Jólakveðja frá Þórbergssetri

Töluverð starfsemi hefur verið í gangi síðustu mánuði sem aðallega beinist að rannsóknum og fræðistörfum ýmis konar, Þórbergssetur vinnur nú að verkefni um forn býli og skráningu búsetuminja í landslagi í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Eftirfarandi grein birtist í Jólablaði Eystrahorns, þar sem vakin er athygli á þessu skemmtilega en jafnframt krefjandi verkefni. Fyrirhugað er að opna sérstakan vef um verkefnið á vordögum og seta upp sýningu og er undirbúningur í fullum gangi.
Óvíst er á þessari stundu hvenær Þórbergssetur opnar fyrir gesti og gangandi á ný, en vonandi þó sem fyrst. Við sendum hugheilar jólakveðjur og þakkir til allra velunnara Þórbergsseturs um allan heim. Framundan eru krefjandi verkefni í framhaldi af ótrúlegum aðstæðum og breyttri heimsmynd, Þá skiptir miklu að við byggjum á okkar arfleifð sem þjóð og hugum að þeim verðmætum sem felast í sögum fortíðar og menningararfleifð. Þannig tókst okkur sem þjóð að lifa af, - með nægjusemi, samtakamætti og þrautseigju héldum við áfram. Nú höfum við ótal vopn í höndum,, þökk sé tækni og vísindum og ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði strax og tekist hefur að stöðva þá óværu er herjar á heimsbyggðin., Vonandi tekst okkur þá um leið að víkja af braut óhófs og sóunar þannig að jörðin okkar verði áfram byggileg komandi kynslóðum.
Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kveðjum frá Þórbergssetri