Skip to main content

Þórbergssetur opið á ný

Þórbergssetur opnaði aftur 1. júní eftir að hafa verið lokað frá 20. mars síðast liðnum út af covid 19 veirunni . Þetta er í fyrsta skipti sem setrið lokar allt frá því starfsemi byrjaði þar árið 2006, aðeins tekið reyndar jólafrí í tvo daga sum árin.Starfsemin hefur þó alls ekki legið niðri og hefur tíminn verið notaður til að sinna ýmsum verkefnum svo og viðhaldi á húsi og húsmunum. Innan Þórbergsseturs er nú unnið að skráningu eyðibýla í Austur Skaftafellssýslu í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Háskólasetrið á Höfn og er verkefnið byrjað í Suðursveit. Vonir standa til að fá til starfa tvo háskólanema í gegnum Nýsköpunarsjóð stúdenta til að sinna verkefninu í sumar.
Garðarnir tveir og tóftin á milli þeirra og bárujárnshúsiðFerðast verður  um til að leita  gamalla tófta og reynt að finna hvaða hlutverki þær gegndu og satt að segja hefur margt merkilegt komið í ljós strax núna á fyrstu vikum verkefnisins. Meðal annars var kannað fornbýli í Skarðahrauni sem áður hafði fundist og verður að teljast mjög merkileg rúst, þar sem ekki var vitað um byggð þar áður. Einnig hafa fundist margar hringlaga hlaðnar tóftir  úr torfi og eða steinum svokallaðar fjárborgir en í heimildum má finna m.a. hjá Sveini Pálssyni að fjárhús hafi ekki verið byggð í héraðinu fyrr en komið var fram á 19. öld, fé og sauðfé haft í fjárskjólum eða byrgjum. Í ritgerð Þorvalds Thoroddsen í Andvara segir t.d. að árið 1837 hafi ekkert fjárhús verið í Stafafellssókn, menn notuðu byrgi eða byggðu fyrir hellisskúta. Í Fornuborgum í landi Kálfafells eru geysimiklar tóftir og fjárbyrgi hlaðin, greinilega sem skjól fyrir sauðfé, en lítið sem ekkert um þær vitað.
Niðurstöður og samantekt úr þessu verkefni verður svo birt á Þórbergsvefnum. Gísli Sverrir Árnason sagnfræðingur hefur verið að vinna sem fræðimaður við Þórbergssetur fyrstu mánuði ársins og er að safna efnivið í bók um þau Eymund Jónsson í Dilksnesi og Halldóru Stefánsdóttur. Segja má að starfsemi Þórbergsseturs hafi því tekið stefnubreytingu á þessu ári og sjónum beint að því að safna ýmsum fróðleik um nánasta umhverfi. Er það mjög í anda Þórbergs Þórðarsonar og sannarlega gert af virðingu við hans mikla starf í skráningu sagna af svæðinu.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8873
Gestir á þessu ári: ... 16913