Skip to main content

Róið í duggur

Þórbergur Þórðarson skrifar:

(Landneminn. 7.tbl.1953)

Björn Björnsson, almennt kallaður Gamli-Björn, var einn þeirra frumlegu manna, er settu svip á Suðursveit langt fram yfir síðustu aldamót. Hann var dóttursonur Þorsteins Gizurssonar tóls. Þorsteinn var upprunninn úr Suðursveit, en dvaldist síðara hluta ævinnar á Hofi í Öræfum. Hann var mikill smiður og mesta ljóðskáld, sem borið hefur verið í Austur-Skaftafellssýslu, svo að sögur fari af.
Björn var vel skynsamur og prýðilega söngvinn. Honum var og gefinn frásagnarhæfileiki, sem enginn gleymdi , er kunni að hlýða á sögur. Honum lá lágt rómur, og hann sagði mjög stillilega frá og lygndi við og við aftur augunum, svo andlitssvipuirnn varð líkastur því, sem hann talaði í móki.

Oft ýrði hann út í frásögn sína góðlátlegu gamni, stundum eitruðu skopi. En þetta gat farið fram hjá hlustandanum, ef hann skorti spauggreind eða lagði ekki eyrun nógu að, því að Björn stillti mjög í hóf orðalagi sínu og raddhæð og raddblæ. Hann tíðkaði þau brögð í frásögn að endurtaka gegnum alla söguna viss orð og setningar eins og nokkurs konar stef, stundum til áherzlu, en líka til að gefa frásögunni sérstæðan svip, sem var honum eiginlegur.
Björn var lengi formaður í Suðursveit, og sjóróðrar munu hafa verið önnur mesta skemmtun hans í lífinu. En það kallaði hann mesta unað lífsins að sitja við krús með frönskum kapteini niðri í káetu í franskri duggu.

Það er í frásögur fært, að eitt sinn á sínum efri árum fékk Björn að fara í róður með Birni Eymundssyni í Lækjarnesi í Nesjum. Þeir voru djúpt úti og sigldu. Þeir höfðu nóg nesti, og lá alltaf vel á Gamla-Birni, því að hann var fátækur. Hann sat hreyfingarlaus á þóftunni, lygndi aftur augunum og sagði frá, og tók hver sagan viðaf annarri.
Hann hvarf til þeirra dýrlegu , löngu liðnu tíma, þegar hann og Lárus hómópati voru vinnumenn hjá séra Þorsteini Einarssyni á Kálfafellsstað, en Jóhann bóndi Magnússon var formaður á skipi prests.
Jú, allt var sama árið, allt var sama árið. Jú, allt var sama árið og þeir duttu í sjóinn Gamli-Jóhann og Lárus hómópat. Ég veit þú kannast við hann.
Jú, svoleiðis var það, að séra Þorsteinn hérna frændi þinn, á Kálfafellsstað, jú hann gerði okkur stundum út á vorin, þegar ládeyða var og blíða. Jú, þá gerði hann okkur stundum út til að verzla við Fransmenn. Þá var hann vanur að vera búinn að útbúa allt fyrir ferðina, því að þetta var fyrirhyggjumaður.
Jú, í þetta skipti var hann búinn að útbúa stóran kassa, fullan af prjónlesi og hangikjöti, sem hann vafði innan í pappír. Jú, það var fádæma snyrtilega um það búið, jú jú það var það, ekki vantaði það því að þetta var snyrtimenni. Það var séra Þorsteinn. En allt var þetta horkjöt.
Jú, það drapst talsvert af fénaði úr hor um vorið, og prestur lét hirða af því ganglimina og reykja. Jú, svo var nóg mjög líka. Já, það var. Það mátti brúka ílátin, sem hún var í, undir annað, ef menn þyrfti, þegar maður kæmi til Fransmannanna. Jú, svo var það.

Svo rörum við út í duggurnar, jú og byrjuðum nú á þeim næstu. Sumar voru góðar, en það var vont að eiga við sumar, þá vont. Þær vildu engin viðskipti hafa. Svo gengum við á röðina vestur með söndunum, þangað til komnar voru tólf, já rétt tólf, og þá vorum við komnir vestur á móts við Stemmukróka, já alveg vestur á móts við Stemmukróka, já beint undan Stemmu.
Þá var nú farið að hugsa til heimferðar, þeir sem nokkuð gátu hugsað, því að margir voru þá orðnir mikið kenndir, jú ógnmikið. Og mikið var nú búið að verzla. Jú mikið af kartöflum og brauði og rauðvíni. Og allt var upp selt, sem var fyrir hjá okkur, og allri vetlingar að auki, við orðnir aldeilis vetlingalausir, Jú svo var nú það. Já, það var nú svo.
Jú, svo varð það nú úr, að farið var að damla heim á leið. En heldur gekk það nú skrykkjótt. Þeir voru báðir aftur Jóhann gamli og Lárus hómópati, því að báðir vildu hafa formennskuna. Jú og Lárus eignin var að yrkja flimt um Jóhann, af því að hann var búinn að fá niðurgang af dugguvíninu. En ég sat á bitanum. Jú, svo var það. Jú, og Lárus var að yrkja. Nú var farið að halda í áttina.

Jú, ég sat á bitanum og horfði svona í gaupnir mér. Svo verður mér litið upp. Þá sé ég, að þá vantar báða í skutinn, Jóhann og Lárus, jú eru alveg horfnir. Þá segi ég við hina: „Þeir eru horfnir úr skutnum, hann Jóhann og Lárus.“ Þá förum við nú að horfa í kjölfarið, þeir sem eitthvað gátu horft, og sjáum þá, hvar Jóhann gamli flýtur nokkuð langt frá, en Lárus sjáum við hvergi, aldeilis hvergi nokkurs staðar. En svoleiðis var, að Jóhann var í skinnbrók, jú í fullum skinnklæðum, skinnbrók og skinnstakki, frá því um morguninn, þegar hann ýtti. Jú, svo var það. Jú, og vel bundið að mittið, svo að hvergi komst vatn inn á milli. Og þess vegna flaut hann eins og korkur, já alveg eins og korkur, stóð upp á endann í sjónum, já alveg upp á endann, var upp úr niður fyrir axlir.
Jú, fer nú að segja við þá, hvort við eigum ekki að reyna að hafa aftur á, jú en það gekk stirt, því að heldur vildi nú verða skrykkjótt áralagið. Loksins komumst við nú samt til Jóhanns, jú, og ég næ nú þarna rétt í lubbuna á honum, jú rétt í lubbuna báðum höndum. Jú, en það er sama, Lárus sjáum við hvergi nokkurs staðar.

Nú förum við að toga gamla Jóhann inn, en það gekk illa, já mjög illa, því að maðurinn var þungur og sver, eins og þú þekkir. Seint og síðar meir höfðum við það af að tosa honum inn. Jú, svo var það. En þegar löppin kemur inn á gamla Jóhanni, þá hangir Lárus þar neðan í. Jú, svo var það. Og því skildum við ekkert í, að hann skyldi ekki vera dauður, já steindauður fyrir löngu. Já, svo var það.
„Var nú ekki farið að mýkjast í þeim skapið eftir þennan þvott?“ spyr Björn Eymundsson.
Onei, oseisei-nei. Það var vont í þeim, já mjög vont. Jú, Jóhann fór að skamma Lárus og gefa honum sitt undir hvort, já, sitt undir hvort, og segir við hann: „Skáldaðu nú! Skáldaðu nú um sótt!“ En við reyndum að láta þá ekki ná saman. Ógn var að sjá til þeirra. Mér bauð við eignunum. Svo ortu þeir um þetta í Suðursveit þessa vísu:

Jóhann og Lárus drukknir vóru,
deildu mikið þá.
Ofan í sjóinn báðir fóru
Og voru að fljúgast á

Jú, svo var það. Já, það var svo.

[Stafsetning er höfundar]
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549