Skip to main content

Kirkjuferð 

Unnur Kristjánsdóttir frá Lambleiksstöðum 

kirkjaFrá því er greint í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu II, um Suðursveit, eftir Þorstein Guðmundsson, að nýbyggð kirkja, falleg og vel gerð úr góðu efni, hafi sópast af grunni og brotnað í spón í aftaka veðri á Knútsdegi, 7. janúar 1886. Eftir að söfnuðurinn hafði verið kirkjulaus í eitt ár var byggð ný kirkja af litlum efnum. Til ársins 1925 hafði kirkjan verið í umsjá prestsins að öllu leyti en það ár var hún afhent söfnuðinum. Árið eftir var svo byggð ný kirkja, steinsteypt. Var hún vígð 31. júlí 1927. Hvort það var út af kirkjuvígslunni eða bara tilviljun að sama sumar tók sig til fólk af Mýrum og fór í skemmtiferð út í Suðursveit. Þá var öðruvísi að komast á milli en nú er, ekkert hægt að komast nema á hestum, hvað þá að ferðast í aðrar sveitir. Það munu vera um 28 km. af Mýrum og út að Kálfafellsstað og yfir þrjú stórvötn að fara sem eru Hólmsá, Heinabergsvötn og Kolgríma, öll óbrúuð.

Það er ekki hægt að fara undirbúningslaust í svona ferð. Það var Björg í Hömrum, sem hét fullu nafni Ingibjörg Björnsdóttir en alltaf kölluð Björg, sem fékk þær frænkur í Einholti Rannveigu, kölluð Veiga, og Sigríði, sem var kölluð Sigga, með sér í þessa ferð. Björg saumaði reiðföt á þær frænkur með þeirra aðstoð. Reiðfötin voru úr ullarkenndu efni, mjúku grádrapp að lit, pilsin skósíð og nærskorin treyja með nokkrum útslætti að neðan, flegin og hneppt á eina eða tvær tölur í mittið. Eftir þessa lýsingu ætti engum að dyljast að þær riðu í söðlum. Sigga reið Stormi, ungum fola sem fékk nafnið Framsóknargráni þegar aldurinn færðist yfir hann. Veiga hefur sennilega verið á bleikri hryssu sem hún átti sjálf. Þórður bróðir Bjargar fór líka og báðu foreldrar þeirra hann að hafa gætur á systur sinni í ferðinni. Von var á Þorláki pósti að sunnan þessa helgi en Hamrahjónunum þótti óæskilegt að þau Björg hittust og það átti Þórður að reyna að koma í veg fyrir. Ekki er vitað hvaða hesti Þórður reið en sjálf reið Björg rauðum hesti, viljugum og stífum á taum.

Með í för voru einnig Anna Pálsdóttir í Holtahólum og sonur hennar Páll Ólafsson. Þótti Anna best ríðandi í hópnum, á Gísla-Irpu sem var mikið fjörhross, eigandi hennar var Gísli Þorleifsson sem var heimilismaður í Holtahólum þá. Þá var Pálína í Holtaseli einnig með, ekki fylgdi sögunnu hvort hún var ein síns liðs. Sumir voru með tvennt til reiðar. Það er athyglisvert við þessa ferð að það voru konur sem tókust hana á hendur, ekki bændurnir. Þeir karlmenn sem tilnefndir eru voru fylgdarmenn.

Þessi hópur lagði upp á laugardegi. Veðrið var gott og mikið í vötnum. Þurfti þar af leiðandi að velja vel vöðin á þeim. Á Skálafelli urðu þær Pálína og Anna eftir með sitt fylgdarlið en hinir héldu áfram að Uppsölum. þar var Björg vön að gista hjá vinkonu sinni Sigurborgu. Af og til var áð á leiðinni en ekki þegnar góðgerðir á bæjum fyrr en á Uppsölum, þar kom fólkið inn og þáði kaffi en annars var það mest úti við á meðan stoppað var.

Nú reið Þorlákur póstur í hlað. Þá fór Þórður að reyna að fá Björgu til að koma með inn í Borgarhöfn, en þar ætlaði hitt fólkið að gista en Björg var vön að gista á Uppsölum eins og áður segir. Henni var ekki hnikað. „Nei, ég verð hér“ sagði hún. Björgu lá hátt rómur svo allir viðstaddir heyrðu vel hvað þeim fór á milli. Ákvörðuninni sem Björg hafði tekið varð ekki breytt, hún gisti á Uppsölum en hin héldu áfram í Borgarhöfn. Ekki fylgir sögunni hvort Þorlákur gisti á Uppsölum né hvað gerðist þar eftir að hin fóru, en ekki voru bundin þar nein bönd, Björg átti sig sjálf allt sitt líf.

Sigga og Veiga fóru til Helgu Sigfúsdóttur, sem þá var nýflutt til bónda síns, Stefáns. Þegar þær voru nýsestar þar inn var riðið þar í hlað og barið að dyrum. Þar var kominn séra Ólafur Stephensen. Hann spurði Helgu hvort væru gestir hjá henni. Hún sagði svo vera og með það fór prestur, en hann var vanur að gista þar þegar hann kom að messa. Litlu seinna kom húsbóndinn heim og segir við konu sína: „Þú hefur þó ekki úthýst prestinum?“ en hún benti honum á að að hún væri með fullt af gestum.
Daginn eftir riðu allir til kirkju. Hestunum var sleppt neðan við hraunið þar sem gamla samkomuhúsið var. Eftir því sem ég hef komist næst hefur aðeins eitt barn fermst við þessa messu, Ágústa Sigurbjörnsdóttir. Var þetta fyrsta ferming í nýju kirkjunni.

Eftir messu var ball í samkomuhúsinu. Á ballið komu Siggi Jónsson í Flatey og Torfhildur í Hólabrekku. Voru þau að koma utan yfir sand, hann utan af Síðu en hún frá Skaftafelli. Þau bættust nú í hóp Mýrafólksins. Þarna var mikið fjör og dansað fram á nótt. Oft spiluðu þeir fyrir dansi bræður á Kálfafelli, Steinn og Eyjólfur, spiluðu þá á orgel. Hvaða músik var á þessu balli er nú ekki vitað en fólkið skemmti sér konunglega.

Um nóttina fór Mýrafólkið heim. Veðrið var gott en nokkuð mikið í vötnum, aðallega í Heinabergsvötnunum, en allt gekk þó vel og varð ferðin öllum þátttakendum eftirminnileg.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544