Skip to main content

Stutt æviágrip um Þórberg Þórðarson

Torfi Steinþórsson skrifar:

gamli haliÞórbergur Þórðarson var fæddur að Hala í Suðursveit 12. mars 1888. Foreldrar Þórbergs voru þau hjónin á Hala Anna Benediktsdóttir og Þórður Steinsson. Hjá foreldrum sínum ólst Þórbergur upp og vandist þar öllum algengum sveitastörfum sem hann vann af mikilli trúmennsku en litlum áhuga nema þá helst að bjarga kindum úr Breiðabólsstaðarklettum og róa á sjó til fiskjar. Á þeim árum var mikið af frönskum fiskiskútum á miðunum undan Steinafjall þegar líða tók á vetur. Þetta voru glæsileg skip að sjá úr fjarlægð og þessar glæsilegu duggur seiddu rauðhærða strákinn á Hala út á hafið.

Hann fór sextán ára gamall til Reykjavíkur, komst þar á skútu og var þar í þrjú ár. Sjálfur segir Þórbergur um skútudvöl sína: ,, Ég kom öreigi á skútu og fór þaðan beiningamaður.'' Árin liðu, en árið 1924 marka tímamót ekki aðeins í lífi Þórbergs heldur miklu fremur í íslenskum bókmenntum. Þá kom út fyrsta alvörubók Þórbergs, Bréf til Láru. Líklega hefur engin íslensk bók valdið öðru eins umróti í heimi íslenskra bókmennta sem sú bók. Árið 1938 kom út bókin Íslenskur aðall og skömmu síðar Ofvitinn, bók í tveimur bindum. Þetta er ævisaga Þórbergs frá árunum 1909 - 1913, þ.e. frá tímanum þegar hann fór af skútunni og þar til hann kom fyrst í Unuhús, hús skáldanna. Þó eru þessar bækur mikið meira en ævisaga Þórbergs, fjöldi annarra manna kemur þar við sögu.

Í kringum 1940 liggja saman leiðir Þórbergs og uppgjafaprests á níræðisaldri vestan af Snæfellsnesi, séra Árna Þórarinssonar. Af þessum kynnum komst í letur ævisaga séra Árna Þórarinssonar í sex bindum, ævisaga sem varð alveg einstæð í íslenskum bókmenntum og mun tæplega eiga sinn líka í heimsbókmenntunum. Árni sagði söguna, en Þórbergur skráði. Samspil þessara tveggja sagnamanna varð með slíkum ágætum að ekki er hægt að ímynda sér það betra. Fimmti áratugurinn var því tímabil séra Árna í lífi Þórbergs. Og svo lifði Þórbergur sig inn í hlutverkið með séra Árna að þegar þeir skiljast að skiptum þá er Þórbergur orðinn gamall maður í útliti og hefur jafnvel tamið sér göngulag séra Árna.

En svo kom lítill stúlka, sem leysti Þórberg úr viðjum gamlingjans og leiddi hann inn í veröld barnsins. Það gekk ekki þrautalaust þegar Þórbergur byrjaði upp úr 1950 að skrifa söguna af henni Lillu Heggu. Margar tilraunir gerði Þórbergur til að ná hinum rétta tón í frásögnina. En loksins tókst það eftir að Þórbergur hafði skriðið slefandi um gólfið eins og ómálga barn, Sálmurinn um blómið varð að sögu fyrir börn á öllum aldri.

Þegar Þórbergur hafði lokið við Sálminn um blómið fór hugur hans að snúast heim á gömlu æskustöðvarnar í Suðursveit. Árið 1956 kom út bókin Steinarnir tala. Sú bók upphefst með hinni forkostlegu brúðkaupsveislu á Breiðabólsstað. Næstu árin kom svo áframhald af sögnum úr Suðusveit í þremur bindum. Eftir það var Suðursveit draumasveitin hans Þórbergs, því hann lifði sig alltaf af lífi og sál inn í það verk, sem hann vann að hverju sinni. Þórbergur hefur gert Suðursveit eina sögufrægustu sveit landsins.

Þórbergur andaðist í Reykjavík 12. nóvember 1974.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549