Skip to main content

Greinargerð yfir starfsemi Þórbergsseturs  árið 2021

Starfsemi Þórbergsseturs var um margt óvenjuleg árið 2021. Þar gætti áhrifa frá heimsfaraldinum Covid 19 enda Þórbergssetur aðeins opið í um sjö mánuði á árinu. Segja má að starfið hafi tekið mið af aðstæðum og þróast yfir í að sinna æ meira fræðastarfsemi, rannsóknum og miðlun menningararfs í stað móttöku ferðamanna. 

Árið 2021 var góðviðrasamt, gjarnan hægviðri framan af vetri og gott veður til útiveru. Því var auðvelt að halda áfram með skráningarverkefni um fornar rústir og búsetuminjar og vinnutími forstöðumanns fyrstu mánuði ársins var alfarið helgaður því verkefni. Verkefnið er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs og er Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur og fornleifafræðinemi sá starfsmaður Menningarmiðstöðvarinnar er vinnur að verkefninu með aðilum frá Þórbergssetri.  

Fjölnir Torfason er aðili að verkefninu fyri hönd Þórbergsseturs og nýtti hann tímann í skimun, rannsóknir og grúsk sem tengdist fornum rústum, mannlífi og búsetu í Suðursveit, lagði fram bíl í öll ferðalög og eigin krafta í vettvangsferðir. Einnig lauk hann tölvuskráningu manntals 1703 fyrir alla sýsluna. Kristinn Heiðar Fjölnisson var aðalmaður í myndatöku fyrir verkefnið. Vinna þeirra feðga var alfarið sjálfboðavinna og á Þórbergssetur þeim mikið að þakka fyrir óeigingjarnt starf í þágu verkefnisins. Farið var í ótal vettvangsferðir m.a. að eyðibýlinu á Sævarhólum í byrjun janúar. Þá voru öll vötn,,á haldi” og auðvelt að heimsækja þær fornu rústir sem enn eru þar sjáanlegar. Í febrúar var farið inn á Staðardal að leita seltófta undir Selkletti og skoða forna lambarétt innarlega í dalnum, sannarlega fáfarnar slóðir. Segja má að í hverri viku framan af vetri hafi verið farið um sveitina að leita tófta og skoða forn mannvirki og í apríl var svo hafist handa við drónamyndatökur um alla sveit.

 Stofnuð var feisbókarsíðan Fornar tóftir og búsetuminjar 22. febrúar og sá forstöðumaður um að fylgja henni eftir. Meginmarkmið með stofnun þeirrar síðu var að  hvetja til almennrar umræðu um mannvistarminjar í landslagi. Meðlimir síðunnar eru nú 490 alls og hefur hún vonandi vakið áhuga margra og myndað tengingar við fagfólk á þessu sviði. Á milli vettvangsferða vann forstöðumaður fullan vinnudag við skráningu og rannsóknir á sögu eyðibýla í Suðursveit, gerð ábúendatala og söfnun ítarefnis ásamt öðru er tengdist daglegum rekstri . 

Hefðbundin menningarstarfsemi í byrjun árs féll niður vegna covid bæði bókmenntahátíð og hrossakjötsveisla.  En á afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar þann 12. mars var þess í stað boðið upp á beint streymi, dagskrá undir heitinu ,,Lifandi mál, lifandi manna.” Dagskráin var unnin í samstarfi við Esperantosamband Íslands sem sá um útsendingu og tæknistjórn undir forystu Hannesar Högna Vilhjálmssonar. Þar fjölluðu þeir Kristján Eiríksson og Pétur Gunnarsson um hið mikla verk Kristjáns ,,Lifandi mál, lifandi manna” bók sem kom út 12. mars 2020. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona las valda texta úr bókinni á milli atriða. Dagskrána má finna inn á You Tubehttps://www.youtube.com/watch?v=qdG-1NpiNVE. Þórbergssetur hafði áður styrkt útgáfu Kristjáns á bókinni.

Þorbjörg Arnórsdóttir kynnti eyðibýlaverkefnið á fjarfundi með Samtökum sögutengdrar ferðaþjónustu í marsmánuði. Þorbjörg og Fjölnir kynntu líka verkefnið og héldu fyrirlestur á Sögustund eldri borgara í Ekru á Höfn í Hornafirði.

Þröstur Þór Bragason miðlunarfræðingur hjá Eflu kom við í Þórbergssetri í byrjun maí og tók drónamyndir í Steinum og á Felli, eyðibýlum í næsta nágrenni Hala. Myndatakan tengist verkefni um sýndarveruleika og er erlent samstarfsverkefni. Gaman væri ef hægt væri að ganga inn í forn býli í námunda við Þórbergssetur í sýndarveruleika í framtíðinni. Ekkert hefur heyrst meira af verkefninu, en hann sendi mjög góðar drónamyndir frá báðum stöðunum skömmu eftir heimsóknina og lofaðist til að leyfa okkur að fylgjast með. 

Þórbergssetur var opnað að nýju á sumardaginn fyrsta 22. apríl. Rólegt var í byrjun en bjartsýni ríkti þar sem bólusetning gegn covid gekk vel og smitum fækkaði. Fáeinir gönguhópar gistu eða komu í kvöldmat og í heimsókn á sýninguna, einstaka skólahópar og svo hin árlega heimsókn Leiðsögumannaskóla Íslands var um miðjan maí. Forstöðumaður tekur alltaf á móti öllum hópum og segir frá Þórbergi, verkum hans og tengingu þeirra við staðinn, umhverfi og náttúru.

Jafnframt móttöku gesta var unnið hörðum höndum við opnun á sýningu um eyðibýli í Suðursveit í samstarfi við Menningarmiðstöðina allt til 18. júní er tókst að opna sýninguna með viðhöfn. Sýningin var fyrst sett upp í Menningarmiðstöð Hornafjarðar en var flutt yfir í Þórbergssetur í lok ágúst. Einnig var opnuð vefsíðan www.búsetuminjar.is, vefhönnuður var Heiðar Sigurðsson. Hann vann síðuna í starfstíma sínum hjá Gistiheimilinu á Hala þar sem minna var um verkefni þar út af covid faraldrinum og lokun á hótelinu til 1. maí. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir sá um alla textagerð og Tim  Junge grafískur hönnuður um hönnun og uppsetnig, bæði starfsmenn Menningarmiðstöðvar. 

Gísli Sverrir Árnason hóf aftur störf hjá Þórbergssetri 1.júlí með 6 mánaða verkefnastyrk frá Vinnumálastofnun, Hefjum störf.  Vinnur hann að rannsóknarverkefni sínu og bókarskrifum er tengjast sögu Eymundar og Halldóru frá Dilksnesi og sögu héraðsins. Vonast er til að hægt verði að gefa út bók um verkefnið í lok þessa árs ef fjármögnun tekst á lokasprettinum. 

Eftir 20. júní starfaði forstöðumaður alla daga við móttöku gesta í Þórbergssetri. Aðeins tókst að ráða starfsmann við móttöku gesta í 4 vikur frá 12. júlí til 7. ágúst, þ.e. yfir hánnatímann. Var það Páll Kári Róbertsson háskólanemi sem stóð sig með miklum ágætum í þessu starfi þó ungur væri að árum og þekkti ekki mikið til Þórbergs er hann kom á staðinn. Bjargaði það því sem bjargað varð enda ógerlegt fyrir einn starfsmann að komast yfir að sinna gestum alla daga með öðrum störfum.

Fjölnir Torfaon, Sigríður Guðný Björgvinsdóttir og Sigurður Hannesson fóru nokkrar rannsóknarferðir að leita að og kanna fornar tóftir vestan Hólmsár á Mýrum. Heita má að búið sé að teikna upp nær allar þekktar tóftir á því svæði.

Þann 3. júlí kom fimmtán manna danskur hópur Hannes litteraturrejse í Þórbergssetur. Soffía Auður Birgisdóttir hélt þar fyrirlestur um Þórberg Þórðarson og verk hans. Dagskráin stóð í 2 tíma með heimsókn á safnið. Einnig komu nokkrir hópar eldri borgara, en síðan fór covid að draga úr aðsókn á ný og hægja á gestakomum í heimsókn á safnið.

Ekki tókst að halda sumartónleika í samstarfi við Kálfafellsstaðarkirkju þar sem covid var farið að aukast á ný í samfélaginu.  Aðsókn að Þórbergssetri minnkaði er líða tók á ágústmánuð. Vegna vöntunar á starfsfólki var þó ekki hægt að halda áfram með rannsóknarverkefni fyrr en í október og nóvember. Þá var lokið við að setja inn efni um öll eyðibýli inn á síðuna www.busetuminjar.is. Enn er mikið til  af efni sem fer þar inn á árinu 2022 ef tími vinnst til og starfskraftar leyfa.

Ferðamannastraumur erlendra ferðamanna hélst nokkuð stöðugur fram undir 15. nóvember og því töluvert annríki í móttöku ferðamanna í Þórbergssetri. Málþing á haustdögum féll niður vegna Covid. Fyrirhugað var að minnast Oddnýjar Sveinsdóttur frá Gerði sem hefði orðið 200 ára á Þorláksmessu á árinu 2021. Ekki þótti ráðlegt að boða til stórrar samkomu hér í nóvember, en samband hafði verið haft við nokkra afkomendur hennar. Sú samkoma bíður betra færis og frekari undirbúnings. 

Endurnýjun á Þórbergsvefnum stendur yfir samtímis því að bæta við efni inn á vefinn og færa hann í nútímalegra horf. Heiðar Sigurðsson vefhönnuður sér um þá vinnu innan fasts vinnutíma hans hjá Gistiheimilinu á Hala. Líkur eru á að á næsta ári verði að ákveða einhverja fjármuni til að ljúka þvíi verkefni. 

Hætta varð sýningu á klippum úr Ofvitanum inn á Þórbergssýningunni vegna mótmæla eins leikarans Emils Gunnars Guðmundasonar og greiða þurfti honum umtalsverða frjárhæð vegna sýninga undanfarinna þriggja ára vegna hótana um málsókn. Að vel athuguðu máli þótti forstöðumanni ekki ástæða til að láta reyna á málið, en áður hafði tekist að semja við hann um skammtímasamning sem var útrunninn.

Hafnarskóli kom í heimsókn á haustdögum, það voru 5. bekkingar sem komu í sína árlegu heimsókn og voru þau sérstaklega áhugasöm þetta árið. Höfðu þau áður kynnt sér höfundaverk Þórbergs og kennarar lásu fyrir þau úr Sálminum um blómið fyrir heimsóknina. Í upphafi átti þetta að vera smá kynning á bókinni og verkum Þórbergs en bókin var svo vinsæl að ekki mátti sleppa úr kafla og sögurnar af samskiptum Sobbeggi afa við litlu manneskjuna hittu beint í mark að sögn kennara bekkjarins. 

Nokkrir sérhópar komu í heimsókn í Þórbergssetur í haust í sérstaka móttöku þar á meðal biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir á visitasíu sinni um héraðið. Sýndum við sérstaklega gömlu bækurnar er varðveist höfðu á Hala, þær elstu trúarrit frá því um 1830 og fórum með henni um sýninguna. Einnig komu hagyrðingar í sérstaka heimsókn tengt hagyrðingamóti á Smyrlabjörgum og styrkti Þórbergssetur þann viðburð og félagssamtök harmonikkuunnenda í héraðinu með ókeypis kaffiveitingum og leiðsögn þeim til handa. Þórbergssetur styrkir líka árlega Félag ljóðaunnenda á Austurlandi.  Hlutum við mikið þakklæti fyrir frá Magnúsi Stefánssyni sem haldið hefur utan um það starf undanfarna áratugi af miklum krafti og staðið fyrir útgáfu ljóðabóka meðal annars eftir höfunda héðan úr héraðinu. 

Sett var upp á Hringbrautinni  veggteppi, saumað af Margréti Jónsdóttur eiginkonu Þórbergs,  einstakt listaverk. Veggteppið er gjöf frá Petrínu Ásgeirsdóttur og Pétri Jóhannessyni en Petrína er dóttir Gyðu Ásbjarnardóttur hálfsystur Helgu Jónu. Hér er um afskaplega merka gjöf að ræða sem ber gott vitni um listamannshæfileika Margrétar og er um leið sýnishorn af handverki kvenni frá þessum tíma. 

Þórbergssetur er nú komið inn á kortið sem sem fastur áningarstaður ferðamanna sem tengist sögu og bókmenntum þjóðarinnar. Halldór Guðmundsson og Dagur Gunnarsson gáfu út bókina Sagnalandið á síðastliðnu sumri. Þar er umfjöllun um Þórbergssetur og Þórberg Þórðarson rithöfund og verk hans.  Taka má undir orð Halldórs Guðmundssonar þar sem hann segir að ,, Stonehedge og Kölnardómkirkja okkar Íslendinga” eru sögur og bókmenntir,  það eru okkar merkustu menningarminjar. Þórbergur Þórðarson lagði sannarlega sinn skerf til að halda þeim arfi á lofti með einstökum þjóðháttarlýsingum og sögum af lífsbaráttu alþýðufólks á Íslandi eins og glöggt má sjá í Þórbergssetri.

Framundan er nýtt ár með nýjum áskorunum. Vonandi linnir von bráðar áhrifum frá covid heimsfaraldri og þá hægt að móta styrkari framtíðarsýn fyrir starfsemina. Erfitt er að samhæfa svo viðamikla starfsemi í móttöku gesta annars vegar og rannsóknar og fræðastörf hins vegar með aðeins einum föstum starfsmanni. Þórbergssetur er enn á ný að endurnýja samning og nú við nýtt ráðuneyti  ferðamála- viðskipta og menningarmála. Erfitt mun vera að sækja fram um þessar mundir en óskir okkar hafa staðið til þess að fá hækkuð framlög til að geta haldi áfram öflugu fræðastarfi og eiga þes kost að ráða í eina fræðimannsstöðu við stofnunina. Erfitt hefur reynst undan farin ár að ráða í tímabundin störf, og húsnæði til langtíma dvalar er ekki til staðar. Hugurinn stefnir hins vegar hærra, ótal spennandi verkefni bíða úrvinnslu og frekari framþróun á sviði verndunar og miðlunar menningararfs með nútíma tækni væri sannarlega á dagskrá ef tími, kraftar og fjárhagur leyfðu. 

Í byrjun árs 2022 leyfum við okkur samt að vera bjartsýn og vonumst til að eitthvað af þeim ótal verkefnum sem bíða fái brautargengi á næstu árum og starfsemin megi dafna áfram með nýjum og öflugum verkefnum á fræðasviði ásamt því að Þórbergssetur verði áfram eitt af burðarásum menningartengdar ferðaþjónustu hér heima í héraði svo og á Íslandi öllu. 

Hala 8.janúar 2022
Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 159
Gestir þennan mánuð: ... 5708
Gestir á þessu ári: ... 23732