Skip to main content

Samtíningur um Jökulsá á Breiðamerkursandi og Jökulsárlón

Flosi Björnsson, Kvískerjum

Jökulsá mun um langan aldur verið í tölu illræmdustu vatnsfalla á landi hér. Kom þar margt til: Vatnsmagnið sjálft ásamt mikilli straumhörku og oft og einatt jakaferð mikil er á sumarið leið og áin tók að vaxa. Gat því oft verið hætta á jökum og jakahvörfum. Jafnframt hafði lengi verið skammt til sjávar frá jökli, og sem vænta mátti oft lítið um góð brot og áin mjög köld. Ekki mun að efa að straumharkan sjálf hefur átt verulegan þátt í hversu áin féll oft illa. En talsvert gat árbotninn verið misjafn eftir því hvar áin flæmdist um aurana. 


 Félli áin úr jöklinum í einum ál myndaðist oftast dálítið vik í jökulbrúnina þar sem innan skamms gerði fönn nokkra, líklega venjulega nokkra tugi metra á breidd þvert yfir og ólgaði áin þar upp undan jökulbrúninni með miklum dynjanda um það bil einn metra í loft upp. Þannig hefur það oft verið alllangt fram á þessa öld, þar til fór að nálgast þá tíma sem lónsins tók að gæta.
En oft var það líka að áin kom úr jöklinum í fleiri álum og bar þá vitanlega minna eða ekki á látunum.
Einn þeirra sem hvað greinilegast hefur lýst Jökulsá á öldinni sem leið var Þorvaldur Thoroddsen en hann fór um Austur-Skaftafellssýslu 1894 og fór á jökli yfir Jökulsá 31. júlí. Höfðu þá verið hlýindi og hitar og rann áin í einum ál í sjó fram og langt yfir ófær. Skal hér aðeins minnst á nokkur atriði úr frásögn hans.
Þorvaldur segir ána breyta oft farvegi, flæða stundum um mikil svæði en renna stundum þröngt. Sé vatnsmagnið svo mikið að hún verði að breiðast mjög út svo hún verði reið. Segir hann bakka farvegsins fimmtán metra háa, snarbratta úr hnullungagrjóti og sandlög á milli. Fjarlægðin milli bakkana sé nálægt einum km og viðlíka langt eða heldur lengra til sjávar. Áin varla meira en 120-180 m á breidd. Alla leið niður að sjó hafi verið fossfall í ánni og öldugangur. Kolsvört klakasker hafi staðið hér og hvar grunn, en smærra ískurl þeyst á gulmórauðum öldum.
Þegar áin breiðist meira út má ríða hana segir Þorvaldur en alltaf er hún ill fyrir hesta sakir kulda og straumhörku. Verður þá að ríða hana í ótal krókum, móti straum og undan straum. Sagt er að kunnugir hestar fari að skjálfa er þeir nálgist ána.
Þetta var lýsing Þorvalds Thoroddsen, en vart þarf að taka fram að auðvitað féll áin oft á annan veg og skárri þótt vöxtur væri í henni. (Samkvæmt mælingum Sigurjóns Rist mun meðalrennsli Jökulsár talið 250-300 m3 á sekúndu).

Lega Jökulsár á sandinum
Heimildir munu litlar sem engar frá fyrri öldum hvar í sandinum Jökulsá hefur fallið til sjávar. En þar sem að henni er vikið í Landnámu, og er hún kemur aftur við sögu á síðustu öldum, virðist helst sem hún hafi runnið á líkum slóðum og hún hefur gert síðan sæmilega glöggar sagnir eru af. Minnt skal á að á söguöld og vafalaust lengur hefur Jökulsá skipt löndum býlanna Fells og Breiðár. En Breiðárbærinn mun hafa verið álitinn vera fram undir Mávabyggðarönd er hennar fór að gæta. Munu því ekki líkur til, og reyndar af fleiri ástæðum, að Jökulsá hafi þá fallið vestar en nú á dögum.
Á síðari öldum ber heimildum saman um það að áin hefur verið á líkum slóðum og nú á dögum eða svo til. Er þar einkum um að ræða uppdrætti Knopfe landmælingamanns á öndverðri 18. öld og Sveins Pálssonar undir lok aldarinnar, en telja má líklegt að þá megi marka nokkurn veginn hvað snertir Jökulsá, það er legu hennar á sandinum að svo miklu leyti sem stlrðarhlutfall þeirra leyfir. Svo er einnig á öndverðri 19. öld, en um Jökulsá má kort Björns Gunnlaugssonar eflaust teljast nákvæmast. (Björn mælir það árið 1839 en ármynnið lá vel við miðunum frá mælistöðum þeim er hann hafði báðum megin Breiðamerkursands.) Þar er áin sýnd allnærri því sem hýn er sýnd á korti herforingjaráðsins danska eftir þeirra mælingum 1903, en þó heldur vestar. Hitt er svo að sjálfsögðu staðreynd, að innan sinna marka hefur Jökulsá breyst a ýmsa vegu eins og önnur sandvötn. Þrátt fyrir hið illa orð sem af ánni fór, var hún því oftast riðin fram að 1870, fremur en farið væri á jökli. Og að vísu var svo einnig alloft gert fyrri hluta sumars fram eftir þessari öld.
Víkur þá að Jökulsá á síðari hluta 19. aldar og fram eftir þessari. Nokkru eftir miðja öldina eða um 1860 mun Jökulsá hafa runnið á aurunum milli núverandi farvegs hennar og Stemmufarvegs, þó víst ekki lengi. Á árunum 1871-1873 er Jökulsá sögð hafa fallið í tveim stórum álum en allskammt á milli þeirra. Mun hún á næstu árum eða jafnvel fram að 1890 hafa flæmst nokkuð öðru hverju um svæðið frá aurunum, spölkorn austan við núverandi skýli Slysavarnarfélagsins og nokkuð vestur fyrir núverandi jökulsárfarveg.

 Árið 1891 var aðalvatnsmagn Jökulsár á svipuðum stað og nú en í mörgum álum. Að vísu voru einnig margar minni kvíslar í farvegum nokkru vestar. Árið eftir mun hún hafa legið meira í vestri farveginn (um 1-1,5 km vestur frá núverandi farvegi) en flutt sig bráðlega aftur austur þar sem hún var þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist hér 1894. Þar eða á þeim slóðum mun áin hafa fallið til 1912 er hún færði sig austur og rann skáhallt austur í Stemmu en færði sig svo aftur vestur innan við fremstu öldurnar árið eftir. Enn á ný er Jökulsá sögð hafa fallið í Stemmu 1921, eða mikill hluti hennar. Fluttist þó fljótlega vestur og kom þá meginvatnsmagn hennar úr jöklinum vestan við aurbrúnina sem skýli Slysavarnarfélagsins stendur nú á eða um hálfan til einn km norðaustur af núverandi farvegi árinnar. Þarna er allbreið lægð milli hárra bakka, að meðtöldum núverandi farvegi árinnar. Virðist lægð þessi hafa verið svipuð þá er Thoroddsen fór hér um 1894. Sjálf var áin ekki svo mjög niðurgrafin í lægð þessari í fyrstu eftir að hún hvarf fra Stemmu, en flæmdist um allbreitt svæði sem að mestu var þannig undirlagt vatni, þó venjulega væru einn eða tveir álarnir mestir. Meðan áin rann þarna svarf hún öðru hverju úr aurbrúninni ustanmegin uns hún fór að grafa sig meira niður.

Þegar símalínan var lögð 1929 féll áin að mestu þarna en aðeins lítill hluti hennar þá í núverandi farvegi. Strengdur var þá stálvír austur yfir meginvatnið frá grjótöldunni sem er norðaustur við núverandi farveg árinnar og austur yfir á bakkann hinum megin, um 500 m fjarlægð. Sumarið 1930 færði áin sig aftur vestur, það er í núverandi farveg sem hún gróf síðan og dýpkaði að mun, og fór að sveigja meira í suðaustur á við. Nokkur ár lá jafnframt hluti árinnar austar í farvegi sem var orðinn all niðurgrafinn og enn sést, 200-300 m austan aðalfarvegarins. Upp frá honum var þá slæmur jökulvegur og var þá fenginn ferja á álinn 1932, en farið á jökli yfr aðalálinn þar til um 1938, er ferjað var yfir hann líka. Nokkur ár var þó enn farið á jökli öðru hverju með hesta ef svo stóð á að ekki væri mæst við ána. En heita mátti að hætt væri að fara á jökul 1941. Loks var hægt að ferja á lóninu yfir báða álana í einu árið 1944. Eftir að Jökulsá fór að falla úr lóni er hún að sjálfsögðu breytt frá því sem áður var og farvegurinn jafnari og dýpri. Og síðan sjávarfalla tók að gæta ánni, sem mun hafa verið fyrst að nokkrum mun eftir henni allri 1950, minnir hún jafnvel ekki síður á ós en á. En það gat þó komið fyrir með stórstraumsflóði í rosum að sjór næði jökulsporði þegar um 1936-37.

Farið yfir Jöklsá á jökli

Þess hefur áður verið getið að Jökulsá hafi oftast verið riðin fram að 1870. En á því ári mun það hafa verið sem mikilvæg breyting varð á samgönguháttum yfir Breiðarmerkursand: Tekið var að leita vandlega að skástu leiðinni yfir jökulinn upp af Jökulsá og auðkenna hana með stikum af sérstakri gerð úr þrem spýtum sem tyllt var á jökulinn og nothæfar sem leiðarmerki hvernig sem þær sneru. Komið var föstu skipulagi á starf þetta og ráðinn maður til að hafa það á hendi yfir sumarið. En aðalstarf hans auk þessa var að lagfæra eða ryðja úr vegi helstu farartálmunum og halda leiðinni við svo væri sæmilega fær fyrir hesta ef kostur var. Þar sem fara þurfti verulegan halla varð venjulega að höggva þrep eða sniðgötur. Einnig var stundum borinn sandur eða leir í slóðina, bæði til að draga úr hálku og varð einnig oft til þess að myndast tók þrep. Minni sprungur mátti stundum fylla með ískögglum og mylsnu þar sem leiðin lá yfir. Reynt var eftir því sem hægt var að komast hjá að fara yfir miklar sprungur en stundum varð þó ekki hjá því komist, líklega frekar fyrr á árum, og varð þá að leggja yfir þær brýr úr trjáflekum, tryggilega skorðaðar. Eitt sinn er íshrúgald nokkurt varð fyrir á leiðinni var gerð tilraun að sprengja það með sprengiefni (dýnamíti) en varð að litlu gagni. Jökulísinn er ekki nógu fastur í sér.

Leitað var eftir smástyrk til eftirlits þessa og viðhalds leiðarinnar og fékkst fljótlega. Aðalverkfærið var traustur haki, og síðar að jafnaði hafður haki sinn við hvorn enda leiðarinnar, ef hægt var með sæmilegu móti. Það fylgdi og að sjálfsögðu þessu starfi að umsjónarmaður jökulleiðarinnar fylgdi tíðum ferðamönnum yfir jökulinn. Væri leiðin sæmileg og kunnugir menn á ferð voru þeir þó að jafnaði einfærir að fara þessa leið.

Það mun hafa verið Sigurður Ingimundarson er þá bjó að Kvískerjum sem beitti sér fyrir þessum úrræðum og fylgdi fólki austur yfir jökulinn fyrstu árin. En að austan fylgdu Reynivallabændur, líklega ekki síst Eyjólfur Runólfsson, fram yfir aldamótin, en síðar Þorsteinn Arason og Þorsteinn Guðmundsson, einnig Sigurður Sigurðsson. Hafði Eyjólfur og séð um jökulleiðina þó nokkur ár. En heppilegra mun hafa þótt að öllum jafnaði, ekki síst vegna póstferðanna, að umsjónarmaður jökulvegarins væri búsettur vestan jökulsins og gæti þannig fylgt póstinum austur yfir jökulinn. Enda þótt leiðin væri eftir ástæðum löguð milli póstferða kom það nokkuð að sjálfu sér að eftirlit og vinna við jökulveginn var í reynd meira og minna í sambandi við póstferðirnar. En það var nú samt ekki svo sjaldan að póstarnir fóru án fylgdar yfir jökulinn ef vitað var að leiðin væri sæmilega greiðfær.

Þarna var í raun og veru þjóðleið að jökli um 70 ára skeið 1870-1940 á hverju sumri eftir að Jökulsá fór að vaxa.

Jökulleið þessi gat að vísu verið mjög misgreið yfirferðar og mislöng. Komið gátu þau ár að hluti leiðarinnar mátti teljast illfær þótt tækist að halda leiðinni opinni, en sum árin hins vegar svo að segja torfærulaus og að öllu auðveld yfirferðar.

Stöku dæmi voru þess að leiðin gat reynst hestum hættuleg væru menn á ferð án leiðsögumanns en fyrir menn reyndist jökulleiðin án hættu eða slysa við allar eðlilegar aðstæður.

Hvað varðar slysið 1927 er Jón Pálsson fórst og er yfirleitt í frásögnum tengt jökulleiðinni ættu menn ekki að láta sér sjást yfir að slys þetta bar að með alveg sérstökum hætti við kringumstæður sem ekki er vitað til að hafi orðið nokkru sinni í annan tíma, það er stórhlaup í Jökulsá. Ef til vill má rekja það til eldstöðva undir jökli, jafnvel norðar í Vatnajökli, en talið er að á þeim slóðum muni hafa verið gos, en erfitt að staðsetja nákvæmlega.

Það mun hafa komið nokkuð af sjálfu sér að fara með gát yfir jökulinn með hesta, hvernig sem leiðin var. Væri hún ógreið eða jökullinn háll en hestar flatjárnaðir voru þeir nokkru öruggari í spori og skipt var á einstöku hóffjöðrum í sumum skeifanna og settar broddfjaðrir í staðinn, þó ekki væri jafnvel nema framfótahófana. Var stundum gripið til þess ráðs, að minnsta kosti er kom fram á þessa öld.

Ef heppni var með var stundum hægt að komast með hesta á ,,undirvarpi'', það er rétt við uppgönguauga árinnar. En ekki var það á annarra færi en þeirra sem voru gætnir og vanir með stillta hesta.

Árið 1900 fluttist Björn Pálsson að Kvískerjum og 1905 skipaðist svo til að umsjón jökulleiðarinnar  var falin honum á hendur og annaðist hann síðan viðhald hennar og fylgdi ferðafólki austur yfir jökulinn, og reyndar í viðlögum allan þann tíma meðan jökulleiðin var farinn. Einnig stundum síðar eftir atvikum viðhaldi leiðarinnar.

Eins og rakið hefur verið að nokkru er það ekki ofsagt að jökulleiðin gerbreytti þannig öryggi ferðafólks um Breiðarmerkursand, því að eftir að kostur varð á að fara hana þurfti ekki lengur að sæta því að leggja í forynjuna Jökulsá þótt væri á mörkum þess að vera fær eða ófær.

Hlaup í Jökulsá

Hina síðari áratugi hefur stundum orðið vart hlaupa í Jökulsá, að jafnaði aðeins lítilsháttar þó út af því hafi reyndar borið. Engar sagnir hef ég heyrt um hlaup í ánni á fyrri tímum, en hluapskvettur eru þó sagður hafa orðið fáum árum eftir aldamót, að vetrarlagi.
Sveinn Pálsson tekur tekur fram að menn viti ekki til að hlaup komi í ána. (Hafa þau að minnsta kosti ekki verið áberandi hafi þau einhver verið). Eftir að tekið var að fara jökulveginn mun þess síður að vnta að fylgst væri verulega eð Jökulsá. Þetta sem hér verður skráð um hlaup í ánni er að mestu um hlaup áður en áin var brúuð. Voru aðstæður þa aðrar og verr en síðar gerðust til að fylgjast með þeim, einkum hversu lengi þau vöruðu hverju sinni og reyndar lika um vatnsmagnið. Fljótlega kom þó í ljós að hlaupin gátu verið mislöng svo að nokkrum dögum skipti, eða tekið styttri tíma, svo sem tvo daga. Vatnsmagn þeirra var og breytilegt, þó erfitt væri um samanburð, því aðstæður voru þá sjaldan til mælinga og undir hælinn lagt hve lengi þau höfðu þá varað.
Venjulega hefði áin reyndar ekki verið meira en mesta eðlilegt sumarvatn getur orðið. Út af því hegur þó borið. Orsakir sumra hlaupanna eru vart að fullu ljósar, en líklega mun jaðarlón inn með fjöllum hlaupa fram. Þar kemur helst til greina lónið í Veðurárdal innri, enda virðist móta fyrir allbreiðri og langri lægð frá dalsmynninu talsvert langt vestur á jökulinn. Sennilega geta og þaðan komið hlaup í Veðurá-Stemmu, en þangað sérstaklega frá Veðurárdal fremri þegar lón er þar. Einnig hefur orðið vart lóna við Esjufjöll, einkum 1912
er Vatnajökulsleiðangr J. P. Kosh kom þar.
Hlaup í Jökulsá sem vitað er um eru:
1927,
7.-8. september var óhemjuvöxtur í Jökulsá, miklum mun meiri en menn vissu dæmi til. Miklar rigningar höfðu verið að undanförnu og vötn öll því mikil. Þrátt fyrir það var vöxtur Jökulsár meiri þessa daga en annarra jökulvatna á sandinum; gersamlega eyrarlaus utantil milli hærri bakkanna, um eins kílómetra breitt vatn. Eftir ísjökum að dæma mun meðalvatnsdýpið þar ekki hafa verið minna en hátt á annan metra. Var og álitið af þeim sem þarna voru sjónarvottar og kunnugir að hlaup hafi verið í ánni. Um veturnætur þetta haust varð megns brennisteinsþefs vart fram af Breiðamerkurjökli og daginn eftir öskureyks i norðanstormi. Um haustið varð öskureyks vart á Norður- og Austurlandi og sást þaðan til goss í Vatnajökli að ætlað var en erfitt að staðsetja það nákvæmlega.
1941, 16.-19. október. Að minnsta kosti þessa daga og kann að hafa varað lengur.
1945,
2. desember var áin talsvert mikil. Næst komið að ánni 5. desember, var hún þá óvenjumikil eftir árstíma í þurrkatíð og kulda og því álitið hlaup.
1947,
seint í janúar. Stemma og Jökulsá miklar, reyndar öll sandvötnin vegna rigninga. Árnar höfðu enn vaxið 30. janúar, hin vötnin þá fjöruð. Þann 3. febrúar var Stemma jafnmikil og Jökulsá einnig allmikil. Næsta ferð austur ekki fyrr en 12. febrúar og þá fjarað úr þeim, að líkindum alllöngu fyrr.
1963,
16. júlí og síðan nokkra daga.
1964, vart við hlaup 10. ágúst. Líklega þó byrjað skömmu áður. Hélst það enn hinn 13. Sennilega fjarað daginn eftir, en næst var komið þangað hinn 16. og voru þá jakar við bakkana farnir að bráðna nokkuð. Jökulvötn hér mikil um það leyti en Jökulsá talin meiri en svo að væri venjulegur sumarvöxtur. Vatnið steig þó ekki hærra eða litlu hærra en mesta sumarvatn getur orðið.
1966, 16.-17. júlí. Vatnsmagnið sennilega minna en í síðasta hlaupi.
1968, 28. júlí. Líklegt má telja að hlaupið hafi byrjað eitthvað fyrr. Fór að fjara daginn eftir, en hafði stigið með hæst móti. Sigurjón Rist mældi þennan dag um 1000 teningsmetra á sekúndu og sex metra dýpi undir brúnni. Bakkar við útrennsli árinnar úr lóninu styrktir lítið eitt þá eftir hlaupið.
Daginn áður en hlaup þetta kom fram í Jökulsá gekk Guttormur Sigurbjarnarson jarðfræðingur inn að Veðurárdal innri, en hann var þá nýkomin ofan frá Esjufjöllum. Réttara þótti að hann fengi einhvern með sér til fylgdar og atvikaðist svo að ég fór þangað með honum. Gengum við svo upp jökulinn inn að dalsmynninu, en þarna er lón mikið inni í dalnum. Hlíðarnar sem að því liggja (klettar, skriður, gróðurtorfur) virðast mjög brattar og líklegt að lóni muni djúpt.
Í hlaupi mun líklegt að jakar staðnæmist þar frekar lítið vegna brattans en sáum þó stöku jaka talsvert ofar en yfirborð lónins er við komum þangað, og þannig öruggt merki þess að lækkað hefði í lóninu frá því sem áður hefði verið. Þannig auðsjáanlegt að hlaupið hefur byrjað nokkru áður. Gengum við svo dálítið upp eftir og lituðumst betur um. Í dalsmynninu sjálfu var fremur sléttur jökull, efalítið á floti, er nálgaðist lónið í dalnum, sem er mun víðari en mynni hans. Lónið var svo að segja allt hulið ísbreiðu sem öll var sprungin í óreglulega lagaða jaka, misjafna að stærð en lágu þétt saman og víðast mulningur og mar í milli svo að óvíða sást í vatn. Þannig hefur því orðið óyggjandi sönnun þess að hlaup úr Veðurárdal innri hefur komið fram í Jökulsá, enda þótt skorti glögga vitneskju um hversu langan tíma það tekur að koma fram í ána.
Mun þannig vart að efa að Jökulsárhlaupin sé að öllum jafnaði að rekja til lónsins í Veðurárdal inri, sem þannig koma fram á síðari árum eftir að Breiðamerkurjökull hefur farið lækkandi og jökulfargið minnkað.
1971,
12.-14. ágúst. Mun þó sennilega hafa byrjað hinn 11. Áin mun hafa stigið nálægt 70 sm er hún var í hámarki. Síðan hef ég lítt haft gætur á Jökulsárhlaupum sjálfur.

Kuðungar og skeljar við Jökulsá
Kunnugt er að fundist hefur dálítið af kuðungum og skeljabrotum, reyndar heilum líka, sem borist hafa innan frá jöklinum við Jökulsá. Hafa þær einkum fundist uppi við jökulöldurnar og í þeim. (Sjást og á aurunum í grennd). Mest hefur sést af þeim, að minnsta kosti seinni áratugi, frá Jökulsá að Esjufjallarönd. Hafa þar fundist þó nokkrar tegundir og fann þær fyrstur vísindamanna dr. Helgi Pjeturs er hann fór austur um Skaftafellssýslur 1906. Annars munu sumir vegfarendur hafa veitt þeim eftirtekt löngu áður. Að minnsta kosti hefur Ari Hálfdánarson á Fagurhólmsmýri getið þess að kuðungar þessir hafi sést nálægt jöklinum við Jökulsá er hann flutti að Kvískerjum 1880. Annars voru kuðungar þessir og skeljabrot ekki áberandi þótt oftast væri hægt að finna einhver eintök ef litið var eftir þeim sérstakleg
Lítið mun bera á leifum þessum nú á dögum, enda mun Jökulsá eða Jökulsárlón lítið sem ekkert bera fram af þeim við núverandi aðstæður.
 Það er helst segja af athugunum Helga Pjeturs að hann fann þarna ellefu tegundir lindýra. Mest áberandi var kuðungurinn Aparrhais pes Pelecani (vængbarði). Helgi sendi síðan kunnum dönslum sérfræðingi í þessari grein, Ad. S. Jensen, skeljar þessar og kuðunga til ákvörðunar. Reyndust þetta vera hlýsjávartegundir sem nú munu ekki lifa hér við land nema fyrir Suðurlandi. Á þessum slóðum fann Helgi einnig uppi á jöklinum dálítinn blett af mjúkum, fitukenndum, grágrænum leir og áleit hann leirlag þetta í sambandi við dýralífið sem komið hafði fram innan frá jöklinum. Þess skal getið að síðar hafa slíkir blettir fundist á stöku stað á Breiðamerkurjökli annars staðar og einnig Kvíárjökli. Helgi taldi því auðsætt að einhvertíma hafi sjór eða vegur náð inn þar sem Breiðmerkurjökull er siginn fram og af því að margir kuðungarnir og sumar skeljarnar voru heilar er dýraleifar þessar komu undan jöklinum dró hann þá ályktun að undir jöklinum þaðan sem þær höfðu komið mundi vera tiltölulega mjúkt lag. Af því að auðvelt var að hreinsa skeljarnar innan áleit hann að minjar þessar mundu frekar nýlegar (t.d. mun yngri en Fossvogslögin) og líklegast að dýraleifar þessar hafi myndast eftir ísaldarlok og væru því nokkurra þúsunda ára gamlar.
Því er svo aðeins við að bæta að síðari tímar hafa hvað þetta snertir leitt glöggskyggni Helga í ljós í einu og öllu. Þess skal og getið að samkvæmt aldursgreiningu með geislakolsaðferð sem dr. G. S. Boulton hefur látið gera á dýraleifum þessum frá Breiðamerkurjökli reynist útkoman vera um 5.464 +/- 60 ár.

Jökulsárlón
Telja verður mjög ólíklegt að lón hafi verið á sögulegum tíma á Breiðamerkursandi, þar sem nú er Jökulsárlón, fyrr en á okkar dögum. En sterk rök benda til þess að þar hafi jökullinn verið að verki við sérstakar aðstæður er hann náði að komast þangað fram eftir á öldinni sem leið. Er til dæmis ekki minnst á neitt slíkt lón á Jökulsáraurunum í Ferðabók Eggerts og Bjrna, en þeir fóru um Breiðamerkursand 1756. Segja þeir þá eina mílu eða 7,5 km milli jökuls og sjávar. Sveinn Pálsson minnist heldur ekki á lón þar í aurunum, er hann fóru um Breiðamerkursand 1793 og 1794. En þá er jökullinn augljóslega skriðinn verulega fram síðan 1756. Síðara árið sem Sveinn var þarna á ferð segir hann jökulinn austan árinnar hafa hlaupið fram skyndilega þá um vorið, fulla 200 faðma. Við Jökulsá hafi þá verið um fjórðungur mílu milli jökuls og sjávar (tæpir 2 km og hefur þá mjög verið farinn til að nálfast síðari jökulmörk). Flestir sem um þetta hafa skrifað eða rætt virðast þó taka meira mark á korti Sveins af Breiðamerkursandi og jökli, sem sýnir lengra bil milli jökuls og sjávar, jafnvel þó nokkra kílómetra. Mér virðist á hinn bóginn, þótt kortið hafi sitt gildi, að bein frásögn hans eða lýsing í textanum vera mun nákvæmari og meira að marka.
Hlýtur því lónið sem komið hefur í ljós er jökullinn fór að hopa verulega, að vera til vegna þess að jökullinn hefur á öldinni sem leið er hann var að skríða fram jafnframt grafið sig niður í gljúpt jarðlag sem hefur verði þar fyrir undir Jökulsáraurunum og ætla má að dýralífið sem áður er á minnst muni hugsanlega komið frá.
Með öðrum orðum, mun því líklegt að lítt eða ekki hafi borið á þessu gljúpa lagi á þessum stað meðan Jökulsá var einvöld og bar fram aur. En þegar svo jökullinn fór sjálfur að skríða þarna fram á öldinni sem leið hefur hann ekki aðeins skriðið fram heldur og beinlínis sigið djúpt niður í þetta sjávar- og setlagakynjaða lag þar sem lónið er nú.
Skal hér lítið eitt minnst á önnur lón hér í grenndinni áður en kemr að Jökulsárlóni. Yfirleitt var mjög lítið um lón við næstu jökla fyrr en þeir fóru mjög að hopa á þriðja og fjórða áratugnum. Aðeins kom samt fyrir við jaðar Breiðamerkurjökuls að smálón eða tjarnir sáust á stöku stað. Upp af Fitjum myndaðist smálón 1936 er stækkaði talsvert ört eftir því sem jökullinn hörfaði, Fjallsárlón. Við Breiðá mun hafa myndast lón nokkru fyrr, eða um 1930, því víst er að 1932 var orðið þar dálítið lón. Bæði þessi lón stækkuðu ört á næstu árum. Suðvestan við Esjufjallarönd fóru einnig að myndast dálítil stök lón og fyrstu árin talsvert breytileg. Stóðu þau nokkuð hátt uppi á jökulöldunum og þornuðu síðar er jökullinn hörfaði innar.
Víkur þá sögunni að Jökulsárlóni, sem var þeirra síðast að koma í ljós.
Við Jökulsá náði jökullinn fram á öldurnar 1929-1930 og var dálítill gangur í honum þar næstu árin sem náði þó skammt vestur fyrir útfall árinnar og mun víðast annars staðar hafa hopað. Þetta framskrið jökulsins við Jökulsá náði hámarki árið 1933 og gekk jökullinn þá lítið eitt fram yfir hábrún aldnanna þar báðum megin við núverandi farveg Jökulsár, þó einkum austan árinnar án þess þó að breyta öldunum verulega. Eru þessar fremstu öldur sem nú má sjá báðum megin Jökulsár því að mestum hluta allmiklu eldri. Er þær mynduðust mun jökullinn hafa náð kippkorn lengra fram heldur en þegar mælt var á þessum slóðum árið 1903.
En nú varð þess skammt að bíða að þarna gerðust stórfelldar breytingar á tiltölulega fáum árum. Eftir 1933 fór jökullinn mjög að hörfa og lækka við öldurnar og innan skamms að myndast lón innan við þær, líklega um 1934-1935. Þannig breyttust aðstæður að segja má skyndilega svo að Jökulsá tók að falla beint úr lóni. Lengdist það fljótlega í báðar áttir meðfram öldunum, og varð innan skamms um 100-300 m breitt við land og lengd lónsins meðfram öldunum mun hafa orðið áður en langt um leið nálægt sex km. Smáhaft í Esjufjallarönd var þó landfast 1943. Er lengra dró frá öldunum inn til jökulsins stækkaði lónið í þá átt mun hægar sem vænta mátti þar sem jökullinn var þykkri. En áfram hélt lónið samt að þokast smám saman. Fór það að stækka nokkuð ört inn til jökulsins eftir 1937 eða þar um bil. Það var þó ekki fyrr en leið á sjötta og sjöunda áratuginn að lónið fór að breikka til verulegra muna og 1965 var breidd lónsins inn til jökulsins orðin rúmir tveir km upp frá útfalli árinnar úr lóninu.
Fylgdumst við nokkuð frá Kvískerjum með breytingum á lónunum hér á sandinum og gerðum nokkrar dýptarmælingar, meðal annars á Jökulsárlóni, einkum 1951 og gerðum oftast Jóni Eyþórssyni viðvart um helstu breytingar. Mesta dýpi sem mælst hafði í Jökulsárlóni meðan við fengumst við það var 110 m árið 1958 um það bil tvo km norðvestur af útfalli árinnar úr lóninu. En síðan hefur breskur leiðangur mælt lónið (1975) og fundið að talsvert mikill hluti þess var um 90 m djúpt. Þá fannst 150 m dýpi á stað nokkrum norðantil og jafnframt mjög þykk setlög.
Eins og vikið hefur verið að hefur jökullinn grafið sig mun dýpra niður þar sem nú er Jökulsárlón en í hinum lónunum. Spyrja mætti hversu langt jökullinn hefði skriðið fram í þessari átt til sjávar er hann gekk lengst fram, hefði sú ekki orðið raunin.

Rannsóknarstörf
Ekki verður skilið svo við Breiðamerkursand, jökulinn og lónin að ekki sé minnst á rannsóknarstörf ýmissa Breta sem hafa verið fjölþætt á liðnum árum, einkum á sjöunda og áttunda áratugnum, en þau hófust 1951. Meðal annars hafa þeir unnið að mælingum og kortagerð og þar með átt mjög góðan þátt í að varðveist hefur á glöggan hátt yfirlit frá einum tíma til annars um hinar öru og margvíslegu breytingar sem orðið hafa á þessu svæði. Helstu kort þeirra eru að sjálfsögðu unnin í samvinnu við Landmælingar Íslands og rannsóknir gerðar með samþykki Rannsóknarráðs ríkisins. Hafa þáttakendur aðallega verið frá jarðfræði- og landfræðideildum nokkurra háskóla: Durham (1951), Glasgow, East Anglia og síðar Edinborg. Stundum hafa og verið með þeim íslenskir þátttakendur. Hafa sumir þeirra Breta sem einna helst hafa stundað þarna rannsóknir skrifað í Jökul, rit Jöklarannsóknarfélags Íslands. Helstu ritgerðir þeirra eru þó sem vænta má birtar í erlendum vísindaritum. Af einstöku mönnum sem hér hafa starfað skulu aðeins nafngreindir R. J. Price lektor í Glasgow, G. S. Boulton prófessor í Edinborg, dr. R. G. Howarth og dr. R. Welch í Glasgow. 
 Því er einnig við að bæta að undir forystu G. S. Boulton, er starfaði þá við háskólann í East Anglia, voru gerðar dýptarmælingar á Jökulsárlóni árið 1975 og árið eftir á gerð setlaga undir lóninu og taldi hann lónið að vísu ná að minnsta kosti 120 m niður í gegn um lítt hörðnuð setlög. Gaf hann í skyn að hugsanlega gæti því verið alldjúpur, setfylltur dalur í framhaldi af Breiðamerkurdjúpi. En Boulton hefur sem landmótunarfræðingur látið sér annt um svæði þetta, meðal annars með hliðsjón af nálægð þess við Breiðamerkurdýpið. En það hefur hann kynnt sér vel í samvinnu við Íslendinga.
Sem kunnugt er hefur íslenskur vísindamaður dr. Helgi Björnsson öruggelga leitt það í ljós er tl þess gafst tími og tækifæri að svo hefur þessu verið háttað og mun ekki heldur hafa komið á óvart.

Breytingar á ströndinni við Jökulsá
Eins og löngu er kunnugt, hefur sjórinn mjög brotið ströndina við Jökulsá á þessari öld. Hvenær þess fór að verða vart mun nú líklega óvíst, en hitt víst, að ströndin hefur ekki náð lengra fram við Jökulsá á þessari öld en þegar það svæði var kortlagt 1903.

           Árið 1906 strandaði enskur togari, Southcoastes, spottakorn vestan Jökulsár. Barst hann fljótlega upp í fjöruna og brotnaði þar áður langt leið. Árum saman sást gufuketillinn úr togara þessum liggja laus í fæðarmalinu þegar lágsjávað var. Ég hygg að það hafi verið nálægt 1920 sem ketillinn hefur svo algerlega verið horfinn í sjó. Hefur á þeim árum verið farið til að brjóta af fjörunni þar og ekki að efa að eitthvað fyrr hefur þess verið farið að gæta um mynni Jökulsár skömmu austar. Hins vegar var erfitt að gera sér grein fyrir hversu mikið meðan ekki voru fyrir hendi nýjar mælingar eða kort.

            Reyndar hefur þó Guðmundur G. Bárðarson vakið athygli á landrofi þessu öndverðlega á fjórða áratugnum eftir athugun og mælingu Björns Pálssonar sem hann gerði 1932 að beiðni Guðmundar. Reyndist þá fjarlægð milli jökuls og sjávar um Jökulsá 1.020 m, eða mun styttri en ætlað var samanborið við kortið frá 1903, sem Guðmundur telur hafa verið um 1.500 m og er aðalorsökin talin breyting a ströndinni enda þótt jökuljaðarinn kynni að vera heldur framar en þá (þ.e. 1903). Er því ekki vafamál að þá hefur eyðingar strandarnnar verið farið að gæta í venjulegum mæli og líklegt að þess muni hafa sést merki að minnsta kosti áratug fyrr, eða öllu heldur góðum mun fyrr.

            Héðan hefur verið fylgst nokkuð með breytingum á fjörukambinum, aðallega þó vestan Jökulsár, einkum frá 1955. Mælt er öðru hverju hversu ört hefur brotið af honum. Samkvæmt þeim athugunum hafa verið talsverð áraskipti að því: Lengi vel á þeim áratugum engin teljandi breyting nokkur ár samfleytt, stöku ár braut aftur á móti allmarga metra, einkum í miklum rosum, jafnvel á annan tug metra eða vel það. En fleiri árin var það lengi svo að svarfaðist dálítið úr fjörubakkanum meira eða minna. Og er til yfirlit um það.

            Vestan Jökulsár mun hafa brotið af ströndinni vart minna en 440-450 m eftir síðustu aldamót fram til 1976 hefur Jökulsá raskað aðalviðmiðunarstaðnum þeim megin sem héðan var aðallega mælt frá. En því er um það að brotið hefur verið af fjörunni öðru hverju eftir það svo um munar. En þó mun meira austan árinnar, einkum seinni árin, og fjörubakkinn þar verulega hærri, snarbrattur oftast, hæðin mun hafa náð að minnsta kosti 5-5,5 m.

            Hin síðustu ár hef ég reyndar lítið fengist við beinar, framhaldandi mælingar þarna, meðfram vegna tíðari loftmyndatöku Landmælinga Íslands. En ekki skal því neitað að best fer á að fari saman loftmyndir og beinar mælingar svo sem völ hefur verið á hin síðari ár. Mun hentast að aðallandmælingalína sé austar árinnar. Vestan árinnar hefur þó stefnu gömlu línunnar verið haldið við og hefur verið tiltæk fram að þessu.

            En nú í vor (1992), þegar ströndin um útfall Jökulsár er orðin bein á nokkurra km svæði, bregður svo við að nú sem stendur fellur áin beinna til sjávar og virðist svo sem ekki gæti framhalds á landbrotinu nú sem stendur og nokkur vottur af malarborinni fjöru farin til að myndast undir sjávarbakkanum.

            Stefna eða lögun fjörunnar er þá orðin mjög lík og hún er í korti Björns Gunnlaussonar á fyrri hluta aldarinnar sem leið. En vafalaust er framburður árinnar nú á dögum hverfandi miðað við það sem var áður en lónið myndaðist. En hugsanlega kynni að fara til að draga úr áhrifum fallstrauma á þessum stað.

            Nú þegar ég var um það bil að enda þetta skrif berst hingað Eystrahorn 23. tbl. 9. árg. (18. júní 1992) með ágripi af grein Helga Jóhannessonar verkfræðings um landbrot framan við brúna yfir Jökulsá. Glöggt og skýrt yfirlit í stuttu máli ásamt fróðlegum uppdrætti.

            Í þessu glögga yfirliti er samt meinleg villa um mikilvægt atriði varðandi Jökulsá þar sem segir svo: „...jökullinn náði lengra til suðurs um 1890 og hefur verið að hopa síðan þá." Líklega ber að skilja þessa setningu almennt um jökla  og sem alhæfingu. En þar gátu verið í undanförnum þáttum, sérstaklega áberandi um Esjufjallarönd og nokkurn hluta Breiðamerkurjökuls þar austur af. Einmitt þar sem Jökulsá fellur úr jökli.

            En það mun hafa verið eitthvað fyrir 1920 sem Esjufjallarönd framantil og jökullinn austan hennar fóru að hækka og skríða fram. Eins og tekið hefur verið fram í þáttum þessum skreið jökullinn langt fram við Jökulsá árið 1933 þegar hann gekk þá lítið eitt fram yfir hábrún aldnanna sem næstar eru útfalli árinnar úr lóninu.

            Til frekari skýringar skal því bætt við að héðan frá Kvískerjum að sjá ber Esjufjallarönd og þar með fremsta hluta hennar hátt upp yfir aurana þar sem hún teygir sig út á sandinn. Héðan frá bænum mun þó hábrún Borgarhafnarfjalls og Hestgerðishnútu hafa sést bera yfir Röndina, að minnsta kosti frá því skömmu eftir aldamótin að sögn og eitthvað fram á annan tug aldarinnar. En líklega eitthvað fyrir 1920 hefur röndin hækkað svo að hún skyggði alveg á fjallið héðan að sjá og svo var með vissu 1925.

            Og þótt fremsti tangi Randarinnar (Esjufjallarandar) væri lægri en hún var nokkru ofar var hann engu að síður ójafn og holóttur, einnig séður úr fjarlægð. Árið 1929 var hann orðinn nokkru sléttari og farinn að lækka. Sáust þá aftur frá Kvískerjum efstu brúnir Borgarhafnarfjalls bera yfir Esjufjallaröndina.

            Um 1940 var Röndin mjög farin að styttast og lækka frammi á sandinum. Og enn áratug síðar var lítið orðið eftir af þeim hluta hennar sem bar á héðan að sjá á fyrstu tugum aldarinnar.

Frá ritnefnd

            Þann 22. maí 1993 lést Flosi Björnsson á 87. aldursári. Hann hafði þá að fullu lokið við þær greinar sem hér birtast en ritið var enn í vinnslu svo að honum auðnaðist ekki að sjá greinar sínar fullfrágengnar á prenti.

            Flosi var elstur í hópi níu systkina sem á legg komust og bjó alla tíð á Kvískerjum. Hann var landsþekktur fyrir sjálfsnám sitt, einkum á sviði tungumála og einnig jarðfræði. Eins og þessi grein Flosa ber með sér þá var hann með afbrigðum athugull við náttúrurannsónir sínar og í hópi jarðvísindamanna var framlag hans mikils metið, ekki síst jöklarannsóknir hans sem hann stundaði um áratuga skeið.

            Flosi ritaði um hugðarefni sin í ýmis tímarit, þar á meðal Skaftfelling. Um leið og ritnefnd Skaftfellings þakkar Flosa mikilsvert framlag hans til ritsins þá minnast allir Skaftfellingar með hlýju og þökk þessa hógværa sonar sem galt sveit sinni og sýslu fósturlaunin svo ríkulega með fórnfúsu starfi sínu við athuganir og skráningu a margvíslegum þáttum í sögu héraðsins.

 

Fyrir hönd ritnefndarinnar,

Zophonías Torfason

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549