Skip to main content

Gjafir og góður hugur

teppið_hennar_Margrétar.jpgÞað hefur verið líflegt í Þórbergssetri í sumar, fjöldi fólks þegið veitingar og heimsótt safnið. Gjafir hafa verið að berast á síðustu árum sem nú prýða sýninguna og aðstandendur Þórbergsseturs þakka þann hlýja hug sem þeim gjöfum fylgir. Þórbergssetur er því lifandi safn byggt utan um andlegan arf og minjar, en um leið birtist þar veröld horfins tíma þar sem hægt er að rekja sig eftir sögu íslensku þjóðarinnar í gegnum æviskeið Þórbergs Þórðarsonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Margrét var mikil hannyrðakona og fyrir nokkru barst að gjöf veggteppi sem Margrét saumaði, mikið listaverk sem nú hefur verið sett upp á auða vegginn í þjóðsögustofunni. Gefendur veggteppisins eru hjónin Petrína Ásgeirsdóttir frænka Margrétar og maður hennar Pétur Jóhannesson. 

Margrét Jónsdóttir var mikill listunnandi, fagurkeri og listakona og er teppið fína sannarlega gott vitni um þá hæfileika hennar en er  um leið sýnishorn af handverki kvenna frá þessum tíma. Margrét safnaði líka málverkum eftir fræga íslenska listmálara og áttu þau hjón fallegt safn málverka sem þau gáfu síðan Listasafni alþýðu. 

Fleiri munir hafa verið að berast sem gjafir síðustu tvö árin. Þar á meðal er  ljósakrónan úr stofu þeirra hjóna sem Herdís Petrína Pálsdóttir gaf, kínverskir listmunir og margt fleira. Gestir Þórbergsseturs geta líka sest núna við háborð í ,,plusseraða" stóla þegar þeir snæða og er þá boðið að setjast við borðstofuborð þeirra hjóna  sem gefið var af  Jóni Hjartarsyni leikara og Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands. 

Allar þessar gjafir sem nú eru komnar heim á Hala fá á sinn hátt ævarandi líf og merkingu á þeim stað sem Þórbergi var kærastur og gera sýninguna fjölbreyttari og svipmeiri með hverju árinu. Fyrir það eru aðstandendur Þórbergssetur afar þakklátir og finna nú enn betur hvaða skyldur Þórbergssetur ber til framtíðar um varðveislu og framsetningu muna á sýningunni.Hraðar þjóðfélagsbreytingar kalla á að við gleymum ekki upprunanum heldur lítum til fortíðar og gerum minningar liðins tíma sýnilegar næstu kynslóðum.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 103
Gestir þennan mánuð: ... 5653
Gestir á þessu ári: ... 23676