Skip to main content

Úr sagnasjóði Steinþórs á Hala

Steinþór á HalaHallfreður Örn Eiríksson skráði:

Steinþór Þórðarson, fyrrum bóndi á Hala í Suðursveit, varð einn kunnasti sagnamaður þjóðarinnar, þegar hann flutti ævíminningar sínar í Ríkisútvarpið í hljóðritunum Stefáns Jónssonar. Voru þær birtar síðar undir titlinum Nú-nú, bókin sem aldrei var skrifuð. Hallfreður Örn Eiríksson, þjóðsagnafræðingur Stofnunar Árna Magnússonar, hljóðritaði og skráði sagnir, vísur, þulur, gátur, kvæði og rímnakveðskap eftir Steinþóri á árunum 1964- 1980. Úr því safni eru eftirfarandi sagnir og kveðskapur, en einnig má benda mönnum á snælduna Frá liðinni tíð, sem Námsgagnastofnun hefur gefið út.  Hallfreður hefur búið textana til prentunar og lagfært á stöku stað orðalag hljóðritananna. Hann hefur einnig aukið í fyrirsögnum.

Kynjasaga frá Felli

En það er líka önnur kynjasaga um Fell. Hún er nú ekki í sambandi við neina eyðingu. Einu sinni var það að það veiddist óvenjulega mikið af silung á Felli. Það var seinni part dags eða að kvöldi dags og það var komið með þetta heim og þetta var lagt í einn fjósbásinn, segir sagan. Það var ekki gert að þessu þá um kvöldið vegna þess, eins og ég sagði, hvað það kom seint heim. Svo um morguninn þegar átti til að taka og fara að gera að silungnum, þá sést enginn silungur í básnum, allur silungurinn er skríðandi um vegginn og gólið, og hvar sem skot var að líta í fjósinu var silungurinn skríðandi.Og fólkið var ekki lengi að finna lausnina á því af hvurju þetta stafaði. Það var af því að það var eitraður silungur í veiðinni sem að eitraði alla kösina með þessum afleiðingum að þetta lifnaði allt við og skreið upp um veggi og annars staðar þar sem það gat komist. Já, gamla fólkið, það vissi nú margt, miklu meira heldur en nú, þrátt fyrir allan lærdóm. Það voru t.d. ýmsar tegundir af ál og vísindin vita nú eflaust um það allt saman. En hér var það í munnmælum, að það væri til þorskáll, hrökkáll og smugáll. Hrökkáll var afskaplega hættulegur og smugállinn ekki betri. Þorskállinn var eiginlega sá eini áll sem að fólkið vildi tala um og gat sætt sig við. Smugállinn hann fór niður um íshellur, hvað þá ófreðna jörð; hann var svona banvænn og eitraður. Þetta sagði nú eldra fólkið.
Og svo var það silungurinn. Það var viss tegund af silungi sem var eitraður, t.d. blágóman, og ég held að það hafi nú verið álitið að hún hafi verið þarna í veiðinni á Felli sem að eitraði alla kösina.

Um Fífutjörn

Það er saga hér um það að það hafi hryssa í Borgarhöfn haft mök við þennan nykur í Fífutjörninni, því að þar fæddist folald sem ekki var hægt að finna nokkur rök fyrir að hryssan hefði átt við hesti. Og þess vegna var það og ályktað að hún hefði átt það við nykri í tjörninni. Þar gekk hún venjulega og þar var álitið að hún hefði fengið sitt fang. Og svo var það nú annað sem að sannaði það að þetta folald var ekki af venjulegum hesti komið. Þetta var mesti óþokkagripur, illur og vondur viðfangs á allan hátt og hans ævi endaði með því, ég held hann hafi verið þriggja, fjögra vetra, að hann snöggdrapst úti í haganum. Og það var nú talið m.a. sönnunarmerki þess að það hafi ekki allt verið með felldu með þessa skepnu. Djöfullinn hefði hlaupið þarna í hana og drepið hana.

Írafellsmóri á ferð ?

Það var þegar séra Eiríkur þjónaði frá Bjarnanesi, Öræfum, að þeir komu hingað Í heimsókn Þorsteinn mágur minn og Sigurjón mágur hans. Þeir sitja hér lengi fram eftir kvöldi og er komið fram á vökulok þegar þeir fara héðan. Mun hafa verið í byrjun október, það var svona hvorki bjart eða dimmt úti, alskýjað loft en ekkert sérstaklega dimmt yfir. Og Þorsteinn segir nú svoleiðis frá: "Þegar við komum hérna vestur fyrir bæinn, svona 100 metra, þá geng ég nú alveg andvaralaus og horfi niður fyrir fætur mér. Allt í einu kemur Sigurjón í fangið á mér með þessum óskapar óhljóðum. Þá verður mér litið upp. og þá sé ég einhvurn djöful standa fyrir framan mig, í mannsmynd, og ettir því sem ég get best lýst og eftir því sem Írafellsmóra hefur verið lýst, þá datt mér strax Móri í hug". Og Þorsteinn sagðist hafa verið gripinn einhvurri djöfuls skelfingu og vaðið að þessu, barið fram höndunum og þá hefði þetta leyst í sundur í glæringar. Þeir staðhæfðu þetta báðir, að eftir því sem þeim sýndist, þá líktist þetta mjög Írafellsmóra samkvæmt því sem þjóðsögur hefðu sagt af honum.
Nú er það þegar hann séra Eiríkur var út í Öræfum þegar þetta gerðist, kemur aftur að utan, hafði ég samband við séra Eirík og sagði: “Hún var þokkaleg fylgjan þín í gærkvöldi. Hún var rétt búin að drepa tvo menn hérna við bæinn hjá mér." "Já, þessu gat ég svo sem vel trúað, sagði séra Eiríkur og glotti við.

Skupla

Það fer nú tvennum sögum um það, hvar þessi atburður gerðist. Sumir segja að það hafi verið Í Suðursveit, aðrir á Mýrum, svoleiðis að það er eiginlega ekki hægt að staðsetja það, hvar atburðurinn gerðist sem varð þess valdandi að Skupla varð að draugi. En sagan segir að húsbóndi hennar færi með stúlkuna með sér í skóg. Ég er nú alveg búinn að gleyma því hvað hún hét. Svo þegar þau eru búin að leggja upp á hestana og binda viðinn í bagga, þá leggur bóndi sig fyrir og dottar. Þá finnur stúlkan upp á óþokkabragði; hún tekur saur sinn, sem hún hafði þá nýlega lagt af sér, tekur hann á hríslu og klínir honum um andlit á húsbónda sínum. Bóndi verður var við að það kemur eitthvað við andlitið á honum og grípur hendinni til, og þá náttúrlega makast þetta enn meir um andlitið og höndina á honum. Og þegar hann verður þess var hvað hefur verið að gerast, þá þykist hann vera viss um að það sé stúlkan sem sé þess valdandi. tekur hana og snýr hana úr hálsliðnum. Og það er sagt að hún hafi eiginlega ekki verið fulldauð þegar hún gekk aftur. En það þóttu mögnuðustu draugarnir, sem að þannig urðu til, að þeir voru ekki farnir úr hinu holdlega lífi þegar þeir gengu aftur. Og það er sagt að hún hefði átt að fylgja ætt þessa bónda í níunda lið. Nú er það búið, nú er stutt síðan að síðasti ættliðurinn dó út. Og þar með er líklega Skupla útdauð.
En sagan segir að eftir því sem árin liðu og ættliðunum fækkaði, eftir því minnkaði Skupla. Og þeir sem sáu hana síðast, sáu hana eins og svolitla stelpukind, svona eins og þriggja, tveggja-þriggja ára stelpu. Og í þeirri stærð, sagðist Þórbergur bróðir hafa séð hana einu sinni þegar hann var strákur hér á Hala. Þá sá hann einhvurn ókenndan stelpuanga hérna vestast í tröðunum sem þá voru áfastar við hlaðið á Hala. En þennan sama dag eða stuttu eftir að hann sá þetta, þá kom einhvur af ættinni eða úr ættinni, sem Skupla fylgdi.
Það varð að skammta henni, alveg eins og hverjum öðrum lifandi manni. Og ef henni var ekki skammtað í tæka tíð, þá gerðist hún verri og varð erfiðari viðfangs og gat þá orðið bara erfið viðfangs; en það er ekki getið um það að hún hafi neitt gert af sér, nei. Sigríður hét hún, Sigríður hét stúlkan í lifanda lífi, og gekk stundum undir nafninu Sigríður skupla, því að hún var með einhvurja skuplu; hún hafði klút bundinn yfir höfuðið og dró hann nokkuð fram fyrir andlitið. Og af því dró hún nafnið Skupla.

Grái tuddi

En það var önnur fylgja, svokallaður Grái tuddi, sem að fylgdi Reynivallaættinni, ættfeðrum og mæðrum konu minnar. Jaá, og hann sást. Þórarinn föðurbróðir minn, hann sá Gráa tudda. Það var einu sinni á kvöldi, á miðri vöku, þá gengur Þórarinn út. Þá sér hann hvar Grái tuddi stendur þar Í kálgarðinum, rétt framan við stéttina vestan við bæjardyrnar. Þórarinn fer inn, en Í þetta sinn eins og oftar, þá var Ketill vetrarmaður á Gerði. Ketill heldur nú að það séu nú ekki mikil sannindi í þessu að Grái tuddi sé þarna. “Jæja'', sagði Þórarinn, “komdu þá og sjáðu." Þeir fara svo báðir út. Þórarinn bendir honum á hvar Tuddi stendur. Ketill sá ekkert en alveg óhræddur, sigar hundinum, hann hét Spori þessi hundur og var talinn skyggn, og hann í Tudda og Tuddi hrökklast þá undan honum vestur úr hlaði og vestur á tún. Ketill á eftir og etjar alltaf hundinum, og þeir eru komnir langleiðina vestur að Breiðabólsstað þegar Ketill hætti eltingarleiknum. En Þórarinn sá alltaf Tudda og hundurinn hékk í honum ýmist Í hælana á honum eða var að rífa í síðurnar á honum.
En þessi Grái tuddi hann varð til á þann hátt, segir þjóðsagan, að það var verið að grafa fyrir húsi á Reynivöllum, á neðsta bænum á Reynivöllum og það er komið niður á bein af nauti. Ekki man ég nú greinilega hvað var gert við beinin, en ég hygg að þau hafi ekki verið grafin aftur niður heldur verið látin liggja þar sem þau voru komin eftir uppgröfinn. En það bregður nú svo við, að eftir þetta þá fer að birtast grátt naut sem sést á undan þeim ættingjum sem þarna stóðu að verki. Og það var kallað Grái tuddi. Hann gerði ekkert af sér, en hann sást oft á undan þessum ættlið.

Um Rannveigarhelli og Rótargilshelli

Já, það eru tveir hellar í landi þeirra jarða sem tilheyra minu byggðarlagi. Annar hellirinn, Rannveigarhellir að nafni, hann er í landi Breiðabólsstaðar og er Í Staðarfjalli. Hinn er í landi Fells og heitir Brúsi. Milli þessara hella er breiður fjallgarður og nokkuð undirlendi eða brattlendi af fjallinu hvorum megin. Ég vil nú ekki giska á hvað þetta er langur vegur milli hellanna en það er óhætt að segja að það sé geysilangur vegur. En það er sagt að það sé samgengt milli þessara hella. Og til sannindamerkis um það er, að inn um Rannveigarhelli sást fara köttur en kom svo út í Brúsa. En svo hefur hann lent nálægt helvíti, að hann var brunninn á skottinu þegar hann kom út úr Brúsa.
Munnmæli um Brúsa eru nú eiginlega engin sem ég hefi heyrt, en það eru munnmæli um Rannveigarhelli og af hverju hann dragi nafn. Önnur munnmæli segja að hann dragi nafn af skessu sem haldist við þar, en hin munnmælin segja að hann beri nafn af sakakonu sem hefði hafst þar við um tíma. En hvort sem er þá þykir ekki allt trútt í þessum helli. Og menn vildu ógjarnan vera þar einir inni eftir að fór að rökkva. Það er lítill hellir eða svona hellismynd norðan við hann. Kletturinn slútir þar dáldið fram yfir sig og myndar nokkurt skjól. Við Rannveigarhelli voru lömb setin, já langt fram á mína tíð, fram yfir 1920. Þau voru rekin úr heimahögum að kvöldi fráfærudagsins inn Í Staðarfjall, það er svona hálfs annars til tveggja tíma lestargangur, og byrgð Í Rannveigarhelli yfir nóttina og næstu nætur. Og við Rannveigarhelli, eða frá Rannveigarhellh voru lömbin rekin svo á nærliggjandi haga og setin þarna í Staðarfjalli í þrjá daga. En þeir sem sátu lömbin. höfðust við Í þessari hellismynd sem er norðan við Rannveigarhelli. En það endaði með því að þeim var ekki vært í hellinum fyrir aðsókn, einhverri aðsókn af einhverjum óhreinum anda, sem var þess valdandi að þeir urðu að hrökklast úr hellinum. Og þetta var auðvitað kennt munnmælunum um Rannveigu, hvort sem hún var nú tröllskessa eða sakakona. En það hafði verið frá henni þetta, að ekki var hægt að hafast við Í hellinum.
Hann er dáldið einkennilega lagaður þessi Rannveigarhellir. Og meðal annars sögðu eldri menn að það væri rúm skessunnar sem væri innst í hellinum. En kletturinn er þannig lagaður sem myndar hellinn, að hann er lágur að framan, Svo að maður verður að skríða á fjórum fótum inni en þegar kemur inn fyrir þessa hæð, þá getur maður gengið uppréttur. Og þá er nú ekki annað heldur en myrkur fyrir í hellinum því að það er varla nokkur skíma sem nær þangað inn; opið er það lítið. En út í klettinn norðanmegin er dálítill stallur, svoleiðis að myndast dálítill bekkur sem eldri menn sögðu nú að skessan hefði höggvið sér þarna Í klettinn og þar hefði rúmið hennar verið. Auðvitað ekkert annað en tilbúningur. Þetta hefur myndast svona af sjálfu sér eða myndast um leið og hellirinn, þessi bekkur þarna inn í klettinn. En svona vart nú þjóðtrúin.
En það var dáldið annað með Rannveigarhelli heldur en Völvuleiði og hérna....Rótargilshellinn. Það fylgdu því engin höpp að moka hann út, alveg það gagnstæða. Ef hann var mokaður út, þá átti sá sem það gerði víst að verða fyrir óhöppum. Og sú þjóðsaga er í Suðursveit að bóndinn á Breiðabólsstað hann lét moka út hellinn. En hann lét sauði sína ganga í Staðarfjalli, en þar er Rannveigarhellir. Svo var það í miklum snjó, í geysimiklum snjó, einu sinni þegar að bóndinn fór að vitja um sauði sína, þá hefur komið snjóflóð og tekið þá alla. Og þeim var kennt um sem að höfðu mokað hellinn út.
Nú. nú. En haustið áður, stuttu eftir sláturtíð, þá bar gest að garði til þessa bónda. Og hann var eitthvað að, svona, að barma sér, bóndinn, hvað lítið viðbitið sé nú til á Breiðabólsstað. Það hefði ekki reynst vel, féð sem hetði verið slátrað í haust og af því leiddi að það væri lítið viðbitið til vetrarins. En eftir að hann hafði orðið fyrir sauðatjóninu, þá hefði konan átt að segja við hann: "Ja, nú held ég þú hafir nóg viðbitið," Jón minn.
Já. Rótargilshellir. Jú, það eru munnmæli til um það, að sé Rótargilshellir mokaður út, en það verður að vera kominn svona hóflegur skítur í hann, það má ekki gera að óþörfu, þá reki happ á Breiðabólsstaðarfjöru.
Nú er það einu sinni að faðir minn og synir Oddnýjar á Gerði taka sig til og moka hellinn út. Og það líður ekki langur tími þar til hval rekur á Breiðabólsstaðarfjöru, en nokkru vestar þó heldur en að Rótargilshellir var í beinni línu frá sjó. Hvalurinn var festur í strandbrak eða það sem var eftir af strandi á þessum stað þar sem hvalinn bar að landi. En það einhvern veginn atvikaðist nú svo að það var ekki hægt að sinna hvalskurðinum á stundinni, svo það leið einhvur lítill tími úr degi, að það væri hægt að byrja að skera. En þetta var á sunnudegi. Fólk fór til kirkju, og þegar fólkið kom frá kirkjunni aftur, þá sá það, að það var eitthvað rekið á Breiðabólsstaðarfjöru beint í suður frá Rótargilshelli. Nú hélt fólkið að það væri annar hvalur rekinn þarna og það var brugðist við og farið á fjöru, en þá kom það í ljós að taugin sem hvalurinn var festur með í strandið eða strandbrakið hún hafði bilað, hvalinn tekið út og hann rekið þarna beint fram af Rótargilshelli. Og það sögðu nú menn, já, að þetta væri nú sjáanlegt að það væru einhvurjar huldar vættir sem hefðu vakað yfir þessu og viljað fá hvalinn á stað sem næst hellinum.

Um Selmýri og Vindás

Já, já, það er hérna í Steinalandi. á svokölluðum Steinadal gróið land, mýrlendi, sem heitir Selmýri; og þar er sjáanlegt að hefur verið einhvers konar byggð, og munnmælin segja að þarna hafi verið sel frá Steinum, enda sannar eiginlega nafnið á mýrinni það: Selmýri. En byggðin er á ansi fallegum vaillendishól neðst í þessari mýri niður við aurinn, Og hetta eru bara allmiklar tóftarrústir þarna. Mér sýnist að að þar hafi eitthvað verið um að vera í sambandi við byggð. Ég minnist þess, það var einu sinni núna á seinni árum, að ég var staddur þarna í safni um hausttíma, var að bíða eftir mínum samsafnsmönnum, settist þarna í tætturnar og var að hugsa um það, að gaman væri nú að sjá eitthvað af því fólki sem þarna hefði stigið fótum um. En ekkert gat ég nú séð, en ég svona lét mig dreyma í anda um fallegar stúlkur og pilta sem hefðu gefið þeim hýrt auga þegar þeir komu með fjárhópinn ofan úr hlíðinni fyrir ofan selið.
Þetta er kölluð Selmýri og þarna átti selið að vera staðsett, og þetta hefur verið í ósköp hæfilegri fjarlægð frá Steinabænum, og þarna er mikið fjalllendi í kring og skógur, hefur sennilega verið bara gott undir bú þarna. Og annað það, að að líkindum hefur gróið land náð lengra út frá hlíðinni heldur en nú er, því að Kaldakvísl, hefur brotið landið þarna upp allmikið. Þess vegna getur maður ályktað að þarna hafi verið um töluvert undirlendi að ræða í námunda við þetta sel. Einhvern tíma sem oftar var verið að smala Steinadalinn. Tanginn, sem gengur austast í aurinn upp frá þessu seli heitir
Vindás. Og þetta er hár klettarani. Og austast í rananum gengur fallegt grasból nokkuð inn í hamarinn, falleg grasrák. Nú er það í þetta sinni þegar verið er að smala Steinadalinn, þá er kona með Í smalamennskunni og þarna fremst á Ásnum mætir hún tveimur hálsóttum hrútum. Hún fer að fást við hrútana, en þeir eru eitthvað þráir og sækja alltaf lengra inn í þetta svokallaða Ásból; og hún er þarna lengi dags að koma hrútunum úr bólinu og reyna að fá þá saman við hópinn, en það er ómögulegt, og hún gefst svo alveg upp. En þegar hún segir svo frá þessu þegar safnið er komið saman og komið í réttina, þá vill enginn kannast við þessa hrúta. Þessir hrútar áttu alls ekki að vera til í byggðarlaginu og munnmælin segja alls ekki til í Suðursveit, þessir tveir hálsóttu hrútar. Og þá var auðvitað ályktað, eins og næst stóð, að þarna hafi verið um hulduhrúta að ræða.
Munnmæli segja að það hafi verið kirkja á Vindási, en hvaða bæir hafa sótt kirkju þangað, ja, það er mönnum nú nokkur ráðgáta. Það gat þá helst verið um Steina að ræða, sem eru Í landareigninni en þó dálítið frá, en, vel má vera að það hafi verið einhverjir bæir þar á sléttunni, þó að ekki séu neinar sagnir um það. En svo mikið er víst að Vindás, hann á bæði sérstakt land og hann á fjöru; og þetta land er skógi vaxið og Breiðabólsstaður á skóg þarna að hálfu leyti en K álfafellsstaður að hálfu leyti. En, þegar að kirkjan leggst niður á Vindási þá fellur eign hennar að hálfu leyti til Kálfafellsstaðarkirkju og að hálfu leyti til Breiðabólsstaðarbæja, og sameiginlega eiga Kálfafellsstaður og Breiðabólsstaðarbændur reka á Vindásfjöru, helmingaskipti milli þessara aðila. Hvurnig þetta er til komið, það er gáta sem við höfum, nútímamenn, verið að reyna að leysa en getum eiginlega ekki fundið neina viðunandi lausn á.

Draugasaga

Það var um vetrartíma, fyrra part vetrar, þá bjó á Breiðabólsstað Björn, föðurbróðir minn, hraustur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna það sem að karlmennsku laut. Það var venja hans að ganga oft hingað að Hala í rökkrinu á kvöldin, segja okkur þá ýmislegt og við að segja honum aftur á móti. Það kom oft fyrir að honum var hitað kafi og hann sat hér við kaffidrykkju og aðrar góðgjörðir, kannski fram eftir vöku.
Nú var það eitt kvöldið, segir Björn, þegar að hann fer héðan, þá verður hanm þess var þegar hann kemur hérna stutt niður fyrir bæinn, að það gengur maður til hægri handar við hann, nokkuð vestar heldur en gatan lá. Björn heldur götuna niðureftir hina venjulegu leið, en hinn ókunni maður hann heldur líka leiðina niðreftir og stefnir alltaf meira í veg fyrir Björn eins og hann vilji komast á götuna fyrir hann. Þegar að Björn sér hvað verða vill, að hann vill taka götuna, þá breytir Björn um stefnu og staðinn fyrir það að koma vestan að bænum og svo austur stéttina eins og gatan lá, þá tekur hann strikið fyrir austan bæ og heldur vestur stéttina að bæjardyrunum. En þegar hann kemur að bæjardyrunum þá er djöfsi kominn þar og stendur fyrir dyrunum. Hann sá nú ekki greinilega sköpulag á þessu, en sá þó að þetta var eitthvað..,þetta var í mannsmynd og var miklu stærra heldur en venjulegur maður, tók hátt upp í bæjardyr, hátt upp fyrir dyrnar. Björn sagði nú að sér hefði ekki orðið um sel; ekki viljað ryðjast á þetta óféti, þar sem það stóð í dyrunum, heldur gengið fram í garðinn þar sem var nýborinn mykjuhaugur, tekið lúkufylli sína af blautri kúaleðju og henti af afli miklu beint í trýnið á helvítinu, og með þeim afleiðingum að þetta leystist í sundur og hverfur.
Björn sagðist nú eiginlega ekki hafa orðið hræddur þarna úti en eftir að hann kom inn í bæjardyrnar, þá sagði hann að sér hefði orðið ansi eiginlega hverft við og fólkið hefði séð það greinilega á sér þegar hann kom upp á baðstofuloftið að það var eitthvað að honum.

Húsgangar

Bleikur hestur barnið bar til grafar,
honum það á hendur tel
himna mél,
kríustél
og hnútinn aftan á.

Nú er komin nýárstíð,
nú mun batna hagur,
nú eru veðrin næsta blíð,
nú er gleðidagur.

Einu sinni var bóndinn Bjarni
beðinn að sækja riðgarn;
þá var úti hart hjarn,
þegar hann sótti riðgarn;
áin fram með aur og skarn
á hann Bjarna og riðgarn;
ekki var hylurinn ágjarn,
því af komst Bjarni og riðgarn.

Drengurinn í dalinn rann,
drifhvítur á hár og skinn,
brautir öngar fyrir sér fann,
fingur drap í munninn inn.

Komdu nú að kveðast á,
kappinn, ef þú þorir;
gerðu vel við þessa þrjá.
þeir eru bræður vorir.

Reyndu á mont og raupyrðin,
ræður, kraft og huga;
vertu, karlinn, velkominn,
og vittu, hvað ég duga.

Þula

Gekk ég upp á hólinn
að brýna mér ljá.
Ekki bannar Sankti Jakob
börnunum að slá.
Þurrar eru þúfur,
það vil ég tjá.
Votar eru veitur,
veð ég upp að hnjám.
Ég get ekki skyrið gert
því mjólkin er svo smá.
Hvert á að ríða?
Austur yfir á,
Laxá, Laumá,
Straumá, Strangá,
Hornafjarðarstaðará.
Kvalinn er sá karlmaður
sem karlsdóttur á.
Henni fylgir úlfur og álfur
og Jón bóndi sjálfur,
Sigurborg og Ragna.
Næst er mál að þagna.
Vilmundur, Vigga,
Sæmundur, Sigga,
Ásmundur og Loki
og hann Björn poki,
Þórarinn á Nesi,
kollóttur blesi,
Árni karl á Stöðum,
ríður hesti gröðum,
túnið er fullt með töðum.
Lukku-Lúsía.
mál er lömbunum að stía.

Um Klukkugil

Svo segja þjóðsögur, þjóðsögurnar hér eða munnmælin, að Klukkugil dragi nafn af skessu sem að hafi átt að búa þar og heitið Klukka. Og svo, ég er með aðra tilgátu, en maður má nú eiginlega ekki eyðileggja þessa gömlu þjóðtrú og þessar sömlu þjóðsagnir, en ég held nú því fram að Klukkugil dragi nafn af á sem hefur heitað Klukka. Hún hafi annaðhvort gengið þarna úti, dagað uppi, eða eitthvað orðið til sem að sögulegt hefur þótt og gilið dragi nafn af henni, því að hér t.d. í Breiðabólsstaðarklettum og víðar. eru örnefni sem að dregin eru af á eða hrút eða hrútum og festst þannig í málinu við staðinn. Það er t.d. hér svelti í Gerðistindi sem heitir Lauguhrútstorfa. Það hefur verið einhvur Guðlaug eða Lauga sem hefur átt þann hrút. Það eru Kápustaðir og það er sennilega dregið af á sem hefur heitað Kápa. Það er Svartkollusvelti, sennilega dregið af svartkollóttri á sem hefur dagað þar uppi. Og svona gæti ég lengi talið, og núna í seinni tíð hafa orðið til svelti sem hafa verið kennd við manninn eða kindina. við manninn sem átti kindina eða við kindina sjálfa. Og það vil ég halda, að þetta geti alveg verið það sama með Klukkugil, það dragi nafn af henni Klukku, ánni Klukku.
Ja, þessu var trúað, fyllilega trúað og allt fram á mína daga, að það væru skessur í Klukkugili. Og það þótti helvíti grunsamt að vera þar t.d. í dimmu. Einu sinni voru þeir í fjallgöngu Björn föðurbróðir minn og Stefán Benediktsson í Skaftafelli, faðir Ragnars sem nú býr bar. Stefán var þá á Sléttaleiti, og það er ekki alveg fullbjart þegar þeir koma á svokallaðan Garð sem er á mörkum Hvannadals og Staðarfjalls fyrir framan. Og þar gín Klukkugilið við, eiginlega þar sem það er dýpst. Og þegar þeir sitja þarna á Garðinum og bíða eftir birtu þá heyra þeir sagt dimmri röddu niðrí gilinu: Bjössi, Stebbi. Ég heyrði Björn heitinn aldrei segja frá þessu, en ég heyrði, frétti þetta eftir Stefáni og það af sannorðum manni sem að sagði þetta.
Oddný gamla, hún vildi nú hafa það væri ekki allt klárt með Klukkugil. “Einu sinni vorum við," sagði Oddný, "í grasaferð á Breiðabólsstaðarbæjunum. Við ætluðum að hvíla okkur á Garðinum." sagði hún, og mér rann blundur á brá. Þá dreymdi mig að torfan sem við sátum á. fara með heljarferð niður brekkuna og alla leið niðrí gilið. og við það hrökk ég upp og lofaði Guð." sagði Oddný. "Það var ekki allt klárt með það,“ sagði Oddný.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549