur með eimyrju, vikri og brunagrjóti, vatnsflóð flætt yfir Breiðamerkursand og Skeiðarársand (meira en fimm stórar rastir) og svipt skepnur haga. Hann segir að maður nokkur bláfátækur, kona hans og nokkur börn þeirra hafði orðið undir flóði þessu,  en annar fátækur maður með konu og þjú börn hafi fyrir guðs velgjörð komist af heilu og höldnu eftir fimm daga dvöl á auðri sandeyri, á meðan flóð þetta á alla vegu ruddi um eða lagðist yfir allt, sem fyrir var.“ Síðar í bókinn segir Gísli Biskup  þegar hann fjallar um eldgos,-  ,,og Síðujökull aftur á þessu ári 1638.“

Hér er rétt að taka sérstaklega fram að vegna fjölskyldutengsla Gísla Oddsonar við Kálfafellsstað í Suðursveit verður að telja þessa samtímaheimild um hlaup samtímis á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi vera afar trausta, vitað er að hann vígði til prests frænda sinn Halldór Ketilsson á Kálfafellsstað 1632 gat þá fengið frásögnina af hlaupum þessum frá gjörkunnugum. Biskup áréttar það sérstaklega að allar frásagnir hafi verið sannreyndar.

Jafnframt verður að telja frásögn Eggerts og Bjarna um eldgos í Öræfajökli um hvítasunnuna 1727 og hlaup á Skeiðarársandi af þess völdum vera nokkuð trausta heimild, þar sem þeir virðast af orðalagi hafa rætt við sjónarvotta að hátterni hlaupsins.

Það sem er athyglisverðast við þessar óskildu frásagnir er að hér er sagt frá miklum vatnshlaupum á Skeiðarársandi án þess að um sé að ræða Grímsvatnahlaup, að stórhlaup samtímis á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi  gæti orðið höfuðverkur vísindamanna, en er samkvæmt þessum heimildum staðreynd.

Hvar er þá líklegast að gosið hafi þannig að flóð geti komið á sama tíma bæði niður Breiðamerkursand og Skeiðarársand ????

Skoðum það sem finna má í nýjustu útgáfu Eldgosaannáls Íslands eins og hann er á Wikipedia.

1332 gos í Knappafellsjökli, nú sagt sennilega í Grímsvötnum.

1341 gos í Hnappar vallar jökli, nú sagt ? Grímsvötn

1598 gos í Öræfajökli, nú sagt í Grímsvötnum

1629 gos í fjöllum austan Grímsvatna, hlaup á Skeiðarársandi og Breiðamerkursandi, nú sagt í Grímsvötnum.

1638 Gos á sama stað og 1629 í Síðujökli, nú sagt í Grímsvötnum.

 Eldgos önnur sem orðið hafa eftir landnám og hafa líklega tengingu við Öræfajökul að ég tel eru eftirfarandi.

1354 sagt í Grímsvötnum

1500 sagt í Vatnajökli, frá þessum tíma er 7-9 cm dökkt og gróft öskulag í Suðursveit.

1603 sagt í Grímsvötnum.

1619sagt í Grímsvötnum

1727 um hvítudaga sjá lýsingu Eggerts og Bjarna um eldgos í Öræfajökli og hlaup á Skeiðarársandi.

Síðan gætu fleiri gos komið til álita með tengingu við Öræfajökul, hér er vert að benda á að líklegt er að mikill fjöldi eldgosa á Íslandi hafa ekki verið skráð í annála og finnast því ekki nema með nákvæmum jarðvegsrannsóknum.

Alvarlegast í málinu er að Wikipedia gefur sér tímasetningar og staðsetningar eldgosa á Íslandi sem fer mjög í bága við frumheimildir, sem þegar eru þekktar og allvíða hafa verið birtar.

Það sem Wikipedia hefur upplýst um eldgos á Íslandi eftir landnám er að mínu mati gróf sögufölsun um eidgos á Íslandi.

Nú er spurt, hvaðan koma þær upplýsingar um ártöl og staðsetningar eldgosaá Íslandi sem Wikipedia birtir á veraldarvefnum, hverjir taka þátt í sögufölsun af þeirri gerð sem hér birtist ?

Hafa ber í huga að líf og limir fjölda fólks er í húfi ef og þegar til hamfara kemur til á þessum slóðum.

Það er mjög mikilvægt fyrir alla viðbragðsaðila að þær upplýsingar og þekking sem unnið er með séu þær bestu og nákvæmustu sem völ er á, ekki sögufölsun og blekking.

Fjölnir Torfason bóndi
Hala Suðursveit

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549