



Ráðherra heimsækir Þórbergssetur
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarráðherra ferðaðist um Austurland og Skaftafellsssýslur þann 7. - 10. júlí síðast liðinn. Hún kom við í Þórbergsssetri og þar var undirritaður nýr samstarfssamingur milli ráðuneytisins og Þórbergsseturs, sem felur í sér áframhaldandi stuðning við það menningarsamstarf sem þar fer fram. Einstaklega ánægjulegt var að fá ráðherra í heimsókn og gaf hún sér góðan tíma til að skoða safnið og ræða m.a. um stöðu íslenskunnar í fjölmenningarsamfélagi nútímans.Þrír stjórnarmenn Þórbergsseturs og nokkrir gestir mættu á staðinn til fundar við ráðherra.
Lilja hrósaði mjög uppsetningu og aðstöðu á safninu og taldi það standast fyllilega samanburð við ýmis innlend og erlend söfn hvað framsetningu varðar. Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður taldi að tilgangurinn með starfseminni í Þórbergssetri væri skýrari með hverju árinu sem líður, Minntist hún á mikilvægi þess að miðla með nútímatækni þeim menningararfi sem við eigum tengdan bókmenntum og sagnahefð og tengja þannig fortíðina inn í tækniveröld nútímans. Að fá viðurkenningu á starfsemi þessara stofnana til menningarstarfs á landsbyggðinni með samning við ráðuneyti menningarmála eykur einnig mjög sjálfstraust og tryggir samfellu í starfi, en styrkir um leið sjálfsmynd íbúanna við að miðla sögu og viðhalda staðbundinni þekkingu á umhverfi og náttúrufari hvers héraðs.

Samningur um Þórbergssetur endurnýjaður
Skrifað hefur verið undir nýjan samning um rekstur Þórbergsseturs.
er einnig kominn á netið

Samningur undirritaður
Samningur um Rekstur Þórbergsseturs (pdf)
Miðvikudaginn 29. ágúst kom Katrín Jakobsdóttir mennta og menningarmálaráðherra í heimsókn í Þórbergssetur að undirrita samstarfsssamning um rekstur Þórbergsseturs. Samningurinn gildir frá byrjun árs 2013 til loka árs 2015 og hljóðar upp á rekstrarframlag af fjárlögum ríkisins, 10 milljónir króna á ári. Með í för voru samstarfsmenn Katrínar úr ráðuneytinu og á móti þeim tóku Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason á Hala, Hjalti Vignisson bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar og Björg Erlingsdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar ásamt starfsmönnum Þórbergsseturs. Katrín var á mikilli hraðferð, á ströngu ferðalagi og heimsóknum á Austur- og Suðurlandi. Eftir undirritun samnings skoðuðu gestirnir sýningar Þórbergsseturs.Verulega aukin aðsókn er að safninu árið 2012, og auðveldara er nú en áður að kynna það fyrir erlendum gestum, þar sem enskir textar eru á sýningarspjöldum inni á sýningunni og textar á þýsku og frönsku í harðspjaldabók.
Ljósmyndasýningin sem sett var upp á vordögum vekur mikla athygli og safn af frumútgáfum af verkum Þórbergs sem barst að gjöf frá fyrirtækinu Skinney/Þinganesi prýðir eystri sýningarsal. Stytturnar hennar Lillu Heggu vekja mikla athygli og auka skilning gesta á sérstæðum tilfinningaheimi gamla mannsins og litlu stúlkunnar á Hringbraut 45, veröld sem birtist með einstökum hætti í einu af stórbrotnustu bókmenntaverkum íslensku þjóðarinnar, Sálminum um blómið.
Þetta var mikill gleðidagur í sögu Þórbergsseturs, ráðherra talaði um að samningur þessi væri í raun viðurkenning á að Þórbergssetur er nú eitt af þremur rithöfundasetrum Íslands, og að búið er að festa það í sessi með samfelldum rekstrarframlögum allt frá árinu 2010. Sól skein í heiði, og þessi fallegi haustdagur sannaði með óyggjandi hætti að góðir hlutir gerast í góðu veðri eins og Þórbergur segir á einum stað.