Skip to main content

Þórbergur og skáldsagan

Pétur Gunnarsson skrifar:
Það er athyglisvert hve mörg verka Þórbergs, jafnvel þau helstu, eru pöntuð og engan veginn víst að hann hefði skrifað þau ef ekki hefði komið til þessi ytri hvati.
Sem leiðir reyndar hugann að því hvort Þórbergur hafi yfir höfuð ætlað að verða skáld og rithöfundur.
Í Kompaníi við allífið er spurningin borin upp og Þórbergur svarar:

"Ég ætlaði mér aldrei að verða neitt... Og mér hefur orðið að áhugaleysi mínu. Ég veit
ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma orðið neitt..." (1)

 

Um ástæður þess að hann fór að skrifa ber hann við peningaleysi.  Hann hafði út úr blankheitum tekið saman Hálfa skósóla árið 1915 af því hann vantaði föt til jólanna.  Og Bréf til Láru á upphaf sitt að rekja til þess að vinkona Þórbergs bað hann blessaðan að hripa Láru línu þar sem hún lá  veik norður á Akureyri.  Þórbergur hófst þegar handa og las jafnóðum glefsur fyrir vini og kunningja og örvaðist af undirtektunum til áframhaldsins.
Síðan leið áratugur og enginn virðist hafa beðið Þórberg að skrifa utan hugsjónir hans.

"... sá sem á hugsjónir verður aldrei leiður á sjálfum sér né öðrum. Hann leitar ekki að
orðum. Hann leitar að mönnum sem hann vill gefa hlutdeild í hugsjónum sínum."

skrifaði Þórbergur í kunningjabréfi í júni 1924 (2)- og má vel hafa að einkunnarorðum áranna sem fóru í hönd eftir Bréf til Láru. Þórbergur leitar þá ekki að orðum heldur mönnum.
Hann ferðast um heiminn og sækir málþing esperantista í Edinborg 1926,sósíalista í Vín 1929, guðspekinga í Ommen 1932 og tekst á hendur ferð til Rússlands að kynna sér sovétskipulagið árið 1934.
Hann skrifar kennslubók í esperantó og áróðursritið: Alþjóðamál og málleysur 1933 og sama ár gefur hann út Pistilin skrifaði: úrval af greinum og sendibréfum. Hann skrifar Rauðu hættuna um ferð sína til Sovétríkjanna - þungvægt áróðursplagg árið 1935.
En þau bókmenntaverk sem Bréf til Láru var fyrirboði um og boðuð höfðu verið, hvað varð um þau?  Sá skáldsnillingur  sem í Bréfinu hafði kvatt sér hljóðs - ekkert var líklegra en næstu ár myndu skáldverkin streyma frá honum. Sjálfur hafði hann spurt í bréfi til Vilmundar í byrjun árs 1925: 

"Hvaða bók á eg nú að skrifa næst?  Eg hefi svo mörg verkefni fyrirliggjandi að eg veit ekki á hverju byrja skal (3)."

Og ári síðar sagði hann í öðru kunningjabréfi: 

"...  Þar að auki hefi eg fimm skáldsögur í höfðinu (eina upp á 500-600 síður)..." (4)

Hvernig stóð á því að engin þessara skáldsagna leit dagsins ljós?
Bókmenntaleg þögn Þórbergs spannar fjórtán ára tímabil  og það er að einmitt á þessum fjórtán árum að Halldór Kiljan Laxness geisist fram á ritvöll og þjóðvöll og nú ekki lengur sá guðfræðikandidat Kaþólskra viðhorfa sem Þórbergur hafði forðum klappað á koll, heldur Vefarinn mikli, Salka Valka, Bjartur í Sumarhúsum og Ljósvíkingurinn. Þessi ár eru einmitt hátindurinn á ferli Halldórs og það má geta sér til um að Þórbergur hafi átt bágt með sín skáldsöguáform í miðjum þeim hamförum.
Reyndar minna fyrstu eiginlegu skáldverk Þórbergs eftir hléið langa: Íslenskur aðall og Ofvitinn einkennilega á  Heimsljós Halldórs,  sá ofviti sem stígur fram í Aðlinum og Ofvitanum er eins og blóðskyldur Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi, en verkin komu út nær samhliða: fyrsta bindi Heimsljóss árið 1937, ári fyrr en Íslenskur aðall og fjórða og síðasta bindi Heimsljóss árið 1940, sama ár og fyrra bindi Ofvitans.
Í ljósi þessara sjálfsævisögulegu skáldsagna sem margir telja skærustu kraftbirtingu í list Þórbergs, hefði mátt ætla að nú væri Þórbergur kominn á skrið og næstu ár fylgdu fleiri skáldverk í kjölfarið.  En því var ekki að heilsa.  Næsta áratug helgar hann krafta sína dulrænum fyrirbærum og þjóðfræðum með bókinni um Indriða miðil (1942) sem Þórbergur taldi sjálfur með því "fjörlegasta" sem hann hefði skrifað - og svo ævisögu séra Árna sem hóf að koma út árið 1945 og síðan bindi á ári til 1950.
Ef einhverjum þykir að hér hafi skáldskapurinn enn fengið að sitja á hakanum, má minna á ummæli Þórbergs í Kompaníi við allífið þar sem hann raðar bókmenntagreinum í forgangsröð og setur þá skáldskapinn neðstan:

"Ég hef mest gaman af að lesa dulrænar sögur, sagði hann, af því að þar er svigrúm
fyrir ímyndunaraflið og þægileg spenna í efninu. Þar næst koma ævisögur og alþýðuvísindi,
þá náttúrufræði, stjörnufræði og loks skáldskapur, kvæði og skáldsögur." (5)

Og í framhaldi af því lét hann svo um mælt að ef hann hefði haft fullar hendur fjár og ekki þurft að skrifa sér til framfæris þá hefði hann einbeitt sér að dulspeki og ugglaust gert merkar uppgötvanir á þeim lendum.
Fátæktin og fyrirvinnukvöðin hafi neytt hann til að skálda eftir pöntun.
Auðvitað tökum við yfirlýsingum Þórbergs í þessu efni með fyrirvara - og þó blasir við að Þórbergi muni hafa látið vel að skrifa eftir pöntun, eða setja sig í furðu lítilþægar stellingar skrásetjara eftir öðrum, svo sem í Indriða miðli, Viðfjarðarundrunum, Lifnaðarháttum í Reykjavík að ógleymdri ævisögu séra Árna sem var pöntuð af Ragnari í Smára, að ekki sé minnst á ævisögu Einars ríka sem Ragnar var líka frumkvöðull að undir
æfilok Þórbergs.  Og sjálfur Íslenskur  Aðall átti upphaf sitt í pöntun frá Ríkisúvarpinu í tilefni af fimmtugsafmæli Stefáns frá Hvítadal sem þá var látinn fyrir þremur árum. Þórbergur samdi og flutti tvö erindi við örvandi undirtektir sem urðu til þess að hann skrifaði Íslenskan aðal og framhaldið í tveimur bindum Ofvitans.
En frægasta pöntun sem Þórbergur mun hafa fengið var árið 1951 þegar hann hafði loks tekið upp þráðinn í eigin ævisögu þar sem séra Árni sleit hann og var kominn 300 bls. áleiðis í Suðursveitarkroniku sinni. Og nú var það ekki Ragnar í Smára eða Ríkisútvarpið heldur sjálfur Guð sem skipaði honum að víkja Suðursveit til hliðar og skrifa bókina um litlu manneskjuna: Sálminn um blómið.
Sálmurinn um blómið markar tímamót á ritferli Þórbergs. Það er bókin um barnið sem uppgötvar veröldina í gegn um gamla manninn og gefur honum í leiðinni bernskuna.
Eins og kunnugt er minnir skapandi upplifun barna á fátt meira en hina algeru snilligáfu - en þau skortir tækni til að búa henni varanlegt form. Og síðar meir þegar tæknin er komin, þá er barnið gufað upp. Í einum eftirminnilegasta kafla Sálmsins greinir Þórbergur frá fæðingarhríðum verksins, vandkvæðunum sem hann á í með að finna tón bókarinnar og svo hamskiptunum þegar lausninni lýstur niður og honum opnast æðar til barnsins í sjálfum sér og færir því hina háþróuðustu frásagnartækni.
Í Sálminum birtist heimssýn Þórbergs og heimsósómi, trúarjátning hans og ekki síst: listsýn.  Eitt af því sem Sálmurinn býður upp á er sérkennilegt uppgjör við skáldsöguna. Allta föðru hverju og æ oftar eftir því sem líður á verkið er Þórbergur að rjúfa frásögnina til að kynna að hann sé ekki að skrifa skáldsögu og þess vegna segi hann þetta svona, en ef hann væri að skrifa skáldsögu þá mynd ihann aftur á móti segja - og síðan kemur glósa sem er nær undantekningarlaust skopstæling á stíl Halldórs Laxness.
Þá er ekið um "óskýrgreint land" og "óskýrgreinda vegi", horft "óskýrgreindu augnatilliti" og "óræðum augum", eða "gónt  í óræðri dul og spurn" og þarna er "óskýrgreindur strákur" og "óskýrgreint tryppi".
Í Sálminum má þannig finna lítt falda ritdeilu Þórbergs við sinn gamla keppinaut, en um árabil var nafn annars sjaldan nefnt án þess að hitt fylgdi á eftir, Þórbergur og Halldór, Halldór og Þórbergur.
Fyrra bindi Sálmsins kom út árið 1954 og síðara bindið ári síðar - árið sem Halldór hreppti bókmenntaverðlaun Nóbels - og í síðara bindinu ágerast árásir Þórbergs á skáldsöguna um allan helming og verða nær því áráttubundnar.
Þórbergur gerir harða hríð að skáldsögunni sem  úrkynjuðu, úreltu og staglsömu formi sem kækirnir hafi hlaðist utan á eins og hrúðurkarlar. Form sem er farið að framleiða innihald sitt sjálft. Þetta endalausa "sagði hann" og "sagði hún" og "sagði hann um leið og
hann opnaði hurðina" og "sagði hún um leið og hún leit út um gluggann."


Dæmi:

"Það skal verða stutt," svarar ljóta konan sem var mjög intereséruð í listum og skáldin mundu hafa sagt að hún hefði tekið um leið út úr bollanum því að í skáldsögum eiga menn alltaf að gera eitthvað um leið og þeir segja eitthvað.  En Sobbeggi afi er að segja sanna sögu og þess vegna sá hann hana ekki gera neitt." (6)

En það er ekki bara klisjuverkið sem er þyrnir í augum Þórbergs, það er líka frukt skáldsögunnar fyrir simplum listbrögðum:

"Krakkar mínir! Ég bið ykkur að fyrirgefa mér hvað ég er oft búinn að segja "pena stúlkan úr Reykjavík." En mig langaði allt í einu til að vera svolítið skáldsögulegur og þá ámaður að segja aftur og aftur það sem er fyndið eða skrýtið." (7)

En það sem ræður úrslitumum að Þórbergur gæti aldrei lagt lag sitt við skáldsöguna er lausung hennar og handahóf:

"Vorið 1951 voru sagðar miklar sögur af huguðu fólki sem ætlaði að fljúga austur í Suðursveit.  Sobbeggi afi nefnir árið af því að hann er ekki að skrifa skáldsögu. Í skáldsögu má aldrei nefna ár." (8)

Og:

"Föstudagsmorguninn 1.júní rann upp stórkostlegasti gamandagur í lífi litlu manneskjunnar.  Sobbeggi afi nefnir mánaðardaginn af því að hann er ekki að skrifa
skáldsögu.  Í skáldsögu má aldrei nefna mánaðardag." (9)

Og enn:

"Þetta var hálftíma gangur fyrir fullorðið fólk.  Sobbeggi afi má nefna hálftíma gang af því að hann er ekki að skrifa skáldsögu..." (10)

Hitt  er  svo annað mál að auðvitað er Sálmurinn um blómið bullandi skáldsaga. Niðurskipan, útsjónarsemi og stílbrögð - allt er þetta úr vopnabúri skáldsögunnar.  Aðferð Þórbergs dregur dám af kúnst töframannsins sem beinir athygli fórnarlamba sinna út í bláinn til að geta betur framið list sína.
Þótt sagan byggi á fólki sem átti sér nöfn og heimilisföng í lifanda lífi þá hagræðir Þórbergur efnisatriðum á þann veg að frásögnin nái mesta hugsanlega áhrifamætti -auk þess sem kappnóg er af algerlega ímyndaðri atburðarás.
Sálmurinn um blómið er aftur á móti skáldsaga sem deilir á formið og dustar af því rykið. Sálmurinn er á sinn hátt "skáldsaga sem bendir á sjálfa sig", eins og nú hefur verið nýjasta nýtt um nokkurt skeið.  Lesandanum er kippt inn í sjálft ritferlið, skáldskapurinn gerist fyrir opnum tjöldum og sýnist fyrir bragðið vera veruleiki.
Sálmurinn er þannig í beinu framhaldi af formþróun Þórbergs sem leið ekki undir lok með Bréfi til Láru heldur var snar þáttur í viðbrögðum hans við tilverunni alla tíð. Sálmurinn er nýr stíláfangi á leið Þórbergs til meiri einfaldleika, markmiðið er að brjóta endalega af sér viðjar storknaðs bókmáls.
Og þessarar þróunar sér enn frekar stað í verki því sem Þórbergur hélt áfram að Sálminum loknum: Suðursveitarbókunum. Steinarnir tala, Um lönd og lýði, Rökkuróperan og verk sem Þórbergur lauk aldrei við og birtist ekki fyrr en árið 1975 í heildarverkinu og þá undir nafninu Fjórða bók.  Þrjár fyrstnefndu bækurnar komu út á árunum 1956-58 -Þórbergur stóð þá á sjötugu og þótt hann tæki áratug síðar upp pennann til þess að færa í letur sögu Einars ríka, þá má telja í Suðursveit svanasöng hans og kórónu æfiverksins.
Mér er til efs að á sjötta áratugnum hafi verið  skrifaður öllu módernískari texti á Íslandi en víða í Suðursveitarbókunum. Mönnum hætti hins vegar til að sjást yfir það af því að sjálft yrkisefnið var tengt afturhaldi og stöðnun:  þjóðháttalýsing og þjóðfræðaefni úr íslenskri sveit á ofanverðri 19.öld.
En efnistökin leiftra af frumleika.  Ég skal bara nefna sem dæmi hinn súrrealíska kafla um orðin, þar sem Þórbergur bregður upp  hugrenningatengslum sem orð vöktu með honum og hvernig málið gat verið honum sjálfstæður veruleiki.
Í Suðursveit er stórbrotin tilraun fullþroska höfundar til að blaðsetja mannlíf í heimabyggð sinni, tilraun til heildarmyndar af uppruna skáldsins og jafnframt niðurstaða af áratugalöngum hugleiðingum og tilraunum um söguritun og frásagnartækni.  Hér birtist gleggst það markmið sem Þórbergur setur skáldskap sínum: AÐ GLÆÐA LÍFI ÞAÐ SEM HEFUR ÁTT SÉR STAÐ og bæta þannig ótal nýjum víddum við einvídd núsins.
Maður sem þekkir söguna og hefur innsæi til að tala við steina og tóttir húsa, öll hans upplifun er margfeldi af hinni venjubundnu hversdagslifun. Og það sem Þórbergur harmar sí og æ í Suðursveitarbálkinum er hve óheyrilega mikið af sögu hefur farið forgörðum og það stafar alltsaman af því hve fólk er tregt að nóta hjá sér og halda dagbók, hæfileikaleysi til að sjá hið stóra í hinu smáa og frumstæður smekkur fyrir atburðarás.
Þær bókmenntir sem Þórbergur lætur sig dreyma um eru dagbækur frá upphafi Íslandsbyggðar með tilheyrandi veðurlýsingum, staðarlýsingum, persónulýsingum og atburðarás. Söguútstreymið frá hverju fótmáli væri þá svo ríkulegt að maður yrði að hafa sig allan við til að hemja útsendinguna.
Eiginlega er Suðursveitarbálkurinn kennslubók í því hvernig hversdagslíf getur öðlast ævarandi líf í sögu - og ekki bara mannlíf heldur líf dýra, anda, álfa, landslags og dauðra hluta.  Það er ekki einasta að Þórbergur trúi á líf sálarinnar að loknu jarðlífi heldur trúir hann að hlutirnir eigi líka sitt andlega líf, hús búa yfir sál, tóttir einnig og löngu eftir að þær hafa máðst af yfirborði jarðar er sál þeirra á sveimi.
Allt er lifandi alltaf, menn, dýr og hlutir eru á ferli löngu eftir að þau eru ekki lengur og það sem meira er: atburðir halda áfram eftir að þeir gerast.  Staðir búa yfir minni og atburðarásin er alltaf í gangi eins og stöðug útsending sem þarf hæfileg móttökutæki til að ná. En skilningarvit manna verða æ sljórri eftir því sem tímar líða - og með útvarpsgargi og vélarbrölti taldi Þórbergur illa horfa um móttökuskilyrði sálarinnar.
Og það er skemmst frá því að segja að Suðursveitarsyrpu Þórbergs var tekið af nokkru fálæti þegar hún kom út í lok sjötta áratugarins. Einkum var það þjóðfræðaefnið sem fór fyrir hjartað á mörgum - allur þessi fróðleikur og nákvæmni.
Það var engu líkara en skollið væri á stríð milli Þórbergs og lesenda og Þórbergur lýsti því yfir að hann hefði valið á milli þeirra sem læsu sér til fróðleiks og hinna sem læsu sér til skemmtunar - og hefði kosið þá fyrri sér til sálufélags.
Hér ætti kannski við að bera upp þá spurningu hvort Þórbergur hafi verið vanmetinn höfundur - og þá ekki bara átt við skugga fjallsins sem hann bjó undir langa æfi - heldur þá slagsíðu sem verið hefur á mati manna á verkum hans, hve jafnvel aðdáendur hans hafa verið bundnir við snilli upphafsins: Bréf til Láru og miðhálendið: Íslenskan Aðal og Ofvitann - en eins og sjálfur hátindurinn væri jafnan kafinn skýjum: Sálmurinn um blómið og Suðursveitarbækurnar.
Annað sem kann að hafa bjagað mynd manna af Þórbergi er hve honum sjálfum var ótamt að koma fram í hefðbundnu rithöfundagervi, gerði jafnvel gys að því og birtist iðulega í tíglabúningi trúðsins þegar menn áttu von á viðhafnarklæðum skáldjöfursins.
En tómlæti lesenda og tregða höfðu áhrif á Þórberg, þess gætir strax í annarri bók: Um lönd og lýði - á einum stað er vikið að gamalli heimild um mannskaða á sjó. Heimildin lætur þess ógetið hvað skipin voru mörg sem fórust og Þórbergur sendir lesendum tóninn:

"Það hefði líka verið of þreytandi nákvæmni." (12)

Og í Fjórðu bók er hann á einum stað að tala um áhald sem hann fann upp til að mæla vegalengdir en hættir svo við í miðju kafi og segir:

"Ég nenni ekki að lýsa því hér." (13).

Og það er staðreynd að Þórbergur lagði frá sér pennann þegar aðeins herslumun vantaði upp á að Fjórða bók væri fullmótuð og virðist ekki hafa séð ástæðu til að halda þessum leik áfram mikið lengur.
Þó átti hann góðan áratug eftir ólifaðan en virtist láta sér framhaldið í léttu rúmi liggja og fór aftur að taka á móti pöntunum.
Kannski hefur hann veðjað á aðra tíma og nýtt fólk, vitandi að það sem er í seilingu í dag er gjarnan úr sjónmáli á morgun - lítill sproti er fyrr en varir orðinn að voldugu tré - og undir krónur þess mundu kynslóðir framtíðarinnar safnast.


(Erindi á ráðstefnu Félags áhugamanna um bókmenntir helgaðri Þórbergi Þórðarsyni, 3.júní 1989).


Tilvitnanir:
1) Í kompaníi við allífið (1959), bls. 13
2) Mitt rómantíska æði (1987), bls. 148
3) sama, bls. 172
4) sama, bls. 204
5) Í kompaníi við allífið, 36
6) Sálmurinn um blómið (1976), bls. 176
7) sama, 333
8) sama, 306
9) sama, 307
10) sama, 318
11) Í Suðursveit (1975), bls. 216
12) sama, 234

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 27
Gestir á þessu ári: ... 104549