Skip to main content

Mosi og fléttur á Kvennaskálasteininum

Þorbjörg Arnórsdóttir skrifar:

kv038Þegar gengið er í vesturátt frá Hala eftir þjóðveginum og síðan sem leið liggur inn Flatirnar í átt að Reynivöllum, sem er vestasti bær í Suðursveit, kemur maður von bráðar inn í Kvennaskála, sem er hvammur eða hvilft neðan við pýramídalagaðan tind, Kvennaskálatind. Þórbergur Þórðarson rithöfundur lýsir Kvennaskála þannig í bókinni Um lönd og lýði.

,, Kvennaskáli var skemmtilegur hvammur í fjallinu milli Flatanna og Háaleitis. Þar var sællegur gróður, því þar var oft logn og gott að sitja þar í austannæðingnum. Þar voru fögur og ilmsterk grös og stórir brekkusniglar.”( Í Suðursveit bls. 178)

Það er ekki síður gaman að ganga inn í Kvennaskála á vetrardegi, þó að grös og sniglar prýði ekki náttúruna á þeim árstíma. Öræfajökull blasir við í vestrinu með sinn silfurfægða hjálm, nær gægist Fellsfjall fram á sjónarsviðið og virðist mun hærra og merkilegra en hið hljóðláta eldfjall, sem er hæst íslenskra fjalla og ef maður skáskýtur augunum til hliðar í átt til sjávar blasa hraunin og Breiðabólsstaðarlónið við. Á veturna er birtan frá sólinni gjarnan dempuð, stundum lituð rauðu, þannig að allt umhverfið fær bleikrauðan lit. Snæviþakin og alhvít foldin myndar bakgrunn þannig að dökkir steinar og klettar verða skýrari, jafnvel stækka og geta birst sem nýjar kynjamyndir og valda allt öðrum skynhrifum en á björtum sumardegi. kv030

Og ef betur er að gáð er líka margt að skoða. Lítið eitt vestar en sjálf ,,kvennaskálin” er stór stakstæður steinn, sem hefur hlotið nafngiftina Kvennaskálasteinninn.

,,Hann sat þar álútur á hlýlegum grasbala og snöri andlitinu niður að götunni. Hann var eins og gömul og margfróð kona, sem situr á fótunum á sér og er að segja sögur af lífinu.”( Í Suðursveit bls. 178)

Við þennan stein hefur löngum verið gestkvæmt, en gatan inn að Reynivöllum lá framhjá honum áður fyrr. Sagt er að konurnar frá Hala og Reynivöllum hafi gjarnan fylgt hver annarri inn í Kvennaskála og steinninn var sérstakur góðkunningi Þórbergs Þórðarsonar á daglegum heilsubótargöngum hans þegar hann dvaldi í Suðursveit. Frá því segir hann m.a. í Sálminum um blómið þegar hann var í landkynningarferð með Lillu Heggu og talaði við steininn.

kv2008Það er gaman að lesa í landið með hliðsjón af skrifum Þórbergs Þórðarsonar og upplifun hans af náttúru og umhverfi í Suðursveit. Hann segir m.a. að hann hafi snemma farið ,,að sjá það stóra í hinu smáa” . Einnig segir hann að ,,allt í náttúruna sé með lífi”, og það sé hægt að tala við steina ,, bara ef maður skilji málið þeirra,” Ef maður skoðar t.d. Kvennaskálasteininn með þetta í huga birtist manni nýr heimur, forvitnilegt líf, sem lætur reyndar ekki mikið yfir sér en getur vakið margar spurningar ef að er gáð.                

kv2014Laugardaginn 8. janúar 2005 fórum við þrjár konur frá Halabæjum inn í Kvennaskála og heimsóttum Kvennaskálasteininn. Þetta var um miðjan dag, það var hægur andvari eða logn, snjóföl á jörðu, sólskin og 2-3 stiga hiti. Það vakti furðu okkar þegar við komum að steininum og fórum að skoða hann nánar að hann skartaði ótal litum sem voru mun skærari og meira áberandi en á sumardegi, fallegar sterkgrænar mosakúlur voru utan á honum, þó að undir þeim væri engan jarðveg að sjá.  Mosinn virtist í vexti, inn í mosaþúfunum voru brúnleitir örmjóir þræðir  sem virtust vaxa upp úr mosanum, einnig voru á steininum ryðrauðar, grænar, brúnar og gular skófir sem voru eins og grónar við steininn og mynduðu falleg og listræn munstur utan á steininum. Mosakúlurnar voru þéttari á þeim fleti sem sneri á móti suðri og sól, skófirnar voru sums staðar mjög þéttar og mynduðu samfellt munstur, annars staðar var steinninn ber, nakinn og bara grár eða svartur eins og flestir steinar og klettar í Suðursveit virðast vera þegar þeir eru skoðaðir úr fjarlægð. Mosinn var mjúkur viðkomu, reyndar dúnmjúkur, þéttur og hlýr, ekki frosinn, ekki harður, ekki uppþurr eins og maður hefði getað ímyndað sér eftir frost, bylfjúk og vindnæðing síðustu daga og ekki að sjá að  stórveðrið er geysaði í Suðursveit á jólanótt hafi skaðað þennan sterkgræna og litfagra gróður hið minnsta.                                   kv2010

Eftir skemmtilega viðkomu hjá Kvennaskálasteininum þennan dag vöknuðu ótal spurningar um þessar lífverur sem þarna voru, um fléttur, um mosa, um skófir á steinum, en ekki síður um þau undur, að þessi gróður getur verið með svo miklu lífi um hávetur og það á þeim ,,norðurhjara” sem Ísland er. Forvitnin rak okkur áfram og ákveðið var að leita svara við nokkrum af þeim spurningum sem komu í hugann eftir þessa óvæntu skammdegisheimsókn og birta þau síðan á Þórbergsvefnum. Leitað var til Agnars Ingólfssonar vistfræðings sem brást fljótt við og beindi spurningum okkar til Harðar Kristinssonar náttúrufræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri. Spurningar okkar á Þórbergssetri voru eftirfarandi svo og svör Harðar, sem komu um hæl. Kunnum við honum góðar þakkir fyrir.

                                    kv2013
 

1. Vex mosi á veturna ?
Sumir mosar geta vaxið á veturna við hentug skilyrði, háan loftraka og hitastig yfir frostmarki. Það gildir væntanlega um alla þá sem vaxa á steinum. Sumir mosar taka hins vegar vatn og næringu úr jarðveginum, og ég geri ráð fyrir að þeir verði meir eða minna óvirkir á veturna, og vaxi tæplega nema þá í óvenju hagstæðu tíðarfari.

2. Af hverju virðist mosi þola svona vel frost og er mjúkur viðkomu og sterkgrænn þó um hávetur sé ? Frumur blómplantna og byrkninga þola illa að þorna alveg. Vatnsupptaka þeirra stöðvast oft á veturna vegna frosins jarðvegs. Því þurfa þær mjög góðar útgufunarvarnir til að verjast vetrinum. Frumur skófa og sumra mosa þola hins vegar alveg að þorna nokkurn tíma, og eru jafnvígar aftur þegar þær vökna. Þær þurfa því ekki útgufunarvarnir, leggjast einfaldlega í dvala í þurrum vetrarstormum, og eru jafngóðar aftur í regni eða röku lofti, og eru þá jafnmjúkar og á sumrin. Þær ná vatninu auðveldlega inn í frumurnar þótt jarðvegur sé frosinn.

3. Vaxa skófir á steinum líka á veturna? en þær virðast halda alveg litnum, eru grænar, rauðar, brúnar og gular.
Já, skófir geta alveg vaxið á veturna. Þegar þurrt er eða mikið frost liggja þær í dvala, en þegar væta er fyrir hendi og frostið ekki of mikið, og einkum þó þegar hitastig er yfir frostmarki, þá stunda þær ljóstillífun og geta vaxið þótt hægt sé. Þeim nægir t.d. sólbráð á steinum til að væta þalið þótt lofthiti sé annars við eða undir frostmarki.

4. Hvað eru skófir ?? eru margar tegundir ? á steininum voru rauðar, grænar, gular, gráar, brúnar, og einnig gráar sem voru eins og visnuð lauf sem uxu út frá honum.
Skófir tilheyra þeim flokki lífvera sem nefnast fléttur, og eru gerðar af asksvepp sem lifir í sambýli við grænþörunga og/eða blágrænþörunga. Asksveppurinn klæðir allt sambýlið að utan með svokölluðu barkarlagi, en fyrir innan eru lausofnari sveppþræðir sem fléttast utan um þörungafrumurnar. Í dag eru þekktar um 715 tegundir af fléttum á Íslandi, en þær eiga eftir að finnast fleiri, því sumir flokkar þeirra eru enn illa kannaðir.

5. Lifa skófir og mosi í mörg ár, hvernig sá þau sér þ.e. kviknar nýtt líf ?
Bæði mosar og skófir lifa mörg ár. Asksveppur skófanna fjölgar sér með askgróum sem myndast í askhirzlunum, og þau geta orðið að nýjum fléttum ef hentugur þörungur er til staðar við spírun. Einnig mynda skófirnar svo kölluð hraufukorn, en það eru örsmáir hnyklar af sveppþráðum sem umlykja þörungafrumur úr fléttunni sjálfri. Sumar skófir geta fjölgað sér með brotum sem myndast þegar þær molna í þurrki. Mosar mynda oftast gró í svoköllum baukum sem standa á örfínum, löngum leggjum, en geta einnig fjölgað sér með smásprotum eða greinum sem losna af og fjúka með vindi.

Frekari upplýsingar um fléttur og mosa ásamt myndum er að finna á vefsíðu sem Hörður Kristinsson heldur úti og er www.floraislands.is Einnig má benda á eftirtaldar greinar eftir Hörð Kristinsson.
Um nokkrar íslenskar fléttur og nöfn þeirra. 1983 Ársrit Útivistar 8; 7 – 23
Krókar og kræður. 1996 Náttúrufræðingurinn 1996; 66; 3-14

Í Eddu Þórbergs Þórðarsonar er þetta skemmtilega ljóð sem minnir á heimsóknir Þórbergs að steininum í Kvennaskála 

Kveðið við stóra steininn í Kvennaskála
er þar hafði staðið lengur en elztu menn mundu um síðustu aldamót.

Þó yfir mig leggist elliklungur
og orðið sé grátt mitt rauða hár,
þú stendur hérna ennþá ungur,
eins og þegar ég var smár.
                 11. sept. 1953 kl 10,40 f.h.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549