Skip to main content

Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum

Samtal við Sigurð Þorsteinsson frá Reynivöllum, tekið miðvikud.28.janúar 2004.
Talað er um kynni hans af Þórbergi Þórðarsyni og Margréti konu hans.


Við sitjum og erum að undirbúa okkur fyrir viðtalið, ég set upptökutækið á borðið og
Sigurður rekur í það augun og spyr hvað þetta sé. Ég segi honum það og þá minnist Sigurður
þess að hann hafi komið að Hala í sumarfrí endur fyrir löngu en þá hafi Hallfreður Örn
Eiríksson verið þar staddur að safna þjóðfræðilegu efni og einmitt verið að taka upp á band.

 

Sigurður segir frá.

Ég var þarna í um vikutíma og Hallfreður var þar í nokkra daga, einnig var þar staddur Ágúst
Arason. Hallfreður var staddur á Hala í þeim erindagjörðum að tala við Steinþór og Steinþór
var vel skrafræðinn alltaf, það stóð ekki á honum.
Svo var það stundum að Hallfreður fór út að ganga og fá sér frískt loft og átti þá Steinþór til
að spyrja “hvar er nú Hallfreður?”. En menn áttu til að gera lítinn mun á e og i og þá sagði
Ágúst Arason í gríni “ja Hallfreður, ja nú er freðurinn úti.” 

Einu sinni þegar allir voru sestir við matarborðið í hádeginu fer Steinþór að syngja einhverja
ljóta vísu sem þeir ortu held ég Ari Guðmundsson (faðir Ágústar og bróðir Þorsteins
Guðmundssonar frá Reynivöllum) og Þorsteinn Guðmundsson. (Þorsteinn er faðir Sigurðar
sögumanns). Steinþór byrjar að syngja, vísan var um Sigga strand: 

Siggi reið í garðshorn á Leiti
var hann þar spurður að heiti
Ég heiti Sigurður Mussa
Gunna lof mér sjúga hann kussa

Hallfreður hættir að borða og spyr “ heyrðu hvað er nú þetta, lof mér að heyra þetta aftur”
“Ja þetta er nú þjóðkvæði” segir Steinþór.
Við áttum bágt með okkur við sem vissum alveg að þetta var ekkert þjóðkvæði þetta var nú
bara einhver svona fíflaskapur sem að þeir ortu í gríni.

Eigum við að rifja upp sögur frá því þú varst að heimsækja Þórberg og þau hjón í Reykjavík?

Já ég heimsótti þau Þórberg og Margréti oft. Margrét þurfti gjarnan að fá einhverja aðstoð,
ýmisleg smá viðvik á heimilinu, eins og krani sem lak og ýmislegt viðhald í þeim dúr. Hún
sagði þá gjarnan að hún gæti ekki hugsað sér betri mann en Þórberg en hann væri svoddan
óskapa klaufi að hann gæti ekkert gert. Hann var reyndar orðin fullorðinn þegar þetta var,
kominn hátt á áttræðisaldur, líklega árið 1965.

Ég flutti til Reykjavíkur 1964. Síðan gerist það í desember 1965 að ég var á gangi í
Þverholtinu á leið til kunningja minna að ég rekst á þau Þórberg og Margréti. Þá voru þau á
leið uppí smjörlíki en Ragnar í Smára átti þá hlutdeild í því og gaf þeim smjörlíki fyrir jólin.

Þarna bjóða þau mér heim um jólin. Þá upphófst sú hefð. Eftir þetta var mér alltaf boðið til
þeirra á aðfangadagskvöld og átti ég að koma klukkan 6 eða hálf 7 einhvern tíma á því
tímabili.
Þarna var gaman að vera, það voru fleiri karlar, Sigurjón móðurbróðir, hann var boðinn, Gísli
Pálsson frá Skálafelli, hann kom alltaf eftir matinn. Það voru fleiri sem komu í þessi jólaboð
á aðfangadagskvöld heldur en við frændur en það var löngu áður en ég kom til sögunnar því
þeir svona heltust úr lestinni.
Sigurbjörn Jónsson frá Smyrlabjörgum var einn þeirra.

Þórbergur passaði vel upp á tímann. Hann fylgdist nákvæmlega með hvenær maður kom og
hafði tiltækt hvenær maður hefði komið í fyrra og hvað það hefði munað mörgum mínútum til
eða frá. Hann hafði þá skráð í dagbækur sínar nákvæmlega hvenær maður hefði komið.

Þórbergur sást aldrei þegar við komum. Það var Margrét sem kom til dyra og bauð okkur
inn í betri stofuna, stássstofuna, hin stofan var skrifstofa Þórbergs. Hann kallaði hana
umskiptingastofuna.
(Umskiptingastofan var upphaflega kölluð þjóðsagnastofan vegna þess að þar las Þórbergur
þjóðsögur fyrir Lillu Heggu. Stofan fékk síðan nafnið unnskiptingastofan eftir að Þórbergur
las “Átján barna faðir í álfheimum” fyrir hana)
Það var hurð á milli þessara tveggja stofa, vængjahurð með gleri. Margrét bauð inní betri
stofuna að fá sér sæti þar og setti fyrir okkur stórt glas alveg barmafullt af drykk sem þau
kölluðu Þorláksdropa og þetta drukkum við frændur áður en byrjað var að borða, kannski
svona tvo glös. En ég sá það í gegnum glerið á millihurðinni, það voru svona mött gler, að það
var ljós inni í umskiptingastofunni. Þar var þá meistari Þórbergur, ég sá skuggann af honum,
hann var að ganga um gólf, fram og til baka. Við sátum í góðan hálftíma uppundir
klukkutíma, hann lét ekkert á sér kræla, þannig var það alltaf.

Svo birtist hann allt í einu þegar honum fannst tími til kominn. Þá var hann búinn að líta í
dagbækurnar og það fyrsta sem hann sagði þegar búið að bjóða gleðileg jól var hvenær
maður hefði komið í fyrra, hvað klukkan hefði verið, hvað margar mínútur yfir sex og hvað
hún hefði verið þegar maður kom núna. Hann vissi nákvæmlega hvenær við komum enda
náttúrulega heyrði hann það þó hann kæmi ekki fram fyrr.

Síðan var boðið í jólamatinn, það var dekkað borð í umskiptingastofunni. Þetta voru tvær
samliggjandi stofur eins og ég segi, álíka stórar og þar var hann með skrifborðið sitt inni í
umskiptingastofunni og bókaskápinn, einn veggurinn var alvegi þakinn í bókum.
Þar var búið að dekka borð og oftast var steik, annaðhvort svínakjöt eða lambakjöt. Þórbergur
var ekki ánægður með það en lét sig hafa það, hann sagðist helst ekki vilja annað en feitt
hangikjöt, það væri sitt uppáhald. Það voru náttúrulega Þorláksdropar með matnum.

Hvernig drykkur voru Þorláksdroparnir?

Þorláksdroparnir voru heimatilbúnir úr rúsínum, sykri og pressugeri. Fullstaðnir gátu þeir
verið helvíti rammir. En hún bragðbætti þá með djús hún Margrét.

Veistu af hverju þeir heita Þorláksdropar?

Það hafði gerst einhvern tíman löngu áður eftir að Margrét var búin að brugga handa Þórbergi
að hann bauð nokkrum vinum sínum í þennan drykk á Þorláksmessu, þannig held ég að nafnið
sé til komið.

Margrét sá um að brugga en hún smakkaði aldrei á þeim eftir að ég kom þarna, ég hugsaði
með mér að hún væri búin að fá nóg af þeim. Hún hafi bara verið orðin leið á Þorláksdropum.
Hún vildi eitthvað annað frekar enda færði ég þeim alltaf vín í jólagjöf, manni datt ekki í hug
að fara að gefa þeim bækur.

En Þórbergur sjálfur, drakk hann Þorláksdropana

Já, já það var uppáhaldsdrykkurinn hans, og stundum þegar ég kom þangað og inn í
umskiptingastofu til hans, Margrét var einhversstaðar, kannski hefur hún lagt sig, eða eitthvað
svoleiðis. Þá var það fyrsta sem hann spurði “Ertu nokkuð á þrælahaldaranum núna?” Ef
svo var þá varð ekki meir úr neinu en ef ég var ekki á þrælahaldaranum þá fór hann út á altan
og kom með fulla Sjéniver flösku af Þorláksdropum sem hann geymdi þar í kælingu og setti
glös á borðið og skenkti mér og sér líka. Þá fór hann yfir það hvernig ætti að drekka þá.
Maður ætti að setja svona í fullt glas og bara sölsa þessu í sig í einum teig, þetta voru svona
eins og vatnsglös já og drekka í einum teyg og ganga svo um gólf, ganga svo um gólf.
Og hann hellti í skyndi, snarlega á glösin aftur. Þegar búið væri að ganga svolitla stund um
gólf þá ætti maður að drekka úr öðru glasi og þá niður í það hálft, sagði hann.
Og ganga um gólf. Og klára það svo.
Næst, þá búið var að drekka tvö, átti maður að fá þriðja glasið, það átti að drekka mjög hægt
og síðan alls ekki að drekka meira. Þá væri maður farin að finna hreyfingu sagði hann. Það
ætti ekki að vera meira.


Þetta hefur þá ekki verið neitt mjög sterkur drykkur?

Nei, nei en nóg til þess, svona eins og bjór líklega

Þegar búið var að borða fóru allir í betri stofuna ,þar var setið og talað saman, það voru
aðallega skemmtisögur sem að þau höfðu þá að segja.
En það fór venjulega þannig að Margrét vildi hafa orðið og bar Þórberg ofurliði, þá sagði
hann bara “jæja Margrét þú kannt betur að segja frá þessu”.
Það voru ýmsar háðsögur um hitt og þetta.

Var Margrét skemmtileg?

Já hún gat verið asskoti skemmtileg og hún hafði góðan húmor , hún var yfirleitt alltaf mjög
skemmtileg á aðfangadagskvöld en hún hætti að veita Þorláksdropa þegar það var komið í
betri stofuna þá voru þeir ekki nógu góður drykkur lengur. Þá bauð hún uppá Vodka og
eitthvert bland með og þar var setið og drukkið og skemmt sér fram eftir kvöldi, síðan var
kaffi ja ætli ekki klukkan svona 10 til 11 og þegar það var búið þá vildu menn nú fara að fara
en það vildu þau ómögulega og venjulega stóð þetta svona alveg fram á miðnætti og þeim
fannst það heldur stuttur tími. Þetta voru skemmtileg jólakvöld, í minningunni, mjög
skemmtileg, Þau voru alveg óþvinguð og engar seremóníur, bara þau tvö og svo við þessir
karlar.

Þau gáfu alltaf bækur í jólagjafir. Ég fékk alltaf bók en það voru ekki endilega bækur eftir
Þórberg. Margrét gat verið rausnarleg þegar hún tók það í sig.
Hún vildi endilega fá að þvo af mér þvott á tímabili og ég þáði það um tíma, ekki reglulega,
hún vildi gera þetta til þess að ég gæti sparað meira af peningum því hún tók ekkert fyrir það.
En þegar ég fór að sækja þvottinn þá færði ég henni alltaf eitthvað í staðinn, stundum
viskípela og það kom fallegt bros á Margéti þegar hún tók við viskípelanum.

Þórbergur drakk helst ekkert nema Þorláksdropa og hafði þetta eins og ég var búin að segja
með fyrirkomulagið. Þau báðu mig einu sinni að fara með sig á bíl inní Sundahöfn en þar lá rússneskt
hafrannsóknaskip, mig minnir að það heiti Lomanov. Ég gerði það, ég átti Skoda þá, ég fór
með þau þangað, skipið var til sýnis fyrir almenning, þetta var heljarmikið skip, og gaman að
koma þarna, svo voru einhverjir drottins útvaldir sem voru boðnir í veislu um borð hjá
kafteininum. Þar á meðal þau, Þórbergur var auðvitað rithöfundur og einlægur kommi og
Stalíns vinur en Margrét sagði að ég væri einkabílstjóri þeirra og ég yrði að koma með í þetta
samkvæmi. Það voru veitingar, Sherry í litlum glösum, og hún varð alveg himinlifandi hvað
þetta væri nú gott, því allt var svo gott sem var rússneskt. En Þórbergur segir við mig “þetta
er ekki gott, þetta er ekki nærri eins og gott og Þorláksdroparnir hennar Margrétar”.

Nei hann taldi þetta nú ekki vera neinn drykk miðað við Þorláksdropana. Það voru hinir og
aðrir mektarmenn í þessu samkvæmi og þeir voru að leggja spurningar fyrir rússnesku
vísindamennina, hvað þeir hefðu nú fundið og séð hér á hafsbotninum í kringum landið. Þeir
útlistuðu það náttúrulega fyrir fólki.
Svo kvaddi Þórbergur sér hljóðs og hann setti þá í bobba. Hann var svo niðursokkinn í
draugatrúna og fer að tala um Bermúda-þríhyrninginn, þar sem ýmsir óútskýrðir atburðir hafa
komið fyrir, skip hafa horfið og flugvélar týnst. Þórbergur byrjar að tala um að það sé þarna
eitthvert svæði, þar sem sjórinn hringiðar sig og að allt sem komi á þennan stað sogist niður
og sjáist aldrei meir. Þórbergur vill vita hvort líkur séu á því að það komi upp einhversstaðar
hinumegin á móti á hnettinum og hann vill að þeir útskýri þetta Rússarnir. Þeir hristu
höfuðið, höfðu aldrei heyrt um þetta, en hann var ekki ánægður með það og gekk á þá en það
fór þannig að þeir gáfu honum enga skýringar á því og svöruðu bara útí hött. Þeim var mikill
vandi á höndum og voru í vandræðum.
Ég stend í þeirri meiningu að Þórbergur hafi gert þetta af skömmum sínum og verið að stríða
Rússunum. Margrét var nú ekki hrifin af þessu tiltæki hans.

Þórbergur fór alltaf í líffæraverkfall í umskiptingastofunni eftir hádegismatinn. Það var dívan
þar sem hann lagðist í og fór í líffæraverkfall,slappaði af.
Já fór úr líkamanum held ég bara.

Hann var vanur því á yngri árum að fara út í Örfirisey áður en þar var byggð og fara í sjóinn
og baða sig.

Synti hann þá?

Nei ég held hann hafi ekkert kunnað að synda, hann bara óð og baðaði sig og svo tók hann
Mullers æfingar, honum hefur sennilega verið kalt uppúr ísköldum sjónum. Þetta eru nú mest
einhverjar teygjur.

Nú hefur varið sagt að hann hafi verið draugahræddur?

Hann trúði á drauga og að það væru verur í öðru hverju skúmaskoti en hvort hann var nokkuð
hræddur það held ég ekki.
Hann hafði svo mikinn áhuga á draugum og eilífðarverum eins og hann kallaði þær. Hann
spurði mann oft af því hvort maður hefði séð nokkuð eða nokkuð komið fyrir mann.

Veistu til þess að hann hafi nokkurn tíma séð eitthvað sjálfur?

Nei en hann sagði að Margrét sín hefði hæfileika, hún sæi ekki beint draugana en hún fyndi
fyrir þeim. Það var einn sem var búinn að vera lengi í stofunni hjá þeim í einu horninu, já það
voru einhver ónot sagði Margrét sem hún varð fyrir, svona kuldahrollur þegar hún var á þessu
svæði í horninu á stofunni. Það var vegna þess að það var draugur þar. Og honum þótti mikið
til koma Þórbergi að hafa draug í horninu, stofuhorninu, sinn eigin húsdraug.

Þórbergur hefur verið sérvitur?

Já hann var það, hann var stundum eins og barn. Maður tók sérstaklega eftir því á jólunum.
Hann gekk oft og mikið um gólf og leit á klukkuna fór útí holið að dyrunum að íbúðinni.
Hann átti nefnilega von á jólagjöf frá Lillu Heggu en hún kom venjulega ekki fyrr en seint
þessi jólagjöf, kannski ekki fyrr en klukkan svona 10 að kvöldi, þá kom Sjóka, mamma Lillu
Heggu með jólagjöfina. Þetta var venjulega stytta af einhverju sem hann raðaði ofan á
bókaskápinn, það var komið mikið af styttum, allskonar styttum, það var ekkert mikið af
englum en allskonar styttur af köllum og kerlingum, þar var Don Kíkóti, man ég eftir og
eitthvað fleira.
Og það var eins og hann væri ekki alveg ánægður með sig þarna fyrr en styttan var komin frá
Helgu.
Svo fóru ýmsar sögur af Þórbergi og koppnum, ég veit ekkert um það, hann fór til dæmis í
ferðalag með Baltica, fræga ferð, með Karlakór Reykjavíkur og fleira fólki og síðan birtist
mynd af honum í Speglinum þar sem hann var upp á bátsdekki að hella úr koppnum.

En Þórbergur var afskaplega góður maður og vandaður og lagði mikið upp úr því að vera
heiðarlegur og réttlátur. En það er eins og við erum búin að tala um að hann var hjátrúarfullur
og svo var hann trúgjarn, menn held ég hafi leikið það stundum að ljúga að honum.

Það var einhvern tíma þegar þau voru á Hala, Þórbergur og Margrét sem kom nú fyrir hér
áður fyrr, það var áður en ég kynntist þeim verulega í Reykjavík. Þá var Steinn á
Breiðabólstað unglingur, hann hafði heyrt að Þórbergur hefði áhuga á hvort menn hefðu séð
einhver ókennileg ljós svo hann hafði vafið pokastriga á spýtu og bleytt í með olíu fór svo
vestur á börð og kveikti í þessu og veifaði í allar áttir þetta var svona seinnipart og komið
myrkur, það varð uppi fótur og fit, Þórbergur sá þarna ljósagang. En svo upplýstist hvað þetta
væri og hann varð voðalega skúffaður.
Ég sagði honum einu sinni að ég hefði hlustað á huldufólksmessu í Ásbyrgi einn
sumarmorgun, ég hefði verið þar á ferð og var komin innst inní Ásbyrgi, það er þar tjörn, sem
ég gekk að, hitt fólkið fór ekki þangað, ég staldraði við, það er þarna skógur og ég hugsaði að
nú væri best að hafa það eins og Þórbergur og ganga sér til kukks þarna úti í náttúrunni og
meðan ég er að þessu þá heyri ég þennan mikla söng og það endurómar í klettahöllinni og ég
hugsa með mér, ja þetta er fallegur kór.
Og ég segi Þórbergi þetta alltsaman, svona hafði þetta komið mér fyrir eyru og ekki hefði ég
þekkt sálminn eða lagið en það hefði verið mjög fallegt og stóð nokkurn tíma svo endaði þetta
ekki eins og venjulegur sálmur heldu bara snögghættir eins og væri slökkt á útvarpi og honum
fannst þetta merkilegt en ég vissi hvað þetta var og það sagði ég honum. “Farðu bölvaður”
sagði hann þá, því hann var orðinn spenntur.
Þá var þetta þannig að það var rúta sem var að koma keyrandi inn veginn, inn Ásbyrgi, þetta
var ein af þessum gömlu rútum, það er nokkuð langt síðan og það söng mikið í gírkassanum á
þeim og hún er að keyra í þriðja gír og syngur í, svo dregur upp og niður hljóðið, hækkar og
lækkar og endurómaði í klettaveggjunum og var ekkert ósvipað því að kór væri að syngja. Ég
sá strax að þarna var komin rúta sem ekki var þar fyrir og þá skildi ég alveg hvað þetta hafði
verið. “Farðu bölvaður” sagði hann, honum þótti leiðinlegt að ég skyldi vera að hnýta þessu
aftan við, eyðileggja ævintýrið.


Manstu eftir því þegar hann var að koma á sumrin til Hala ?

Já, já ég man eftir því, hann kom nú alls ekki á hverju sumri. En þau komu nokkru sinnum og
voru þá dálítinn tíma. Allt uppí mánuð. Ég man eftir því einu sinni þá kom hann bara einn
Margrét fór til útlanda. En þau voru oft á skemmtigöngum og komu að Reynivöllum, kannski
tvisvar þrisvar í viku eða oftar. Svo var þeim boðið heim.
Hann var að skrifa eitthvað þegar hann kom. Hann hafði gaman af að herma eftir fólki, afa
sínum, báðum öfum sínum, hann hermdi eftir þeim, gamla Steini og Bensa og svo hermdi
hann eftir Séra Árna Þórarinssyni, það var aðal skemmtunin, þegar hann kom í Suðursveitina,
þegar hann kom að Reynivöllum, þá var hann að skrifa ævisögu Árna Þórarinssonar, þá
hermdi hann eftir Árna bæði í tíma og ótíma.

Ég er með eina bók sem Þórbergur átti, það er helvíti mikill Atlas af Íslandi, bók sem kemst
ekki í neinn bókaskap, mér var gefin þessi bók.

Var það Þórbergur sem gaf þér hana?

Nei, hann dó út frá sínu dóti og var ekkert búinn að ráðstafa því en hún Margrét gaf hluta af
bókasafninu ég veit ekkert hvert það fór, í þjóðminjasafnið eða Landsbókasafn. En Jón sonur
Margrétar sem Þórbergur kallaði alltaf erfingja ríkisins, ríkiserfingjann til þess að stríða
Margréti, hann fékk nefnilega dálítið af þessum bókum hún vinsaði úr einhverjar bækur handa
honum og þar var þessi bók, þessi Atlas, hún komst ekki í neinn bókaskáp svo hann gaf mér
hana, vildi endilega að ég ætti þessa bók hann sagðist ekkert hafa gaman af landabréfum. Mér
fannst gaman að eignast bókina, Þórbergur hefur fengið hana og skrifað nafnið sitt á hana og
dagsett 15.mars 1946. Ég man eftir því þegar hann var orðin gamall og hrumur að hann var
alltaf að skoða þennan Atlas. Hann var orðin skjálfhentur útaf sjúkdómnum en hann var að
drekka kaffi og það hefur sullast niður kaffi og það lenti á spjöldunum og það sést á bókinni.
En það fór ekkert inní hana, lenti ekkert á blöðin bara að utan.

Hann hafði skrifað nafnið sitt á titilblaðið og líka hvenær hann hafði keypt hana eða kannski
var honum gefin hún 15.mars en hann átti afmæli 12.mars, kannski hefur einhver gefið
honum hana. En hann var búinn að segja mér það áður en þessi bók kom til mín að bókin
hefði einungis verið gefin út í um 70 eintökum, það hefði verið allt og sumt.

Ég er líka með sparifötin hans Þórbergs.

Hvernig stóð á að þú fékkst þessi jakkaföt?

Það stóð þannig á því, að lokinni jarðarför Þórbergs að Margrét hringir í Gísla Pálsson og
býður honum að koma í heimsókn heim til sín og taka mig með. Og þá segir hún okkur að
hún sé með föt, tvenn jakkaföt, hvort við gætum ekki tekið þau og ef við gætum nú notað þau
þá skyldum við gera það, hún vildi bara losna við fötin. Gísli vildi ekkert með fötin hafa að
gera og ég ekki heldur en það var einhvern veginn þannig að hún gaf sig ekki, þetta var
skömmu eftir jarðarförina, sama dag, svo ég sagði svona já, láttu mig bara hafa fötin ég skal
taka þau og það gerðist ekkert öðru vísi.
Seinna kom ég með önnur fötin, gráteinótt, hingað austur og mátaði þau á pabba og þau
pössuðu honum og ég skildi þau eftir og hann sleit út úr þeim. Hann fann tóbaksdósir
í þeim en Margrét hafði áður hringt í mig, áður en ég fór með þau hingað austur til spyrja mig
hvort ég hefði nokkuð orðið var við tóbaksdósirnar. Ég var búinn að leita í báðum fötunum,
fann ekki neitt og sagði henni það en það hefur auðvitað verið ósatt.
Ég hef ekki leitað nógu vel. Ég man eftir að (pabbi) Þorsteinn fann dósirnar, horndósir, þær
eru komnar með hinu dótinu hans á Byggðasafnið.

Einu sinni var það, einn sólbjartan sumardag , þá var mér boðið með þeim hjónum í
skógarferð. Það er ekki mjög oft hér á Íslandi sem menn fara í skógarferð, það var farið upp í
Heiðmörk. Þannig var að Jón ríkisarfi hafði eignast bíl, þau gáfu honum bíl, amerískan Ford
sjálfskiptan, tveggja dyra, ekki alveg nýjan með því skilyrði að hann hætti að drekka
brennivín. Jón lofaði því og sveik það náttúrulega þegar tími var komin til. En svo er farið í
skógarferð einn sunnudag og Margrét fer með kaffi á brúsum og bakkelsi og mér er boðið
með. Við ökum eins og leið liggur austur fyrir Elliðaár, upp hjá Rauðhólum og Þórbergur fer
að dást að því hve Jón keyri vel. Og segir “ef ég hefði nú verið landshöfðingi núna þá hefðir
þú verið einkabílstjórinn minn.” Hvorki meira né minna – landshöfðingi.

Svo er stoppað þegar við erum komin upp í Heiðmörk, á einhverjum fallegum stað í einhverju
rjóðri og þar fer Margrét að leysa í sundur vistirnar, kaffi og brauð og setur dúk á jörðina og
við setjumst þarna niður í hring nema ekki Þórbergur. Hann er að ganga um með fingurna
hérna í vestis... Svo sé ég að hann fer svolítið lengra og á bak við skógarrunn í hvarf. Ég
hugsa já hann er þarna að pissa karlinn, það þurfa allir að gera, en það líður samt dálítill tími
svo kemur hann, og þá sé ég að hann er búin að setja einhverja múnderingu á nefið á sér það
var eins og úr pappa var eins og þak yfir nefið og náði aðeins niður og teygja aftur fyrir
hnakkann til að halda þessu föstu. Ég sagði auðvitað ekki neitt, var svona að gjóa á hann
augunum en vildi ekki láta bera á því. Ég var lengi að spekúlera í því hvað þetta ætti nú að
þýða svo kemur hann og fer drekka kaffið með þetta á nefinu og er allan tímann sem við erum
þarna með þetta á nefinu.

En ég var að láta mér detta það í hug að það var mikið sólskin að hann hefði gert þetta til
verjast að það yrði rautt á sér nefið, að hann sól brynni á nefinu því Þórbergur var rauðhærður
upphaflega, hann var nú gráhærður þegar þetta var og þeir eiga frekar hættu á því sem eru
rauðhærðir að sólbrenna og kannski hefur hann verið að passa á sér nefið en ég er nú alveg
viss um að ríkiserfinginn Jón hefur tekið eftir þessu líka en hann hafði ekki orð á því og
enginn. Mér fannst þetta svo kúnstugt að ég hugsaði með mér að gaman hefði verið að hafa
með myndavél og taka mynd af honum sjá hann með þakskeggið yfir nefinu.
En þetta var skemmtilegt að fara í þennan kaffitúr með þeim og það lá vel á þeim.

Varstu nokkurn tíman var við að það væri talað um dóttur Þórbergs og Sólrúnar ?

Nei það var alveg tabú. Það var ekkert um það talað, það var þáttur þarna í útvarpinu í
fyrradag, Víðsjá það var á milli 5 og 6, það var einmitt verið að tala um bækurnar hans
Þórbergs og Þórberg og af því að ég var að taka þetta upp af plötunni þá renndi ég því inná
líka. Þar var meðal annars talað um þessar konur. Þetta var Pétur Gunnarsson. Hann hafði
skrifað grein í moggann um daginn og þetta viðtal var einmitt í útvarpinu útaf þessum
skrifum

Ég skal segja ykkur að þó að maður hafi komið inná heimilið hjá Þórbergi svona til að gera
eitthvað eins og að skipta um perur, eða pakkningar í eldhúskrananum, því Margrét gat ekki
sofið því það draup ofan í vaskinn að þá gerðist ekkert bitastætt svona sem er til frásagnar.
Ekki nokkur skapaður hlutur.

Þórbergur var líka þannig að það var nú ekkert voðalega gott að komast að honum nema þá
helst að vera einn með honum, maðurinn var svo mikil einfari, hann var það, hann var einfari.

Þórbergur týndist náttúrulega einu sinni. Hann kom ekki heim á réttum tíma þegar hann fór í
skemmtigöngu, heilsubótargöngu. Síðan heyrði ég það í útvarpinu að Þórbergur Þórðarson er
beðin um að hringja heim. Um kvöld, hann var orðin fullorðinn ábyggilega yfir sjötugt.
Hann var alltaf vanur því að fara í heilsubótargöngur.

Hér vantar aftan á söguna vegna bilunar í upptökutæki, en hún endaði á þá leið að Þórbergur
hefði skilað sér heim seint og síðarmeir
og þá hafi Margrét setið heima með hóp fólks hjá sér til að hugga sig. Þórbergur hafði þá hitt
Sigurð Norðdal og farið með honum heim og setið þar og drukkið vín og skemmt sér það vel
að hann gleymdi að láta vita af sér. En Margrét brást hin versta við þegar hann kom heim og
sagði að hann skyldi skammast sín fyrir að koma lifandi heim.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549