Skip to main content

Jón Kristjánsson

Ég valdi kaflann "Vatnadagurinn mikli", vegna þess að mér eru kynni af náttúrunni og fólkinu i Öræfum mjög hugstæð. Ég hef starfs míns vegna ferðast um þá sveit og kynnst mörgum og mér finnst það mikil forréttindi. Mér finnst frásögn Þórbergs af ferðalaginu yfir Skeiðará stórkostleg lýsing á þeim aðstæðum sem fólk glímdi við í viðureigninni við ána og dettur kaflinn oft í hug þegar ekið er á flugferð yfir brýrnar og áin sýnist sakleysisleg og nú nær uppþornuð. Það er friðsælt í Öræfum en nándin við náttúrukraftana og breytileika náttúrunnar er óvíða meiri en þar.

Kveðja,
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Hestarnir frísuðu, og ískalt jökulvatnið rann niður úr þeim. En nú sýndist Skeiðará líka vera búin. Framundan blasti við vatnslaus eyðimörk með Lómagnúp að baki og Skeiðarárjökul leirgráan og sprunginn nokkra kílómetra í burtu til hægri handar.
Jæja,sjáum skinnið! sagði ég við sjálfan mig, þar sem ég lét hestinn ráða ferðinni í humátt á eftir samferðafólki mínu. Skeiðará er þá ekki eins stórkostlegt vatnsfall og maður hefur heyrt talað um. Mér virtist sex dögum síðar, að þessir þrír álar hefðu verið álíka vatnsmiklir og þrjú Markarfljót í rigningartíð. Við létum hestana skokka vestur sandinn, og allir þögðu. Hvers vegna þegja allir? Það skyldi þó vera, að Skeiðará sé búin.
Eftir tæpa tveggja mínútna reið tók að skráma fyrir augum mér sýn,sem ég hef aldrei getað losnað við síðan. Upp fyrir gráa auröldu nokkurn spöl fyrir framan okkur glampaði í sólskininu á mórauða vatnshóla, stróka og boðaföll, sem ýmist hófust eða duttu niður eða þeyttust hvítfyssandi áfram á fleygiferð. Í þessari sýn, sem stakk svo í stúf við dauða eyðimörkina, var eitthvað ægilega tryllt og dularfullt. Þegar við komum lítið eitt nær, var þetta ekki ósvipað til að sjá endalausri þvögu af úlfaldalestum á þeysihlaupum niður sandinn.
Það skipti svo að segja engum togum.Við erum áður en minnst varir komin fram á bakka á vatnsbreiðu, sem líkist meira hafi en nokkru vatnsfalli sem ég hafði áður séð. Mér hefur aldrei brugðið eins í brún. Þessi hafsjór er áreiðanlega engum fær, hugsaði ég ósjálfrátt upp aftur og aftur. Við hljótum að verða að snúa við. Allt yfirborð þessarar tröllauknu, leirmórauðu hafrastar þaut framhjá okkur með flughraða, hófst hér og þar í háa hunka, féll svo niður í djúpa dali, vafði sig í hendingskasti í risavaxna ströngla, sem byltust um í hvítfyssandi boðaföll, hringsnérist í sogandi iðusveipi og skrúfaðist upp í drýli og stróka, en gnýrinn af hamförum þessarar brimrastar var svo mikill, að við áttum fullt í fangi með að heyra hvert til annars. Og þegar ég leit augunum kringum mig af vatnsfluginu, sýndist allt umhverfið hringsnúast eins og voldugt karúsel.
Það var undir eins sýnilegt, að þessi ókjör voru engum hesti fær, þar sem við komum að þeim. Þeir Runólfur í Skaftafelli og pósturinn tóku sig því úr hópnum og riðu nokkra leið niður með flaumbreiðunni, ef hugsazt gæti, að einhvers staðar mótaði fyrirbroti. Það gekk alveg fram af mér, að nokkrum óbrjáluðum manni skyldi geta dottið í hugað leita að broti á þessu hafsævi.Við hin fórum af baki og horfðum á eftir þeim. Hestarnir lygndu þunglyndislega aftur augunum eins og þeir fyndu á sér, að nú væri ekki skemmtilegt í vændum. Snertikipp fvrir neðan okkur lögðu þeir Runólfur og póstur út í straumhafið. En þeir voru varla lausir við land, þegar hestarnir undir þeim voru að stingast á sökkvandi kaf og snarsneru til sama lands aftur.
En þeir gáfust samt ekki upp við svo búið, létu hestana eigra lestaganginn ennþá alllangan veg niður með ánni og sýndust aldrei hafa augun af straumfallinu. Loks námu þeir staðar nokkur augnablik og horfðu vestur yfir. Því næst beindu þeir hestunum að vatninu og settu þá útí. En þarna fór allt á sömu leið og áður, hestarnir á bólakaf og sneru í einu vetfangi aftur til sama lands. Auk þess fór að verða meiri hætta á sandbleytum eftir því sem lengra dró niðureftir. Þarna sneru þeir við og héldu aftur upp með ánni þangað sem við biðum með augun límd við hverja hreyfingu þeirra. Þetta leit ekki glæsilega út. Ekki fýsilegt að verða að snúa aftur í þessu einmunaveðri og máski kominn úrhellingsslökkvandi í fyrramálið. Þetta var rigningartíð. Og við stödd milli tveggja höfuðsanda og stórvötn á báða vegu.
Kannski var reynandi að gera úrslitatilraun svolítið ofar. Við stigum á bak og riðum dálítinn kipp upp með ánni, þangað til við komum þar að, sem ekki sýndist með öllu vonlaust um að gera mætti nýja tilraun. Við námum staðar og litum yfir fljúgandi straumfallið. Síðan lögðu þeir Runólfur í Skaftafelli og póstur hestunum á nýjan leik úti vatnshafið, en við hin fórum af baki og horfðum til ferða þeirra. Hestarnir fetuðu sig gætilega út í kolmórauðan strauminn,skref fyrir skref. Í hverri hreyfingu þeirra birtist mikil lífsreynsla,sem þeim hafði auðsæilega tamizt að draga af gagnlega lærdóma. Vatnið hraðdýpkaði ekki, heldur sté hægt og hægt hærra og hærra upp eftir þeim.  Brotið, ef brot skyldi kalla, virtist liggja þannig, að þeir urðu að beina hestunum skáhallt undan straumnum. Þannig mjökuðust þeir lengra og lengra niður eftir flóðinu og fjær og fjær stríindinni, sem við horfðum af á eftir þeim. Vatnið var sigið upp undir miðjar síður. Úr þessu virtust öll sund lokuð um afturhvarf til sama lands. Og ég beið þess í ofvæni við hvert skref að sjá hvað nú yrði djúpt, næst þegar þeir stigju niður framfætinum. Sund í þessum brimsollna flaumi myndi kasta hestunum flötum, og tveim hraustum drengjum yrði færra á Íslandi. En vatnið hélzt í sömu hæð.Það var næstum óskiljanlegt, að svona mikill og úfinn hafsjór skyldi þó ekki vera dýpri en þetta. Þannig lónuðu þeir áfram sniðhallt undan straumnum alllangan veg niður eftir og röskan þriðjung af breidd árinnar. Þá viku þeir hestunum til hægri handar og stefndu nú beint yfir að vestra landinu. Við þessa stefnubreytingu urðu hestarnir þverir fyrir straumþunganum og í sömu andrá hóf vatnið sig upp fyrir miðjar síður. Það var einmanaleg sjón að sjá hestana með mennina einsog svolitlar strýtur upp af sér sveima þarna áfram úti í þessu breiða, flaumósa hafi, líkt og sökkhlaðna smábáta og maður stendur á öndinni á fjarlægri strönd og býst við að sjá þá hverfa þá og þegar niður í djúpið. Hvílíkir undrakraftar, sem þessum blessuðum skepnum hljóta að vera gefnir, að geta taðið af sér hvílíka straumskriðu, sem bylur á þeim hvíldarlaust upp fyrir miðjar síður!
Þegar þeir áttu ófarinn allt að þriðjung vatnsbreiðunnar, breyttu þeir enn um stefnu og brutust nú skáhallt á móti flaumþunganum. Straumflugið brotnaði hvítfyssandi á brjóstum þeirra og klauf sig freyðandi aftur með síðunum, og þeir sýndust streitast áfram í rykkjum. Hægt og hægt mjókkaði hafið milli þeirra og vesturstrandarinnar. Og loksins - guði sé lof - sjáum við hilla undir þá uppi á sólbjartri ströndinni fyrir handan, næst um beint á móti þar sem við biðum. Hér virtist afstaðið óskiljanlegasta kraftaverk í heimi. Þeir höfðu enga viðstöðu á vesturströndinni. Það varð að hafa hraðan á. Þetta brot gat breyzt í ófæru á stuttri stund. Þeir lögðu hestunum tafarlaust aftur út í og röktu sömu krókaleiðina til baka, og nú sýndist vatnið stíga ívið hærra en þegar þeir fóru vestur yfir. Var þetta brot að verða ófært?
Mér fannst eins og þeir kæmu úr svaðilför úr fjarlægu landi, þegar þeir komu seint og síðar meir aftur upp á ströndina til okkar. Vatnið streymdi niður úr hestunum, og mér sýndist þeim hlyti að vera ákaflega kalt. Samstundis tókum við að tygja okkur til. Gjarðirnar voru hertar. Svo fórumvið á bak. Löguðum okkur til í hnakknum. Mátuðum fyrir taumhaldinu. Gefðu tauminn hálf lausan! Stattu ekkí í ístöðunum! Haltu þérfast í faxið. Horfðu ekki á strauminn! Einblíndu á Lómagnúp. Hún heyrir ekkert... Hestarnir voru komnirárás framaf hafsbakkanum.FyrstRunólfur í Skaftafelli, svov Runólfur í Svínafelli og pósturinn með Margréti á milli sín og ég fast á eftir þeim. Runólfur reið forstreymis og hélt um tauminn á hesti Margrétar. Pósturinn hinumegin og hafði gætur á hreyfingum hennar í hnakknum. Vatnið var komið upp í kvið og þrýstist í sama vetfangi upp á miðjan síður. Hestarnir svömluðu skref fyrir skref sniðhallt niðureftir straumflákanum. Stundum var eins og þeir svifu í rykkjum afturábak. Ef hestur hrasaði fæti þá væri allt búið. Ef straumflugið skákaði honum tvö skref til vinstri, þá væri ekkert fyrir nema botnlaus dauðinn. Það er ekkert annað líf til, þegar maður er staddur úti í miðriSkeiðará eftir fimm daga haustrigningu. Bilið milli okkar og
austurlandsins varð breiðara og breiðara. Vesturströndin var ennþá í órafjarlægð.
Loks sneri Runólfur í Skaftafelli hesti sínum þvert vestur yfir. Við fylgdum á eftir. Straumflugið hoppaði upp fyrir miðjar síður. Hestarnir hölluðu sér ennþá meira á móti vatnsaflinu. Stundum var eins og þeir lægju flatir í vatninu. Stundum eins og þeir hentust til hliðar upp á móti straumnum. Stundum eins og þeir losnuðu við botninn og flytu með flaumiðunni. Straumhafið valt áfram í einni lotulausri síbreiðu eins og stormúfinn brimsjór,kolmórautt og hamslaust.Allt umhverfis sýndist á ferð og flugi. Vesturströndin rann upp til jökla eins og endalaus trossa af járnbrautarlestum. kýlaust himinheiðið hringhvolfdist yfir höfði okkar. Og Lómugnúpur, sem átti að halda Margréti lóðréttri á hestinum,var á harðahlaupum inn til óbyggða. Þarna situr hún í hnakknum, elskan litla, og riðar dálítið út í hliðarnar, dregst annað veifið að straumnum,eins og hún sé dáleidd af seiðmögnuðum hreimi einhverra kynngikrafta, en svo er eins og hún ránki við sér og tekst að tosa sér aftur upp í lóðrétta stellingu. Runólfur og póstur ríða meðfram hesti hennar. Og nú titrar hún af átökunum að halda sér í faxið. Ég gæti þess að halda hesti mínum straumhallt aftan við hömina á hrossi hennar. Það er alltaf vissara að vera ofan til á brotinu. Straumfussinn bylur á hestinum og flýgur framhjá okkur í ótal myndum og teiknum: bungandi hólar, uppmjóar strýtur og strókar, hringsveipir, sem líkjast óðum hundum, sem hlaupa kringum skottið á sér, veltandi holskeflur, risavaxnar kryppur, sem skjótast upp úr jökulmorinu,-ein svarrandi flaumbreiða trylltra kynjamynda,sem geysast upp á yfirhorðið og sogast niður í leirmyrkrið í hrotlausum umskiptum og endurtekningum.
Loksins sneri Runólfur í Skaftafelli hesti sínum skáhallt upp í strauminn. Síðan viku þau Runólfur í Svínafelli og pósturinn og Margrét hestum sínum í sömu stefnu og svo ég mínum. Straumurinn valt hvítfreyðandi upp á bóghnútur á hestunum og bullaði í gúlgrandi görðum aftur með síðunum og nú virtust þeir hendast áfram upp eftir vatnsflóðinu eins og þeir væru í kapphlaupum við eimvagnatrossuna á vesturströndinni. En í raun réttri boluðu þeir sig áfram hægt og sígandi á móti straumaflinu, sem gnúði á brjóstum þeirra. Skref fyrir skref þokuðumst við sniðhallt nær vesturströndinni. Þetta sýndist aldrei ætla að taka enda. Ennþá bogaði vatnið upp á miðjar síður. Seint og síðar meir tók þó hestana að bera hærra yfir straumflötinn. Hann varð í kvið, svo í hné, síðan milli hnés og hófskeggs, og að endingu hófu þeir sig upp á sólbakaða strönd fyrirheitna landsins, gegnvæstir og kaldir, hristu sig, frísuðu og lötruðu svo áfram. Ég leit snöggvast um öxl. Þá fyrst skildi ég það innan frá, að hér hafði gerzt eitt af furðulegustu átökum í vatnasögu Íslendinga.
Er nú Skeiðará búin?
Skeiðará búin? Maður veit aldrei, hvenær Skeiðará er búin. Það er ekki stanzað. Það er eins og ennþá sé eitthvað eftir. Það er alltaf siður að stanza, þegar allt er búið. Það er víst ekki ennþá allt búið. Og það leið ekki á öngu. Rétt fyrir framan okkur brunar framstærðar vatnsfall, nýtt Markarfljót. Ennþá fossandi straumur uppá miðjar síður.
Er Skeiðará nú búin?
Við riðum vestur dálítinn aurrima,og handan við hann valt fram ennþá annað stórfljót uppundir miðjar síður. Vestan við það lá leið okkar upp á allháa sandöldu. Þaðan sást yfir miklar
víðáttur. Skeiðará var loksins búin. Ég dró úrið upp úr vasanum. Það vantaði tíu mínútur í tíu. Nákvæemlega tvær klukkustundir höfðum við verið að komast yfir Skeiðará. Okkur var
innanbrjósts eins og engir erfiðleikar yrðu framar til í lífinu, og þó voru ekki nema liðugir 20 kílómetrar út að Núpsvötnunum með sandbleytum í botni.
Við fórum af baki á sandöldunni, því að nú var allt búið. Margrét tók upp sígarettupakka og bauð samferðamönnunum. Dagmálasólin skein í fögru heiði. Í norðaustri fvrir handan vatnabreiðuna stóð Skaftafell í grænum sumarljóma. Þarna neðan til í hæðartungunni, niðri undir sandinum, djarfar fyrir gilinu, kannski fegursta bletti á öllu Íslandi. Í norðri og norðvestri blasa við leirgráir skriðjöklar. Þeir búa til Skeiðará. Í suðri og vestri umgerðarlaus sandslétta með tíbrá og hillingum. Lómagnúpur við heiðan himin lengst í vestri. Vatnið gufar upp af hestunum,og gráir kerlingarreekir standa hér og þar upp úr heitri sandauðninni.
Svo kvaddi Runólfur í Skaftafelli og hélt af stað heimleiðis. Við biðum á sandöldunni, meðan hann var að komast austur yfir vatnaflákana. En hvað hann sýndist langt frá guði, þar sem hann stóð eins og lítill tittur upp úr vatnshafinu í fjarska.
Ég gekk fram og aftur um sandölduna og orti hjartnæmasta ástarkvæði, sem ort hefur verið á íslenzka tungu. Það hefur aldrei verið birt á prenti.
En það er verið að kompónera lag við þaðvesturí Ameríku.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549