Skip to main content

,,...búinn að kasta ham og hempu"

Séra Fjalarr og BetaÍ Reykjavík, þar sem holtið langt ofan við sundin blá liggur andspænis Esjunni, hafa Fjalarr Sigurjónsson og Beta Einarsdóttir fyrverandi presthjón á Kálfafellsstað hreiðrað um sig í gömlu snotru einbýli. Innanstokks minnir ómetanlega á skrautbúið heimilið á Kálfafellsstað, vantar ekki meira en græna velli Suðursveitar og suðurströndina í gluggann. Steinar, myndir, blóm, tálgaðir kallar og skrautlegir teppisbútar um allt og innanum Fjalarr iðandi með axlabönd á ljósblárri skyrtunni og Beta í hvítum kjól með rauðum stórum doppum og með rauða og bláa slæðu gefur kaffið. Þær urðu ekki betri prestfrúrnar og Fjalarr varð í hugum sveitunga sinna holdi klædd táknmynd prestsins.

Hvernig getur svona fólk lifað svona á graslausu holtinu, hvað er það að gera? Er um að ræða annað líf eftir tuttugu og sex ár í Suðursveit? ,,Ja, kannski er þetta blekking, kannski er maður dauður” Er ekki erfitt fyrir gamlan prest að messa ekki? ,,Það er kannski erfitt jú, en það má ekki gleyma því hvað margir verða fegnir. Ég held að ég hafi verið búinn að segja þeim alveg nóg. Þó var ég ekki búinn að sliga þá, það held ég ekki. Var hófsmaður í messuhaldi, þó kannski ekki í öðru.” Varst´u búinn að segja þeim allt? ,,Eigum við ekki að orða það þannig að ég hafi verið búinn að segja þeim allt sem ég gat sagt þeim. Þetta var ákaflega fátæklegt sem maður hafði í mal sínum og ekki mikið mál að losa sig við það. Það er ekki hægt að miða við þessa gæðinga sem reiða vitið í sekkjum.“ Hverjir eru það? ,,Þeir eru þar og hér, og allsstaðar. Annarhver maður er haldinn þessum kvilla.“

Ert´ orðinn virðulegur borgari á eftirlaunum? ,,Ég get ekki sagt að ég sé virðulegur borgari á eftirlaunum. Ég er bara venjulegur maður, búinn að kasta ham og hempu. ,,Er hægt að hugsa sér nokkuð guðlegra, spyr sá sem ekki veit?“ Prestar eiga sér sem sagt viðreisnar von? ,,Ég vil ekki halda öðru fram að svo stöddu.“ Í hvað fer dagurinn hjá sr. Fjalari? ,,Á ég nú að fara að tíunda það allt saman. Sumt af því á nú ekki að festa á blað. Annað af deginum fer í að góna upp í loftið og mæla göturnar.“ Var því ekki lokið hér? ,,Þegar ég var hér fyrir langa löngu þá var bærinn svp lítill, borgin hefur þanist út og það er mikið af slóðum sem kanna þarf. Annars geri ég í rauninnii ekkert. Kominn á þann punkt að þurfa ekkert fyrir lífinu að hafa. Ég er í rauninni upptekinn við að gera ekki neitt“ Hvernig er það? ,,Undur og býsn notalegt. Annars er það ærið verk að draga andann og vera til. Það er nú eiginlega fyrsta stafrófið í tilverunni.“

Beta EinarsdóttirÉg spyr frú Betu að því hvort hún sakni Suðursveitarinnar. ,,Jú ég geri það, svo sannarlega, bæði fegurðarinnar og fólksins, sérstaklega á vorin þegar maður er svo mikið var við fuglana og allt var að gróa“ (,,maður hafði nú alls konar fugla fyrir augum allt árið“, skýtur Fjalarr inn í) En er ekki einhver léttir fólginn í því að flytja úr Suðursveitinni? ,,Það hefur ekki létt neinu af mér. Það er auðvitað að vissu leyti gott að skipta um umhverfi og það besta við það er að ég fór að geta unnið við það sem ég var búin að læra. Ég hefði svo sem ekkert þurft að fara til Reykjavíkur til þess, ég hefði vel getað hugsað mér að setjast að á Höfn.“ Þú ert að vinna á DAS (Dvalarheimili aldraðra sjómanna)? ,,Ég er að vinna á DAS. Ég er lærð húkrunarkona og vann sem ung stúlka á Grund og kunni strax vel við mig innan um roskið fólk. Ég hefði valið mér framhaldsnám í öldrunarhjúkrun. Í þá daga var það fátítt að ungar hjúkrunarkonur færu að vinna á öldrunarstofnun, þetta voru mest rosknar konur. Það eimir enn eftir því að hjúkrunarkonur á öldrunarstofnunum séu í eldri kantinum. Þær yngri vilja fara í eitthvað sem þær telja meira spennandi. En ég kann mjög vel við mig á þessum stað.“

Séra Fjalarr SigurjónssonÞau voru ellefu ár í Hrísey og tuttugu og sex í Suðursveitinni. ,,Ég hafði ekki séð Suðursveit fyrr en við fluttum þangað“, segir Fjalarr. Við komum þó þar sumarið áður gagngert til að skoða okkur um, en það var svo mikil þoka að við sáum varla í undirhlíðar fjallanna, hvað þá meir. Ég vissi þvi ekkert hvað út í hvað við vorum að fara. Einangrun í Hrísey var mikil en hún var töluverð hér líka. Í Hrísey þurfti maður að fara á milli í bátskel til að sinna kirkjunni og fólkinu á Árskógsstöndinni. Hér þurfti maður að fara yfir Jökulsá á annari skel til þess að messa í Öræfunum. Breytingin hefur orðið mest í samgöngum. Við náðum í skottið á þeim tíma þegar flest var óbrúað, stórfljótin Jökulsá og Skeiðará og ótal sprænur af öllum sortum léku lausum hala milli fjalls og fjöru. Nú svífur maður þetta í upphitaðri dós.“

,,Ég ætla að biðja þig“, segir séra Fjalarr, ,,að enda viðtalið svona: ,,Ef einhverjir glugga í þessi skrif í gömlum sóknum þðá biðja þau af mölinni að heilsa í hagana sunnan jökla.“ Og að þessum orðum sögðum er auðvita sjálfhætt.

,,Tíðindamaður Eystrahorns vefur um sig svörtum þungum frakkanum, rykkir gráum treflinum um hálsin, kveður, og hverfur út á grátt holtið, út í myrkrið og hríðina“

Eystrahorn 9. apríl 1992

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549