Skip to main content

Þórbergur og saga Austur-Skaftafellssýslu

Zophonías Torfason skrifar:

Um þær mundir sem undirbúningur fyrir afmælishátíð Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala stóð sem hæst snemma árs 1989 barst höfundi þessa greinarkorns í hendur efni sem Þórbergur hafði safnað á sínum tíma og nefnt er hér „Safn til sögu Austur-Skaftafellssýslu". Efni þetta var til sýnis í Gömlubúð, byggðarsafni Austur-Skaftafellinga, þessa daga í marsmánuði þegar aldarminningin stóð yfir en eftirminnilegust frá þessum ágætu dögum var tvímælalaust hátíðardagskráin í Sindrabæ að kvöldi afmælisdagsins 12. mars.

Vert er að taka fram í byrjun að mér var þá ókunnugt um hlutdeild Þórbergs í söfnun og skráningu efnis er tengdist sögu sýslunnar og hygg ég að svo muni vera um fleiri. Verð ég jafnframt að játa um marga hluti í starfi og ævi hans er ég engu fróðari en gerist og gengur. Ég átti því láni að fagna að hitta þennan afabróður minn og umgangast nokkuð sem barn og unglingur en hann var þá kominn á efri ár og heilsan farin að bila. Andlegum þrótti sínum hélt hann þó fram undir það síðasta.

Fátt minnist ég að bæri á góma heima á Hala um þau atriði er talist gætu snert sögu sýslunnar. Hitt kemur fáum á óvart að hugur hans var á æskustöðvunum í Suðursveit og sögur af fólki, bæði af þessum heimi og öðrum, og hvernig því farnaðist í lífsbaráttunni voru hans líf og yndi. Því fékk ég eftirminnilega að kynnast í þau fáu skipti er ég kom í heimsókn á Hringbraut 45 í Reykjavík til þeirra Þórbergs og Margrétar og var yfirheyrður um tíðindi úr sveitinni.
Þeir sem þekkja skrif Þórbergs vita mæta vel að fátt mannlegt lét hann sér óviðkomandi. Yfirgripsmikil þekking hans á íslenskri menningu og tungu dylst engum sem blaðar í síungum skrifum hans um hvaðeina er snertir mannlegt samfélag fyrr og síðar. Það undraverða í efnismeðferð Þórbergs í þessu tilliti er hversu skarpskyggn hann var og í hve víðu samhengi hann gat séð hlutina. Það gæti virst einhver þversögn í því að maður með þessa látlausu mælingaáráttu og ótrúlega nákvæmni í veðurlýsingum og upptalningu á hinu smæsta af öllu smálegu hvort heldur var í fari mannanna eða duttlungum náttúrunnar skuli jafnframt hafa svo mikla yfirsýn fyrir samtíma sinn og samfélag manna. Ekki aðeins að hann orðaði hlutina á nýstárlegan hátt heldur er oft svo að hann kom auga á margt sem enginn virtist hafa séð fyrr. Má vera að þessi yfirsýn sé sprottin af mælingaáráttunni og bara enn eitt birtingaform hennar. 

 Þetta átti ekki að vera pistill um stíl og ritleika heldur hugleiðing um heimspeki og hugmyndasögu. Aðeins er verið að impra á þessu hér til að vekja umhugsunar um þann veruleika sem blasir við þegar þáttur Þórbergs til sögu sýslunnar er viðraður. 

 Hér verður fyrst rakinn í aðalatriðum þáttur Menningarfélags Austur-Skaftfellinga í ritun sögu sýslunnar og sú hlið er sneri að félagsmönnum á þeim tíma sem nafn Þórbergs var orðað við söguskráninguna. Þá verður gluggað í dagbækur Þórbergs frá þessum tíma og reynt að átta sig á hvað vakti fyrir honum sumarið 1933 þegar hann ferðaðist um sýsluna og viðaði að sér efni í þessa sögu. Síðast verða svo birt brot af sögu Papóskaupstaðar sem Þórbergur skráði þetta sumar eftir Guðmundi Sigurðssyni en hann bjó á Papósi meðan þar var líf í tuskunum. Rétt er að taka skýrt fram að þessi frásögn eftir Guðmundi er jafnframt aðeins brot af því efni sem til er í handriti eftir Þórberg og nefnt er hér „sýslusaga". Skoðun á því leiðir í ljós að ýmislegt hefur birst á prenti, annað er ágripskennt og svo er það líka svo að inn í efnið er víða fléttað „persónusögu", frásögnum af fólki og viðburðum úr lífi þess sem vandi er að vinna til birtingar. Einmitt slíkt efni í frásögn Guðmundar er hluti þess sem látið er óbirt að þessu sinni. 

 Þó efninu sé hér skipt í þrjá aðskilda hluta þá eiga þeir samt að birta einhverja heildamynd og getur þó vonandi hver hluti fyrir sig talað sínu máli. Það er að minnsta kosti ekki við efnið að sakast takist ekki að bregða birtu á málið, það verður þá að skrifa á reikning þess sem tók þetta saman.

Menningarfélagið og söguskriftir

Fyrir þann sem ekki veit skal hefja frásögina með þessum formála. Menningarfélag Austur-Skaftfellingar starfaði árin 1926-1959. Sá félagsskapur var opinn öllum sem vildu og á blómatíma þess voru sannarlega margir er létu sig varða hvað fram fór hjá félaginu og tóku beinan eða óbeinan þátt í starfinu. Félagið stóð fyrir margháttuðu menningar- og samkomustarfi og var það einkennandi að dreifa samkomum um byggðarlög sýslunnar með þeim hætti sem þá var talið mögulegt. Reyndar voru Öræfingar nokkuð afskiptir í þessu tilliti og hafa samgönguerfiðleikar eflaust ráðið þvi að þeir voru ekki beinir þátttakendur í starfi félagsins.

Fróðleg grein Torfa Þorsteinssonar í 3. árg. Skaftfellings um Menningarfélagið skal látin svara spurningum þeirra sem vilja kynna sér eitthvað nánar starf og stefnumið félagsins. Reyndar hafði Torfi ekki aðgang að gerðarbókum félagsins er hann setti saman efni sitt, tekur þá að þær séu glataðar. Síðar hafa þær sem betur fer komið í leitirnar og er stuðst við þær í þessari samantekt hér. Þær bæta samt engu við endurminningar Torfa enda styðst hann við trútt minni og lipra frásagnargáfu. Lítill vafi er á því að margir þeir sem sóttu þær skemmtanir sem félagið stóð fyrir og muna þær geta auðveldlega ornað sér við eldinn af frásögn Torfa. Við hin sem ekki njótum yls endurminninganna getum hins vegar séð bjarmann frá þessu öllu í fjarska og fetað okkur nær loganum og notað leiftrin til þess að skyggnast betur um sviðið.

Þegar þessi saga hefst erum við stödd á fundi Menningarfélagsins í Nesjum sem haldinn var 29.-31. jan. 1931. Þorbergur Þorleifsson biður um orðið á fyrsta fundardegi og hefur mál sitt á því að minnast á sögu Austur-Skaftafellssýslu orðrétt segir undir þessum lið sem er tölumerktur 3 í fundargerðinni: „Hvatti hann til að hún yrði rituð fyr en seinna og gefin út. Taldi það menningarmál og benti á að völ væri á ágætlega hæfum manni til þess úr héraðinu, þar sem væri Þorbergur Þórðarson". Var þetta rætt fram og aftur þennan dag og segir frá því að 26 ræður hafi verið fluttar, 17 með en 9 á móti. Á því má sjá að ekki var einhugur í málinu. Kosin var þriggja manna nefnd „sem athugaði það betur fram til laugard., og voru í nefndina kosnir: Þorbergur Þorleifsson, Hlöðver Sigurðsson og Einar Þorsteinsson." Til að kynnast anda Menningarfélagsmótanna, eins og þau voru nefnd í daglegu tali, skal tekið fram að næsti liður (nr. 4) í fundargerðinni er svolátandi: „Að þessu loknu var sungið og dansað fram undir miðnætti". Laugardaginn 31. janúar er málið svo aftur á dagskrá og nú undir lið 14 í fundargerðinni.

Þar segir:
 Saga Austur-Skaftfellinga. Þorbergur Þorleifsson var framsögumaður nefndarinnar, sem kosin var fyrsta dag mótsins. Hafði nefndin leitað til Þorbergs Þórðarsonar og hann tjáð sig fúsan til að skrifa söguna gegn 5 þús. kr. ritlaunum. Einnig upplýsti frams.m. að útgáfukostnaður 30 arka bókar í Skírnisbroti myndi verða um 6. þús. kr. á þúsund eintök. En þessar voru tillögur nefndarinnar:

  1. fundurinn taki ákvörðun um að saga austur-skaftfellinga verði skrifuð.
  2. Þorbergur Þórðarson verði fenginn til að skrifa söguna, og sjá um og bera ábyrgð á útgáfu hennar.
  3. Þorbergi verði greitt í ritlaun allt að 5 þús. kr., eftir stærð bókarinnar; þar í talið áskriftarverð bókarinnar hér í sýslu, sem verði kr. 15,00
  4. Til þess að standast straum af útgáfu sögunnar hefir Þorbergur það sem bókin selst utan þessa héraðs (og einnig það sem sest í þessu héraði fyrir utan áskriftir.)
  5. Þorbergur ljúki við söguna á þrem árum.
  6. hann byrji að safna gögnum til sögunnar þegar fé hafi verið aflað í ritlaunin, sem skal gert sem fyrst á þessu ári.
  7. Ritlaun Þorbergs greiðist þannig: að 1/3 um leið og hann byrjar að safna til sögunnar. Annar þriðji á öðru ári. Síðasti þriðji um leið og byrjað verður að gefa bókina út.
  8. til að skrifa söguna leggjum við til að aflist þannig.

a. Hvert Ungm.fél. greiði 200,00                 Samt. kr.                      1.000,00

b. Áskriftarverð bókarinnar hér í sýslu                  kr.                      2.000,00

c. Sýslusjóður A.Skaftf.                                       kr.                         500,00

d. Kaupfél. A.Skaftf.                                            kr.                         500,00

e. Sótt um ríkissjóðsstyrk eitt til./lag/                    kr.                      2.000,00

                                                                Samt. kr.                      6.000,00

9. Til aðstoðar og meðráða með Þorbergi við efnisval og stærð sögunnar og annað sem snertir útgáfu hennar, sé kosin 5 manna nefnd hér úr héraðinu.


Að lokinni ræðu frams.m. urðu enn allsnarpar umræður um söguna.
Fundargerðin greinir svo frá að í framhaldi þessa hafi 20 ræður verið fluttar þar sem 12 voru með en 8 á móti. Fram kom að lokum tillaga frá þáverandi formanni félagsins, Sigurði Jónssyni á Stafafelli, og var hún samþykkt. Tillagan var á þá leið að óskað yrði eftir því að við alþingismann sýslunnar (Þorleif Jónsson) að hann kannaði möguleika á framlagi úr ríkissjóð og hefði jafnframt sambandi við Þórberg (eða Þorberg, eins og hann er ævinlega nefndur í gerðarbókinni) varðandi fyrirhugaða bókaútgáfu.

Næst segir frá málinu á Menningarfélagsmóti sem haldið var í Suðurveit 13.-15. nóv. 1932. Á aðalfundi félagsins (en aðalfundurinn var aðeins einn þátturinn af mörgum í dagskránni hverju sinni) var málið tekið fyrir og urðu miklar umræður um það. Virtust margir fundarmenn því hlynntir, en hinsvegar vanséð hvort ráðlegt væri að hefja framkvæmdir í þessu árferði. Voru 32 ræður fluttar, en að lokum var þessi tillaga frá Jóni Ívarssyni borin upp og samþykkt með 26 samhljóða atkvæðum. Fundurinn vill að félagsstjórinn taki á móti því fé sem einstaklingar eða félög vilja gefa til útgáfu Skaftfellingasögu og nemi tilag hvers einstaklings tíu krónum minst og fái þeir þá bókina ókeypis. Er skemmst frá því að segja að stjórn félagsins kom sér saman um að tilnefna einn aðila úr hverri sveit sýslunnar til að taka á móti framlögunum og lauk þar með málinu að þessu sinni.

Að ári liðnu, eða nánar til tekið 19.-21. nóv. 1933, var nsta mót haldið og þá á Mýrum. Þá kom fram að safnast hafði fé til verksins meðal íbúa í héraðinu þó ekki væi það ýkja mikið. Erfiðir tímar voru í landsmálum og efnahagur þorra fólks trúlega með bágara móti. Steinþór Þórðarson á Hala sagði frá því að hann hefði fyrir skemmstu haft tal af Freysteini Gunnarssyni sem þá sat í stjórn Menningarsjoðs í Reykjavik og rætt við hann um útgafu sögnnar. Hafði hann „fengið góðar undirtektir, en þó væri það föst regla hjá Menningarsjóði að lofa engu ákveðnu fyr en handrit bærust til yfirlestrar". Ekki urðu miklar umræður um málið en samþykkti að lokum tillaga þess efnis að stjórn félagsins sé heimilt að ákveða „hve miklu skuli varið úr sjóði félagsins til útgáfu sögunnar" eins og þar segir orðrétt.

Enn er málið til umræðu og nú er mótshaldið í Nesjum, 24.-25. nóvember 1934. Þá kemur fyrirspurn frá Steinþóri á Hala um málið. Taldi í framhaldi þess að nú yrði að hrökkva eða stökkva. Skoraði hann meðal annars á stjórn félagsins að fylgja málinu eftir og viðraði hugmynd sína að safna með almennri hlutaveltu og svo áskriftum hér eystra svo og í Reykjavík. Að loknum nokkrum umræðum var málinu vísað til stjórnar. Ekki er að sjá að teljandi ágreiningu væri um málið að þessu sinni en um það „urðu allfjörugar umræður" eins og þar stendur. Á fundi í Lóni 17.-19. nóv. 1935 kemur fram hjá formanni félagsins (sem enn var Sigurður Jónsson á Stafafelli) að stjórn Menningarfélagsins „hefði samþykkt að veita Þorbergi Þórðarsyni kr. 600,00 styrk til að byrja að skrifa söguna, gegn því að Mfél. ætti þau gögn sem hann viðaði að og það sem hún kæmist áleiðis fyrir þann styrk. Og frá sér hefði fylgt sú ákveðna skýring að Menningarfél. legði eigi fram meira fé til sögunnar". Geta má þess til fróðleiks að reikningar félagsins að þessu sinni sýndu að í sjóði voru kr. 1355,95.
Þá kom fram að Steinþór á Hala, sem einnig sat í stjórn félagsins, „kvaðst hafa lofað Þorbergi að greiða upphæðina er hann byrjaði á verkinu en þá myndi hann koma austur til að safna meiri gögnum". Í máli manna kom fram að uppi  voru deildar meiningar um það hvort Menningarfélagið ætti að vera aðili að sögunni. Formaðurinn taldi að félagið hefði ekki viljað ganga svo langt. Hins vegar sagði Steinþór það skoðun sína að Menningarfélagið „ætti að taka þetta mál að sér. Taldi hann í alla staði réttmætt að komast að fastri niðurstöðu við höf. á hvaða grundvelli sagan væri skrifuð, áður en verkið væri hafið. Að lokum endurtók formaður fyrri yfirlýsingu sína um að Mfél. myndi ekki leggja meira fram en þessar sex hundruð krónur, ef þær yrðu greiddar".

Athyglisvert er að fyrst á þessum fundi er merkjanlegt að ræddar hefðu verið hugmyndir að því hvernig sagan ætti að vera, atvinnusaga héraðsins, menningarsaga eða persónusaga einstaklinga. Var það Jón Ívarsson kaupfélagsstjóri sem reifaði það mál og taldi það æskilegt að „einhver grundvöllur sé til að byggja á, einhver áætlun um hvernig verkið sé hugsað í framkvæmd". Hvað sem stefnumörkun að ritinu líður þá má af þessu sjá að  því fór fjarri að einhver „ritstjórastefna" hefði verið mörkuð þegar hér var komið sögu. Hver var ritstjórnin? Athyglisvert er einnig að Steinþór orðar það svo að Þórbergur muni koma og safna meiri gögnum. Söfnunin er ótvírætt hafin sem staðfestist við lestur dagbókarbrotanna hér síðar.

Þannig stóðu málin á því herrans ári 1936 þegar fundað var í Menningarfélaginu 16.-18. nóvember í Suðursveit. Þá spurðist Benedikt Þórðarson á Kálfafelli fyrir um söguritunina. Sigurður á Stafafelli ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um þátt Menningarfélagsins í útgáfunni og ekkert nýtt kom fram í málinu. Næst skal staldrað við dagana 21.-23. nóvember 1937 og nú er fundurinn haldinn á Höfn. Séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi vekur máls á því hvort félagið muni ekki sjá til þess að framhald yrði á „að skrifuð yrði saga Austur-Skaftfellinga. Málið töluvert rætt en síðan vísað til stjórnar til frekari framkvæmda".

Árin líða og greinilega hefur dregið úr eldmóði manna varðandi söguritunina. Ekki segir nú af málinu fyrr en á fundi félagsins sem haldinn var í Nesjum 16.-18. nóvember árið 1941. Þá er það enn séra Eiríkur sem ber fram tillögu „þess efnis að kosin verði þriggja manna nefnd til þess að hafa forgöngu í sögumálinu". Ber nú svo við að hvorki fleiri né færri en 12 taka til máls og sýnist sitt hverjum. Dró frummælandi tillögu sína til baka að svo komnu máli en fram komu tvær aðrar tillögur. Sú fyrri frá Jóni Ívarssyni þess efnis að stjórn Menningarfélagsins sé með málið í sínum höndum og því óþarft að álykta sérstaklega um það. Sú tillaga var felld með 11 atkvæðum gegn 7. Því næst var borin upp tillaga frá Sigurði Sigurðssyni á Höfn þar sem „skorað er eindregið á stjórn Menningarfélagsins að hefjast þegar handa um það, að hrinda því í framkvæmd, að samin verði saga A-Skaftfellinga. Tillaga þessi var samþykkt með öllum þorra atkvæða" eins og orðrétt segir í fundargerð sem Hjalti Jónsson í Hólum ritaði að þessu sinni. Eftir sem áður svífur andi Menningarfélagsmótanna yfir vötnunum og Hjalti lýkur fundargerð sinni með þessum orðum: „Var svo dansað til morguns".

Það síðasta sem hér verður rakið af málinu á þessum vettvangi er frá fundi Menningarfélagsins á Mýrum 20.-22. nóvember 1943. Þá kemur fram sú hugmynd hvort ekki sé rétt „að fela stjórn Skaftfellingafélagsins í Reykjavík að skrifa sögu Austur-Skaftafellssýslu jafnframt sögu Vestursýslunnar". Niðurstaðan varð sú að málið skuli unnið áfram í samstarfi við „Þorberg Þórðarson rithöfund og stjórn Skaftfelligafélagsins í Reykjavík".

Frekari framvinda er ekki rakin hér. Niðurstöðuna þekkja hins vegar allir, málið sofnaði og ekki að sjá að Þórbergur hafi látið verða frekar af því að safna efni í þessum tilgangi. Ekki urðu það þó síðustu orð hans um sýsluna né Suðursveitina sem betur fer. Austur-Skaftfellingar urðu hins vegar að bíða í áratugi eftir því að byggðasaga þeirra liti dagsins ljós. Þegar þar að kom réðust aðrir til verksins en rætt var um í upphafi og verður þeirra hlutur seint ofmetinn. Frásögn af því verður ekki rifjuð upp af þessu tilefni en bíður betri tíma.

Dagbók Þórbergs

Svo vill til að frásögn Þórbergs, „Vatnadagurinn mikli", sem fyrst birtist á prenti í Tímariti Máls og menningar 1. hefti  1943 varðveitir umgjörðina að þeim hætti í ævistarfi hans sem hér er til umfjöllunar. Orðrétt farast Þórbergi þannig orð: „Þetta regngráa og sólarlitla sumar vorum við Margrét kona mín á ferð um Austur-Skaftafellssýslu frá 12. júlí til 10. september. Við fórum sjóleiðina austur, en ætluðum landveginn til baka, því að ferðir okkar hafði aldrei borið um þær slóðir áður". Svo er að sjá sem fyrst sé minnst á söguritunina í dagbókum Þórbergs frá föstudeginum 14. júlí 1933. Þar segir „Sátum hjá Guðm. Sigurðssyni til kl. 7 3/4 [19:45]. Spjallað um sögu Skaftafellssýslu og trúmál og stjórnmál. Skruppum þaðan heim til Jóns Brunnans og sátum þar örlitla stund". Eftirtektarvert er að orðið sem Þórbergur undirstrikar í dagbók sinni er saga, svona eins og til áherslu. Það tekur af öll tvímæli um það að hann gengur ákveðinn til verks.

Næst verður fyrir að staldra við fimmtudaginn 20. júlí. Þá er Þórbergur kominn að Hala og hefur ásamt Steinunni og Steinþóri farið inn að Reynivöllum þann dag. Svo segir: „Gerði uppkast að spurningum um Austur-Skaftafellssýslu". Svo virðist sem verk Þórbergs sé fyrst að mótast er hér er komið. Næsta dag: „Gerði uppköst að spurningum og hreinskrifaði á miða. Gekk niður á Ullarhraun". Hér er ekki hægt að standast mátið og vekja athygli á því að Þórbergur veigrar sér ekki við að nota „uppköst" í fleirtölu þó svo einhverjum  þyki það fremur eiga við annað fyrirbæri og mönnum oftast óviðráðanlegt þegar það kemur yfir þá. Varla liðist nemanda að nota þetta svona athugasemdalaust í ritgerð.

En þannig gengur þetta áfram næsta dag því eru skrifaðar spurningar. Svo gerist það að „kl. 6 .e.h. kom Ketill og skrifaði ég upp eftir honum til kl. 10 e.h." Að Hala er nú kominn góður gestur, Ketill Jónsson (Oddnýjarson) frá Gerði. Trúlega hefur sagnaþulurinn Ketill verð boðaður á staðinn og má sjá að tíminn var vel nýttur. Næsta dag er setið við og „skrifað upp eftir Katli kl. 10 til 3 1/4 e.h. [15:15]. Þá hélt hann heim til sín að Smyrlabjörgum". Næsta dag er m.a. þetta „Skrifaði spurningar" og sama má einnig sjá um fleiri þá daga sem í hönd fóru.

Mánudaginn 31. júlí er farið að Felli í fylgd Þorsteins Guðmundssonar á Reynivöllum og teiknaðar húsatóftirnar á staðnum. Ekkert tækifæri er látið ónotað. Þannig er skráð 1. ágúst: „Þorsteinn frá Reynivöllum var að slá með sláttuvél í dag. Ég skrifaði upp frásögn Ara á Fagurhólmsmýri af skipskaðanum á Mýrum 1843. Og kl. 7-11 e.h. ritaði ég upp eftir Þorsteini ýmislegt fleira um skipstapan og mikið af frásögn um Sæbjargarslysið 4. maí 1920. Kl. 11,5 [23:30] e.h. hélt Þorsteinn heim". Svo er að sjá sem Þórbergur skrifi upp frásögnina af skipstapanum eftir bréfi til Þorsteins á Reynivöllum er Ari Hálfsdánarson ritaði á Fagurhólmsmýri 13. desember 1929. Ari lést árið 1935. Skipskaðinn á Mýrum hefur verið fólki ofarlega í huga hér í sýslu enda mjög átakanlegur atburður. Segir Þórbergur frá þessu í bókinni Brim og boðar II.

Verður ekki fleira tekið til úr þessari dvöl á Hala þó margt fróðlegt megi þar sjá. Haldið var á Höfn laugardaginn 5. ágúst og hreppti ferðafólkið rigningu fram eftir degi en þornaði til seinnipartinn. Farið var austur á Melatanga og ferjað yfir.
Næsta dag: „Dvaldi um kyrt á Höfn og skrifaði sögu Papóss eftir Guðmundi Sigurðssyni". Ekki spillir fyrir að gestkvæmt er á Höfn þessa dagana því þennan dag hefur Esjan komið „og með henni Kjartan Ólafsson augnlæknir, Kjarval og Ragnar Ásgeirsson" (Bróðir Ásgeirs forseta).
Fimmtudaginn 10. ágúst lauk svo Þorbergur við að skrifa upp eftir Guðmundi Sigurðssyni. Daginn eftir var svo haldið upp á Papós í fylgd Guðmundar og staldrað þar við í um það bil klukkustund. Þar mældi Þórbergur og teiknaði rústir. Síðar um daginn skildust leiðir, Guðmundur hélt niður á Höfn aftur en Þórbergur og Margrét að Volaseli.
Segir ekki hér frekar af sögu þeirra fyrr en komið er að Horni 15. ágúst. „Skrifaði sögur eftir Sigurði Eyjólfssyni. Reið þá austur að Hornshöfn og skoðaði þar gamlar búðatættur".

Fleira athyglisvert verður á vegi Þórbergs í Nesjasveit þessa dagana og greinilegt að hann leggur sig eftir því að skoða gamlar menjar um mannvist hvar sem hann telur sig verða þeirra vís. Hann hittir og systkinin frá Dilksnesi, Björn og Lovísu Eymundarbörn og tekur niður fróðleik eftir þeim. Einnig les hann upp fyrir Þorleif í Hólum það sem hann er kominn með á blöðin og er það eftirtektarvert. Þannig má sjá að hann ber efni sitt undir kunnuga og má líklegt telja að þetta sé ekki einsdæmi. Á blöðum Þórbergs frá þessum tíma má sjá að hann tekur niður punkta um menn og málefni þau sem honum eru hugstæð. Þar hafa spurningalistarnir eflaust komið að góðu haldi en ekki hefur tekist að hafa upp á þessum listum né sjá dæmi um spurningar sem lagðar voru fyrir fólk.

Aftur er haldið í Suðursveit og nú yfir Fljótin. Gist í Einholti og því næst á Smyrlabjörgum og þá er tækifærið notað og skráð fleira eftir Katli. Næstu daga eru skráðar spurningar og einnig er skrifað upp eftir Þorsteini á Reynivöllum.

Einn daginn síðla í ágúst fór Þórbergur austur í Hálsa í fylgd Skarphéðins Gíslasonar á Vagnsstöðum. Þá komu þeir líka við í Kambtúni vestan Hestgerðiskambs þar sem sagnir herma að Norðlingar hafi átt verðbúðir sínar fyrr á öldum. Ljóst er að erindið er að kanna leifar um vist norðlenskra sjómanna og aðstöðu til útgerðar frá Hálsahöfn. Sagnir um slíkt höfðu lifað í minningu fólks um aldir en lítið verið skráð. Nágrannarnir við þessa sögufrægu staði geymdu frásagnirnar og gátu lýst staðháttunum á vettvangi. Ekki hefur verið komið að tómum kofunum hjá Skarphéðni á Vagnsstöðum þegar þessi mál bar á góma.
Þessa síðustu daga í ágúst koma sveitungar í heimsókn að Hala og margt er skrafað og skeggrætt, „um pólitík, trúmál, forynjur og menn", eins og meistarinn segir orðrétt.

Miðvikudaginn 30. ágúst er þessi saga á enda er þau hjónin halda áleiðis suður til Reykjavíkur. Við skiljum við þau síðdegis þann dag er þau mæta Birni Pálssyni bónda á Kvískerjum á miðjum Breiðamerkurjökli. Þau kveðja þar Steinunni og Steinþór á Hala og svo Þorstein á Reynivöllum sem fylgdi þeim áleiðis. Ferðinni er heitið að Fagurhólmsmýri þennan dag. Sú saga sem hér tekur við er betur þekkt sem „Vatnadagurinn mikli" og hefur, eins og fyrr segir, verið skráð á öðrum stað af meistaranum sjálfum og látum við lýsingu hans taka við þar sem þessari lýkur.

Þetta er stutt samantekt á um einum og hálfum mánuði af sumardvöl Þórbergs og Margrétar á heimaslóðum hans þetta sumar. Aðeins hefur verið gripið niður á stöku stað niður í dagbók Þórbergs og það eitt tínt til sem snertir söguritunina.

Merkilegt má það heita að ekki er að finna stafkrók er varða samning eða samkomulag við Þórberg um ritun þessarar títtnefndu sögu Austur-Skaftafellssýslu. Helst er að sjá að einhvers lags „heiðursmannasamþykkt" hafi verið gerð um ritun hennar, eitthvað hafi legið í loftinu sem tryggði það að verkið, sem hér var rétt að hefjast, hefði sinn gang. 

 Það sem lesa má af blöðum Þórbergs er að ferðin á heimaslóðir sumarið 1933 hefur verið honum ómetanleg uppspretta að efni og fróðleik. Þannig hefur nú allt tilstandið um sögu sýslunnar líklega átt sinn þátt í því að nú fóru í hönd þeir tímar á ferli rithöfundarins sem kalla mætti „Í Suðursveit" eins og safnrit höfundarins með þessum verkum er nefnt í nýjustu prentaðri útgáfu.

Þar er skilið við að þessu sinni. Ljóst er að mörgu er látið ósvarað enda örðugt að gera þessu tæmandi skil. Margt þarf líka nánari skoðunar við en varla tímabært að gefa undir fótinn með framhald á þessu af minni hálfu. Tíminn leiðir það í ljós.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549