Skip to main content

,, Fyrirgefiði, getið þið sagt mér hvar Öræfajökull er" ?

María Gísladóttir og Ari Þorsteinsson skrifa 6. nóvember 2006:

Dagarnir 12. og 13. október síðastliðnir voru merkisdagur í Suðursveit.  Þá var efnt til málþings um Þórberg Þórðarson, verk hans og ævi. Tilefnið var vígsla Þórbergsseturs sem átti sér stað í júlí 2006.Margt var um manninn enda spennandi dagskrá frá ýmsum spekingum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa ást á skáldinu og manninum Þórbergi.Þar var líka mætt Helga Jóna Ásbjarnardóttir (Lilla Hegga) aðalpersónan úr Sálminum um blómið en hún færði Þórbergssetri að gjöf  skóburstasett Þórbergs þannig að enn bætast við sýningargripir úr eigu skáldsins.Þingið hófst á setningu Þorbjargar Arnórsdóttur sem bauð alla velkomna og kynnti síðan erindi og fyrirlesara eftir því sem við átti.

Mjög margt fróðlegt og skemmtilegt kom fram í erindunum og verður aðeins stiklað á stóru hér en öll voru þau hljóðrituð og við megum því eiga von á að heyra þau aftur í útvarpi allra landsmanna einhvern tímann.
Halldór Guðmundsson bókm.fr. benti í sínu erindi á margar merkilegar hliðstæður í lífi þeirra annars mjög svo ólíku skálda og samtíðarmanna Gunnars Gunnarssonar (1889-1975) og Þórbergs (1888-1974).Ekki var heldur hjá því komist að þeir væru bornir saman Þórbergur og Halldór Laxness þegar sagt var frá illvígum deilum fylgismanna hvors um sig í sveitasögum Jóns Kalmanns Stefánssonar í fyrirlestri Inga Björns Guðmundssonar bókm.fr.

Soffía Auður Birgisdóttir. bókm.fr. fjallaði um minnistækni Þórbergs í sínum fyrirlestri þar sem fram kom að Þórbergur beitti meðvitað eða ómeðvitað aðferð sem í dag er þekkt meðal fræðimanna.  Þannig var með Þórberg að ákveðin orð urðu til þess að hann sá ósjálfrátt fyrir sér mynd í huganum sem tengdist þessu orði upp frá því og festist því auðveldlega í minni.  Í dag er svipuð aðferð kennd sem viðurkennd minnistækni á þá leið að menn tengi eða yfirfæri orð markvisst yfir á ákveðna mynd og eigi því auðveldar með að muna. 
Að hlusta á nið aldanna, myndasýning um náttúrskynjun Þórbergs í höndum Þorbjargar á Hala var undirbúningur fyrir náttúruskoðunarferð að eyðibýlinu Felli.  Fjölnir Torfason á Hala leiddi gesti um eyðijörðina Fell og sagði sögur þaðan meðal annars frá þeim tíma er jörðin lagðist í eyði vegna ágangs frá jöklinum.Gestir gátu síðan gengið um og leitað að tættum og öðrum ummerkjum í landslaginu.

Að útivist lokinni var boðið upp á kvöldverð í Þórbergssetri.  Á matseðlinum var Halableikja og rabbabaragrautur m/rjóma.   Séra Einar Jónsson á Kálfafelli spilaði undurljúfa dinnertónlist og lesin var frásögnin um strand Serenu á Steinafjöru árið 1906. Að því loknu var sýningin opnuð og þar gátu heppnir sýningargestir rambað fram á strandgóss og smakkað á. Hápunktur kvöldsins var síðan þegar tveir ungir Reykvíkingar sem kalla sig Furstaskytturnar frumfluttu lög við texta Þórbergs við mikinn fögnuð áheyrenda.

Eftir undurgóðan svefn á stórbýlinu Reynivöllum hélt dagskrá áfram á laugardagsmorgni og hafði þá heldur fjölgað málþingsgestum sem voru um 80 talsins seinni daginn en um 70 þann fyrri.Eftir fróðlegan  fyrirlestur Kristjáns Eiríkssonar íslenskufræðings um stíl Þórbergs tóku við Müllers æfingar undir stjórn Valdimars Örnólfssonar íþróttakennara og fékk hann nánast alla viðstadda til að strjúka sig og teygja að hætti Müllers. Endurnærð eftir leikfimi hélt gamanið áfram og nú með fyrirlestri Fríðu Proppé þar sem hún sýndi fram á ótvíræð tengsl milli verka Þórbergs og Bréfbátarigningar Gyrðis Élíassonar.Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir var næst á mælendaskrá og hóf mál sitt á þeim orðum að hún hefði nánast orðið fyrir trúarlegri reynslu við ganga inn á Þórbergssetur í fyrsta sinn, slík hefði lotningin  verið.  Þórunn kom víða við allt frá því að rifja upp varnarræður sínar um Þórberg við misvitra spekinga á skemmtistöðum og víðar til ákveðins rígs á milli þeirra Þórbergs og Halldórs Laxness.  Þórunn las smá brot úr bók Stefáns Mána, Túrista,  þar sem Þórbergur kemur við sögu og látum við það fylgja hér með.„Það stefndi bara allt í að þessi ferðasaga yrði algjör snilli. Besta svona Þórbergsbókin síðan Þórbergur skrifaði sitt misskildasta meistaraverk, Íslenskan aðal, það er að segja.  Nokkurs konar íslenskur Bukowski, hann Þórbergur okkar.  Hefði hann bara drukkið hvelvítis karlinn, og riðið soldið.  Þá væri hann frægur í stað þess að vera svona einhverskonar geirfugl íslenskra bókmennta.  Eitthvað útdautt viðrini sem öllum er nokkurn veginn sama um.  Öllum nema óskráðum meðlimum Þórbergsvinafélagsins, sem er svona einskonar öryrkjabandalag  innan Rithöfundasambands Íslands, sem er sjálfsvorkunnarbandalag þeirra skúffuskálda og einyrkja sem koma út úr skápnum, en enginn vill sofa hjá, ef þið skiljið hvað ég meina“. (Túristi bls. 138-139).Voru flestir þinggestir sammála um að nú væri hafin nokkkurskonar Þórbergsvakningog með tilkomu Þórbergsseturs væri  komin samkomustaður aðdáenda eða „öryrkjabandalagsins“ sem hingað til hafa ekki átt í önnur hús að venda.

Pétur Gunnarsson rithöfundur var líka á þinginu en kom núna bara til að hlusta og njóta, ekki  með neina tölu sjálfur.  Pétur sagði þó eftirfarandi sögu yfir kjötsúpunni í hádeginu en frásögnin er tekin af bloggsíðu Þórunnnar Hrefnu Sigurjónsdóttur.http://thorunnh.blogspot.com/  en þar segir hún frá ferð sinni að Hala. „Ég verð að segja eina gamansögu sem Pétur Gunnarsson sagði þegar við vorum að borða kjötsúpu á Hala í hádeginu í dag (í gær). Við vorum að tala um það Þórbergsfríkin hvað okkur hafði oft langað að fara niður að Hala þegar við ókum framhjá áður en Þórbergssetrið var opnað.
Ég sagði frá því að ég hefði oft verið alveg komin að því að stoppa bílinn og labba niðureftir til að skoða, en óttast mjög að einhver af ábúendum kæmi út og æpti á mig: "Hvurn fjandann ert þú að snuðra hér!"
Pétur sagði þá að fyrir allmörgum árum hefði hann verið kominn á fremsta hlunn með að fara niður að Hala, banka upp á og segja: "Fyrirgefiði, getið þið sagt mér hvar Öræfajökull er?"
Þar hafði hann fyrirmynd í Stefáni frá Möðrudal, sem kom víst einhvern tíma ríðandi á hesti inn í Simmasjoppu (og hér lék Pétur Stefán, sem hafði háa og skræka rödd) og sagði: "GETIÐ ÞIÐ SAGT MÉR HVAR HLJÓMSKÁLAGARÐURINN ER?" 
Þess má geta að von er á bókum frá bæði Pétri Gunnarssyni og Halldóri Guðmundssyni um Þórberg núna fyrir jólin.

Í síðasta erindi þingsins fjallaði Fjölnir Torfason í máli og myndum um fyrstu íbúa Suðursveitar, Papana.  Fjölnir sýndi myndir af tættum sem hann telur ástæðu til að rannsaka nánar  með tilliti til gamalla munnmæla um búsetu Papa og síðar landnámsmanna í  Papbýli. Í Landnámu má finna frásagnir um Úlf hinn vorska og son hans Þorgeir er bjuggu að Breiðabólsstað í Papbýli og Hofi í Papbýli. Við fornleifauppgröft á þessu svæði fundust minjar um mannabústað, líklega frá 10.öld og eru líkur á að ein tóttin sé Vindáskirkja sem heimildir eru um í máldögum frá 13.öld Til stóð að enda málþingið á ferð í Papbýli hið forna undir leiðsögn heimamanna en því miður varð ekki af þeirri ferð vegna veðurs og vatnavaxta.
Málþingið var í alla staði mjög vel heppnað og gaman að vera vitni að því þegar góð hugmynd verður að veruleika.  Það sannaðist á Hala þessa daga að hægt er að bjóða upp á tveggja daga dagskrá fulla af áhugaverðu efni sem tengist menningu okkar, sögu og náttúru, reiða fram mat sem er framleiddur á staðnum og bjóða öllum sem á þurftu að halda upp á fjölbreytta gistimöguleika.  
María Gísladóttir Ari Þorsteinssom

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549