Skip to main content

Bókmenntir og söngur í Þórbergssetri

kórinnBókmenntahátíð Þórbergsseturs sem var í gær á pálmasunnudag var sú fjölmennasta sem haldin hefur verið. Um 80 manns  sóttu hátíðina og þröngt máttu sáttir sitja. Mest munaði um að kór eldri borgara á Hornafirði fylkti liði á hátíðina, og komu með marga fylgisveina og meyjar sem fylltu heila rútu. Kórinn söng sig inn í hjörtu okkar með bomsa dasy, sjómannavalsinum og fleiri lögum í byrjun hátíðar. Síðan hófst dagskráin og var fjölbreytt, Gísli Sverrir Árnason fjallaði um vesturferðir Skaftfellinga og fylgdi ferð hjónanna Eymundar Jónssonar frá Dilksnesi og Halldóru Stefánsdóttur til Vesturheims og aftur heim á árunum 1902 - 1907 , en koma víða við á leiðinni og vitnaði í ótal heimildir og heimildamenn. Sannarleg merkileg samtímalýsing um liðna tíð og lífshætti fólks um aldamótin 1900.
Skúli Sigurðsson flutti fræðilegt erindi um glæpasöguritun og tilurð verðlaunabókarinnar, Stóri bróðir. Greinilegt er að það var ekki tilviljun að fyrsta bók hans var verðlaunabók  því hann hafði mikla þekkingu á glæpasögum og höfundum þeirra og hafði frá unga aldri lesið mikið af þekktum reyfurum þess tíma. Hann lýsti því hvernig hann kaus að fara ekki troðnar slóðir í glæpasöguritun sinni, og lætur lesandann takast á við hvað er réttlát hefnd eða glæpur við lestur bókarinnar.
Haukur Þorvaldsson harmonikkuleikari flutti frumsamið tónverk og færði Þórbergssetri að gjöf. Kallaði hann það Þórbergsvalsinn og segja má að þar hafi verið dillandi vals, fluttur af miklum lipurleika á harmonikkuna.
Í lokin fjallaði Kristín Helga Gunnarsdóttir um bók sína Fjallaverksmiðjuna sem fjallar um jöklaveröld okkar Skaftfellinga og hvernig nútíminn hefur á vissan hátt breytt þessu landvæði í söluvöru sem gjarnan er nú kallað ,,hakkavélin" og svo spurði hún,, Hvenær verður uppselt á landið Ísland?" Sögupersónurnar eru ungt hugsjónafólk sem býr í bragganum á Breiðamerkursandi og berst á móti straumnum en mega sín ekki mikils og verða jafnvel að söluvöru þegar Auðólfur ekur um sveitir og kaupir upp fjöll og dali, jarðir og fyrirtæki. Umhverfismálin eru í brennidepli í bók Kristínar og ótal spurningar vakna um framtíð Íslands og alls heimsins.
Kaffiveitingar voru í lok dagskrá og var þá margt spjallað yfir kaffibollunum. Aðstandendur Þórbergsseturs þakka öllum fyrir komuna á þessum fallega degi í sveit sólar.
Upptaka af hátíðinni er á you tube síðu Þórbergsseturs.   https://www.youtube.com/watch?v=OizqxfBtHmQ
 
 
 
 
 
SkúligísliKristín
 
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 89
Gestir þennan mánuð: ... 8962
Gestir á þessu ári: ... 17002