Skip to main content

Í Suðursveit

Pétur Gunnarsson skrifar:

I

Ætli Suðursveit sé ekki frægasta sveit á Íslandi. Orðinu fylgir svo kunnuglegur blær að maður gæti haldið að hún væri einhvers staðar í alfara leið. En því er ekki að heilsa. Hún hefur til skamms tíma verið einhver afskekktasta sveit landsins, mjó landræma suðaustur með Vatnajökli sem girðir sveitina alveg af í norður; í vestri er fínriðið net af fljótum sem tálma ferðir yfir mestu sandflæmi landsins en í austur er fjallvegur sem leiðir í strjálar og afskekktar sveitir Austurlands. Í suðri er svo endalaust hafið fyrir hafnlausri strönd.

Fólk fæddist í Suðursveit, óx þar upp, giftist hvað öðru og bar þar beinin eins og utan við heiminn.
Samt er hún á allra vitorði, kunnugleg eins og örnefni út um eldhúsgluggann. Þó er hún ekki sögusvið neinnar Íslendingasögu, hún er ekki eins og Rangárvallasýsla vettvangur Njálu eða Borgarfjörður Egilssögu, Dalirnir Laxdælu, Vestfirðir Fóstbræðrasögu, Skagafjörður Grettissögu eða Fljótsdalur Hrafnkötlu.
Hún er sögusvið Þórbergs Þórðarsonar. Hann fæddist í Suðursveit fyrir einni öld og tólf árum betur, ólst þar upp til sextán ára aldurs og hvarf þaðan á braut alfarinn árið 1906 og kom ekki aftur nema sem stopull gestur upp frá því. En hann hafði Suðursveit með sér í farangri hugans og endurskapaði hana smátt og smátt í bókum sínum. Og hann gerir meira: hann lyftir henni upp í fyrirmynd, eins konar mælikvarða sem stóra veröldin er vegin á og metin. Suðursveit verður tákn upprunaleikans einfaldleikans og heilindanna. Í bókum sínum talar Þórbergur iðulega um að tiltekin persóna hafi svarað eins og Suðursveit og þá er svarið jafnan stutt og tilgerðarlaust. Eða einhver athöfn fær þá einkunn að ekki hafi nú verið mikil Suðursveit í henni og þá er um að ræða hræsni eða fals. Þannig hefur Suðursveit orðið samnefni heilinda og flekkklauss mannlífs, að yfirgefa Suðursveit jafngildir syndafalli.

"Ef ég hefði ekki farið þessa bölvaða kaupstaðarferð út úr sveitinni", segir Þórbergur í Ofvitanum, "þá hefði ég kannski aldrei fundið til neinnar náttúru. Ég held allir hafi verið náttúrulausir í Suðursveit. Þessar barneignir þeirra virtust bara vera gamall vani."(1)


Og í frægri senu í Ofvitanum þegar Þórbergur er í þann mund að farga sveindómi sínum, hrópar hann í huganum:

"Ó blessuð Suðursveit! Aldrei hefðir þú gert svona. En hvað þú ert miklu betri en ég!" (2)

II

Þótt Suðursveit komi víða við sögu í æfiverki Þórbergs þá tekur steininn úr í bálki þeim hinum mikla sem Þórbergur krýndi með höfundarverk sitt og
komið hefur út undir safnheitinu: Í Suðursveit. Þetta eru bækurnar Steinarnir tala, Um lönd og lýði, Rökkuróperan og verk sem Þórbergur lauk aldrei við og birtist fyrst árið 1975 í heildarverkinu og þá undir nafninu Fjórða bók.
Þrjár fyrstnefndu bækurnar komu út á árunum 1956-58, Þórbergur stóð þá á sjötugu og þótt hann tæki áratug síðar upp pennann til þess að færa í
letur sögu Einars ríka, má telja Í Suðursveit svanasöng hans og kórónu æfiverksins.
Eins og safnheitið: Í Suðursveit gefur til kynna, fjalla bækurnar allar um samnefnda sveit. Þær eru stórbrotin tilraun fullþroska höfundar til að kortleggja mannlíf í heimabyggð sinni, tilraun til heildarmyndar af uppruna skáldsins og jafnframt niðurstaða af áralöngum hugleiðingum og tilraunum um söguritun og frásagnartækni.
Fyrsta bókin: Steinarnir tala hefst á brúðkaupi foreldra Þórbergs og fram á sviðið eru leiddar persónur sem lesandinn er farinn að kannast við því Þórbergur er ekki aðeins sá íslenskur höfundur sem lengst hefur gengið í sjálfslýsingu heldur fylgir skyldulið hans með í kaupunum. Alla ævi var hann að glíma við þessar fjölskyldumyndir og endanlega framköllun og stækkun hljóta þær í Suðursveitarbókunum.
Foreldralýsing Þórbergs er frá fyrstu tíð óvenju bersögul. Þau hjónin eru á margan hátt andstæð: á móti hörku föðurins kemur blíða móðurinnar, á móti þungu skapi karlsins kemur léttleiki og jafnlyndi konunnar. Á milli þeirra er ákveðinn jafnvægisleikur, þau bæta hvort annað upp og jafnvel karp þeirra er háð samkomulagi, faðirinn talar kannski óvirðulega um eitthvað í Biblíunni og móðirin tekur upp hanskann fyrir almættið. En það getur líka slegið í brýnur á milli þeirra sem orka á barnið eins og fárviðrin sem hvergi dembast yfir af meiri ofsa en í Suðursveit og sópa þá með sér öllu lauslegu.
Þórbergur stundaði mjög þá íþrótt að sjá alla hluti í samleik spaugs og alvöru. Þó er eins og móðurlýsing hans sé ætíð hjúpuð ákveðinni viðkvæmni. Hann viðurkennir hreinskilnislega að honum hafi þótt vænna um móður sína en föður, og bæði öðlast þau í meðförum hans biblíulega stærð: faðirinn líkist uppstökkum og skaphörðum Jahve Gamlatestamentisins, móðirin ber svip af Maríu mey þess Nýja.
Öfum sínum lýsir Þórbergur sem ögn einföldum en stórbrotnum. Föðurafi hans, Steinn, næstum þursaættar, geðríkur og fljótfær en jötunn að afli og hamhleypa til verka. Benedikt móðurafi hans svo jafnlyndur að ekkert virtist geta haggað honum og svo hugrakkur að jaðraði við sljóleika.

Fæðing Þórbergs var söguleg og sóttist erfiðlega að koma barninu í heiminn. En fyrsta minning sem hann kýs að framkalla er myndin af svartri líkkistu og í kistunni hvílir fimm mánaða gömul systir hans. Og síðan koma myndirnar hver af annarri, stórar og voldugar. Mynd númer þrjú er af hafinu:

"Ég manað þetta var í fyrsta sinn sem ég kom út að sjónum. Það fyrsta sem ég man eftir úr ferðinni var það að við gengum vestur fjöruna og sjórinn var nokkra faðma frá okkur til vinstri handar. Ég horfði mikið á hann. Það var stillt veður, en mikið brim. Ég sá voðalega stórar öldur koma hver á eftir annarri langt utan úr hafi og hækka sig meira og meira þegar þær nálguðust landið, hvolfa sér niður á sjóinn með sogandi hljóðum og verða að hvítri, freyðandi og eins og daufri breiðu, rísa aftur og hlaupa upp að landinu, lyfta sér hærra og hærra og velta sér með þungum, malandi nið á fjörusandinn, stróka sig hátt upp í loftið detta niður og stökkva hvínandi langt upp á fjöruna eins og þær ætluðu að taka mig. Ég varð hræddur við þessi skelfilegu ólæti og passaði mig að ganga þeim megin við föður minn sem snöri frá sjónum. Við héldum áfram eitthvað vestur fjöruna.  Lengra nær þetta stórkostlega ævintýri ekki.
Enga sýn hef ég síðan séð og ekkert hljóð heyrt sem hafi haft jafn feiknleg og jafn dulmögnuð áhrif á mig og þessi fyrstu kynni mín af veraldarhafinu. Mér fannst það líkara lifandi ófreskju með óskiljanlega lögun, ægilegri, grimmri og ofsaþrunginni heldur en andvana náttúruundri."(3)

Þessar fyrstu bernskumyndir blandast endalausum sögum og ljóðum móður hans og ömmu, kryddað með Biblíufróðleik. Í rosaveðrum þegar svo virðist sem hafið ætli að æða á land segir amma hans honum söguna af því þegar Ísraelslýður flýði úr þrældómnum í Egyptalandi og Guð gerði  þurrar traðir í Rauðahafið til að lýðurinn kæmist yfir en drekkti svo stríðsmönnum Farós og breytti þeim í seli sem syntu um höfin og gat að líta hvar þeir flatmöguðu í flæðarmálinu úti fyrir Hala.


III

Frá fólkinu sem stendur Bergi litla næst fikrar hann sig um húsakynnin og er sú lýsing fræg að endemum, en hún mun taka yfir einar 100 blaðsíður í bókinni. Þórbergur gefur jafnvel í skyn að hér hafi hann viljað setja niður nokkuð torleiði til að skilja hafrana frá sauðunum og halda síðan áfram í  fylgd með þeim lesendum er tækju fróðleik fram yfir hasar. Hann ferðast úr einni vistarveru í aðra og sést hvorki yfir húsgögn né amboð, ílát, ljós,  matseld með hliðarsporum um eldinn, eldsneytið, uppkveikju, matarlykt... Hér rís kannski list Þórbergs hæst, þessi hæfileiki að gæða fróðleik lífi.  Það er svo einskonar bónus eða aukageta að sú veröld sem hann dregur upp í stóru sem smáu er horfin, þurrkuð út, ekki bara af því að fólkið er  gengið um garð heldur af því að lifnaðarhættirnir hafa máðst burtu ennþá gagngerar en órað var fyrir jafnvel á skrifandi stundu og lýsingin öðlast þar með einstakt þjóðhátta og þjóðfræðagildi til viðbótar við list- og skemmtigildi. Ef Í Suðursveit væri kennd í skólum og við gerðum ráð fyrir því að nemendur myndu tileinka sér hana, hefðu þeir innsýn í veruleika sem íslenskt mál og hugarheimur eru að stórum hluta sprottin úr.  Suðursveitarbálkurinn væri þá önnur Edda Þórbergs Þórðarsonar ekki sú Edda sem hann kallaði svo og hafði að geyma ljóð hans með skýringum á tilefni þeirra og tilurð, heldur Edda í merkingu Snorra Sturlusonar sem gerði sér grein fyrir því að hve miklu leyti íslenskt skáldamál væri sprottið úr jarðvegi heiðninnar sem þá var óðum að sópast burt og tók sér fyrir hendur að framkalla þessa veröld sem var á skinn svo síðari tíma menn gætu haldið lifandi sambandi við uppruna sinn.
Það sem gerir lýsingu Þórbergs óviðjafnanlega er hæfileiki hans til að persónugera alla skapaða hluti. Allt lifnar fyrir sjónum hans: vasahnífur, lampi, rúmfótur, hvað þá dýrin sem fá um sig langa palladóma og sálarlífslýsingar. Hér kemur líka til sú list Þórbergs að blanda saman stóru og smáu, háu og lágu og upphefja skilin þar á milli og stundum hefur verið haft um þetta tískuorð úr bókmenntafræðunum og kallað karnevalismi í ætt við kjötkveðjuhátíð miðalda sem iðkaði endaskipti á hlutunum. Gott dæmi er kaflinn um kamarinn sem að sjálfsögðu fær vandlega úttekt og sálarlíf kamarsins útmálað. En að lokum játar Þórbergur:

"Ég var ekki mikill kamarmaður. Ég man ekki til ég færi þangað oftar en einu sinni. Mér fannst lífshættulegt að húka yfir gatinu því að það var nokkuð vítt og hátt niður og svo var lyktin ekki  viðfelldin því að hlemmur var þarna enginn yfir.  Minn kamar var með grænmáluðu gólfi og blámáluðu lofti yfir.  Mér var samt ekki illa við kamarinn. Ég vorkenndi honum þegar dimmt var á kvöldin. Mér fannst hann svo mikill einstæðingur. Mér fannst hann hlyti að vera myrkhræddur að norpa þarna aleinn svona langt frá hinum húsunum sem hjúfruðu sig hvert upp að öðru hlið við hlið eins og hjónafólk.  En svo komu önnur kvöld sem voru öðruvísi. Það var þegar  tunglið skein úr austri. Þá stóð kamarþilið í björtum ljóma og út um rúðuna lagði hvítan glampa eins og einhverjar  dularverur hefðu kveikt ljós þar inni. Þá var  gaman  að líta út í baðstofugluggann eða standa  hjá einhverjum úti á stéttinni og horfa á þetta  fallega skáldverk sem alltaf skín fyrir innri augum mínum þegar ég  heyri nefnda Tunglsskinssónötu eftir Beethoven".(4)


IV

Frá húsakynnum og innbyggjurum þeirra heldur Þórbergur út undir bert loft og þaðan smátt og smátt út í ómælisvíðáttur rúmsins: fjöllin hverfa upp í himininn og hafið tekur engan endi.
Aðferð barnsins til að ná haldi í þessu ómæli er mælingin. Bergur á Hala er snemma haldinn þessari óviðráðanlegu ástríðu að mæla allt: lengdir, breiddir, hæð og dýpt, fjarlægðir og miða út áttir. Agndofa horfir fólkið á þetta viðundur stika og klofa um tún og garða og það er bara tvennt til: annað hvort er hann kjáni eða ofviti. Þessi viðbrögð  umheimsins áttu eftir að fylgja honum æ síðan,  mælingartól hans vöktu furðu, aðhlátur,  tortryggni. En hér virðist um hvöt að ræða ættaða úr einhverju alveg frumlægu í eðli mannsins, hins fyrsta manns,  landnámsmannsins. Þörfin að staðsetja sig í gímaldi  veraldarinnar, koma einhverju sköpulagi á  óskapnaðinn, komast í lifandi samband við náttúruna. Einar Pálsson hefur sýnt fram á hve forfeður okkar  skipuðu hvers konar mælingum og útreikningum háan  sess og heilu siðmenningarnar í árdaga risu á stærðfræði og mælingum. Hinn tækjavæddi borgarbúi hefur gleymt þessu eða beint því í annan farveg. Kannski stöðugt ráp á milli útvarps- og sjónvarpsrása, flakk á netinu og farsímafitl komi að einhverju leyti í staðinn.
Þórbergur aftur á móti sagði aldrei skilið við þessa mælingarástríðu, hann flutti hana með sér í bæinn og gerði hana að aðalsmerki sérvisku sinnar. Stöðugar hitamælingar, skrefamælingar, hæðamælingar og áttavísanir urðu með nokkrum hætti uppistaðan í lífi hans, a.m.k. dagbókarskrifum sem stundum eru lítið annað en dagsetning og veðurlýsing og mæling.
Og meira en hálfri öld síðar en Bergur litli á Hala hóf mælingar í Suðursveit sat Þórbergur í flugvél á leið til Kína og hafði kompás spenntan um
úlnliðinn og hæðarmæli í kjöltunni.

"Það rís gegn einhverju í hugskotsholi mínu" skrifaði hann, "að ferðast einsog skynlaus skepna sem ekkert mælir og aldrei setur nokkur mið."(5)

Í kjölfar mælingarástríðunnar kemur skrifsýkin: að setja á blað niðurstöður mælinganna. Eini tekjustofn barnsins eru hagalagðar: upptíningur sem hann leggur inn í kaupstað á haustin og tekur út penna, blöð og blek. Fljótlega grípur hann óviðráðanleg ástríða að draga upp kort af landinu  -landabréf - og sú bók sem honum er hjartfólgnust á Hala er Alþýðubók Þórarins Böðvarssonar og þar eru það landakortin sem taka hug hans fanginn og hann byrjar að herma eftir með sínum frumstæðu tækjum. Seinna áskotnast honum sjókort úr bresku togarastrandi sem opnar honum nýja sýn til landsins með nákvæmum mælikvörðum og áttavísunum.
Sveinsstykki Þórbergs unglings er svo Evrópukort sem hann dregur upp og litar. Vandinn að Suðursveit átti ekki nema einn lit og hann var blár. Ekki fyrr en honum hugkvæmdist að verða sér úti um rauðan með því að leggja umbúðir utan af exportkaffi í bleyti. Þá var komið rautt og blátt - ólitað gegnir hlutverki hins hvíta. Þetta kort vakti athygli gestkomandi þar sem það hékk uppi á vegg á Hala uns það tættist sundur í ofviðri sem rauf þekjuna og setti allt á tjá og tundur. En það hafði þjónað tilgangi sínum: að vekja skyldulið Þórbergs til umhugsunar um að vettvangur ofvitans væri ekki í Suðursveit heldur ætti hann að leita burt til mennta.

"... móðir mín fór að víkja að því að ég þyrfti að komast til mennta. Faðir minn hafði ekkert á móti því. En það var alveg óhugsandi að ég kæmist til mennta. Faðir minn var búinn að láta í burtu eina gullpeninginn sem hann átti til þess að þurfa ekki að forskrifa sig Andskotanum. Mig langaði ekki heldur til neinna bannsettra mennta. Það var einkennilegt með mig að ég hafði ógeð á menntamönnum. Mér fannst þeir hafa orðið einhvernveginn viðskila við náttúrlega lífið. Ég var alltaf náttúrlegur og vildi alltaf vera á Hala." (6)

Bernskumenntun Þórbergs var ekki frábrugðin því sem tíðkaðist á ofanverðri nítjándu öld. Skólaganga var engin en móðir hans kennir honum að lesa og draga til stafs strax á barnsaldri, en þá þegar er hann búinn að læra ókjör af kvæðum og heyra sögur bæði mæltar af munni fram og lesnar upphátt á vökunni. Íslendingasögurnar aftur á bak og áfram, guðsorð og hugvekjur.
En það sem auðvitað ræður úrslitum er sú menning sem er samgróin fólkinu og flyst frá einni kynslóð til annarrar. Það er ótrúlegt að virða fyrir sér húsakynnin eins og þau hafa varðveist á ljósmyndum: lágreistar moldarhrúgur með einhverju spítnabraki í bland við grjót. Og líf fólksins svo skorið við nögl, býlin svo lítil að aldrei mátti slaka á til að vera réttu megin við sultarmörkin.

En menntun barnanna felst ekki síst í að herma í leikjum sínum eftir hinum stóra heimi fullorðna fólksins. Í Rökkuróperunni lýsir Þórbergur kerfisbundið öllum þeim leikjum sem börnin iðkuðu. Leikjaveröld barnanna er heimur hinna fullorðnu í smækkaðri mynd. Það er kvikfjárrækt með leggjum og kjúkum, sjávarútvegur með heimasmíðuðum bátum, styrjaldir með spýtuköllum. Veröld sem lifnar um leið og kveikt er á kvöldin. Á meðan fullorðna fólkið fleygir sér í rökkrinu bregða börnin á leik í hugarveröld sinni sem þau innrétta úti og inni. Bærinn á Hala er í hverfi með Breiðabólstað og Gerði og þaðan koma krakkar til útileikja sem verða æ flóknari uns þau á endanum eru búin að skapa heilt ríki með þjóðfélagi, framleiðslu, fjármagni, stéttaskiptingu, lögum, refsingum, póstsamgöngum, blaðaútgáfu, stjórnarandstöðu, uppreisnum... Þórbergur er potturinn og pannan í félagsskapnum og sjálfskipaður landshöfðingi og kemur á óvart í íhaldssömu landsföðurhlutverki með stjórn á myntsláttu, verðlagi, vöruframboði og niðurbælingu á stjórnarandstöðunni.

"Ríkið var stórkostlegur gamanleikur sem blés fjöri og spennu í lífið á bæjunum og gerði dagana viðburðaríka og næturnar bjartar af  tilhlökkun, og efa ég að önnur meiri kómedía hafi verið leikin hér á landi. En það var ekki eintómt gaman. Ríkið þjálfaði líka þanka þegannna á alvarlegri hátt.  Það neyddi þá til að hugsa og leggjast stundum djúpt. Það örvaði ímyndunarafl þeirra og skók upp í undirsátunum róttækni í andanum. Það gaf eim innsýn í klæki peningaþjóðfélags og opnaði fyrir þeim í smáum mælikvarða ýmsa kynlega leyndardóma hinna stærri mannfélaga sem þeir stóðu frammi fyrir seinna á ævinni."(7)

En þótt Þórbergur hafi gegnt hinu æðsta embætti í samfélagi barnanna þá brást hann við hart þegar hann stóð andspænis fulltrúa alvöruþjóðfélagsins þar sem hann birtist honum í mynd "Kversins" sem hann átti nú að fara að læra til fermingarundirbúnings. Viðbrögð drengsins eru ofboðsleg:

"Einn dag á hausti kom lítil bók að Hala. Það var ekki stór bók, en það var vond bók. Hún  hefur annaðhvort komið austan af Höfn eða frá Ara Hálfdánarsyni bóksala á Fagurhólsmýri. Ég var staddur í leikjum með krökkum niður við Lónið þegar einhver sagði mér að hún væri komin. Þetta var Helgakver. Það dró svart ský yfir framtíð mína. Ég vissi að nú átti ég að fara að setjast við að læra þessa skruddu orðrétt utanbókar. Ég var ekki sérlega duglegur í utanbókarlærdómi og kveið mikið fyrir að binda mig yfir kverlærdómi. Ég hafði rótgróið ógeð á fermingunni sem Guðný amma mín kallaði konfirmasjón. Mér fannst hún heimskuleg og hræðilega væmin... Þessi kverlærdómur þótti mér svo leiðinlegur að ég finn engin orð í málinu til að lýsa þeim ófögnuði... ég fékk klígju hvenær sem ég reyndi að festa augun við þetta..."(8)


V

Hin afkróaða veröld Suðursveitar með öllu sínu fásinni opnaðist í eina átt - suður til hafsins. Og á hafinu birtast fyrirburðir komnir alla leið frá Frakklandi; skúturnar. Oft á öllum stigum ritferils síns stakk Þórbergur niður penna til að lýsa hvílíkum tökum þessi sýn greip barnshugann:

"Sjórinn er hvítur af logni og himinninn hvelfdist yfir honum fagurheiður og eilítið dimmblár. Þetta var áreiðanlega einmánaðarhiminn. Það var þó ekki hann sem ég góndi á og ekki heldur sjórinn. Það var frönsk skonnorta. Ég man ennþá eftir henni eins og ég sé að horfa á hana núna. Hún var skammt fyrir utan fjörurnar og hér um bil út af Gerði. Hún snöri framstafninum að landi, og hún var að fiska því að hún hafði aðeins stórseglið uppi.
Hún var hvítmáluð og skipshliðin og seglið voru svo mjallahvít, svo skínandi björt, svo yfirnáttúrlega fögur í kvöldskininu og í hvert sinn sem bárurnar vögguðu þessum undursamlega líkama frá sólu, brá fyrir leiftrandi glampa á skipshliðinni og þá var eins og eitthvað vaknaði blíðlega innan í mér sem var hafið yfir alla  jarðneska hluti. Mikil lifandisósköp var þetta fallegt. Ég mændi á það eins og upphafinn... Þetta er eitt af því fáa í  endurminning minni sem ryk tímans hefur aldrei fallið á..." (9)

Og þessi mynd verður örlagavaldur hans, það er hún sem rýfur hina lokuðu, sjálfnægu Suðursveit og seiðir hann á brott, vekur þrá í brjósti hans sem fær ekki svölun heima.
Í þessum punkti mætast þeir samtíðarmennirnir Kjarval og Þórbergur því Kjarval svaraði einatt aðspurður um frumorsök listsköpunar sinnar: skútur á haffleti. Meistari íslensks ritmáls og meistari íslensks myndmáls eiga þessa uppsprettu listar sinnar sameiginlega.
En frönsku skúturnar eru ævintýri fyrir fleiri en Þórberg. Þær eru ekki bara heillandi listaverk úti á haffletinum. Í augum Suðursveitar tákna þær  allsnægtir. Bændurnir róa út í þær og versla. Skipta á vettlingum og matföngum fyrir veiðarfæri, franskt brauð, kökur, vín. Með Frakklandi og Suðursveit takast kynni og aðspurður hvort ekki hefði verið skemmtilegt þegar þeir voru að róa í frönsku duggurnar svaraði mætur bóndi:

"Síðan hefur maður aldrei séð glaðan dag."(10)

Heimur skútunnar var einskonar æðra svið með lúxus sínum, barómeti og áttavita. Þar veit skipstjórinn ekki með göldrum heldur vísdómi hvaða veður er í vændum og ratar þótt taki fyrir skyggni. Þó kemur fyrir að skúturnar stranda og lífvana skipsskrokkarnir breytast í allsnægtaborð:  veiðarfæri, afli, verkfæri, mjöl, korn, brauð, vín, segl, málmar, kjörviður, koníak - allt verður þetta eign Suðursveitar og deilist á milli heimilanna.  Steinarnir tala hefjast einmitt á tvöföldu strandi strandvorið mikla og tilheyrandi auðsæld í matföngum og víni. Og Steinn afi sem heldur brúðkaupsveisluna  frægu þegar foreldrar Þórbergs ganga að eigast, hann flaggar franska fánanum og lætur sér í léttu rúmi liggja þegar fulltrúi danskra yfirvalda gerir athugasemd við að byltingarveifan franska skuli blakta við hún.
Og strandaglóparnir blanda geði við íbúana, já blóði. Sérstakt látæði þeirra vekur athygli, óðamála talandi og handapat. Og þegar börnin í leikjum sínum vilja í hetju- og ævintýramóð leysa landfestar heimamálsins - bregða þau fyrir sig frönsku babbli og Frakkland er vettvangur fjölmargra leikja þeirra. Útlönd eru Frakkland og óvíða hafa frönsk áhrif verið jafn bein og í Suðursveit ofanverðrar nítjándu og öndverðrar tuttugustu aldar.


VI

Eitt einkennilegasta dæmi um animisma Þórbergs eða hæfileika til að lifa sig inn í dauða hluti er samband hans við steina. Það er engin tilviljun að fyrsta bókin heitir Steinarnir tala og raunar skipa steinar sérkennilega veglegan sess í Suðursveit. Það eru ekki bara örnefnin: Steinafjall, Steinasandur, Steinafjara, Steinavötn, o.s.frv. - heldur er annar hver maður með stein í nafninu: Steinar, Steinn, Steingrímur, Steinþór, Steinunn, Steingerður - og sjálfur Þórbergur náttúrlega. Þjóðsagan rakti upphaf Steinsnafnssins í Suðursveit til konu sem hafði orðið léttari undir steini og skýrði barnið Stein í höfuðið á steininum. En svo hét föðurafi barnsins víst líka Steinn!
Um steina hefur Þórbergur á löngum ferli orðið tíðrætt. Alveg frá steinunum í bæjarhellunni sem vöktu hluttekningu hans til steinanna uppi í fjallshlíðinni sem virðast hafa verið ígildi sjónvarps barnanna í dag. Á þessa steina gat hann glápt tímunum saman, skuggana sem lagði af þeim og hvernig þeir breyttust í breytilegu sólskini. En um þá náttúru sína að sjá líf í hverjum hlut segir hann:

"Ég vissi aldrei hvort það var nokkuð skrýtið að mér fannst allir hlutir vera með lífi og einhverju viti. Ég vissi ekki hvernig á því stóð að mér fannst þetta. En það var svo náttúrulegt í mér að mér kom aldrei til hugar að brjóta neitt heilann um það. Það kom aldrei annað í þanka minn en að þetta fyndist öllum. Ég heyrði samt engan segja það. Alveg öfugt. Ég heyrði allt kallað dauða náttúru sem ekki þyrfti að éta. Steinarnir, járnið, blikkið, blýið, eirinn, koparinn, látúnið, sinkið, böndin og spýturnar, þetta var alltaf kallað dauð náttúra í Suðursveit af því að það þurfti ekki að éta og allt sem búið var til úr þessu var sagt að væri dautt. Grösin og hríslurnar voru einhvers staðar á milli lífs og dauða, kannski aðeins nær lífinu.
En það sat fast í mér frá því að ég mundi eftir mér að allt væri lifandi og með vissu viti. Ég þekkti enga ástæðu fyrir því og ég hafði hvergi lesið það og aldrei heyrt aðra lesa um það. Það var eins og þetta væri meðfædd þekking í mér, alveg ómótmælanleg eins og andardrátturinn...
Af öllum "dauðum hlutum" fannst mér steinarnir vera mest lifandi..."(11)

Það sem sker úr um aðdráttarafl steinanna er aldur þeirra. Hvað þeir hafa búið lengi á jörðinni og orðið vitni að mörgu og hvað þeir búa yfir miklum fróðleik. Kúnstin að tala við steina er þá fólgin í því að kunna að taka á móti þessari vitneskju allri og lífsreynslu.
Það er svo margt í dulhyggju Þórbergs og hún er svo heilsteypt og sjálfri sér samkvæm en samt svo yfirnáttúruleg og óvænt að það kæmi ekki á óvart þótt Þórbergur ætti eftir að verða trúarbragðahöfundur þegar stundir líða fram, að einhver taki sig til og safni þessum trúarjátningum hans í kerfi og hugsjón um lífið. Það er ekki einasta að hann trúi á líf sálarinnar að loknu jarðlífi heldur trúir hann að hlutirnir eigi líka sitt andlega líf, hús búa yfir sál tóttir líka og löngu eftir að þær hafa máðst af yfirborði jarðar er sál þeirra á sveimi. Breiðamerkursandur sem einusinni var blómleg sveit með fjölda bæja en nú eyðimörk, þetta fyrra líf er enn á sveimi á sandinum og bara sljóleiki skilningarvita okkar að nema það ekki. Og skilningarvit mannanna verða æ sljórri eftir því sem tækninni fer fram og með útvarpsgarginu og vélarskröltinu taldi Þórbergur illa horfa um móttökuskilyrði sálarinnar.
Allt er lifandi alltaf, menn dýr og hlutir eru á sveimi löngu eftir að þau eru ekki lengur og það sem meira er: atburðir. Atburðir halda áfram eftir að þeir gerast. Staðir búa yfir minni og atburðarásin er alltaf í gangi eins og stöðug útsending sem þarf rétt móttökutæki til að nema.
Hér erum við komin að mikilsverðum punkti í því markmiði sem Þórbergur setur skáldskap sínum: að varðveita frá gleymsku það sem hefur átt sér stað og bæta þannig ótal nýjum víddum við einvídd augnabliksins. Maður sem þekkir söguna og hefur hæfileika til að tala við steina og tóttir húsa, öll hans upplifun er margfeldi af hinni venjulegu hversdagslifun. Og það sem Þórbergur harmar sí og æ í Suðursveitarbálkinum er hve óheyrilega mikið af sögu hefur farið forgörðum og það stafar alltsaman af því hve fólk er tregt að nóta hjá sér og halda dagbók. Hugsa sér ef til væru dagbækur frá upphafi Íslandsbyggðar með tilheyrandi veðurlýsingum, staðarlýsinum, persónulýsingum og atburðarás. Söguhjúpurinn yfir hverju fótmáli væri svo ríkulegur að maður ætti fullt í fangi með að hemja útsendinguna. En af því að fólk hefur ekki hugsun á því að nóta hjá sér geta heilar sveitir farið í eyði, heilar hafnir lagst af, heilar aldir liðið hjá garði og ekki tangur né tetur eftir eða þá ófullkomin slitur og ágiskanir.

"Það var skelfilegt hvað fólk var búið að týna miklu af því sem komið hafði fyrir í byggðinni, og ég skildi vel af hverju það var eftir að ég fór að halda dagbók. Það var af því að það hafði aldrei haldið dagbók, aldrei skrifað neitt hjá sér. Þess vegna er allt það fína gleymt, aðeins hrossalegustu viðburðirnir sem hafa varðveist, svona meira eða minna og margt afbakað. Og ég hugsaði oft: "Goðarnir hefðu átt að halda dagbækur yfir það sem kom fyrir í goðorðunum og síðan prestarnir yfir það sem skeði í prestaköllunum. Og þeir hefðu átt að geyma þær í læstum kistum og vel sterkum svo að þær týndust ekki. Og þeir hefðu átt að skera út framan á kisturnar: Í þessari kistu eru geymdar dagbækur lífsins sem aldrei mega glatast. Ef þetta hefi verið gert þá væru nú feiknarleg kynstur af alls konar fróðleik sem nú er týndur og lífið orðið miklu ríkmannlegra og meira gaman að lifa... Það hefði verið fróðlegt að hafa svona dagbækur frá fyrri öldum og ekki aðeins frá goðum og prestum heldur frá sem flestum landsmönnum í staðinn fyrir að glata mestallri sögu sinni og eyða svo tímanum í botnlausar getgátur og "ef til vill", "gæti verið", "kringum", "hér um bil", "nálægt", "ekki langt frá", "að haldið er", o.s.frv. o.s.frv. Þess háttar tal átti snemma illa við mig. Ég vildi vita nákvæmlega hvenær, hvar og hvernig. En það var ekki hægt nema að skrifa hjá sér, sigta út og mæla."(12)

Og eiginlega er Suðursveitarbálkurinn kennslubók í því hvernig mannlífið getur öðlast ævarandi líf í sögu. Blaðsíðu af blaðsíðu, bók af bók vex myndin og dafnar og bætir við sig stórum og fínum dráttum. Á sjöunda hundrað persónur stíga fram á sviðið, flestar samsveitungar Þórbergs úr fortíð og samtíð. Sumir reyndar bara nafnið, á bak við aðra stendur skrítla eða tilsvar. Svo eru aðrir sem höfundur kemur að aftur og aftur og eykur dráttum við mynd þeirra uns þeir standa manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Þannig er t.a.m. um Oddnýju gömlu frá Gerði sem kannski var fyrsti og áhrifamesti gúrú Þórbergs Þórðarsonar, einhvers staðar á undan Birni M. Ólsen, Stalín, Zamenhoff og Krishnamurti.
Hlutverk hennar í Suðursveit virðist hafa verið einskonar ferðaleikhús og færanlegur fjölmenntaskóli. Hún var höfð til að skemmta og fræða. Heimilin kappkostuðu að fá hana í heimsókn til dvalar og heyra hana ausa af óþrotlegum sjóði sagna og ljóða. "Með dauða Oddnýjar slokknaði bjartasta ljós Suðursveitar sem þar logaði í minni tíð", segir í Fjórðu bók.
Það var Oddný gamla á Gerði sem spáði fyrir Þórbergi ungum að hann mundi ekki ala lengi aldur sinn í Suðursveit. Eins og fyrr sagði tengdi Þórbergur brotthvarf sitt við frönsku skúturnar sem hann sá koma upp að ströndinni og vöktu með honum þrá sem hann fann að yrði ekki fullnægt heima. Og það er enn frönsk skúta sem eins og orsakar brottförina þegar að henni kemur. Það er strand. Þórbergur unglingur fer á strandstað og  drekkur sig fullan í koníaki, deyr, rís upp á næsta degi, kveður og heldur suður. Alfarinn.
Steinþór bróðir hans sem varð eftir og sagði sögu sína löngu seinna í útvarpi og kom á endanum út
undir heitinu: Nú-nú, bókin sem aldrei var skrifuð, segir af þessu tilefni:

"En nú er Þórbergur farinn, hann fer þetta vor, 1906, og þá er ríkið liðið undir lok. Við sem að eftir sátum nú, þegnarnir, við höfum nú kannski ekki svo mjög séð eftir því, þó að ríkið liði undir lok, því alltaf vorum við nú í meiri og minni uppreisnarhug gegn því, en við sáum meira eftir því að Þórbergur var farinn, þetta höfuð æskunnar á Breiðabólstaðarbæjum sem að mótaði stefnu hennar á allan hátt... Og þó að Þórbergur hafi ekki farið með mikil fararefni úr Suðursveit, þá fór hann samt með það sem hann hefur mulið úr og mun lengst mylja úr og það er sá andlegi arfur sem hann fór með frá liðnum feðrum og mæðrum sínum."


VII

Í samtalsbók Matthíasar Johannessens og Þórbergs Þórðarsonar: Í kompaníi við allífið spyr Matthías:

"Varstu alltaf ákveðinn í því að verða skáld?"

Og Þórbergur svarar:

"Ég ætlaði mér aldrei að verða neitt, Jú, það er víst ekki rétt, ég ætlaði mér að verða skipstjóri á duggu með hvítum seglum þegar ég var austur í Suðursveit. En það datt úr mér undireins og ég fann lyktina upp úr lúkarnum á kútter Sea-gull. Og hún verkaði á mig eins og  dæmisaga. Það er vond lykt af öllu þegar maður er búinn að fá   það. Þetta er eina skýra markið eða hugsunin að verða eitthvað í lífinu. Og mér hefur orðið að áhugaleysi mínu. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma orðið neitt. Nei, alls ekkert.  Samt er ég orðinn 69 ára gamall.  Mér hefur ekki einu sinni tekist að safna ýstru..."

Og um ástæður þess að hann fór að skrifa ber hann fyrir sig peningaleysi, hann hafði sumsé út úr blankheitum tekið saman svolítið ljóðakver, það var árið 1915 og nefndi Hálfa skósóla af því að andvirði þeirra nam hálfum skósólum og sjálfan vantaði hann föt til jólanna. Þannig leiddi eitt af öðru uns hann lenti í því að skrifa eitthvert magnaðasta gegnumbrot íslenskra bókmennta: Bréf til Láru árið 1924. Síðan heyrðist ekkert frá honum   skáldskaparkyns í heil fjórtán ár og hann var á kafi í hugsjónum sínum, dulfræði, sósíalisma, esperantó. Og síðar fullyrti hann að ef ekki hefði komið til brauðstritið, þá hefði hann eingöngu varið æfi sinni í dulspeki og ugglaust gert stórkostlegar uppgötvanir á lendum guðspekinnar.
Fátæktin neyddi hann til að skálda.
En auðvitað tökum við yfirlýsingum Þórbergs um skáldskapinn með fyrirvara. Og samt er Þórbergur ekki eiginlegur skáldsagnahöfundur. Hann spinnur ekki upp úr sér persónur og atburðarás. Og sérkennilegt um Þórberg hve mörg verka hans, jafnvel þau helstu eru pöntuð verk og engan veginn víst að hann hefði skrifað þau ef ekki hefði komið til þetta ytra áreiti.
Upphaf Bréfs til Láru á rót sína að rekja til þess að sameiginleg vinkona þeirra Þórbergs bað hann blessaðan að hripa Láru línu þar sem hún lá veik norður á Akureyri. Þórbergur hófst þegar handa og las jafnóðum upp glefsur fyrir vini og kunningja og örvaðist af undirtekunum til áframhaldsins.

Síðan liðu árin og enginn bað Þórberg að skrifa utan hugsjónir hans. Hann skrifaði greinar út og suður málefnum sínum til framdráttar og safnaði saman í Pistillinn skrifaði 1933. Sama ár sendi hann frá  sér Alþjóðamál og málleysur til að kynna og reka áróður fyrir esperanto sem hann taldi eitt
áhrifamesta verkfærið til að menn næðu saman út fyrir takmarkanir tungumála og þjóðernis. Hann skrifaði Rauðu hættuna (1933) til að kynna  Sovétríkin og reka áróður fyrir samvirku þjóðskipulagi sem hann taldi komið á laggir í Rússlandi.
Árið 1937 barst honum pöntun frá Ríkisútvarpinu í tilefni af fimmtugsafmæli Stefáns frá Hvítadal sem þá var látinn fyrir þremur árum og Þórbergur beðinn að flytja erindi um skáldið. Þórbergur samdi og flutti tvö erindi við örvandi undirtektir sem urðu til þess að hann skrifaði Íslenskan aðal og í
framhaldi af honum tvö bindi Ofvitans. Og eitt viðamesta verkefni Þórbergs: Ævisaga séra Árna Þórarinssonar var pantað verk og kom raunar þvert
ofan í viðfangsefni þau sem Þórbergur hafði þá á hendi. Það virðist því hafa látið Þórbergi vel að  skrifa eftir pöntun eða setja sig í lítilþægar stellingar skrásetjara eftir öðrum, svo sem í Indriða miðli, Viðfjarðarundrunum, Lifnaðarháttum í Reykjavík, o.s.frv.
Frægasta pöntun sem Þórbergur mun hafa fengið var þegar hann eftir langt hlé hafði loks tekið upp þráðinn þar sem séra Árni sleit hann og var kominn 300 bls. áleiðis í Suðursveitarkróniku sinni. Og nú var það ekki Ragnar í Smára eða Ríkisútvarpið heldur sjálfur Guð sem skipaði honum að víkja Suðursveit til  hliðar og skrifa bókina um litlu manneskjuna: Sálminn um blómið.
Sálmurinn um blómið er veigamikill stíláfangi á leið Þórbergs til Suðursveitarbókanna, markmiðið er að brjóta endanlega af sér viðjar bókmáls og  finna stíl sem henti frásögn af bernsku og uppvexti. Eins  og kunnugt er minnir skapandi upplifun barna á fátt meira en hina algeru snilli - en þau  skortir tækni  til að koma henni yfir í varanlegt form. Og síðar meir þegar tæknin er komin þá er barnið gufað upp. Í  Sálminum fer Þórbergur langt  með að endurvekja í sér barnið og búa það jafnframt út með háþróuðustu frásagnartækni.
En um Suðursveitarsyrpu Þórbergs er skemmst frá  að segja að henni var tekið af nokkru fálæti þegar hún kom út í lok sjötta áratugarins. Jafnvel aðdáendur Þórbergs létu í ljós vonbrigði og vildu meiri Íslenskan Aðal og meiri Ofvita og meiri séra Árna. Einkum fór þjóðfræðaefnið fyrir brjóstið á mörgum, allur þessi fróðleikur og nákvæmni. Þessi viðbrögð hafa haft áhrifa á Þórberg. Þess gætir strax í annarri bók, Um lönd og lýði, þar sem vikið er að 18. aldar heimild um mannskaða á sjó. Heimildin lætur þess ógetið hvað skipin voru mörg sem fórust og Þórbergur hreytir út úr sér:

"Það hefði líka verið of þreytandi nákvæmni". 

Og í Fjórðu bók er hann að tala um áhald sem hann fann upp til að mæla vegalengdir en hættir svo við í miðju kafi og segir:

"Ég nenni ekki að lýsa því hér."(13)

Og það er staðreynd að Þórbergur lagði frá sér pennann þegar aðeins herslumun vantað upp á að Fjórða bók væri fullmótuð og virðist ekki hafa séð ástæðu til að halda þessum leik áfram mikið lengur.
Þó átti hann fimmtán ár eftir ólifuð en virtist láta sér framhaldið í léttu rúmi liggja, kannski sannfærður um að þessar bækur yrðu metnar í Framtíðarlandinu.

 

(1) Ofvitinn, bls. 196
(2) Ofvitinn, bls. 205

(3) Í Suðursveit bls. 24

(4) Í Suðursveit, bls. 78

(5) Til Austurheims vil ég halda, 1952.

(6) Í Suðursveit, bls. 376

(7) Í Suðursveit, bls. 398

(8) Í Suðursveit, bls. 411-413.

(9) Í Suðursveit, bls.186.
(10) Í Suðursveit, bls. 259

(11) Í Suðursveit, bls. 150-151.

(12) Í Suðursveit, bls. 198-199 

(13) Í Suðursveit, bls. 429

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672