Skip to main content

Skógar og skógrækt í Suðursveit

Fjölnir Torfason, Hala

Inngangur
Í þessari ritgerð verður fjallað um skóg og skógarnytjar í Suðursveit, gerð tilraun til að lýsa skógum hér í sveit, fyrir og eftir landnám til okkar tíma. Einnig verður drepið á örlagasögu sem tengist reynihríslunni á Reynivöllum, sagt frá fjalhöggunum í Hvannadal og fleiru. Gerð er tilraun til að meta breytingar og þróun í útbreiðslu birkis og víðitegunda og rekja einnig í stuttu máli sögu skógræktar og skógverndar í Suðursveit frá 1917 til þessa dags. Einn af þáttum þessarar ritgerðar er að segja frá útbreiðslu furu og hvítgrenis út frá skógræktarlundinum í Staðarfjalli. Höfundur þessarar ritgerðar er fæddur árið 1952, verður 55 ára á þessu ári og plantaði sinni fyrstu trjáplöntu fyrir hálfri öld.

 

Skógar við landnám og upphaf þeirra.
Fáar lýsingar eru til um skóga á Íslandi um landnám aðrar en segir í Íslendingabók Ara prests fróða ,, Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru,, (Sturlunga, Íslendingabók skýringar og fræði bls. 4.)  Þessi lýsing er stutt og laggóð, segir allt sem segja þarf, en skilur okkur nútímamennina eftir litlu nær. Hvernig var landnámsskógurinn? Hversu fjölbreytt var tegundavalið, voru barrtré á einstöku stöðum hér á landi við landnám?
Þegar landið byggðist af norrænum mönnum hafði trjágróður hér á landi haft nær því tíu þúsund ár til að þróast og breiðast út. Hvað af þeim trjágróðri hafði lifað af tveggja milljón ára ísöldina verður ekki fullyrt um hér, en líklegt er að það hafi verið heldur fáskrúðug flóra sem hér lagði grunn að fyrsta kjarrinu. Hugsum okkur, landið hefur legið undir jökli í 2 milljónir ára, jökullinn hafði marið landið undir sig, núið það og nagað allan þennan tíma, hvergi hafa fundist minnstu minjar um gróður eða gróðurfar í landinu nema steingerðar minjar frá því fyrir ísöldina miklu. Raunhæft er að gera ráð fyrir að skógargróður sem var hér  á landi við landnám hafi borist hingað til Íslands eftir að ísaldarjökullinn sleppti klóm sínum af landinu. Hér er mikið staðhæft eða fullyrt, en eigum við ekki að líta á málin með staðreyndum. Hversu langur er líftími eins birkitrés?  Ef við gefum okkur að líftími eins birkitrés væri 60 ár þá hefðu rúmlega 33.000/  þrjátíu og þrjúþúsund kynslóðir birkitrjáa þurft að lifa af samfleytt ísöldina hér á landi til að geta fjölgað sér þegar henni létti af landinu. Hverjar eru líkurnar?

 

Þróun gróðurs fram að landnámi..
Alltaf lendum við í sömu vandræðunum þegar við fjöllum um íslenska skóga og tegundasamsetningu þeirra við landnám. Ekki ein einasta heimild hefur geymst um tegundir eða raunverulega útbreiðslu skóganna frá þessum tíma, engar sambærilegar aðstæður eru til nú hér á landi til að nýta til öflunar þekkingar eða til að gera líkan  af líklegu skógarmynstri frá þessum tíma. Við landnám hafði skógurinn á Íslandi haft þúsundir ára til þess að þróast og dreifa sér um landið, engin truflun hafði orðið af mönnum eða búpeningi, skjól var víðast hvar gott í þessum skógi og aðstæður allar hinar ákjósanlegustu, vísindamenn hafa jafnvel talið að veðurfar hafi verið nokkru hlýrra stóran hluta þessa tíma heldur en síðar varð.
Það var ekki bara skógurinn sem þróaðist út frá engu fyrst eftir að jökulskeiði lauk, þar var allur annar gróður einnig að nema land, blómjurtir, gras og svo framvegis. Hvað með fuglalífið, skyldi krían hafa verpt á Íslandi á jökulskeiði síðustu ísaldar, kom lóan að kveða burt snjóinn á þessum tíma? Um þetta vitum við ekki en líklegt er að ekkert eða mjög takmarkað fuglalíf hafi verið hér þann tíma sem jökulskeiðið stóð, fuglarnir hafa komið eftir að landið fór að koma undan jöklinum, hvað tegundir það voru í upphafi vitum við ekki en flækingsfuglar hafa komið fljótlega frá meginlandi Evrópu líkt og nú er og einhverjir þeirra fljótlega tekið sér bólfestu hér við batnandi veðurfarsskilyrði.. Þannig þróast lífið smátt og smátt og fuglarnir bera sífellt með sér fleiri tegundir fræja frá Evrópu. Hér er vert að benda á að vísindamenn hafa borið saman gróðurtegundir fyrir og eftir ísöld og telja sig greina að núverandi flóra Íslands sé mun skyldari flóru Evrópu en var fyrir ísöldina.  Ekki má gleyma einu mikilvægasta atriðinu í þessari umræðu og það er, hvaða gróður kann að hafa borist til landsins með landnámsmönnum eða öðrum því fólki sem hér var á ferð bæði fyrir og eftir landnám. Hér skal sérstaklega bent á kúmenið sem hingað var flutt, hvað með hvönnina og hvað með heimiluna (Njólann). Voru þessar plöntur fluttar hingað til lands til ræktunar í görðum sbr. hvannagarða í Evrópu. Þegar landnámsmenn fluttu með sér húsdýr á skipum sínum hafa þeir eflaust flutt með sér fóður í einhverju formi, gras eða hey og þá ef til vill ný slegið og þurrkað, með öðrum orðum ákjósanlegar aðstæður fyrir fræ að berast landa á millum.   

 

Hvaða trjátegundir voru í íslensku skógunum við landnám.
Telja verður nær öruggt að birki hafi verið helsta uppistaða íslenskra skóga við landnám og svo hafi einnig verið í Suðursveit. Líklegt er að reyniviður hafi verið mun algengari í íslenskum skógum á þessum tíma en nú er sbr. fjölda örnefna víða um land t.d. Reynivellir í Suðursveit. Blæösp hefur verið nokkuð algeng í skógunum fyrr meir en þar sem hún er afar vinsæl beitarplanta margra húsdýra hefur hún átt erfitt uppdráttar að fjölga sér og hefur af þeim sökum líklega verið fyrsta trjátegundin sem hvarf úr íslensku skógunum, þó henni hafi tekist að lifa af í landinu á stöku stað allt til þessa dags. Gulvíðir, grávíðir og loðvíðir hafa  verið algengar plöntur í skógum landsins á þessum tíma, hvort þar hafa verið stakstæð tré eða þykkni af runnum er ekki gott að segja, vísbendingar eru þó um að íslenski gulvíðirinn geti verið hvort heldur sem er stórt og fallegt tré með glæsilega krónu eða óreglulegur runni, sbr. sýnishorn af hvoru tveggja í Steinadal í Suðursveit. Fjalldrapi hefur eflaust vaxið víða um land, eitt af sérkennum skóga í Suðursveit í dag er að hér finnst þessi planta tæpast eða er afar sjaldgæf, í næstu sveit í Bólstað á Mýrum er fjalldrapi hins vegar útbreiddur.   Ekki má gleyma íslenska barrtrénu, líklegt er að einir hafi vaxið hér á landi þegar fyrir landnám þó engar beinar sannanir séu fyrir því. Hafi einir vaxið í íslenskum skógum við landnám er ekki útilokað að hann hafi þá ekki verið eins jarðlægur eins við þekkjum hann í dag sbr. breytingar þar um í Staðarfjalli í Suðursveit síðustu tíu árin.

 

Þróun og nýting.
Flest bendir til að landnámsskógurinn hafi látið verulega á sjá þegar eftir að búseta hófst í landinu, íbúarnir þurftu land undir akra og tún, skógur var ruddur af þeim svæðum sem menn reistu sér hús og skógur hefur einnig verið ruddur af helstu samgönguleiðum. Elstu máldagar kirkjunnar á Kálfafelli í Fellshverfi taldir vera frá árinu 1343, segja m.a.
,Skóga og fjörur slíkar sem eru,,
,viðarhögg í Hólalandi á xxx ( þrjátíu ) hesta,, (Ísl. Fornbréfasafn 2. bls. 771)
Hér eru tveir fyrstu liðir máldagans og virðist sem skógurinn og viðarhöggið hafi haft mikið  vægi í lýstum réttindum kirkjunnar. Ekki er lengur vitað hvar þessi skógur sem vísað er til í Hólalandi var, vitað er að Hólaland heyrði undir kirkjuna að Breiðá 1343, en árið 1570 hafði umrætt landsvæði verið fært undir Breiðabólsstað í Fellshverfi.

Þórbergur Þórðarson rithöfundur frá Hala í Suðursveit segir frá því í bók sinni Í Suðursveit að þegar hann var unglingur á Hala þá vakti það með honum sérstakar tilfinningar þegar hann leit augum fjalhöggin í Hvannadal, dalur þessi er nokkuð frá byggð og mikið mál að bera viðarkolin þá átta kílómetra sem eru frá þeim stað þar sem fjalhöggin voru og þangað sem hægt var að koma kolunum á hesta. Fjalhögg þessi týndust um nokkra áratugi, en í febrúar 2002 fór sá er þetta ritar sérstaka ferð í Hvannadal til að freista þess að finna umrædd fjalhögg.  Eftir nokkra leit fundust fjalhöggin undir stórum steini, tvö saman, gráhvít og samlit umhverfi sínu, nánast tilviljun að sjá þau nema sérstaklega væri rýnt eftir þeim. Þórbergur segir að þau séu mjög gömul (það var fyrir hundrað árum) og engin skilji af hverju þau séu þarna, en einhverja vitneskja hafði hann þó um að þarna hafði verið gert til kola fyrir langa löngu. Fjalhöggin eru úr gæðaviði sem ég kann ekki að nefna, hafa trúlega rekið á fjörur (Breiðabólsstaðarbænda) fyrir mörgum öldum, ekki stór um sig en þung, nokkuð höggin um miðjuna og mátti enn greina axaförin í þeim. Hvenær fjalhöggin  hafa gegnt hlutverki sínu á þessum stað er útilokað að  segja til um á þessari stundu, staðurinn er langt inn til fjalla, hátt yfir sjávarmáli, torfærur eða nánast ófærur að koma kolunum til byggða, gáta sem gaman væri að ráða, aldursgreining á viðnum gæti ef til vill gefið einhverjar vísbendingar. Þykir mér ekki ólíklegt að hér gætu verið einhverjar elstu minjar um skógarhögg og kolagerð sem nú finnast í landinu.
Sú staðreynd að menn fóru langt til fjalla sem hér hefur verið lýst bendir til þess að nytjaskógur hafi ekki verið í byggð á þeim tíma sem gert var til kola í Hvannadal.

 

Reynihríslan á Reynivöllum
Bæjarnafnið Reynivellir í Suðursveit er sagt tilkomið vegna reynihríslu sem átti að vaxa í Bæjargilinu skammt frá bænum, hvort bærinn dró nafn sitt af þessari einu plöntu sem til er vísað er þó ekki líklegt, trúlegra er að vellirnir þ.e. hvammurinn og brekkan þar sem bærinn stendur nú hafi verið vaxið reynivið, plantan sú eina í bæjargilinu var þannig staðsett að búpeningur komst ekki að henni, lifði hún því ein af búsetu mannsins og síðar töldu menn að bærinn drægi nafn sitt af þessari reynihríslu.
Frá bænum sést þessi hrísla tæpast nema í sjónauka utan fáa daga á haustin þegar hún skartar rauðleitun einkennislit sinnar tegundar, þó þarf að vita nákvæma staðsetningu hennar til að greina hana með berum augum á þeim tíma.
Sá er þetta ritar spurði síðustu ábúendur á Reynivöllum hjónin Örn Eriksen og Þóru Hólm Jóhannsdóttur um þessa hríslu haustið 2004. Þau lýstu staðsetningu hennar nákvæmlega og sögðu að eldra fólk hefði sagt að þarna hefði hún alltaf verið. Hér má bæta við að Örn var að hluta til alinn upp hjá Guðrúnu Eyjólfsdóttir yngri sem var fædd á Reynivöllum 1876, Guðrún ólst  upp og bjó þar mestan hluta ævi sinnar, dáin 1960. Þóra og Örn hófu búskap á Reynivöllum 1952 þannig að þau vor um árabil samtíða Guðrúnu þarna á Reynivöllum. Þóra sagði að eldra fólk hefði talið að það hvíldu álög eða helgi á þessari reyniplöntu. Þessu til sönnunar sagði fólk að systkinin á Reynivöllum sem eignuðust börnin saman, hefðu einhverju sinn í eldiviðarleysi farið upp í Bæjargil, brotið greinar af hríslunni og farið með heim til bæjar þar sem sprekin voru notuð á eldinn.

Sagan hefst þannig að laust fyrir 1760 hófu búskap í Suðursveit stórættað par, Björn Brynjólfsson prestsonur frá Kálfafellsstað í Suðursveit og kona hans Bergljót Sigurðardóttir sýslumannsdóttir frá Smyrlabjörgum í sömu sveit. Vegna ættgöfgi þessa fólks voru við það bundnar meiri væntingar en almennt var á þessum tíma. Þau Björn ríki eins og hann var kallaður og kona hans bjuggu fyrstu búskaparár sín á Breiðabólsstað (1759-1762) en eftir það  á Reynivöllum (1762-1801). Þessi hjón eignuðust mörg börn og er ættleggur þeirra nú víða um land, meðal annars sá er þetta ritar.
Álögin áttu að koma fyrst fram 11. janúar 1796 þegar Sigríður dóttir þeirra hjóna ól barn og kenndi það Þorvarði bróður sínum sem var fæddur 1775, lítið er gert í málinu nema að rúmu ári síðar 5. júní 1797 koma álögin aftur fram því nú elur Sigríður annað barn og kennir það öðrum bróður sínum Guðmundi f. 1762, nú fór allt í háaloft, sýslumaður Jón Helgason í Hoffelli var sviptur embætti og æru vegna þessa máls og reyndar fleiri afglapa. Málið endar þannig að systkinin voru öll dæmd til að hálshöggvast, síðar var dómurinn mildaður, bræðurnir dæmdir til ævilangar vistunar á Brimarhólmi, en hvað varð um Sigríði vitum við ekki nú. Hér er rétt að bæta við að hjá þeim hjónum Birni ríka og Bergljótu var viðloðandi holdsveiki á bænum, Sigríður dóttir þeirra svo illa haldin af þessari veiki eftir að hún átti síðara barnið að ekki var hægt að flytja hana milli bæja, hefur ef til vill dáið fljótlega eftir þetta. Engar sagnir eru af börnum þessara systkina, þau hafa ekki verið færð í kirkjubækur sem nú eru til.  Af reynihríslunni er það að segja að hún er enn á sínum stað í Bæjargili, það er eins og hún reyni að teygja sig frá sauðkindinni sem hefur verið hennar versti óvinur í gegnum aldirnar, sjá meðfylgjandi ljósmynd. Eftir að beitarálag sauðfjár fór minnkandi upp úr 1990 má greina að planta þessi hefur náð að fjölga sér nokkuð, einhverjir tugir reynitrjáa eru nú að vaxa upp í klettarákunum umhverfis móðurplöntuna. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því þegar fram líða stundir hvort ekki vex upp reyniskógur á þessum slóðum líkt og verið hefur fyrrum. (Heimildir, munnlegar frásagnir Þóru Hólm Jóhannsdóttir, dómskjöl vegna máls systkinanna á Reynivöllum í Þjóðskjalasafni og síðast en ekki síst samantekt Sigurðar Ragnarssonar um fólk í Austur-Skaftafellssýslu frá því um 1600 til dagsins í dag)

 

Verndun skóga í Suðursveit.
Árið 1917 lýstu bændur á Breiðabólsstaðarbæjum í Suðursveit því skriflega yfir á manntalsþingi í sveitarfélaginu að öll vetrarbeit og skógartekja væri bönnuð í Staðarfjalli í Suðursveit. (sjá þingbók frá þessum tíma)   Skýring á aðstæðum: Birkiskógurinn í Staðarfjalli og á Steinadal er í raun sami skógurinn, Steinadalur er að sunnanverðu í dalnum, Staðarfjall að norðanverðu í sama dal. Ástæða friðunarinnar var sú, að birkiskógurinn hafði farið illa undangengin missiri vegna ofnýtingar og óhagstæðs tíðarfars (frásögn Steinþórs Þórðarsonar á Hala við greinarhöfund) Um líkt leyti friðuðu bændur í Skaftafelli skóginn þar með sambærilegri yfirlýsingu. Þrátt fyrir þessa friðun skógarins í Staðarfjalli rétti hann lítið við utan einstakra afmarkaðra svæða svo sem í Hellistorfunni og í svipuðum torfum undir Miðhöfða.Á árunum eftir 1965 var sauðfé látið bera á húsi í Suðursveit, hafði áður verið haldið til beitar og síðan sleppt af húsi uppúr sumarmálum í betri árum, en í lélegum vorum var fé ekki sleppt síðar af húsi en í byrjun maí. (dagbækur Steinþórs Þórðarsonar á Hala 1933-1980)  Árabilið 1970-1980 dafnaði birkiskógurinn allvel, en með minnkandi beitarálagi eftir 1990 þá varð fyrst gjörbreyting til hins betra.

 

Birki og víðiskógar í Suðursveit 2007.
Ef við byrjum austast í Suðursveit þá er það fyrst að segja að skógarkjarr er nokkuð í Hjallanesi við Skálafell, eins hefur birki náð að sá sér út austan Kolgrímu þar sem jöklarnir hafa verið að hopa síðustu áratugina. Dálítið birki og víðikjarr er í og undir klettabeltunum í Stórahvammi vestan Uppsala, ekki verður séð að kjarr þetta sé í útrás. Allnokkuð birki er nú bæði austan og norðanmegin í Staðardal og hefur það frekar sótt í sig veðrið en hitt seinni árin.
Næsta svæði er Kálfafellsdalur, það er samdóma álit þeirra sem fylgst hafa með þróun birkis í Kálfafellsdal, að eftir 1990 hafa orðið umtalsverðar breytingar til hins betra á útbreiðslu birkis  þarna, að austanverðu í Kálfafellsdal má áætla að flatarmál þess svæðis sem birki hefur náð fótfestu hafi tvöfaldast frá 1990. Hér er vert að benda á að í Laufatungum í Kálfafellsdal er að finna nokkur glæsileg birkitré sem vel kæmu til álita sem móðurtré með áframhaldandi ræktun í huga. Telja verður frekar eða mjög líklegt að skógurinn í Kálfafellsdal að austanverðu sé samstofna birkiskóginum á Steinadal og í Staðarfjalli.

Næst skulum við skoða birkiskóginn á Steinadal, í Staðarfjalli og Kálfafellsdal að vestanverðu. Birki vex í Steinarákum við þjóðveg 1 ofan við eyðibýlið Steina, samfelldur birkiskógur nær nú frá Steinarákum eftir öllum Steinadal inn að Klukkugili, norðan Klukkugils í Staðarfjalli nær birkiskógurinn um Höfðana, Koltungur, um brekkurnar í Staðarfjalli, áfram inn í Grenishvamma, inn að Gjágili og svo samfellt inn að svokölluðu Borgarhafnarnesi. Innan við Borgarhafnarnes má víða sjá birki og víðikjarr, svo sem á Hólmkvarða, í Rjúpnahrygg og á nokkrum stöðum í Vatnsdal, m.a. alveg við Brókarjökul.
Telja verður fullvíst að þessi birkiskógur sem hér er lýst, þ.e í Steinadal, Staðarfjalli og Kálfafellsdal gætu í dag verið víðáttumestu birkiskógar á landi hér og án nokkurs vafa, þeir ógirtu og villtu birkiskógar landsins sem telja mesta magn skógar í kílóum talið. Steinadalsbirki hefur hin seinni ár fengið það orð á sig að vera beinvaxið og fljótsprottið, engar skriflegar heimildir hefur höfundur þessarar greinar þó haldbærar sem styðja þessa kenningu, þetta er ef til vill aðeins órökstudd sögusögn.

Hvannadalur er dalur sem liggur vestan Kálfafellsdals, best lýst sem framhald af Klukkugili, takmarkast af Þverártindseggjum í vestri og Staðarfjallsfjöllum í austri. Í dal þessum vex nú hin síðari ár (eftir 1990) umtalsverður birkiskógur með gulvíði og grávíði til uppfyllingar, útbreiðsla kjarrsins er nánast með ólíkindum þar sem dalurinn liggur nokkuð hátt yfir sjávarmáli, hér hefur sá er þetta ritar séð smávaxið birki sem gæti alveg eins verið fjalldrapi vegna smæðar laufblaðana.
Ef við byrjum aftur í Steinarákum og höldum til vesturs þá er nú síðustu árin allvíða í Breiðabólsstaðarklettum birki og víðikjarr, t.d. allmikið í Bíldubásum og Arnartindsbásum, eins í Lyngrákum og Gaparákum, stöku plöntur má finna víða annarsstaðar í klettunum, einkum þar sem sauðkindur hafa haft takmarkaðan aðgang seinustu árin. Það hefur vakið sérstaka athygli mína að þrátt fyrir að birki og víðir hafi aukist umtalsvert í Breiðabólsstaðarklettum, hef ég enga plöntu fundið í brekkunum undir þessum klettum, þó hefur beitarálag minkað umtalsvert þar sem og annarsstaðar hér um slóðir vegna fækkunar sauðfjár. Næst förum við í Reynivallafjall, á hjöllunum ofan og vestan við Reynivelli hefur skógur aukist til muna síðustu árin, en á Hjöllunum neðan við Grænhjallbotn og inn á Heiði hefur birkiskógurinn frekar rýrnað á sama árabili, hvað sem veldur.
Í Mýrarbotnum í Hólmafjalli hefur birkið verið í sókn síðustu fimm árin og er farið að teygja sig inn með hlíðinni meðfram Mjósundaánni í átt að Miðfelli í Hvítingsdölum.
Birki og víðir hefur ekki náð sér á strik í Fellsklettum líkt og í Breiðabólsstaðarklettum, en í skriðunum undir Fellsklettum uppaf svokallaðri Þröng eru þrjár stakar Skógartorfur, þar vex birki og gulvíðir í bland frekar lágvaxið og hefur ekki náð frekari útbreiðslu enn sem komið er. Á Breiðamerkursandi var sumarið 2004 nokkuð af birki og gulvíði að finna á gönguleiðinni úr Þröng, meðfram Veðurá og allt að Jökulsárlóni. Stærstu birkitrén á þessari leið sumarið 2004 voru 25-35 cm. há og talsvert var af grávíði og gulvíði dreift um svæðið. Því miður hef ég ekki haft tækifæri til að kanna ástand þessara plantna síðan, óttast að aukið staðbundið beitarálag þessa svæðis kunni að hafa farið illa með þessar plöntur.
Á Hellrafjalli í Veðurárdal er nokkuð skógarkjarr og hefur það færst í aukana seinni árin. Í Miðfelli, Útigönguhálsi og allt inn í svokallaðar Fauskatorfur eru gulvíði og grávíðibrúskar algengir og birki sést þarna á stöku stað. Í Innri-Veðurárdal er lítils háttar af gulvíði og grávíði, en lítið af birki.
Hér er í mjög grófum dráttum drepið á helstu svæði hér í Suðursveit sem vaxin eru villtu birki og eða víðikjarri, nánari lýsingar hefðu verið æskilegri en verða að bíða betri tíma.

 

Skógrækt í Suðursveit.
Lítils háttar var farið að planta trjám við bæi í Suðursveit á fjórða áratug síðustu aldar. Á Reynivöllum 1931 ( sögn Björns Arnarssonar) og á Kálfafellsstað undir lok þess áratugar (endurminningabók Frú Þóru Einarsdóttir) Á ýmsum öðrum bæjum var plantað á árabilinu 1940-1960, frá 5 og uppí 20 trjám í lítinn reit í skjóli við bæjarhúsin. Fyrsta gróðursetning hér í sveit í sérstaka skógræktargirðingu var á Reynivöllum, nákvæmlega hvenær, hefur ekki tekist að fá staðfestingu á þó er það annaðhvort 1952 eða 1953.
Upphafið að skógrækt í Staðarfjalli í Suðursveit má lesa í dagbók Steinþórs Þórðarsonar á Hala frá árinu 1954, en þar segir um þetta efni  ,,30. maí 1954 sunnudagur. Hópur af fólki víðs vegar úr sveitinni fór í Staðarfjall, var girtur af hektari á Rauðarárflötum og settar nytjaskógarplöntur þar niður. Veðrið var indælt í fjallinu og dagurinn skemmtilegur,,    Höldum áfram með beinar samtímafrásagnir. 3. júlí 1955 segir Steinþór svo frá. ,,Fólk fór úr þessu byggðalagi í Staðarfjall að setja niður skógarplöntur í girðinguna þar frá Þorsteini Magnússyni frá Borgarhöfn nú í Reykjavík til minningar um það að hann var á yngri árum í UMF Vísi,,
Enn skrifar Steinþór á Hala í dagbók sína. 10. júní 1956. Gróðursettum Plöntur frá Þorsteini Magnússyni í Staðarfjalli.
18 maí 1958 segir Steinþór á Hala. ,, Torfi á Hala og fleiri fóru í Staðarfjall að grisja í skógræktargirðingunni,,
Næst skulum við líta í dagbækur Þorsteins Guðmundssonar á Reynivöllum, Þorsteinn var að öðrum ólöstuðum helsti frumkvöðull skógræktar í þessu héraði um miðbik síðustu aldar.
5. júlí 1959 segir Þorsteinn í dagbók sinni.  ,,Gróðursett í Staðarfjalli 500 af furu og 400 af greni, 36 manns við það,,
Miðvikudaginn 11. maí 1960 segir Þorsteinn á Reynivöllum í dagbókinni ,,Fór í dag í Staðarfjall að skoða skóginn, Furan ber þar af öllu öðru,,
Hér eru þær beinu tilvitnanir og heimildir um upphaf skógræktar í Staðarfjalli sem tekist hefur að nálgast, vitað er að Þorsteinn Guðmundsson á Reynivöllum hélt dagbækur um áratugaskeið, dagbækur hans frá 1952-1958 finnast ekki á héraðsskjalasafninu á Höfn, sem er afar bagalegt við vinnslu á verkefni sem þessu, vonandi tekst síðar að bæta hér um.
Eins og áður hefur komið fram var upphaflega skógræktargirðingin í Staðarfjalli 1 hektari, eftir 1960 var hún stækkuð í 3 hektara og um 1990 var girðingin fjarlægð að mestu þar sem menn töldu sig sjá að greniplöntur sem hafði verið plantað utan girðingar nokkrum árum áður virtist fara jafnvel eða betur fram en þær plöntur sem gróðursettar voru sama ár innan girðingar.

 

Landnám furu og grenis í Suðursveit
Vorið 1985 tók sá er þetta ritar eftir því að í moldarbarði vestan við skógræktargirðinguna sást á nokkrar agnarsmáar furuplöntur, hafði ég þá á orði við þá sem með mér voru, hverslags dómsdags hálfviti hefði plantað þessum fururæflum þarna í moldarflagið. Fylgdist ég með viðgangi þessara plantna næstu árin, tók eftir því að þessar plöntur urðu fleiri með hverju árinu sem leið, var löngu hættur að skilja hver það gæti verið sem væri alltaf að planta úrgangsplöntum þarna í flagið, það hafði verið reynt í Suðursveit að planta grenitrjám í svona moldarflög, en frostið lyfti alltaf plöntunum upp úr flaginu í frostum á vetrum og þær lágu út um allt á vorin, uppþurrar og oftast dauðar af vökvaskorti. Það sem mér þótti merkilegast var að þessar furuplöntur virtust ekkert lyftast þó frysti og flagið væri allt útbólgið. Furuplönturnar í moldarflaginu döfnuðu mun betur en furuplöntur sem plantað var á bestu stöðum innan girðingar þessi sömu ár og sífellt fjölgaði þessum plöntum í flaginu ár frá ári. Þegar svo ég fór að finna agnarsmáar furuplöntur í hálfgrónu eða algrónu landi þarna í nánd fór mig að gruna að ekki væri allt sem sýndist með þennan skógræktarmann sem hafði plantað þessum trjám. Það var svo fyrst 1992 þegar ég fann furuplöntu sem óx upp úr smásprungu í klettabelti í ca. 80 metra fjarlægð frá moldarflaginu að ég gerði mér ljóst að hér hafði átt sér stað kraftaverk.
Einhver ein furaplanta sem gróðursett hafði verið í skógræktargirðinguna á upphafsárunum hafði náð að bera þroskuð fræ og þessi fræ höfðu náð að spíra og skjóta rótum, náð að  dafna og verða að fallegum trjám, árið 1992 voru stærstu sjálfsáðu trén að verða mannhæðarhá. Síðan 1992 hefur nær því á hverju ári fjölgað þessum sjálfsáðu furutrjám, útbreiðslu eða áhrifasvæðið stækkar ár frá ári og nú vorið 2007 eru nokkur þeirra furutrjáa sem fyrst komu upp úr moldarflaginu þakin af fullþroska könglum sem í er fræ sem eru vonandi gædd þeim hæfileika móðurplöntunar, að geta spírað og vaxið sjálfbært í íslenskri mold.
Vorið 1998 tók ég eftir því að greniplöntur voru farnar vaxa á stöðum þar sem ekki hafði verið plantað slíkum trjám, við nánari skoðun og þegar tíminn leið, kom í ljós að hér voru á ferðinni plöntur af kvæmi sem líkist hvítgreni. Nú hef ég fundið þrjú tré í skógræktargirðingunni sem plantað var eftir 1960 sem gæti hvert þeirra verið móðurplanta þessara sjálfsáðu hvítgrenisgræðlinga, þessar þrjár plöntur bera allar fullþroskaða köngla annað og þriðja hvert ár og eru staðsettar á því svæði sem mest er af þessum græðlingum.

Þegar frumkvöðlar skógræktar á Íslandi hófu sína þrautargöngu um miðja síðustu öld, þá ólu þeir í brjósti sér þá von að takast mætti að finna barrtré í útlöndum sem væri þeim hæfileika gætt að geta fjölgað sér sjálft hér á landi þegar fram liðu stundir, líkt og þau gerðu í nálægum löndum. Af þeirri ástæðu voru þessir frumkvöðlar fullir áhuga að safna fræjum og könglum af barrtrjám nánast hvar sem til þeirra náðist, í nálægum löndum fyrstu árin, síðar var farið að leita til fjarlægari landa. Nú er ljóst að einhversstaðar á einhverjum tíma hefur einhver fundið fræ sem sáð var til, fræið hefur síðan orðið að plöntu sem flutt var hingað í Suðursveit og plantað í Staðarfjalli á árunum 1954-1965. Þessar plöntur, ein furuplanta og ef til vill líka aðeins ein hvítgreniplanta, hafa nú lagt til fræ í skógarreit sem fyrir 50 árum var 1 hektari, en er nú orðin meira en 50 hektarar að flatarmáli og þar sem ég hef nú fundið eina furuplöntu í 300 metra hæð yfir sjó og í meira en kílómeters fjarlægð frá upphaflegu skógræktargirðingunni er ekki fráleitt að ætla að áhrifasvæði þessa sjálfsána furuafbrigðis  gæti verið að nálgast 100 hektara. Ekki nóg með það, hér er full ástæða til að vitna aftur í lýsingu Þorsteins á Reynivöllum þegar hann skoðar skógræktarreitinn í Staðarfjalli 11. maí 1960 og segir að furan beri af öllu öðru. Er ekki að verða tímabært að rannsaka hvaða kvæmi af furu hér var verið að planta, sem svo skjótt náði góðum vexti sbr. lýsingu Þorsteins og eins tel ég löngu tímabært að rannsakað verði hvaða kvæmi af furu það er sem er að breiðast út í Staðarfjalli og virðist svo hraðvaxta sem raun ber vitni, hér get ég staðhæft að sjálfsána furan er meira en helmingi hraðvaxnari en plöntur sem plantað hefur verið út á sama svæði síðustu 20 árin.

 

Plöntun trjáa í Suðursveit
Eigum við að líta aðeins nánar á hvað skógræktarfólk í Suðursveit var að vinna að árið 1959.   Einmitt þetta ár 1959 var gróskumikið í skógrækt hér í sveit, til viðbótar því sem hér hefur verið vitnað í dagbækur Þorsteins Guðmundssonar á Reynivöllum, segir ennfremur um skógrækt í dagbók hans frá 1959.
12. júní 1959 ,,settar niður 600 skógarplöntur í nýja skógræktargirðingu á Skálafelli.
23. júní 1959 ,, settar niður 7-800 plöntur í Hestgerði.
23. júní 1959 ,, sett upp girðing við kirkjuna á Kálfafellsstað og gróðursettar þar 21 Reyniplanta,, 2
26. júní 1959 ,, stækkuð skógræktargirðing á Reynivöllum.
Hér ljúkum við tilvitnunum í dagbækur um skógrækt í Suðursveit, efnið gefur fullt tilefni til að haldið verði áfram að safna gögnum og frekari heimildum sem kostur er, frumkvöðlar skógræktar hér í Suðursveit eiga það inni hjá okkur sem njótum árangurs erfiðis þeirra að merki þeirra sé haldið á lofti. Þó slegið hafi í bakseglin í skógræktinni, í páskahretinu 9. apríl 1963 héldu eldhugarnir ótrauðir áfram, sannfærðir um að árangur næðist.

 

Lokaorð
Að síðustu langar mig að vitna í danskan vísindamann Dr. Niels Nielsen er dvaldi hér á landi m.a.1934 og rannsakaði eldgosið í Grímsvötnum það ár. Dr. Nielsen ritaði bók um rannsóknir sínar á þessu eldgosi, bókin nefnist á frummálinu, Vatnajökull, Kampen mellem Ild og Is, en í íslenskri þýðingu Pálma Hannessonar sem kom út hér á landi 1938 nefnist hún, Vatnajökull, Barátta elds og ísa. Eina af lokasetningum í bók Dr. Nielsen langar mig að gera að lokaorðum þessarar ritgerðar, þau eru þessi ,, En þessi neikvæða niðurstaða varð upphaf að nýju starfi. Það er oft ótrúlega örðugt að losa sig við skoðanir , sem haldið er fram í námsbókum eða fræðiritum og venjan hefur helgað. Og í raun og veru þarf mikla andlega áreynslu til að afmá það, sem menn þykjast vita, og fitja upp á nýjan leik. Menn skyldu ætla, þetta væri ofur auðvelt , en það reynist undra örðugt,,
Hala í Suðursveit 19. apríl 2007.
Fjölnir Torfason          

 

Heimildir:
Dómsskjöl systkinanna á Reynivöllum í Þjóðskjalasafni
Íslenskt fornbréfasafn 1-15 hef ekki aðgang sem stendur að uppl. um útg.
Niels Nielsen í þýðingu Pálma Hannessonar; Vatnajökull, Barátta eld og ísa. Mál og Menning Reykjavík 1938.
Sigurður Ragnarsson; Ættfræði og samantekt um Austur Skaftfellinga; handrit
Steinþór Þórðarson á Hala; dagbækur 1954-1958
Steinþór Þórðarson á Hala; frásagnir hans við greinarhöfund
Sturlunga;Íslendingabók ; Svart á hvítu 1988
Þingbækur Borgarhafnarhrepps frá 1917
Þorsteinn Guðmundsson á Reynivöllum; dagbækur 1959-1960
Þóra Einarsdóttir; Af lífi og sál; Bókaútgáfan Skjaldborg Reykjavík 1989
Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit, Mál og menning 1977   
Viðtal við Björn Arnarson Reynivöllum
Viðtal við Örn Erikssen og Þóru Hólm Jóhannsdóttur á Reynivöllum 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549