Skip to main content

Sjóferð 21. aríl 1931

Um morguninn var gott veður ég vaknaði snemma því ég hélt að það ætti að róa ef sjóveður væri. Þá datt mér það í hug að ef róið yrði og ég yrði sjóveikur þá ætlaði ég ekki að liggja eins og letidýr eins og var sagt um mig fyrst þegar ég fór á sjó því þá lá ég út í öðru borðinu aftur í skut en ekki hékk ég í lausu lofti eins og letidýr. Ég fór á fætur klukkan hálf sex því það var talað um það daginn áður að fara snemma. Svo fór ég út og sá að það var góður sjór og útlit fyrr gott veður. Ég fór svo að éta og át mikið en ekki man ég hvað það var.


Svo vorum við alltaf að vonast eftir sjómönnum að sunnan og svo komu þeir, þá var klukkan eitthvað um átta. Þá fórum við að sækja hrossin og lögðum á þau og fórum svo og náðum í hina á Steinabalanum. Þá var farið að tala um hvernig sjórinn væri og kom öllum saman um að hann væri góður. Svo var haldið áfram austur sand og út úr Laufey og út á fjöru og austur fjöru. Þegar austur í Bjarnarhraunssand kom var verið að setja Svan fram Staðaráraurana því hann lá í vetrarnausit upp undir hrauni þar upp í landinu. Vonin lá í nausti undir hrauni þar austan við. Þar fórum við af baki og sprettum af hestunum. Svo var farið til að tína grjótið frá skipinu. Þegar var búið að hvolfa því upp þá kom maður að austan af Mörk og bað um far og fékk hann það strax. Þá var farið með skipið útundir álinn og voru hafðir tveir hestar til að draga það. Það var svo róið suður álinn því það átt að róa á milli holtanna þegar þangað var komið komu allir mennirnir af hinum skipunum til þess að koma skipinu fram og var raðað frammeð því alveg eins og komst af mönnum og gekk líka vel fram í flæði. Þar lá Svanur rétt vestar. Þá var allt látið upp í skipið sem með átti að fara bæði nesti, sjóólar og árarnar og þess háttar.
Sumir fóru í skinnfötin þeir sem áttu, en ekki átti ég þau ég hafði engar verjur aðrar en nýju stígvélin stóru, þegar þetta var búið var farið að laga til árarnar að ára skipið sem kallað er, og mönnum raðað við skipið ég var einhvers staðaraftarlegaog gat ekki vaðið langt því þá hefði ég fyllt stígvélin þegar ýtt var út.
Formaðurinn kallaði lagið þá var ýtt út. Fyrst fóru þeir uppí sem fremstir voru og tóku til ára undir eins og hinir gerðu það líka þegar þeir komu uppí. Svo var hamast við að róa en ekki reri ég. Þegar var komið dálítið frá landi, las formaðurinn sjóferðarbænina, en alltaf var róið. Þegar var komið út á eyrar þá komu hin skipin út. Vongóður fór út austur í Vík, Svanur varð síðastur. Þegar lengra var komið út var hætt að róa og rennt færum Það var á átta faðma dýpi enn enginn fiskur dróst, svo var róið lengra, og rennt aftur þá renndi ég færi í fyrsta sinn, það fór á sömu leið enginn fiskur hafðist. Þar fóru þeir á Svan framhjá okkur og spurðu hvort við hefðum orðið nokkuð varir, en því var neitað. Þá drógum við upp aftur. Oft var ég spurður að því hvort ég væri ekki orðinn sjóveikur og mér var sagt að fara að róa til þess að ég yrði síður veikur og ég gerði það þangað til að næst var rennt, þá var ég aðeins farinn að finna til en batnaði þegar ég fór að róa, svo var rennt enn og þá ældi ég, og það fór á sömu leið enginn fiskur dróst, og enn var róið sumir þóttust sjá að á hinum skipunum væri verið að draga fisk en það var víst missýning. Enn var rennt í fjórða sin og þá ætlaði ég aldrei að geta komið út færinu þvi alltaf gengu gusurnar upp úr mér, engin fiskur hafðist enn. Svo renndi ég ekki aftur en alltaf sat ég samt uppi en lá ekki eins og letidýr, því það eru víst allir letidýr sem liggja, og það var róið og rennt til skiptis þangað til var komið meira en þrjátíu faðma dýpi. Þá sögðu sumir að það væri ekki fiskur fyrr en kannski einhversstaðar úti í hafsauga og það hefur líklega verið satt. Þarna fyrir utan voru svartfuglahópar á sjónum, þegar svona langt var komið var róið inn því lengra þýddi ekki að fara því færin náðu ekki til botns. Stundum hurfu alveg hin skipin fyrir ölduhrygginaog voru þau þá skammt frá og var þó smátt í sjó, þeir eru víst ekki litlir þegar er mikill rosi á stundum á veturna. Þegar var komið nokkuð langt inn var verið að ráðgera hvort ætti að fara með skipið vestur en var haldið að sjórinn yrði kanski orðinn svo vondur að við kæmumst ekki í land því hann var heldur farinn að versna, það var kominn austan vindur. Einhversstaðar á leiðinni sást eitthvað á floti á sjónum sumir sögðu að það væri planki en þegar að því var komið var þetta trollfjalarræfill.
Þegar var komið næstum upp undir fjöru var mér batnað en var orðið kalt. Svanur lenti á undan okkur, svo lentum við á sama stað og við fórum út. Svo voru skipin sett upp á kamb í félagi og hvolft þar saman. Vongóður lenti austur í vík. Þegar var búið að hvolfa skipunum var farið að borða nestið, svo var farið að bera grjót á skipin, þá komu hestamennirnir með hrossin þá var farið suður og heim. Þegar við komum heim fengum við selkjöt að borða en ég hafði ekki lyst á því af því mér var ekki bötnuð sjóveikin. 
Benedikt St. Þorsteinsson

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672