Skip to main content

Við minnisvarðann

Við minnisvarðann

Þorsteinn Geirsson, Reyðará.

Kæru heimamenn og gestir!

Fyrir röskum fjórum árum kom til umræðu hér í Austur-Skaftafellssýslu að minnast með veglegum hætti aldarafmælis Þórbergs Þórðarsonar, rithöfundar frá Hala í Suðursveit. Til undirbúnings þessa var kosin nefnd sem skilaði hlutverki sínu með prýði. Meðal nefndarmanna kom einnig upp sú hugmynd að reisa minnismerki um Þórberg. Þessi hugmynd fór fyrir sýslunefnd A-Skaft., einnig hreppsnefnd Borgarhafnarhreppas og að síðustu til nánustu ættmenna Þórbergs sem tóku að sér að sjá um framkvæmd verkefnisins að öllu leyti. Á þessum ferli hafði málefnið stækkað þó hin fyrsta hugmynd væri enn í fullu gildi. Bræðurnir á Hala voru þrír og er nokkur sem eigi man eftir hinum tveimur ef einn þeirra var nefndur? Þeir eru allir af sömu rót og er hér með innst með sama hætti. 

Brautsteinar

Þar sem að Sýslunefnd A-Skaftafellssýslu hélt þessu málefni í upphafi fyllsta stuðningi hefur verið litið svo á að sýslunefndin afhenti minnisvarðann. Og í dag erum við komin saman á Hala í Suðursveit til þess að afhjúpa minnismerki um þá bræður, Þórberg, Steinþór og Benedikt.  

Í Hávamálum segir: 

Sonur er betri

þótt sé síð of alinn

eftir genginn guma.

Sjaldan bautasteinar

standa brautu nær

nema reisi niður af nið.

Úr handriti Þorsteins GeirssonarForeldrar

Foreldrar bræðranna á Hala sem við erum hér að minnast voru Þórður Steinsson f. 21. Október 1854 og Anna Benediktsdóttir  f. í Öðrumgarði í Nesjum 28.desember 1863.

Þau Þórður og Anna voru gefin saman í hjónaband sunnudaginn 23. maí 1887, ásamt tveimur öðrum hjónaefnum á Breiðabólsstaðarbæjunum í Suðursveit. Frásögn af þeim brúðkaupsdegi geta allir lesið í bókinni Steinarnir tala, eftir meistara Þórberg.

 

 

 

 

,,Þjóðfélagið“

Það er stór stund í lífi foreldra er barn fæðist. Að vísu veit enginn á þeirri stundu um ókomna ævi hvort hún verður stutt eða löng eða hver æfibrautin verður í smáu eða stóru. Það er þó svo að sum börn marka sér spor fyrr en önnur – fæðast þroskuð langt fyrir ofan meðallag. Hver sem les með athygli ritverk Þórbergs „Í Suðurstein“ þar sem hann fjallar um æsku sína og bræðra sinna, fær fljótt þá tilfinningu að Þórbergur, Steinþór og Benedikt séu þá þegar efni í enga meðalmenn. Svo stórkostlegt er þetta ritverk að þar er eigi auðgert í einn kafla að vitna fremur en annan. En ber þó ekki einna hæðst þátturinn í Rökkuróperunni er þeir bræður, ásamt fleirum ungum mönnum stofnuðu „þjóðfélagið“ með tilheyrandi embættum svo sem landshöfðingja, sýslumanni, hreppstjóra og pósti, sem héldu utan um lög og reglur í ríkinu? Og þegar kreppan kom í þjóðfélagið var henni bægt frá með því að taka upp nýja stjórnarhætti, veita fé til nýframkvæmda, sem veittu næga atvinnu og gáfa þegnum arð.

Fermingarvorið

Þórbergur á Hala var fæddur 12. mars 1888, skírður 28. Sama mánaðar eftir Þorbjörgu, afasystur sinni á Hólum, sem vitjaði nafns í draumi; fermdur 1. sunnudag eftir trínitatis, þ.e. 1. Júnú 1902. Það eru því 90 ár í vor síðan að Þórbergur fermdist. Og nú skulum við huga að hvað Steinþór bróðir hans hefur sagt frá þessu vori en þá lá hafís fyrir landi og á mörgum bæjum að verða matarskortur. Búhyggindi afa komu sér nú vel. Á Breiðabólsstað var eitthvað til af rúgi og lítilsháttar af kjöti. Okkur bræðrunum var tekinn sterkur vari á því að vera að snópa á Breiðabólsstað um matmálstíma. Þó munum við hafa komið þar á hverjum degi til leikja og annars. Steinn afi hafði það verk að malarúginn. Við höfðum gaman af að líta í kornskálina og skyggnast eftir hvað væri í henni. Af því gátum við dregið nokkrar ályktanir um kökugerð á breiðabólsstað. Einu sinni sagði ég við móður mína eftir ferð á Breiðabólsstað. „Ekki verða gerðar margar kökur úr því sem afi malaði í dag, ekki nema 2-3 og það er hálf kaka á mann. En ég sá smjörkökuna hjá henni Þórunni, hún var dálítið stór.“ Ég fék ávítur hjá móður minni fyrir þessa hnýsni. En oft færði Þórunn okkur kökubita út á stétt þegar við vorum þar að leikjum. En við forðuðumst að segja frá því heima á Hala. Tæpan hálfan mánuð af sumri kom frétt um það austan af Hornafirði að ísinn hefði lónað frá og að standferðaskipið Hólar hefði komið með lítinn vöruslatta sem skipt væri á öll heimilin í sýslunni. Brugðið var við í mínu byggðarlagi og menn sendir til þess að sækja það sem Suðursveit bar. Á heimili kom ein skeffa (25 pund) af rúgi og annað eins af maísmjöli. Ekki var hægt að segja að skammturinn væri stór en þetta þótti mikið eftir allt allsleysið og gat enst nokkra stund með sparnaði, sagði fólkið. Nú voru gerðar kökur á Hala, hætt var að drekka nýmjólkina, hún var sett í trog, smjör gert úr rjómanum en grautur úr undanrennunni. Skammtur okkar bræðranna á dag var flatbrauðskaka, tvískipt og slatti af graut í tveggja marka skál, kvölds og morgna. Maísinn var notaður í útkast á grautinn. Þessi maís var hvítur á lit, sæmilega fínn og grautur úr honum bragðaðist ekki illa. Þegar síga fór á þennan matarforða voru gerðir út tveir menn úr mínu byggðarlagi frá Breiðabólsstaðarbæjum og Reynivöllum til Djúpavogs. Frést hafði að þangað væri komið vöruskip. Þeir sem fóru voru: Björn Arason á Reynivöllum og Ketill Jónsson á Gerði. Sinn hestinn hafði hvor í taumi undir kaupstaðarvarninginn fyrir alla bæina. Kom því eitt klyf á bæ (100 pund).

Mig minnir að það vera rétt fyrir trínitatis að þeir fóru af stað í þessa kaupstaðarferð og komu aftur laugardagskvöldið fyrir fyrsta sunnudag eftir trínitatis, voru 9 eða 10 daga í ferðinni. Mér er þetta minnisstætt fyrir það að næsta sunnudag eftir trínitatis átti Þórbergur bróðir að fermast ásamt sex börnum öðrum.

Það var því á síðustu stundu að varningurinn af Djúpavogi kom í fermingarhófið. Þess skal þó getið að fermingarundirbúningur þá var ósköp einfaldur og látlaus í mat, drykk og fatagerð. Fermingarfötin hans Þórbergs voru úr heimaunnu vaðmáli, voðin lituð úr sortu og hellulit. Til vinnunnar og litarins á fötunum var vandað. Móðir okkar sneið þau en Auðbjörg, móðursystir saumaði. Þær voru báðar vel virkar og nokkuð vel kunnandi til verks. Nóttina eftir komu kaupstaðarmannanna voru pottur og panna sett á hlóðir í útieldhúsinu á Hala, pönnukökur bakaðar og kleinur steiktar. Á sunnudagsmorguninn var því hægt að gefa kaffi svolítið frábrugðið því venjulega. Þetta þótti okkur strákunum stórhátíð.

Þórbergur20200215 094911.hs

Það er ekki ofsagt hjá Steinþóri að fermingarkaffið á Hala 1.júní 1902 var stórhátíð. Og er árin líða verður fermingarbarnið á bænum, hann Þórbergur, einn mesti ritsnillingur þjóðarinnar á þessari öld. Þeir eru margir steinarnir og björgin hér á Breiðabólsstaðabæjunum sem stormar hafa leikið um á áranna rás. Allir eiga sinn uppruna og urðu oft og tíðum umhugsunarefni Bergs á Hala í æsku.

Nafnið Bergur er stórbrotið, mekilegt og látlaust. Bergu = klöpp, klettur, Bergur = bjargvættur, bergvatn = tær vatnsuppsprettulind. Það léku stormar um Berg frá Hala er hann hóf feril sinn sem rithöfundur. Þá storma stóð hann af sér, var harður einsog bergið hér í kringum okkur, opnaði smátt og smátt lind uppsprettunna, skrifaði bækur á tærasta máli alþýðunnar í landinu. Þvílík gæfa fyrir Suðursveit að hafa fóstrað upp hann Berg á Hala.

Þórbergur kvæntist 1. október 1932 Margréti Jónsdóttur frá Njarðvík f. 30. september 1899. Margrét reyndist Þórbergi traust kona og bjó honum gott heimili. Þórbergur lést 12. Nóv. 1974 en Margrét 28. janúar 1988.

 

Steinþór og SteinunnSteinþór

Steinþór á Hala var fæddur fimmtudaginn 10. júní 1892 og fermdist á trínitatis sunnudaginn 10. júní 1906. Steinþór var á margan hátt sérstæður maður og öllum minnisstæður sem af honum höfðu kynni. Hann var snemma í fararbroddi í félagsmálum, ekki aðeins í Suðursveit heldur í allri sýslunni og í landssamtökum bænda, Stéttarsambandinu, eftir 1945. Hann hefði átt auðvelt með að hasla sér völl á hinum ýmsu sviðum í þjóðlífinu og hefði alls staðar vakið eftirtekt.

En ef til vill er Steinþór þekktastur utan sýslunnar okkar fyrir 25 samtalsþætti við Stefán Jónsson um lífið í Suðursveit frá síðustu aldamótum og langt fram á þessa öld. Ári síðar (1970) voru þættirnir gefnir út. Það er bókin Nú, nú, sem aldrei var skrifuð. Síðasta samtalsþættinum lýkur með þessum orðum: „Og þá erum við komnir á hala þessarar frásagnar. Á morgun verð ég 77 ára ef mér auðnast að lifa þann dag. Ég hef oft hugsað um það en kannski aldrei betur en nú hvað það er gaman að vera ungur. En það er líka ánægjulegt að vera kominn til aldurs og hafa það á tilfinningunni að hafa reynt að láta eitthvað gott af sér leiða.“

Steinþór kvæntist 20. júní, árið 1914, Steinunni Guðmundsdóttur frá Reynivöllum f. á Borg á Mýrum 25. nóvember 1877. Steinunn á Hala var hin vænsta kona og studdi mann sinn með ráðum og dáð í búskapnum, ekki síst er hann var að heiman að starfa fyrir samfélagið í félagsmálum.

Steinþór á Hala lést 20. janúar 1981 en Steinunn 14. maí sama ár.

BenediktIngunn og Benedikt

Benedikt, yngsti bróðirinn á Hala, síðar bóndi á Kálfafelli í Suðursveit var fæddur 20. júlí, nafni úr latínu sem merkir „blessaður“ og fermdur 19.maí 1909.

Þegar þeir bræður á Hala og frændur þeirra á Gerði, Ragnar Þórarinsson og Benedikt og sjálfsagt fleiri stofnuðu þjóðfélagið, fékk Benedikt embætti póstsins. En hann var svo sjálfstæður í sér að trúlega hefur hann brotið gegn þjóðfélaginumeð ráðnum hug svo að hann fengi tækifæri til þess að halda fram sjálfstæðum eigin skoðunum á ýmsu í þjóðfélaginu. Þar sjáum við hann í huganum kankvísan og dálítið ögrandi stríða landshöfðingja og sýslumanni með leiftrandi augnaráði og sposku brosi sem gat sagt svo ótal margt. Benedikt á Kálfafelli var afar traustur félagsmaður, þéttur fyrir, sjálfstæður í skoðun og vakti verðskuldaða athygli hvar sem hann fór. Það gneistaði frá honum orka sem hreif aðra með.

Benedikt kvæntist 29.maí 1919, glæsilegri heimasætu á Kálfafelli í Suðursveit, Ingunni Þórðardóttur f. 28. Ágúst 1895. Þau bjuggu á Kálfafelli í nær hálfa öld. Til þeirra var gott að koma. Þess minnast margir.

Benedikt lést 18.febrúar 1968 en Ingunn 19.september 1978.

Í Suðursveit

Það mætti ef til vill hugsa sem svo að við, sem ekki eigum rætur hér í Suðursveit öfundum Suðursveitina af þessum mönnum sem hér er verið að minnast. – Svo er í raun ekki. Við samgleðjumst Suðursveitungum að þeir bræður á Hala fæddust hér og skilja eftir sig merk spor hver á sínu sviði. Við nutum þeirra líka í ríkum mæli á meðan þeir voru á meðla okkar og njótum þeirra áfram. Svo lengi lifa þeir í verkum sínum og vitund okkar. Á þann veg geymist sönn mynd sögunnarMinnisvarðinn

Arkitektinn

Arkitekt að minnisvarðanum um þá bræður á Hala, Þórberg, Steinþór og Benedikt sem hér hefur verið reistur og afhjúpðaður er Sveinn Ívarsson, Álfhólsvegi 79, Reykjavík. Það er táknrænt að hann skyldi vinna þetta verk og honum eru færðar alúðar þakkir fyrir frábært starf.

 

Lokaorð

Minnisvarðinn mun standa um langa framtíð og er falið til gæslu ættmennum þeirra bræðra því sjaldan bautasteinar standa brautu nær nema risi niður af nið.

Guð blessi minningu þeirra þriggja hjóna sem hér hefur verið minnst. Megi friðsæld Guðs ætíð umvefja og vernda þennan stórbrotna stað og þá sem varðveita hann um ókomin ár

(Millifyrirsagnir eru blaðsins)

 

Eystrahorn 17. desember 1992

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 129
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672