Skip to main content

Á undirvarpi

Jón Jónsson skrifar:

Það var fagur haustmorgunn 1928. Hrím á stráum og hilmað yfir polla, sól ekki komin á loft, en roði tekinn að færast á hátinda Öræfajökuls.

Eftir vel útvalinn morgunverð á Fagurhólsmýri var höfðinginn Ari og heimafólk kvatt, stigið á bak og þeyst út í morgunkyrrðina. Framundan Breiðamerkursandur 29 km milli byggða, með hvíta brimrönd við svartan sand. Pósturinn Þorlákur Þorláksson mikill á velli, hraustmenni og traustur, fremstur í flokki og rak á undan sér pósthestana tvo undir koffortum, sem geymdu póstinn. Aldraður, fyrrum stórbóndi á Jökuldal, Guðmundur Snorrason, á leið austur í sína gömlu sveit. Eiríkur Steingrímsson fyrrum bóndi á Fossi á Síðu á leið til að heimsækja systur sína að Árnanesi í Nesjum og loks sá er þetta ritar þá ekki fullra 18 ára og á leið austur á Eiðaskóla.

Á þessum árum var ekki brú á neinu vatnsfalli á þessari leið. Næstu brýr í Skaftafellssýslu voru þá á Brunná í Fljótshverfi og Laxá í Nesjum. Öræfajökul hafði ég haft fyrir augum vestan úr Landbroti frá því ég fyrst man. Það var því með nokkurri eftirvæntingu að ég beið þess að sjá hann frá annari hlið, en ekki var laust við að ég yrði fyrir vonbrigðum. Austan frá finnst mér hann hvorki eins fallegur né mikilúðlegur. Ég hef þó smátt og smátt lært að meta hann einnig frá þeirri hlið.

Austur sandinn þokaðist okkar lest, óendanlega lítil með þetta tröllslega landslag á aðra hönd en úthafið, sem gefur tilfinningu fyrir óendanleika, á hina. Eftir kalda nótt var Kvíá ofan í aur og fórum við hana niðri á sandi. Svo kom Breiðá, meiri háttar vatnsfall, svo margar smákvíslar úr jöklinum og loks Jökulsá sjálf. Við hana mætti Björn á Kvískerjum til að fylgja yfir jökulinn, því um aðra leið var ekki að ræða. Áin var í einum streng, eyralaus þessa stuttu leið frá jökli til sjávar, en brattir malarbakkar að henni að austan næstum fram að sjó.

Þegar þetta var lá jökullinn fram á ölduna, sem nú takmarkar Jökulsárlón skammt ofan við brúna. Stundum var hægt að fara jökulinn rétt ofan við útfall árinnar úr jöklinum og losna þannig við að fara lengra upp á jökul. Þetta var kallað að fara á undirvarpi, svo hagaði til í þetta sinn.

Ég hef einu sinni reynt að lýsa undirvarpi og gert lítilmótlega tilraun til að sýna það á teikningu (Geogr. Ann . Stockholm 1957), en allt er það svipur hjá sjón. Þeir sem voru með í sumarferð Náttúrufræðafélagsins 1987 og fóru að útfalli Skeiðarár þann 10.júlí sáu fyrir sér undirvarp og gátu gengið á því fast að staðnum þar sem áin spýttist upp undan jökulröndinni. Það undirvarp var þó lítið í sniðum miðað við það, sem hér er um að ræða, og skal nú að því vikið.

Ofan við útfall árinnar hafði jökullinn sigið niður svo að yfirborð hans var að heita mátti í sömu hæð og vatnsborð árinnar. Ljóst var að hér hafði áin grafið undan jöklinum og að rönd hans var þarna á floti. Ofan við var að sjá sem allbreiðan hvamm inn í jökulinn og náði hann nokkurn spöl upp eftir og með aflíðandi halla á allar þrjár hliðar. Auðvelt var að ganga út á ísinn vestan frá og teyma hestana þangað. Austan megin var hinsvegar líklega 6-8 m hár jökulhamar og milli hans og beljandi árflaumsins mjó rönd, sem komast mátti eftir upp á bakkann austanmegin. Sjálf áin kom þarna í einu lagi undan jöklinum og myndaði ávala síkvika bungu. Glitrandi brot úr tærum jökulís skaut þar upp öðru hvoru, svo hentust þau í flaugstraumnum áfram til sjávar. Þarna var jökullinn sprunginn og hver sprunga full af vatni. Til þess að koma hestunum yfir varð að brúa þessar sprungur. Var nú tekið til við að höggva ísinn og mynda úr honum brú yfir sprungurnar. Þetta gekk furðanlega, en þó vildi það óhapp til að hestur Eiríks fór með báða afturfætur ofan í sprungu og sat þar fastur. Fljótt var komið kaðli undir hann og með sameiginlegu átaki manna og hests tókst fljótt að ná honum upp. Önnur sprunga var þó eftir á leiðinni og hún svo breið að ekki var tiltök að brúa hana með ís. Björn kvaðst eiga trébrú geymda dálítið vestur á jökli og spurði mig hvort ég vildi hjálpa sér við að sækja hana. Fórum við strax af stað að sóttum brúna, sem í raun var allstór fleki og engin léttavara. Við drógum hana svo á böndum upp og ofan jökulhryggi og skorninga, komum honum loks fyrir yfir stærstu sprunguna og svo hestarnir einn eftir einn teymdir yfir. Nú var komið að jökulhamrinum austan megin. Hann var raunar, að sögn Þorláks, í framhaldi af sprungu sem þarna varð og hörmulegu slysi olli árinu áður. Svo tæp var gatan milli jökulhamarsins og árstraumsins að taka varð koffortin af pósthestunum og bera þau þarna yfir og upp á bakkann. Allt gekk þetta þótt tæpt væri. ,,Svo ljótan veg hef ég aldrei farið'' varð Þorláki að orði þegar við vorum komnir með allt yfir. ,,Einhvern tíma hefði ég ekki staðið aðgerðalaus og horft á þegar hesturinn minn var fastur í jökulsprungunni'' sagði Eiríkur. Engi sá sem til hans þekkti hefði efast um það. Alkunnugt var að hann hefði verið jötunn að kröftum og hefði vart orðið mikið fyrir því að kippa afturendanum á klárnum upp úr sprungunni jafnvel þótt hann hefði einsamall verið. Nú var Eiríkur kominn að sjötugu og árin og stritið höfðu tekið sitt.

Þegar Björn á Kvískerjum kvaddi okkur þarna, sagði hann við mig. ,,Ég ætla að borga þér fyrir hjálpina á jöklinum.'' Ég tók slíkt að sjálfsögðu ekki í mál og benti honum á að þetta var í mína þágu. En Björn sat við sinn greip. ,,Ríkið borgar mér fyrir þetta og því á ég að borga þér aðstoð.'' Með þetta skyldum við og hvor fór sína leið. Árin liðu. Ég hvarf af landi burt, heimsstyrjöld gekk yfir með öllum hennar ógnum.

Svo var það 1951 eða fullum 23 árum síðar að ég dvaldi sumarlangt í Hornafirði við rannsóknir á Hoffellssandi. Þá var ákveðið að fara vestur á Skeiðarársand. Á Fagurhólsmýri fékk ég boð frá Birni að nú væri kominn tími til að borga fyrir aðstoðina á jöklinum og sanngjarnt að tífalda upphæðina. Að sjálfsögðu var ekki fallist á neina greiðslu.

Minningin um þessa atburði og Björn á Kvískerjum er mér kær, því framkoma hans ber vott um nánast til yfirdriftar næma réttlætiskennd. Björn var einn af þessum skaftfellsku bændum, sem skiluðu fágætu, miklu og hljóðlátu ævistarfi með traustri leiðsögn yfir nokkrar hættulegustu og mest viðsjálu torfærur þessa lands. Þeim ber þjóðarþökk.

Höfundur Jón Jónsson  Birt í Skaftfellingi 7. árgangi 1991
Útgefandi Sýslunefnd Austur - Skaftafellssýslu

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549