Skip to main content

Sjóskrímsli eða vítisvél

Þorbjörg Arnórsdóttir 4. desember 2006:

Undanfarnar vikur hefur verið rólegt í Þórbergssetri, gestakomur fátíðar og fámennt í sveitinni. Stundir sem þessar gefa okkur því tóm til að sinna ýmsum hugðarefnum sem ýtt hefur verið til hliðar í amstri daganna og á meðan á uppbyggingu Þórbergsseturs stóð. Af miklu er að taka, þökk sé þeim höfðingjum er hér bjuggu á hverjum bæ og færðu dagbækur og skráðu niður sögur mannlífsins. Hægt er að sækja í smiðju til Steinþórs Þórðarsonar á Hala, Þorsteins Guðmundssonar á Reynivöllum, Benedikts Þorsteinssonar frá Sléttaleiti og nú síðast frétti ég af töluverðu efni skráðu af Vilhjálmi Guðmundssyni á Gerði.

Í dagbókargrúski fyrir skömmu rakst ég að skemmtilega frásögu í dagbókum Steinþórs Þórðarsonar frá 3. október 1943 . Eftir nákvæma veðurlýsingu hefst eftirfarandi frásögn, sem sýnir vel að hildarleikur styrjaldar mótaði greinilega hugarfar fólks í afskekktri sveit á Íslandi og þjóðtrúin var sterk og ekki langt undan.

Sjóskrímsli eða vítisvél

Í dag um klukkan þrjú sá fólk eitthvert ferlíki hér út á fjörum, komst það upp austasta ósinn og hélt þaðan austur leirur, til að sjá héðan að heiman var þetta líkast bát með lágt mastur. Þetta var hvítt á lit. Allir bæir komust í uppnám, héldu sumir að þetta væri hernaðarvél en aðrir loftbelgur, þó færi óeðlilega lítið fyrir honum. Karlmenn voru ekki aðrir heima en ég og Þorsteinn á Reynivöllum. Við brugðumst við, tókum hesta og sinn riffilinn hvor og héldum í kasti austur. Þegar við fórum að heiman er þetta komið nokkuð austur fyrir Steina.

Þegar við komum austur að Sléttaleiti er þetta ferlíki að fara frá fjörunni vestan við Köldukvísl og heldur beint upp í Borgarlandið sem er ofan við affallið. Nú fór okkur ekki að lítast á blikuna, auðséð var að hér var lifandi skepna á ferð hver sem hún var og datt okkur þá helst í hug skrímsli. Þegar við færðumst nær þessu óféti þótti okkur vissara að setja skot í rifflana sem við tókum með okkur,  til þess að vera við öllu búnir. Ýmsar tilgátur höfðum við um þetta að lokum og að vel gæti þetta orðið okkur ofviða til viðureignar, ef þetta væri sjóskrímsli.

Þegar við erum komnir það nálægt sjáum við að tvö geysilöng horn eru upp úr þessu, sjáum við þá að þetta er ferfætt dýr, hvítt að lit með gráan skjöld um malirnar og hornin tóku af öll tvímæli að þetta var stórt og þriflegt hreindýr, eru ekki nokkrar sögur af að það hafi áður sést á þessum slóðum. Við vildum beina því leiðina til fjalls, en það var ekki á því og tók á undra rás með feiknahraða vestur í Steina, en við reyndum að halda hestunum á sem hörðustum spretti á hlið við það, en fljótt dró sundur. Dýrið hélt vestur teigabakka, vestur undir Gerði og þegar við komum vestur á Hamar, fórum við þá vel hratt, kemur það á móti okkur, tekur þar krók á sig og út á fjöru. Þar hefur það svo legið í kvöld meðan sást til þess.

Þannig endar þessi saga um undradýrið sem fyrst var haldið að væri loftbelgur eða vítisvél frá Þjóðverjum.
                       Steinþór Þórðarson Hala

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 97
Gestir þennan mánuð: ... 5419
Gestir á þessu ári: ... 23443