Þórbergssetur opið á ný
Þórbergssetur opnaði aftur 1. júní eftir að hafa verið lokað frá 20. mars síðast liðnum út af covid 19 veirunni . Þetta er í fyrsta skipti sem setrið lokar allt frá því starfsemi byrjaði þar árið 2006, aðeins tekið reyndar jólafrí í tvo daga sum árin.Starfsemin hefur þó alls ekki legið niðri og hefur tíminn verið notaður til að sinna ýmsum verkefnum svo og viðhaldi á húsi og húsmunum. Innan Þórbergsseturs er nú unnið að skráningu eyðibýla í Austur Skaftafellssýslu í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Háskólasetrið á Höfn og er verkefnið byrjað í Suðursveit. Vonir standa til að fá til starfa tvo háskólanema í gegnum Nýsköpunarsjóð stúdenta til að sinna verkefninu í sumar.

Niðurstöður og samantekt úr þessu verkefni verður svo birt á Þórbergsvefnum. Gísli Sverrir Árnason sagnfræðingur hefur verið að vinna sem fræðimaður við Þórbergssetur fyrstu mánuði ársins og er að safna efnivið í bók um þau Eymund Jónsson í Dilksnesi og Halldóru Stefánsdóttur. Segja má að starfsemi Þórbergsseturs hafi því tekið stefnubreytingu á þessu ári og sjónum beint að því að safna ýmsum fróðleik um nánasta umhverfi. Er það mjög í anda Þórbergs Þórðarsonar og sannarlega gert af virðingu við hans mikla starf í skráningu sagna af svæðinu.