Skip to main content

Greinargerð um starfsemi Þórbergsseturs árið 2022

Um starfsemi Þórbergsseturs árið 2022 má segja að nú hafi allt fallið í sama farið aftur líkt og fyrir covid og verksvið á margan hátt líkt og á árinu 2019. Hlutverk stofnunarinnar breyttist aftur yfir í að taka á móti fjölda erlendra ferðamanna, íslenskir ferðalangar hurfu nánast af vettvangi  og veitingar og þjónusta við erlenda gesti í mat og drykk yfirtók starfsemina á ný. Vegna þessa gafst minni tími til að sinna fræðastarfsemi  og áframhaldandi vinnu við skráningu fornra rústa og úrvinnslu verkefna er tengdist þeim rannsóknum. Fastir menningarviðburðir komu hins vegar aftur á dagskrá og segja má að fögnuður hafi ríkt að geta nú á ný sótt mannfagnaði óhindrað.

Hér verður farið yfir helstu verkefni ársins en Þórbergssetur var opið fyrir gesti og gangandi frá 15. janúar til 25. nóvember 2022. Utan þess tíma sinnti forstöðumaður nauðsynlegum verkefnum er  lágu fyrir. Enginn starfsmaður var starfandi hjá Þórbergssetri yfir sumartímann í móttöku gesta. Því starfi sinnti forstöðumaður hvað varðaði íslenska ferðalanga en starfsfólk veitingahússins sá um móttöku erlendra gesta, en sú þjónusta fellur vel að afgreiðslu veitinga. Geta má þess að Þórbergssetur fær 10% af brúttótekjum veitingahússins sem leigutekjur og með auknum fjölda ferðamanna jukust sértekjur Þórbergsseturs umtalsvert á árinu 2022 miða við árin tvö sem covid 19 hafði áhrif á starfsemina.

Samkvæmt teljara á útidyrum voru gestakomur á árinu 2022 alls 93.997. Er þar fækkun frá árinu 2019 sem er samanburðarár í fullum rekstri fyrir covid. -  en það ár voru 134.131 gestakomur í Þórbergssetur. Ástæða þess er meðal annars að rekstaraðili veitinga ákvað að hætta að taka stóra hádegisverðarhópa í hádegismat m.a. vegna manneklu og húsnæðisskorts fyrir starfsfólk, en einnig vegna mikils álags á staðinn um miðjan dag sem hrinti þá frá annarri starfsemi og móttöku smáhópa. Má því segja að þar hafi verið um stefnubreytingu að ræða frá því að minnka veitingaþjónustu yfir í að leggja aukna áherslu á safnið og sýninguna þar, móttöku minni hópa og að eiga þess kost  að halda inni vægi menningar- og fræðastarfs.

Í byrjun árs var unnið að ýmsum undirbúningsverkefnum og einnig unnið áfram í verkefninu um búsetuminjar.

Þorbjörg og Fjölnir tóku þátt í málþingi um menningararfinn og konudagskaffi á Skriðuklaustri samkvæmt boð rekstraraðila þar þann 20. febrúar í fjarfundi. Málþingið má finna í streymi á You Tube síðu Skriðuklausturs https://youtu.be/bBXVjZgkflk

Bok22.jpg

Bókmenntahátíð Þórbergsseturs var haldin 27. mars. Hátíðin var vel sótt og frábærlega skemmtileg stund sjá  you tube síðu Þórbergsseturs https://www.youtube.com/watch?v=-Yh9WxWl91U

 

 

 

 

 

 

 

Hbridge22Hrossakjötsveisla og Bridgehátíð voru helgina 30. apríl – 1. maí . Var þetta fjölmennasta mótið til þessa, sannkölluð veislu og gleðihelgi og allir ánægðir að hittast aftur eftir langt Covidhlé.

 

 

 

 

 

 

 

Í júní hófst að segja má hefðbundin ferðamannavertíð og móttaka gesta, en allmargir hópar komu einnig í heimsókn á maí. Þar á meðal var árlega heimsókn Leiðsögumannaskóla Íslands en Þórbergssetur tekur alltaf á móti þeim með leiðsögn og erindi um Þórberg og tengingu íslenskra bókmennta við móttöku erlendra ferðamanna á Íslandi

Fjölmargir hópar voru í kvöldmat og allmargir litlir hópar í hádegismat. Eldri borgarar á leið  úr Norrænu komu við í súpu og á safnið og orlofsferð kvenna úr Skagafirði kom í sérstaka móttöku og gönguferð og upplestur upp að Steinum,  svo nokkuð sé nefnt.

Á vordögum var haldið áfram að mæla upp og skrá fornar rústir á Mýrum á vegum verkefnisins busetuminjar.is. Fóru þau Fjölnir Torfason Sigurður Hannesson og Sigríður Guðný Björgvinsdóttir á nokkra staði m.a. Flatey, Haukafell og Digurholt og Sigríður hélt svo starfinu áfram eitthvað fram eftir sumri. Sigríður sótti um styrk í Uppbyggingarsjóð Suðurlands fyrir sýningu á afrakstri vinnunnar á Mýrum sem unnið verður að á næsta ári.

Gaman var að taka á móti Ragnheiði Þórarinsdóttur fyrrverandi tengilið Þórbergsseturs í mennta- og menningarráðuneytinu og kom hún með margar hagnýtar ábendingar. Þar má meðal annars benda á þörf þess að tölvuskrá alla muni safnsins sem fyrst og tryggja áframhaldandi starfsemi safnsins og varðveislu muna þess. Bar hún mikið lof á uppsetningu sýningar og fullyrti að hún stæðist gæðakröfur og væri með því besta sem hún hefur séð á Íslandi hvað framsetningu varðar.

Þann 2. júlí var viðburður í Þórbergssetri þar sem Soffía Auður Birgisdóttir hélt fyrirlestur fyrir  hóp bókmenntafólks frá Danmörku . Fararstjórinn Hanne Viemose  stendur fyrir einni slíkri ferð á ári. Viðburðurinn er mjög ánægjulegur og hinir dönsku frændur okkar eru áhugasamir um verk Þórbergs og íslenskar bókmenntir.

Landgræðsluskóli Íslands kom í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur og fékk sérstaka leiðsögn á safnið þann 4. júlí. Það er alltaf jafn gaman að taka á móti þeim og ræða um verk Þórbergs og  ýmsar heimspekilegar þenkingar hans tengdar  lifandi náttúru og umhverfi og áhrif austurlenskra fræða á verk hans. Margir nemendur í þessum hópum eru frá þróunarríkjum og eru jafnvel alin upp í Búddisma og hrífast þeir gjarnan með og tengja vel við uppruna sinn. Enn og aftur sannast þar að verk Þórbergs eru ekki eins staðbundin og ætla mætti og eiga sér skírskotun í reynsluheim fólks um gjörvalla heimsbyggðina.

draum22.jpg

Þann 24. júlí var boðað til bókakynningar og sunnudagskaffis í Þórbergssetri . Þar var á ferð dvalargestur á rithöfundasetrinu á Sléttaleiti sem kom við og kynnti bók sína Drauminn dvelur. Hann ber skáldanafnið Garibaldi.

 

 

 

 

 

 

olafs22.jpgÓlafsmessa í Kálfafellsstaðarkirkju var haldin 29. júlí með eftirminnilegum tónleikum og upprifjun á sögunni um völvuna á Kálfafellsstað og áhrif hennar á lífið í Suðursveit allt frá frumkristni. Hátíðin var mjög vel sótt, fullsetið var í Kálfafellsstaðarkirkju en veðurfar ekki nógu hagstætt til að heimsæja leiði völvunnar að þessu sinni. Það voru þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson ásamt þremur börnum sínum, Betu Siggu og Eyþóri sem héldu stórkostlega tónleika í kirkjunni. Örstutt brot má heyra hér. https://www.youtube.com/watch?v=xJZKSwsYUeA

 

 

 

Forstöðumaður Þórbergsseturs var með móttöku fyrir fjölmarga erlenda hópa sem gistu á staðnum og sagði frá Þórbergi, Þórbergssetri, starfsemi safnsins, svo og umhverfi og mannlífi í Suðursveit allt eftir því hvað við átti hverju sinni.

5bekkur22.jpg

Grunnskóli Hornafjarðar 5. bekkur kom í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur í september. Fara þau um safnið og setjast upp í baðstofuna í myrkrinu og hlýða á frásögur Þórbergs og vísnasöng Steinþórs á Hala á þekktum barnagælum.

Haustþing Þórbergsseturs var haldið laugardaginn 29. október. Dagskráin var efnismikil og þverfagleg og bar yfirskriftina - Fell saga þess í fortíð nútíð og framtíð. ,,að fletta albúmum lífsisns

Dagskráin var eftirfarandi

11:00 Málþing sett

11:05 Hvað varð Felli að falli? Landmótun og jöklabreytingar á Breiðamerkursandi á síðustu öldum. Snævarr Guðmundsson jöklafræðingur

11:35 Horfinn Eden; Fell í skrifum Þórbergs Þórðarsonar; Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur

12:05 Hádegisverður

13:00 Mannvist á Felli - skráning búsetuminja; Sigríður Guðny Björgvinsdóttir landfræðingur

13: 35 Lífsstríð og sambýli við jökul og jökulár - Sögur af ábúendum, Þorbjörg Arnórsdóttir

14:10 Sögur af Rannveigu á Felli og mannlífi sunnan Steinasands; Fjölnir Torfason

15:00 Endurbygging Fells, - sjóngerving menningar- og náttúruarfs, Þorvarður Árnason náttúrufræðingur

15 :30 Kaffihlé

15:55 Ævintýri og líf í Kanada. Kynning á bók um Guðjón R Sigurðsson; Þórður Sævar Jónsson.

16:30 Lok málþings

Málþingið var afar áhugavert. Þar var fjallað um endalok byggðar á höfuðbýlinu Felli í Suðursveit sem stóð undir Fellsfjalli á austanverðum Breiðamerkursandi, landsvæði sem nú tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jafnframt var rætt um framgang og síðar hop Breiðamerkurjökuls , landmótun og hvað það var sem varð ,,Felli að falli", eins og Snævarr Guðmundsson fjallaði um í erindi sínu. Mikill áhugi er nú hjá heimamönnum að gera einnig skil fornri menningar- og búsetusögu innan þjóðgarðsins og vonir standa til að fjármunir fáist í slíkt verkefni á næstu árum. Því miður var mikið um að vera þessa helgi og frekar fáir sóttu málþingið og ekki tókst heldur að fá neinn til að senda viðburðinn út í beinu streymi vegna anna. Umfjöllunin var þó afar gagnleg fyrir þá sem koma að rannsóknarstörfum og uppbyggingu innan þjóðgarðsins, þar sem þarna kom fram mikil þverfagleg þekking á svæðinu þar sem fræðimenn og heimamenn er gerst þekkja til  fjölluðu um sögu, búsetu og staðhætti í samhengi við gríðarlegar breytingar á náttúrufari og landslagi allt frá tímum litlu ísaldar til okkar daga. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs voru mættir og auk þess starfsfólk á vegum hinna ýmsu stofnana sem koma að rannsóknum á svæðinu auk áhugafólks um sögu og fornar minjar til að fræðast um staðinn. Dagskráin var löng og stóð til klukkan 5 síðdegis með góðu matar og kaffihléi. 

Þórbergssetur styrkir félag ljóðaunnenda á Austurlandi um 20.000 króna framlag ár hvert.

Gísli Sverrir Árnason er enn að störfum við ritun sögu Eymundar og Halldóru en Þórbergssetur greiðir ekkki laun til verksins lengur. Útgáfa bókar er fyrirhuguð á næsta ári.

Þórbergssetur hélt út feisbókarsíðunni

Fornar tóftir og búsetuminjar https://www.facebook.com/groups/1135960800254325

og vefsíðunni Búsetuminjar.is https://busetuminjar.is/

Unnið er að uppfærslu heimasíðu Þórbergsseturs. Þegar því verður lokið á næstu vikum verður hægt að sjá nánari umfjöllun um einstaka viðburði á árinu 2022. http://thorbergur.is/

En einnig á feisbókarsíðu setursins

https://www.facebook.com/thorbergurthordarson

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur tók sæti í stjórn Þórbergsseturs fyrir hönd Hugvísindadeildar Háskóla Íslands í stað Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur. Varamaður Soffíu er Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur.

Að loknu ári 2022 er starfsemi Þórbergsseturs komin í eðlilegt horf miða við árin fyrir covid.  Framundan er hins vegar stefnumótun og framtíðarsýn til næstu ára eða jafnvel áratuga. Stórlega vantar framtíðarhúsnæði fyrir starfsmann Þórbergssetur til að tryggja rekstur þess næstu árin og sjá framtíðina trygga. Staðarhaldarar hafa séð starfsfólki Þórbergsseturs fyrir húsnæði  þ.e. herbergi til að dvelja í yfir sumartímann og einnig séð um móttöku gesta  í Þórbergssetri ásamt forstöðumanni með beinum hætti í gegnum starfsfólk veitingareksturs. Ef til starfsloka forstöðumanns  kemur er ekkert húsnæði til staðar og nú þegar ekkert húsnæði fyrir starfsfólk yfir sumartímann.

Þórbergssetur hefur sannað sig sem menningarsetur í sveit og starfsemin vakið athygli og heillað ferðamenn alls staðar að úr veröldinni. Því er mikilvægt að vinna að stefnumótun og markvissri áætlun um áframhaldandi starfsemi ef ekki á að verða alvarlegt rof í starfseminni ef aðstæður breytast í nánustu framtíð.

Í byrjun árs 2023 erum við samt bjartsýn á komandi ár, fjölmörg verkefni bíða úrvinnslu og framundan er vonandi betri tíð hvað varðar skakkaföll af völdum covid eða annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna.  Bókmenntir eru okkar merkasti menningararfur og hlutverk og markmið með starfsemi Þórbergsseturs er að kynna þann arf fyrir fólki alls staðar að úr heiminum. Bókaveggurinn okkar góði er sannarlega lýsandi tákn um það hlutverk  og er og verður aðalsmerki okkar um ókomin ár.

Hala 23. Janúar 2023

Þorbjörg Arnórsdóttir

forstöðumaður

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ...
Gestir þennan mánuð: ...
Gestir á þessu ári: ...